Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hermóður og Hervör
Hermóður og Hervör
Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttur sem hét Hervör. Ráðgjafar kóngsins fóru einu sinni út á skóg og gengu með læk. Þeir sáu stokk á læknum og tóku hann og skoðuðu í hann. Það var í sveinbarn. Þeir fóru með það heim; það var kallað Hermóður. Hermóður og Hervör lágu bæði í sömu vöggu. So ólust þau upp í ríkinu og hann er efnismaður og er kennt allar íþróttir. Hervör var látin vera í skemmu og fóstra hennar Ingibjörg. Kóngur ætlar í hernað og Hermóður með hönum; og þegar þeir koma aftur þá liggur drottning og er nærri því komin í dauðann, og þegar þeir eru komnir deyr hún. Kóngur fær sér aftur kvonfang; so það er slegið upp veizlu. Hermóði og Hervöru lítast ekki á drottningu og eru hvorugt í veizlunni.
Það líða fram stundir þangað til kóngur fer í hernað og biður Hermóð fyrir ríkið. Hann lofar því og so fer kóngur; og þegar kóngur er farinn vill hún að Hermóður svæfi hjá sér á meðan í bónda stað, en Hermóður vill ekki. Hún verður þá ill og segir að ekki skuli hann fá hana Hervöru, hann skuli verða að argvítugasta skrímsli út undir heimskauti og vera það á daginn, en ekki á næturnar, og ekki komast fyr úr þeim en hann svæfi hjá kóngsdóttir sem seint mundi verða og ef hún sæi hann á undan. So hverfur hann strax úr ríkinu. So kemur hún til skemmu Hervarar og heilsar henni og biður hana að ljúka [upp]. Hún gerir það, segir hún atli að senda henni í nótt bróður sinn til eignar, það sé vænsti maður. Þegar hún er farin frá skemmunni segir Ingibjörg fóstra hennar að það sé þríhöfðaður þussi og komi upp úr gólfinu í nótt. So þær hita bik og brennistein og þegar komið er fram ettir nóttinni koma þrír brestir í gólfið og þá sjá þær á þríhöfðaðan þussa. Þær hella þá bikinu logheitu ofan á hausinn á hönum og þá heyra þær þvílíkt grenj og undirgang so að skelfur skemman.
So víkur söguni að kóngur kemur úr hernaði og þá gengur drottning til kóngs og segir að mikið hafi gengið á síðan hann hafi farið og það sé að hann Hermóður hafi viljað sofa hjá sér, en hún hafi ekki viljað, og so sé hann strokinn úr ríkinu og hún hafi útvegað henni Hervöru bróður sinn, allra fallegasta kóngsson, en hún hafi drepið hann; hann geti séð hann, hann sé fyrir utan skemmuna hennar, hann geti séð hann, og lætur hann fara með sér að skemmunni og þar er fallegur maður og er dauður. Kóngur segir að ekki geti hann gert að því, hann hafi ekki verið heima; og þegar kóngur er farinn leggur hún það á Hervöru að hún hafi ekki viðnám fyr en hún komi að einum haug og þar sé bróður sinn, þríhöfðaður þussi, og þar muni hún gista. Þar munu vera tveir hundar og þeir mundi rífa hana og so æti bróður sinn hana. So fer hún. Ingibjörg fóstra hennar gefur henni rautt hnoða og hvítan hund, kefli, hníf [og] tvö ketstykki. Hún segir henni að hún eigi að fara á ettir hundinum og hnyklinum. Þegar hundarnir ætluðu að rífa hana þá skyldi hún henda ketstykkjunum í kjaftinn á þeim; þau væru eitruð og mundu þeir drepast. Hún segir ef það dygði ekki, segir að kallinn mundi biðja hana að klóra sér iljarnar og skyldi hún þá skera stykki úr kálfunum á hönum og fleygja í hundana og hún skyldi flá með hnífnum iljarskinnin af hönum. Það mundi verða langur vegur að ganga og skyldi hún ganga á þeim, og þegar hann ætlaði að gleypa hana þá skyldi hún seta keflið í kjaftinn á hönum; og þegar hún færi frá hönum upp úr haugnum þá skyldi hún leggja eitthvað laust á herðarnar á sér, hann mundi grípa í hana þegar hún færi upp.
So fer hún með nesti og nýja skó og heldur í hnykilinn og hundurinn fer á undan; og so kemur hún að stórum haug og hundurinn fer í kringum hann, kemur að dyrunum og þar fara þau ofan margar tröppur; og þegar þau koma ofan er þar þríhöfðaður þussi og tveir hundar. Þussinn segir það sé gott hún sé komin hingað; hún systir sín hafi sent hana, hann drepi hana fyrst hún hafi drepið hann bróður sinn. Hann skipar henni fyrst að klóra sér iljarnar. Hún sker stykki úr kálfunum á hönum og þá koma hundarnir og ætla að rífa hana. Hún hendir ketstykkjunum þá í kjaftinn á þeim so þeir drepast. So flær hún iljaskinnin úr hönum. So sofnar hann; og þegar hann vaknar geispar hann ógurlega so hún hugsar að hann muni gleypa sig og setur so keflið í kjaftinn á hönum. So fer hún að bera sig að fara upp úr haugnum og leggur eitthvað laust yfir sig; og þegar hún er komin í efstu tröppuna þá grípur þussinn attan í hana, en þá dettur það attraf henni so hann dettur attrá bak ofan í haug og hálsbrotnar. So kemst Hervör upp og lætur á sig iljaskinnin utan yfir skóna. So gengur hún langan tíma á eftir hundinum og hnyklinum. So gengur hún með sjáarsíðu og þar er grjót og urðir.
Eina nótt hverfa af henni iljaskinnin af þussanum. So gengur hún þangað til komið er kvöld, þá k[emur] hún að hellir. Hún fer þar inn og sér þar stór[t] flet. So fer hún á bak við hurðina í dyrunum. Þegar hún er búin að vera þar stundarkorn kemur inn skelfilega stórt skrímsli með sel á bakinu. Þegar hann kemur skimar hann mjög um hellirinn, en sér hana ekki. So sér hún að dettur af hönum hamur og þetta er Hermóður. So býr hann sér rétt að borða af selnum, fer so að hátta og sofa. Þegar hann er sofnaður kyndir hún bál og setur þar á haminn og brennir og so situr hún hjá rúminu. Þegar hann vaknar atlar hann að fara í haminn, en finnur hann ekki. So Hervör gefur hönum að súpa á bikar og so sýpur hún á. So þekkjast þau og verður fagnaðarfundur. So eru þau þar um veturinn. Þau eru að ganga með sjónum að vita hvort rekur. Þá sjá þau tvær skessur eru að fljúgast á um hval. Önnur biður hann að hjálpa sér, hún hafi dregið hann; so hann hjálpar henni til að drepa hana. Hún hafði laup og sker hvalinn í stykki og lætur í laupinn og setur so á bakið á sér. So býður hún þeim að koma heim í hellir sinn. Þau þiggja það; so fara þau á stað. So nú dregst Hervör attrúr so skessan skipar Hermóði að láta hana upp í kláfinn. Hann gerir það. So ganga þau lengi þangað til hann dregst attrúr; þá sezt hún niður og segir hönum að fara upp í kláfinn. So gerir hann það og so heldur hún [af stað] og segir: „Nú ber ég nokkuð; ég ber fjóra menn og heilan hval.“ So heldur hún áfram og kemur að hellir. Þar eru inni þrír strákar og eru að kynda bál. Hún tekur af sér kláfinn og þau fara inn; hún tekur fjögur stykki og setur á eldinn og steikir og so étur hún og strákarnir. Hún gefur þeim eitthvað annað að borða. So sýnir hún þeim það sem hún á og hún á mikið. Hún segir þau muni langa til að fara heim í kóngsríki; hún skuli hjálpa þeim um einhvurja kænumynd. Þau eru alltaf að finnast um vetrinn og Hermóður er að hjálpa henni með veiðiskap. Hann á mikið í hellir sínum og segir skessunni að hún eigi að hirða í hellirnum það sem hann fari ekki með.
Undir sumarmál þá biður hún hann að finna sig; og þegar hann kemur gefur hún hönum skip og segir að nú geti hann siglt með hana Hervöru til föður hennar. So fer hann heim í hellir og sækir Hervöru og sveinbarnið sem hún átti um veturinn og fer so með nógan forða. Skessan segir að hún ætli að fylgja þeim dálítið, þau muni þurfa þess við. So fer hún með þeim og sigla lengi. Þá sjá þau hval koma á ettir sér með blástur og óskup. Skessan segir að þetta sé þríhöfðaði þussinn úr haugnum og ætli að hvolfa skipinu; og þegar hvalurinn er nærri því kominn að því þá fleygir skessan sér útbyrðis og þau fara í kaf. Hermóður og Hervör sjá þau ekki þangað til loksins kelling kemur og segir að hann muni ekki koma aftur; hún verði að fara heim í hellir, hún hafi verið nýbúin að eiga krakka; strákarnir sínir væru hjá því. Hún óskar þeim allra heilla og fer í burtu og sigla að landi sem faðir Hervarar var. Kóngur gengur til skips með mönnum sínum og þá verður fagnaðarfundur. Drottning hafði þegar kóngur kom úr hernaði sagt að Hervör væri dauð. Þau Hermóður og Hervör sögðu frá öllu hvurnin drottning fór með þau. So er farið með þau heim og þá er drottning tekin og brennd. Kóngur frétti að þetta hafði verið tröllskessa. Og so giftist Hermóður Hervöru og fær ríkið eftir kónginn. Og endar so þessi saga.