Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Helga og þursinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Helga og þursinnn

Bóndi einn átti þrjár dætur og hét Helga hin yngsta þeirra. Einhverju sinni kom risi til föður þeirra systra og bað hann að láta sig fá einhverja af dætrum sínum til eignar. Þorði bóndi ekki móti að mæla og tók risinn með sér þá sem elzt var, en ekki áttu þau skap saman því mærin vildi ekkert vinna þó risinn segði henni. Læsti hann hana því í afhelli einn og fór til fundar við bónda og bað um þá næstyngstu af dætrum hans og lét bóndi það falt. En þeim samdi ekki betur en risanum og hinni elztu dóttur og læsti hann hana inn í afkima, fór að því búnu og bað Helgu og fór hún með honum, og hvaða verk sem hann skipaði henni þá vann hún það með trúmennsku og féll risanum mjög vel við hana. Og einhverju sinni er Helga kannaði hellirinn varð hún vör við systur sínar og varð þar fagnafundur. Litlu síðar bað hún risann leyfis að fara til fundar við foreldra sína, og veitti hann henni það. Lét hún síðan systur sínar í sinn belg hvora og bjó vandlega um. Fór hún fyrst með annan belginn til foreldra sinna, en bað risann að hreyfa ekkert við hinum á meðan; kvaðst hún og mundi sjá ef hann brygði út af því. Og er Helga var farin kvað þussinn þetta fyrir munni sér:

„Glöggt er auga á Helgu minni,
sér hún gegnum hellirinn;
ei skal ég við belginn bauka
þó brotni í mér hryggurinn.“

Með sama hætti frelsaði hún hina.