Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Haga-Lalli

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni kall og kelling í koti sínu og áttu sér þrjár dætur, og hétu Sigríður, Signý og Helga og var haldið minnst upp á Helgu. Einu sinni drapst eldur hjá kellingu so hún skipar Sigríði að sækja eld og býr hana út með nesti og nýja skó; so fer hún. Hún gengur með einu háu fjalli; þá er sagt: „Haga-Lalli býr í fjalli.“ Þá segir hún: „Já, svei þér Haga-Lalli, búðu aldrei í fjalli og gefðu mér eld.“ So gengur hún lengi og hittir kú. Kýrin biður hana að mjólka sig og eiga hálfa nytina, en hengja hitt á milli hornanna; hún lemur hana frá sér. So gengur hún áfram og hittir strokk, hann biður hana að skaka sig og eiga hálfa dömluna, en láta hálft á lokið; hún gerir það ekki og lemur hann frá sér. So gengur hún ennþá lengra og þá mætir henni hrútur og biður hana að rýja sig og eiga hálft reyfið, en binda hitt á milli hornanna; hún gerir það ekki og lemur hann frá sér. So gengur hún ennþá lengra og þá mætir henni tík; tíkin biður hana að klappa sér, hún gerir það ekki og lemur hana frá sér. So gengur hún lengi þangað til hún kemur að garði; hún fer yfir hann. Hún sér þar solítinn bæ, hún fer inn í hann, hún sér eld og pott fullan af keti. Hún sér inni þrjú rúm og borð og bekk. Hún tekur bezta ketstykkið úr pottinum og eld, og þegar hún er komin fram fyrir garðinn mætir henni mjög ljótur kall; hann tekur af henni ketstykkið og eldinn og bítur af henni nefið; so fer hún. Þegar kelling sér til hennar segir hún: „Þar kemur heillardóttirin mín syngjandi og kveðandi með eldinn.“ En þegar hún kemur er hún með öngan eld og bitið af henni nefið og hún er að orga.

So hún skipar Signýju að fara so hún fer með nesti og nýja skó og so fer hún á stað og gengur undir háu fjalli; þá er sagt í fjallinu: „Haga-Lalli býr í fjalli.“ Þá segir Signý: „Já, svei þér Haga-Lalli, búðu aldrei í fjalli og gefðu mér eld.“ So mætir henni kýr og biður hana að mjólka sig og eiga hálfa nytina, en hengja hitt á milli hornanna; hún gerir það ekki og lemur hana frá sér. So gengur hún ennþá lengra og þá mætir henni strokkur og biður hana að skaka sig og láta hálfa dömluna á lokið, en eiga hitt; hún gerir það ekki og lemur hann frá sér. So gengur hún lengra og þá mætir henni hrútur og biður hana að rýja sig og eiga hálft reyfið, en láta hitt á milli hornanna; hún gerir það ekki og lemur hann frá sér. So gengur hún ennþá lengra og þá mætir henni tík. Tíkin biður hana að klappa sér; hún gerir það ekki og lemur hana frá sér. So gengur hún lengi þangað til hún kemur að garði; hún fer yfir hann og sér bæ; hún fer inn í hann og sér þar eld og fullan pott af keti, hún sér þrjú rúm, borð og bekki. Hún tekur bezta stykkið úr pottinum og eld. Þegar hún er komin út fyrir garðinn mætir henni mjög ljótur kall. Hann rífur af henni ketstykkið og eldinn og bítur af henni litla fingurinn. So fer hún og er að orga. Þegar kelling sér til hennar segir hún: „Þar kemur heillardóttirin mín syngjandi og kveðandi.“ Þegar hún kemur verður henni annað við, að hún kemur með öngan eld, bitinn af henni litli fingurinn og að grenja.

Helga segir við móður sína hvort hún eigi ekki að fara. Hún segir hún megi gera hvort hún vilji, henni mundi ekki takast betur og sig gilti eina hvort hún kæmi aldrei eða einhvurn tíma. So fer hún og fær roð og bræðing í hrosshóf. So gengur hún með fjalli og þá er sagt í fjallinu: „Haga-Lalli býr í fjalli.“ Þá segir Helga: „Sæll Haga-Lalli, búðu alltaf í fjalli og gefðu mér eld.“ So mætir henni kýr og biður hana að mjólka sig og eiga hálfa nytina, en hengja hitt á milli hornanna. Helga mjólkar hana og lætur allt á milli hornanna. So gengur hún ennþá lengra og þá mætir henni strokkur og biður hana að skaka sig og eiga hálfa dömluna, en láta hitt á lokið; hún skekur hann og lætur allt á lokið. Og so mætir henni hrútur og biður hana að rýja sig og eiga hálft reyfið, en láta hitt á milli hornanna. Hún rýir hann og lætur allt á milli hornanna. So hittir hún tík. Tíkin biður hana að klappa sér; hún gerir það. So kemur hún að garði, fer yfir hann og sér bæ; hún fer inn í hann. Hún sér þar fullan pott af keti og stóð hann á eldinum. Hún sér þrjú rúm, borð og bekk. Hún sýður út af ketið, býr um öll rúmin, sópar bæinn og so étur hún og tekur eld og þegar hún er komin út fyrir túngarðinn þá mætir henni mjög ljótur kall með hor niðrá höku; hann þakkar henni fyrir börnin sín og biður hana að kyssa sig. Hún segir hún skuli gera það ef hún megi láta klútshornið sitt á milli. Hann segir hún megi það; so kyssir hún hann. Kallinn býður henni að koma heim; hún segir hún megi ekki vera að því, hún verði að færa henni móður sinni eldinn. Hann segir hún verði að vera í nótt, so hún fer heim; hann gefur henni að borða og um kvöldið kemur heim kýrin, strokkurinn, hrúturinn og tíkin og því er öllu hleypt inn. Kallinn biður Helgu að vaka; hún vakir um nóttina. So dettur af því hamur hvurju fyrir sig og Helga brennir þá og þegar það vaknar dreypir hún á það. Þegar kall er kominn á fætur gefur kallinn henni rauðan kistil og segir hún eigi ekki að ljúka hönum upp fyr en skip komi að landi og láta systur sínar ekki fá hann, þær mundu fala hann af henni. Hann segir að hann hafi verið kóngur úr öðru landi og hafi átt þessi börn og konan sín hafi dáið og þá hafi álfkona viljað eiga sig, en hann ekki, og hafi þá lagt þetta á sig og skyldi ekki komast úr því fyr en bóndadóttur kyssti hann og börnin skyldu ekki komast úr því nema það væri gert fyrir þau það sem fyr er skrifað. So fer hún og með eld og færir móður sinni.

So líða nokkur ár þangað til skip kemur að landi og þá gengur kall til skips með öðrum fleirum og er það kaupmaður, er að selja varning. Kaupmaður spyr kallinn hvort hann eigi dætur; hann segir hann eigi tvær. Hann segir hann vilji kannski fá aðra hvora þeirra, og so fer kall heim og skipar Sigríði að fara. Hún býr sig upp á það praktugasta; hún hefur skýlu niður fyrir nef. Þegar hún kemur lyftir hann upp skýlunni og segir: „Ekki vil ég þessa; hún er neflaus.“ Hún kaupir varning og fer so heim. Kaupmaður segir að hann skuli koma með hina; so hann [sendir] Signýju og hún býr sig praktuglega og hefur höndina í vasanum. Þegar hún kemur tekur hann hendina á henni upp úr vasanum og segir: „Ekki vil ég þessa, hún er fingurlaus.“ So kaupir hún varning. Kaupmaður segir hvort hann eigi ekki fleiri dætur. Karl segir hann eigi ekki dóttur; hann eigi hálfvita heima sem öngum manni sé bjóðandi. Kaupmaður segir að hún hafi kannske gaman af fyrir það að skoða varning eins og systur hennar; so kall sækir hana með illu og kemur til hennar og segir henni að snáfa út á skip, kaupmaðurinn vilji sjá hana; so hún fer úr öskustónni og rýkur af henni aska, fer úr görmunum, og þar er allra handa búnaður handa henni. So fer hún í hann og so greiðir hún sér og er glóbjart hár á henni niður fyrir mitti so kall og kelling og stelpurnar verða hlessa. So fer hún út á skip. Þegar hún kemur segir kaupmaður: „Þessa vil ég, hún er hvorki neflaus né fingurlaus“ – so kall verður hlessa. So segir hann kalli að hann sé kóngur og hafi hún komið sér úr ánauðum og börnum sínum. Kóngur segir að hún muni ekki eiga miklar eigur; hún flytji þær með sér og skuli hún fara að kveðja móður sína og systur og sækja kistilinn. So gerir hún það og fer með hönum og siglir hann í sitt land og giftist henni þá og ríkir í landinu. Og þegar hann dó tók ríkið annar sonur hans og endar so þessi saga.