Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Herrauður og Helga
Herrauður og Helga
Það var einu sinni kall og kelling í koti sínu og áttu sér eina dóttur sem hét Helga. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum.
Einu sinni kom þar maður sem hét Herrauður og beiddi þau að taka sig. Þau gera það; so er hann þar og líkar dável við hann. Nú vill hann fá Helgu til eigna. Það aftekur það allt.
Einu sinni þegar Helga kemur frá smalamennskunni þá er Rauður búinn að drepa kall og kellingu. Hann segir hún hafi ekki viljað eiga sig og nú skuli hann sofa hjá henni eða drepa hana. Hún segist verða fyrst að fela [eldinn]. Hann setur á hana járnfesti af því að hann var háttaður. Hún hefur með sér al, hníf [og] skæri; hún setur það í vegginn og biður það að játa fyrir sig einu sinni hvurt, brýtur síðan festina og bindur hana við eitthvað og stekkur so. Hún er í smalaburu og krækir einu pari um hálsinn. Hún stekkur lengi þangað til hún kemur að skelfilega hárri og brattri brekku; og þegar hún er komin upp úr brekkunni þá kemur Rauður stökkandi og sendir henni tóninn að ef hann nái í hana þá skuli hann drepa hana. Og þegar hann er kominn að henni þá tekur hann í hempuna og ætlar að kippa að sér, en þá slitnar parið og hann veltur niður úr brekku, en hún heldur áfram.
Það er ekki getið um ferð hennar fyr en hún kemur í eitt kóngsríki og biður kónginn að taka sig í ríkið; hún skuli hjálpa til að gera eitthvað. Hann tekur hana og öllum líkar vel við hana; so kóngur atlar að eiga hana. Hún segist atla að biðja hann að taka öngan veturvistarmann án sinnar vitundar. Kóngur lofar því; og so er slegið upp veizlu og stendur í viku.
Einu sinni fer kóngur út á skóg með ráðgjöfum sínum. Þá mætir kóngi maður á skógnum; þeir heilsast. Kóngur spyr hvað hann heiti. Hann segist heita Herrauður; hann biður kóng að taka sig. Hann segir hann geri það ekki; hann segir að hann eigi konu sem hafi beðið sig að taka öngan veturvistarmann án sinnar vitundar. Hann er að þessu lúalagi þangað til að hann gerir það og lætur hann vera á laun í ríkinu so drottning veit ekki af.
Nú fer kóngur í hernað og Rauður býðst til að passa ríkið. Kóngur þiggur það, fer so í hernað. So kemur fyrir að drottning leggst á sæng og eru sóttar þrjár yfirsetukonur og so á hún sveinbarn og það er reifað og lagt fyrir framan hana; og þegar komin er nótt kemur Herrauður inn og þá sváfu tvær yfirsetukonurnar, en ein vakti; en þegar drottning sér hann verður hún hrædd og þekkir að þar er kominn Rauður sem drap foreldra hennar og ætlaði að drepa hana. Rauður segir að hún skuli fá makleg málagjöld fyrir það hún hafi svikið sig seinast. Hann setur þagnaðargull undir tunguna á henni, en stingur yfirsetukonunum svefnþorn, skipar einum þræli so að fara með barnið út á skóg og drepa það. Hann lofar því og fer með það út á skóg og lætur það undir eina eik og fer so heim og segir Rauði að hann sé búinn að myrða barnið. Hönum þykir það vænt. Síðan tekur hann hvolp og sker hann á háls og leggur fyrir framan hana og blóðugan hnífinn í hendina á henni. Yfirsetukonurnar vakna við illan draum, barnið er hvorfið og hvolpur fyrir framan hana dauður. Þær eru að tala við hana, en hún anzar ekki. So er þetta í þrígang að börnin eru tekin frá henni, og hættir ekki fyr við kónginn en hann skipar einum þræli að fara með hana út á skóg og drepa hana; en Rauður biður þrælinn að koma heim með úr henni lifrina, lungun og hjartað. Þrællinn lofar því og fer so með hana. Hún er látin upp á hest og þegar hún hristist þá dettur þagnaðargullið undan tungunni á henni. Hún biður hann að gefa sér líf. Hann segir þó hún hafi ekkert mál haft þá hefði hann gefið henni líf. Hann segir hann sé búinn að bera út þrjú börnin hennar og hafi ekkert drepið. Hún segir að þessi Rauður hafi drepið foreldra sína og ætlað [að] drepa sig, en þegar hann hafi ekki getað það þá hafi hann atlað að gera það sona. Hann skilur so við hana og þegar hann fer heim hittir hann gölt á veginum sem hann drap og færði Rauð úr hönum lifrina, lungun og hjartað. Rauður verður illur og segir að það sé ekki úr henni. Þrællinn segir það sé víst.
Kóngur átti eyju eina út í sjó sem hann hafði hjörðina sína í. So líða fram stundir þangað til Rauður segir að það sé farið að bálrjúka í eyjunni, það sé víst komnir þjófar í eyjunni. So kóngur lætur sigla í eyjuna; en þegar þeir eru rétt komnir að eyjunni þá kemur soddan stormur að þá reka attur til lands og brjóta skipið í spón. Rauður segir að það sé klaufaskapur, hann skuli fara sjálfur; og fer það á sömu leið. So fer kóngur og hann með hönum á sínu skipinu hvor. Þá kemur óveður á þá og bylur. Kóngur kemst loks upp á eyjuna með sína menn, en Rauður er að hrökklast til og frá í kringum eyjuna. Kóngur gengur upp á eyjuna, og koma að einu stóru húsi; þar stendur mikið óféleg kerling úti. Hún spyr hvaða menn þetta séu; henni er sagt að það sé kóngurinn. Hún segir það beri nýrra við að kóngurinn komi sem aldrei hafi komið; hann hafi víst eitthvað erindi. Hún segir hvort hann vilji koma inn þó ekki sé boðlegt. Kóngur þiggur það og allir hans menn. Hún lætur þá fara inn í eitt hús fallegt og gefur þeim öllum heitan rétt að borða, því þeir voru nær komnir dauða en lífi af kulda.
Kóngur er að segja hvort hann Herrauðstetur nái nú ekki landi. Kelling segir hvort hann hafi ætlað að sigla að þessari eyju. Kóngur segir það vera. Hún segir að hann muni vera kominn að landi. Þegar stundarkorn er liðið heyrir kelling að klappað er upp á dyr og þá er kominn Herrauður með alla sína menn. Hún lætur alla fara inn nema Rauð, þeir allir farnir að kala. Kóngur sér að Herrauð vantar og biður kerlingu að bjóða hönum inn. Hún segir að soddan maður þoli að standa úti solitla stund. Um síðir kallar hún á hann. Hún segist atla að hafa meira við Rauð en kónginn og setur hann á gullstól, en kónginn á tréstól. Hún segir þeir skuli segja eitthvað til skemmtunar; það sé rétt að Rauður segi ævisögu sína. Kóngur segir það sé rétt. Rauður segir hann hafi átt bæði föður og móður og þau hafi dáið og so hafi hann komizt til kóngsins síns og hann viti hvort hann hafi ekki verið trúr og dyggur. Hún segir að hann verði drepinn ef hann dragi nokkuð undan. Hann verður fastur við sætið. Hann segir að hann sé tröllssonur og hafi drepið þau og komið so í eitt kot þar sem kall og kelling hafi verið og hafi átt eina dóttur sem hét Helga; hann hafi drepið foreldra hennar og viljað sofa hjá henni, en hún hafi ekki viljað og hafi hún so strokið og komizt í eitt kóngsríki og orðið þar drottning og þá hafi hann beðið kónginn að taka sig á laun og hann hafi gert það; og á meðan kóngur var í hernaði hafi hann skipað einum þræl að fara með börnin út á skóg að drepa þau og seinast hafi hann komið kónginum til að láta fara með hana og drepa hana. Þá gerir kelling þvílíka áminningu kónginum, segir að hann hafi trúað hönum nógu vel. Kóngur lætur kynda bál og seta þar á Herrauð og brenna. Kelling segir við kóng hvað hann vildi gefa til þess að hún kæmi með drottningu hans og öll börnin heil og heilbrigð. Kóngur segir hann ætti ekki það til í eigu sinni sem hann vildi ekki gefa fyrir. Hún fer þá út og kemur so inn með drottninguna og tvo drengi og eina telpu. Þá verður fagnaðarfundurinn. Hún segir að hún sé kóngsdóttir úr öðrum löndum; hún hafi ætlað að eiga kóngsson. Þau hafi strandað hér og drukknað allir nema hún og nokkrir menn. Hún segir hún vilji ekki annað í staðinn en bíða ettir eldri syni hans og eiga hann þegar hann er stór. Hann fer með það með sér heim í ríki og drottning kemst í sína tign. Kóngur lætur kenna sonum sínum allar íþrótt[ir]. So á hann fóstru sína sem fóstraði hann í eyjunni og unntust þau vel. Og endar so þessi saga.