Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Helga kóngsdóttir og bræðurnir
Helga kóngsdóttir og bræðurnir
Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttir sem hét Helga. Hún var vön að ganga út á skóg að skemmta sér með þernum sínum þegar gott var veðrið. Einu sinni mætti henni maður og sagði að hún skyldi fara ein út á skóg á morgun og búa sig eins vel og hún gæti og mundi hún sjá þrjár götur og væri utan með ann[arri] þeirra utari grænar hríslur, en hinni bláar, en á miðgötunni rauðar og hana skyldi hún ganga. Hún lofar því og so skilja þau og þær fara heim í ríki. Og so um morguninn býr [hún] sig upp á það praktugasta og gengur so ein út á skóg og sér þessar götur. Hún gengur þá rauðu og gengur vel og lengi þangað til hún kemur að einu húsi. Hún sér þar í dyrunum bundin ljón sitt hvorumegin. Hún getur ekki að því gert að hún fer inn. Hún kemur í eitt hús og þar er eitt rúm og borð og bekkur. Hún sér þar stóran skáp; hún skoðar í hann og sér þar átján mannsfingur með gullhring á. Nú verður hún mjög hrædd, hugsar það eigi að gera sér sama og atlar að fara út. Þá ætla ljónin að rífa hana á hol so hún má gefa frá sér og fór inn undir rúmið.
Þegar komið er kvöld koma tveir menn inn og leiða stúlku á milli sín og spurja hana að hvort hún vilji heldur sofa hjá þeim og drepa hana so á morgun eða drepa hana strax. Hún segir ef það hafi verið erindið þá vilji hún heldur að þeir drepi sig strax. Þeir leggja höndina á henni á borðið og högga af henni litlafingurinn; þar var gullhringur á, en hann hrökk í burtu eitthvað; og tóku so fjalir úr gólfinu og settu hana þar ofan í og létu so fjalir [aftur yfir]. Annar þeirra vildi leita að hringnum, en annar ekki, og varð hann yfirsterkari, sagði það mætti gera það á morgun. So fara þeir að segja: „Seinkar Helgu kóngsdóttir.“ Á ettir þeim kom inn maður mjög dapur. Þeir segja hönum að hleypa öllum inn, en engum út, þeir skyldu drepa hann ef hann svikist um það. Hann lofar því að hann skuli öngum hleypa út, en öllum inn. So fara þeir að sofa og hafa oná sér feld.
Þegar þeir eru sofnaðir þá skríður Helga undan rúminu og biður vökumanninn að hjálpa sér út. Hann segir að ljónin hríni þá upp og vakni þeir so og þá verði hann drepinn. Hún biður hann þess ákafar, segist einhvurn tíma skuli launa hönum það. Hann dregur ofan af þeim feldinn og sveipaði hönum sig, tekur hana síðan undir hendina á sér innan undir feldinn og fer með hana út. Hún þakkar hönum fyrir og fer so og flýtir sér sem hún getur og kemst heim í ríkið. Hún biður föður sinn að bjóða mörgum í gleðiveizlu; hún biður hann að bjóða tveimur frændum sínum sem sé út á skóg. Kóngur lofar því og býður so mörgum og þeim líka. So kemur boðsfólkið og bræðurnir líka og so er allt látið setast og er borið á borð allra handa réttir. Helga segir að ekkert sé gert til skemmtunar; hún skuli segja draum sinn og segir frá öllu sem fyrir hana hafði borið hjá bræðrunum, og til sannindamerkis tekur hún fingurinn af stúlkunni upp úr vasa sínum með fingurgulli og segir að hún hafi talið átján fingur með gullhring á í einum skáp og þessi hafi verið sú nítjánda, en hún hafi átt að vera sú tuttugasta. Bræðurnir ætla að standa upp, en þeir verða fastir við sætið; so fer boðsfólkið nema þeir. So á að fara að fara að rannsaka húsið að vita hvort það sé satt og hún fer með þeim. Þegar vaktarinn sér það hugsar [hann] að það séu bræðurnir, en þegar það nálgast húsinu sér hann að það eru aðrir menn og Helga kóngsdóttir. Hann spyr hana hvar bræðurnir séu. Hún segir þeir séu ekki lausir um tíma. Þeir sjá ljón bundin sitt hvorumegin í dyrunum; þeir fara inn og koma í hús þar, ljúka upp skápnum og telja átján fingur þar með gulli á og so eru rifnar fjalir upp úr gólfinu og þar er gryfja og þar er bunki af kvenfólki og eru sumar dauðar og sumar lifandi. Þær eru dregnar upp úr og eru smíðaðar kistur og þar eru þær látnar í og grafnar. Og so er farið heim í kóngsríki. Þá segir kóngur að hann skyldi láta klípa úr þeim eins mörg stykki með logandi töng eins margt kvenfólk og þeir höfðu, og so er það gert. Og so er farið þangað sem húsið var og tekið allt úr því og ljónin voru drepin og vaktarann farið með heim í ríki; það var kóngssonur sem þeir stálu úr öðrum löndum til að vakta. Síðan giftust þau og hann sezt í ríkið og verður kóngur eftir hinn. Og endar so þessi saga.