Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Helga karlsdóttir og risinn á Gullskógalandi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Helga karlsdóttir og risinn á Gullskógalandi

Einu sinni var kall og kelling [sem] bjuggu í garðshorni; þau áttu þrjár dætur. Ein hét Ása, önnur Signý, þriðja Helga; hún var fúlgubarn (var höfð út undan). Þær Ása og Signý áttu góðgripi marga; eitt var óskadúkur sem þær gátu óskað með. Einu sinni fóru þær að óska sér og óskaði önnur að hún ætti brauðbakarann kóngsins, en hin að hún ætti vínbruggarann kóngsins, og segja við Helgu: „Hvað ætlar þú, óhræsið þitt, að óska þér?“ Helga segir: „Ég óska mér einskis.“ Þær segja: „Þess var von af þér, en þá skulum við óska þér að þú hverfir til risans á Gullskógalandi.“ En það var búið að fréttast af risa þessum að hann dræpi alla er um þenna skóg færi og héldu þær að hann mundi svo gera við Helgu. Eftir það verða þær konur þeirra er þær óskuðu, en Helga hverfur til skála risans. Kemur hún þar um dagtíma og var risinn þá ekki heima. Hún gengur inn í skálann, því hurð var í hálfa gátt, og hugsaði með sér að ekki mundi vera til að hugsa að flýja.

Um kvöldið heyrir hún dunur og dynki og kemur inn jötunn ógurlegur svo Helgu hreint óar og þorði valla að líta upp á hann. Risinn segir: „Ertu þá kominn hérna, Helga kallsdóttir? Þeim skal ekki verða að því systrum þínum að ég drepi þig þó þær ætluðust til þess. Hér er matur nógur og vín er þú skalt af hafa eftir vild þinni.“ Helga gjörir það, étur og drekkur sem hún þarf, og þegar það er búið segir risinn að hún skuli gera hvurt hún vill, sofa til fóta sinna eða í öðru fleti sem þar var. Hún segir: „Ég vil heldur vera til fóta þinna.“ Er ekki að orðlengja það að Helga er hjá risanum og er hann henni hvurn daginn öðrum betri. Fer svo að hún verður ólétt; og er hann verður þess var tekur hann að ógleðjast, og það eykst eftir því sem líður á meðgöngutímann, þar til að hún kennir sér léttasóttar. Segir þá risinn við hana um morguninn að hann verði að fara burtu eins og hann sé vanur, því hann var á dýraveiðum dag hvern – „og kem ég ekki heim fyrr en í kveld, en einhvur mun koma þér til hjálpar; en mikið ríður mér á að þú sért stillt og talir ekki orð þó þú sjáir eða heyrir eitthvað þér mótstæðilegt.“ Að svo mæltu kyssir hann Helgu og gengur út dapur í bragði. En þegar hann er kominn út fyrir stundu kemur inn tröllskessa mjög stórskorin með tágarlaup á höfði. Hún gengur að Helgu og hagræðir henni í rúminu og hefur á henni hendur og þykir Helgu hún ekki harðhent, svo ljót og tröllsleg sem hún var að sjá. Og að lítilli stundu liðinni fæðir Helga frítt og fagurt meybarn. Skessan tekur barnið og sker af því höfuðið og lætur hvurtveggja í laupinn á hausnum á sér. Helga lét ekkert á bera þó henni þætti fyrir þessu, en skessan snýr henni í rúminu og lætur hjá henni vín alslags og vistir og fer svo burtu. Helga smakkar á því sem hana helzt lystir og sofnar síðan. En þegar hún vaknar er risinn kominn. Hann kyssir Helgu og er henni undur góður og segir: „Mikið varstu stillt og góð í dag.“ Eftir það liggur Helga nokkra daga og fer svo á fætur.

Líða nú stundir og er risinn henni betri og betri, og svo fer að hún verður ólétt aftur. En eftir því sem leið á meðgöngutímann ógladdist risinn, og þegar Helga kennir léttasóttar segir risinn: „Nú verð ég að fara og kem ekki aftur fyrr en í kveld, en einhvur mun koma til þín og mjög ríður mér á að þú sért nú stillt og talir ekkert þó líkt kunni að fara og fyrr.“ Að svo mæltu kyssir risinn hana og gengur út. En þegar hann er nýfarinn kemur Lauphöfða inn og kippir Helgu til á hægindinu, og þegar hún hefur haft á henni hendur fæðir Helga sveinbarn og fer Lauphöfða með það eins og hið fyrra, en Helga lætur eins og hún sjái það ekki. En skessan hagræðir henni og færir að henni vín og vistir, gengur síðan burt, en Helga tekur sér hressingu af því sem hjá henni var og leggst út af síðan og sofnar, og vaknar aftur við að risinn kemur inn glaðlegur í bragði, heilsar Helgu og segir: „Ekki varstu mjög óstillt enn og er mér það mikil gleði.“

Brátt komst Helga á fætur og eru þeirra samfarir í engu lakari nema betri en áður og verður hún ólétt í þriðja sinn. Fór enn sem fyrr að risinn varð dapur er leið á meðgöngutímann, og þegar Helga kenndi sér sóttar segir hann: „Nú verð ég að fara burtu eftir vanda, en nú liggur mér mikið á og nær að segja lífið að þú sért stillt eins og þú hefur verið.“ Síðan kveður hann Helgu, gengur út síðan. En að lítilli stundu liðinni kemur skessan með laupinn og hagræðir Helgu til. Fæðir hún að stundu liðinni meybarn og fer skessan með sem hin fyrri, sker af því höfuðið og lætur í laupinn. En Helga hafði nokkuð meiri sjón af því en hinum fyrri og féllst því meira um en áður, talar ekkert, en felldi tár. En Lauphöfða fer út og Helga fær sér hressing og sofnar síðan. En þegar hún vaknar er risinn kominn og heilsar henni og þakkar fyrir stillinguna og þóttist Helga aldrei hafa séð hann jafnglaðan; og nú heilsast Helgu vel og fer fljótt á fætur. Risinn er henni hvurn daginn öðrum betri; og þegar mánuður er liðinn frá því hún átti barnið segir risinn: „Nú verð ég að fara burtu og er mér þó nauðugt að skilja við þig. Verðurðu að vera hér hálfan mánuð. En þegar hann er liðinn þá skaltu klæða þig bezta búningnum sem er í kistunni hjá rúminu mínu og ekki feila þér við að fara í hann þó þér þyki of mikið fyrir þig að bera svo mikið skart, og að öllu skaltu búa þig sem bezt. Síðan skaltu ljúka upp skálahurðinni og mun þér veita það hægt. Stendur þá úti fyrir hvítur hestur söðlaður. Þú skalt fara á bak og láta hestinn ráða ferðinni; en ef þú vilt fara af baki þarftu ekki annað en leggja hendina fram á makkann og mun hann þá standa við.“ Síðan kveður hann Helgu ógn blíðlega og gengur út. Fannst Helgu sem einhvur hulin gleði væri fólgin í svip hans. Er Helga þar þenna tiltekna tíma og unir vel því nóg var af öllu er hún vildi hendina til rétta. Síðan fer hún að skoða í kistuna og finnur þar so prýðilegan drottningarskrúða að hún gat valla komið sér að að fara í hann, en þó gerir hún það, gengur svo út og sér þá ógnar stóran hvítan hest með luktum söðli. Hún hugsar með sér: „Ekki er mér gagn að þessum hesti, því ég kemst aldrei upp á hann.“ Samt gengur hún að honum, en þá lagðist hesturinn á hnén og fór Helga þá í söðulinn og lét hjá sér nesti sem hún hafði með sér; og fór þá hesturinn af stað og var hann svo þýðgengur að Helgu var eins þægilegt eins og hún lægi á dúnsæng. Og þegar hún vildi af baki fór hesturinn á hnén meðan hún fór upp og ofan. Þanneg fór hún nálægt því í viku. Lítur hún þá eitt sinn út úr söðlinum og sér framundan sér stóra og prýðilega borg. Hún nálægist hana. Kemur þá móti henni flokkur velbúinna manna syngjandi á ýmisleg hljóðfæri og segjandi: „Lukku fái drottningin, heiður fái drottningin.“ Síðan kemur annar flokkur enn skrautlegri og syngur sömu orð. Þar næst kemur undra fagurligur kvenfólksflokkur og síðast koma tólf menn er báru mjög af hinum og þó var einn langt umfram aðra. Leit hann út fyrir að vera kóngur eða kóngsson. Þessum hóp fylgdu leikarar með alslags hljóðfærum og sungu: „Lukku fái kóngurinn og drottningin.“ Þessi hinn tíðuglegasti gengur að hestinum er Helga reið og tekur hana í fang sér og kyssir hana og fer með hana til hallar og settist í hásæti og setur Helgu hjá sér, en allur skarinn fylgdi á eftir með sömu lukku- og gleðihrópum. En þegar lítil stund er liðin gengur í höllina meyjaskari og þótti sem glampa legði af þeim og því mikla skarti er þær báru. Ein var þó mjög umfram hinar, með gullkeðju um háls og gimsteinakórónu á höfði. Tvö börn héldu í fötin hennar, en það þriðja bar hún í fanginu. Hún gengur að Helgu og kveður hana virðuglega segjandi: „Heiður og lukku fái drottningin.“ Þar næst segir hún: „Hér eru nú börnin þín svo vel upp alin sem unnt er, því sá litli galli sem er vagl ofurlítið á auganu á því yngsta, það er þér að kenna, því þú felldir tár þegar þér sýndist ég drepa það.“ Nú tók kóngur Helgu í fang sér og faðmar hana ástúðlega og segir: „Öll borgin er glaðvær yfir því sem þú hefur gjört og verður þér það aldrei fulllaunað, og skal ég segja þér orðsök alls þessa: Ég er kóngsson og erfingi þessa ríkis. Var faðir minn hér stjórnari og átti með drottningu sinni mig og systur mína er þarna stendur (og bendir um leið á þá er kom með börnin). En þegar við vorum nokkuð vaxin dó móðir okkar, en faðir minn giftist aftur og átti flagðkonu þó hann ekki vissi. Var hún okkur hin versta, en þó kom svo að hún blíðkaðist við okkur og vildi fá mig til fylgilags, en ég tók því fjærri. Síðan drap hún föður minn og hélt hún gæti þá auðveldar unnið mig, en þá var ég enn fjærstæðari vilja hennar. Lagði hún þá á okkur að ég skyldi verða að ógurlegum risa og hverfa í hellir þann er eg byggða. En systir mín varð að flagði eða vætti því er þú sást. Allir mennirnir urðu að illkvikindum, en kvikfénaður allur að fuglum og borgin öll að hraunum og auðæfi öll að gulllituðum skóg sem var á Gullskógalandi. Og úr þessum álögum áttum við ekki að komast nema einhvur jómfrú gæfi sig til mín sjálfviljug og umbæri orðalaust skapraunir þær er systir mín átti að gjöra henni. Og þar til varzt þú og hefur því frelsað okkur og allt úr álögum þessum og get ég ekki launað þér það betur með öðru móti en taka þig mér til drottningar. En fóstri minn lagði á stjúpu mína að hún skyldi hverfa á tiltekinn stað og standa þar yfir báli, en brenna þó ekki fyrr en þegar við kæmumst úr álögunum. Átti hún að detta á bálið og brenna til kaldra kola.“ Eftir svo mælt var aukin veizlan og snúið í brúðkaupsveizlu. Gaf hann systur sína einum jalli sínum og sló saman veizlunum og stóð hún marga daga.

Nú víkur sögunni til Ásu og Signýjar að þegar þær voru giftar urðu þær svo stoltar og vondar að enginn gat við þær átt og menn þeirra ráku þær burtu. Flæktust þær til og frá þar til Helga náði þeim til sín og gerði þær að þernum sínum. Unntust þau Helga og kóngur vel og lengi og lýkur svo þessari sögu.