Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Helga karlsdóttir og bláklædda konan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Helga karlsdóttir og bláklædda konan

Það er sagt það hafi eitt sinn verið karl og kerling í garðshorni er áttu sér þrjár dætur sem hétu Ása, Signý og Helga. Þau höfðu Helgu út undan og létu hana gjöra allt það sem verst var bæði utan bæjar og innan, en hinar vóru ekki látnar gjöra annað en sitja við sauma og hannyrðir. Þegar Helga var orðin fullorðin þá lét faðir hennar hana passa féð og þegar hana vantaði þá barði hann hana og rak hana á stað aftur hvurnin sem var. Helga hafði verið lang-ófríðust af þeim systrum.

Einu sinni sem oftar þá var hún að smala í ófæru veðri og svo kom hún heim að húsinu og þá var helmingurinn kominn í húsið, en hitt vantaði. Þá segir hún við sjálfa sig: „Það vildi ég að ég ætti mér nú svo góðan vin sem að færði mér nú kindurnar.“ Svo sezt hún framan undir húsið og fer að gráta. Þegar hún er búin að sitja þar um stund þá kemur til hennar bláklædd kona. Hún heilsar Helgu og spyr hana hvað að henni gangi, en hún segir henni það. Bláklædda konan segist skuli finna fyrir hana féð ef að hún gjöri bón sína. Helga segist skuli gjöra það ef hún geti. Svo fer bláklædda konan á stað og hverfur út í veðrið. En að lítillri stundu liðinni kemur hún aftur með kindurnar og færir Helgu og segir henni um leið að hún verði að efna loforðið. Helga spyr hana að hvað það sé. Hún segir það sé það að hún gefi sér fyrstu dóttur sína þegar hún sé þriggja ára. Helga segist nú ekki vita hvurt sér auðnist að eiga nokkra dóttir. Bláklædda konan segist geta sagt henni hvað fyrir henni eigi að liggja. Hún segir hún eignist vænan kóngsson utan úr löndum og með henni eigi hann þrjár dætur og Ingibjörg heiti sú elzta; og hún segist skuli sjá til þess að hún þykki ekki ófríðari en hinar systur hennar, en hún leggur ríkt á við hana að efna loforðið. En hún segir hún þurfi ekki að láta barnið ef að svo sé að hún geti sagt sér hvað hún heiti og sonur sinn. Svo hverfur hún frá henni út í veðrið, en Helga heldur heim og rólar sig inn undir pall eins og hún var vön. Faðir hennar kemur svo ofan og spyr hana hvurt hún hefði fundið allar kindurnar og segir hún skuli snáfast fram í birtuna og komast úr snjóleppunum. Hún gjörir það svo. En þegar karl sér framan í hana þá segir hann: „Hvað er þetta, þetta er ekki Helga mín.“ Hún segir það sé sú sama Helga og hafi verið. Hann segist nú ekki skilja í því að það sé, því hún sé nú svo falleg. Hún segist muni vera eins og hún hafi verið. Karl segist þá ekki hafa gáð að því fyrri. Hann segist nú víst ekki muni láta hana vera lengur við gripaþjónustu og skipar kellingu sinni að færa henni góð föt og kenna henni að sníða og sauma og allt hvað þær hafi lært hinar. En hann skipar þeim Ásu og Signýju að passa féð og gjöra það nú eins vel og Helga hefði gjört það. Þær héldu að hún gæti gjört það eins og hún hefði gjört, þær færu valla að sýsla við fé; þær sögðust heldur ganga í burtu. Hann hélt þær yrðu að vera svo góðar og gjöra það sem hann segði þeim. Það er svo ekki að orðlengja það að Ása fór nú fyrst og lét út, en Signý átti að smala. En það fór svoleiðis að hún fór á stað, en þegar hún var farin þá brast á hana ófært veður og svo leið dagurinn að hún kom ekki. En um morguninn þá fann Ása hana dauða á milli húss og bæjar, en féð var hingað og þangað. Svo fór hún nú að smala því saman og fann þriðjunginn og kom svo heim og sagði föður sínum frá; en hann gjörði ekki nema barði hana og sagði hún mætti fara til ólukku í burtu þegar hún hefði ekki mynd í sér til að passa kindurnar. Samt fór hún út og fór að leita, en það fór á sömu leið og fyrir Signýju að hún varð úti svo kallinn fór sjálfur að passa kindur sínar; en Helga sat við sauma hjá móður sinni og gekk vel að nema það sem að hún þurfti að læra, hvurt það var heldur til munns eða handa. Svo liðu fram stundir að ekkert bar til tíðinda þar til einn góðan veðurdag að skip kom af hafi vel búið. Það hélt að landi og kastaði atkerjum. Svo gengu menn á land og einn af þeim gekk heim að garðshorni og gjörir boð fyrir karl. Karl spyr hann svo tíðinda og hvur hann sé. Aðkomumaður segist vera einn kóngsson utan úr löndum. Karl spyr hann hvurt erindi hans sé, en hann segir hönum það. Hann segist hafa heyrt að hann eigi eina dóttur og kveðst hann vera kominn til að biðja hann að gefa sér hana. Karl segir það muni nú vera annaðhvurt þó að hann fái hana. Svo er Helga leidd fram fyrir hann og segir sagan að hönum hafi litizt mikið vel á hana og þau hafi svo fest hönum hana. Svo kveður kóngsson þau með mörgum fögrum orðum og Helga í sama máta, og þau karl og kerling árna þeim alls hins bezta. Síðan heldur kóngsson til strandar með Helgu og leggur svo í haf þegar að byr gaf; þeim gekk svo vel ferðin. Svo getur ekki um það fyrr en að þau komu heim í ríki sitt; og þá segir sagan að hún hafi látið stofna virðuglega veizlu og boðið vinum og vandamönnum, en að henni endaðri leysti hann alla út með góðum gjöfum.

Svo líður og bíður þar til að Helga elur meybarn og það er látið heita Ingibjörg. Hún vex svo upp hjá móðir sinni þar til hún er komin langt á þriðja ár. Þá kemur svo mikil fásinna á drottningu að hún er ekki mönnum sinnandi. Svo kemst kóngur að þessu og leitast við á allar lundir að hafa það af henni, en það er ekki til neins, hún verður æ því aumari. Hann gengur svo á hana með hvað það sé, þar til um síðir að hún segir hönum upp alla sögu, allt hvað bláklædda konan hefði sagt við sig og hvað hún hefði áskilið við sig. Hann sagði hún hefði átt að segja sér það fyrri og sagði það yrði ekki svo gott að gjöra við því hér eftir; þó skyldi hún bera sig bærilega. So leið og beið þar til að komið var undir þann tíma að Ingibjörg dóttir þeirra var þriggja ára. Þá bjó kóngur sig í burtu einsamall eitt kvöld. Helga spyr hann hvurt hann ætli, en hann segir henni að hann ætli út á skóg að skemmta sér. Hún biður hann að fara ekki einsamlan. Hann heldur það saki ekki og svo fer hann út á skóg og gengur lengi eftir hönum þar til hann kemur á einn háan hól. Hann gengur upp á hólinn og sker upp úr hönum torfu og þar sér hann undir glugga. Hann lítur inn um hann og sér að hóllinn er allur holur innan. Hann sér að í öðrum endanum er kona að vefa ábreiðu, en í hinum enda hólsins sér hann að situr dálítill drengur og er að tefla. Hann liggur svo á glugganum um stund þar til að drengurinn stendur upp og gengur til móður sinnar og spyr hana að hvað hann heiti. Hún heldur að hann varði lítið um það. Hann segist kunna svo illa við það að geta ekki sagt hvað hann heiti ef að hún kunni að deyja og hann fari til manna. Hann spyr hana þá að hvað hún heiti. Hún heldur hann þurfi nú dálítið að vita hvað hún heiti. Hann spyr hana þá hvað hún ætli að gjöra við ábreiðuna sem að hún sé að vefa. „Ekki ætla ég að vera að því arna,“ segir hún: „það veldur eitthvað spurunum sem að í þér eru; þú ert ekki vanur að láta svona.“ Hann biður hana því betur að segja sér hvað þau heiti og hvur eigi að fá ábreiðuna. Hún segir ef hann varði nokkuð um það þá heiti hann Hrafnþorn, – „en ég heiti Glasséra. En ábreiðuna ætla ég handa þér og henni Ingibjörgu kóngsdóttir sem ég ætla að sækja á morgun og búið er að lofa mér fyrir mörgum árum.“

Þegar kóngur er búinn að heyra þetta allt þá fleygir hann torfunni á gluggann og heldur síðan heim og segir drottning sinni frá hvað hann heyrði og sá og segir að Glasséra muni koma á morgun eftir Ingibjörgu. Drottning segist búast við því. Svo ganga þau til hvílu. En um morguninn þegar þau eru vöknuð, en ekki klædd, þá er kallað á gluggann upp yfir þeim og spurt snúðugt hvurt að Helga sé þar. Hún segir til sín og spyr hvur þar sé. Hún segir það sé sú sama og hafi komið til hennar undir húsvegginn; og nú segist hún vera komin eftir því sem hún hefði þá lofað sér. Drottning lætur sem hún muni það ekki. Hún spyr hana þá að hvurt hún muni ekki eftir því hún hafi lofað sér elztu dóttur sinni þegar hún væri þriggja ára – „ellegar þá ef þú getur sagt mér hvað ég heiti og sonur minn, þá ertu laus allra mála.“ „Ég held mér gangi það nú ekki svo vel,“ segir drottning; „ekki muntu heita Glasséra og hann Hrafnþorn?“ „Svei ukkur, ólukku kvikindin ukkar. Það lá að það mundi eitthvað hafa boðað spururnar sem að komu að hönum syni mínum í gærkvöld og dynkurinn sem að heyrði á bæ mínum.“ Með það stökk hún í burtu og sást ekki framar, en þau unntust bæði vel og lengi.

Og svo er ekki sagan lengri.