Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hesturinn Gullskór og sverðið Dynfjöður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hesturinn Gullskór og sverðið Dynfjöður

Það var eitt sinn karl og kerling í koti; þau áttu þrjá sonu. Þeir hétu svo: Sigurður, Hálfdán og Þórsteinn; hann var lítilmenni og lá hann jafnan í eldhúsi, en þeir vóru menn efnilegir, bræður hans, og hentu jafnan gaman að honum og gaf Þórsteinn sig ekki að því.

Eitt sinn koma þeir að máli við föður sinn og biðja hann að lofa sér að fara á kóngs fund. Karl lofar þeim það og kvað hann það vera framaveg fyrir þá. „Eitthvað þurfum við til nestis,“ segja þeir. „Satt er það,“ segir karl; „takið þið þann sauð úr fé mínu er þið getið beztan fundið.“ Þeir gjörðu það, tóku vænsta sauðinn og létu búa handa sér nesti úr honum og fara af stað eftir það. Þegar þeir hafa farið veg langan þá koma þeir á hól einn. Setjast þeir þar niður og fara að borða. Þegar þeir eru búnir að vera litla stund við máltíð þá kemur kona út úr hólnum og var sú heldur ljót og lítilsvirði að þeim þótti. Kona þessi bað þá að gefa sér að borða – „og skal ég reyna að borga ykkur það einhvert sinn.“ „Það gjörum við ekki,“ segja þeir. „Vilið þið þá heldur hafa mig móti heldur en með?“ Þeir kváðu sig mundi einu gilda hvert hún væri með sér eða mót og hverfur hún þá í hólinn, en þeir halda áfram og báðu hana illa fara. Koma þeir nú bráðum á fund kóngs og biðja hann veturvistar. Kóngur lofar þeim veturvistinni og ganga þeir til hvíldar með það. Þegar þeir vakna um morguninn ganga þeir til kóngs og spyrja hvað þeir eigi að vinna. „Þið skuluð leita sauða minna,“ segir kóngur, „og skuluð laun fyrir taka ef þið finnið þá, en drepnir ef þið finnið þá ekki.“ Fara þeir nú á stað bræður, leita lengi og finna hvergi; koma síðan til kóngs og lét hann þá drepa þá.

Þá nokkur ár eru liðin frá því að þeir fóru frá föður sínum Hálfdán og Sigurður þá fer karli að leiðast að þeir koma ekki að finna sig, og hugsar hann að þeir muni dauðir vera. Þegar Þórsteinn heyrir þessa óánægju föður síns þá býður hann honum að fara og leita bræðra sinna. Karl kvað honum mundi það til lítils vera – „en feginn vil ég að þú farir frá augum mínum því ekki get ég horft á þig heima þá hinir eru dauðir.“ Þórsteinn fór nú á stað og fékk hann lamb eitt lítið til farareyrirs. Gekk hann lengi og kom hann á sama hólinn og áður er nefndur. Hvíldi hann sig þar og fór að borða; kemur þar þá konan hin sama og áður er nefnd. Biður hún Þórstein að gefa sér að borða. Þórsteinn gjörir það. Þegar þau sátu yfir máltíð þá segir konan Þórsteini að bræður hans muni dauðir. „Þú munt vilja fara á fund kóngs,“ segir konan. „Já,“ segir Þórsteinn. „Þá munt þú verða að gjöra verk það er bræður þínir voru látnir gjöra og mun það þér örðugt verða; eða vilt þú heldur að ég sé með þér en mót?“ „Já, það vil ég gjarnan,“ sagði Þórsteinn, „því ekkert kvikindi veit ég það að ekki vili ég heldur eiga það með mér en mót.“ Konan segir: „Ef kóngur leggur fyrir þig þrautir nokkrar þá kom þú að hól þessum ef þú vilt, þó ég geti líklega ekki hjálpað þér.“ Fer nú Þórsteinn til kóngs og biður hann veturvistar. Kóngur lofar því, en segir honum hvað hann eigi til að vinna. Tekur Þorsteinn því hverki vel eða illa og var hann þá kyr um stund.

Þegar út hallar vetri þá fer Þórsteinn af stað og fer hann þá á hólinn til konunnar. Konan spyr Þórstein hvað kóngur hafi nú skipað honum. „Ég á að leita sauða þeirra sem kóng hefur lengi vantað.“ „Það er illt verk,“ segir konan, „því sauðirnir eru undir tröllahöndum og vaka þau yfir þeim alla daga og binda þá alla sauðabandi um nætur og liggja þeir upp á hellir tröllanna.“ Er nú Þorsteinn þar hjá konunni litla hríð og eftir það býst hann til ferðar. Fær þá konan honum hnoða eitt og segir honum að fara þar á eftir er það fari fyrir. Fer nú Þorsteinn á stað og veltur hnoðað á undan honum þar til er hann kemur að hellir tröllanna. Sér hann þá sauðina að þeir liggja upp á hellir tröllanna og allir bundnir sauðabandi. Fer hann þá upp á hellirinn og sker böndin af sauðunum og rekur þá heim til konunnar í hólinn. „Vel hefur þér gengið,“ segir konan. „Já,“ kvað Þorsteinn, „og er það mest þér að þakka.“ Konan segir hann skuli fara með sauðina til kóngs – „en gáðu að því að afhenda kóngi sjálfum sauðina.“ Skilar nú Þórsteinn kóngi sauðunum, en þegar Þorsteinn var kominn allt að garði kóngs þá koma á móti honum hirðmenn kóngs og báðu hann að afhenda sér sauði, en Þorsteinn vill það ekki gjöra og afhendir hann kóngi sjálfum sauðina. Þykir þá kóngi vænt um sauðina og kvað hann Þórstein hafa þetta vel af hendi leyst.

Eftir lítinn tíma liðinn þá bið[ur] kóngur Þórstein að fara fyrir sig ferð eina. „Hvur er hún?“ segir Þórsteinn. „Þú skalt sækja fyrir mig hring einn er ég hef fyrir löngu misstan.“ „Hvar er hann?“ segir Þórsteinn. „Það verður þú sjálfur að segja þér,“ segir kóngur; „því hefði ég vitað hvar hann var, þá væri ég búinn að sækja hann.“ Fer nú Þórsteinn á hólinn og hittir konuna og tekur hún honum vel. „Hvað átt þú nú að gjöra?“ segir hún. „Ég á að sækja hring einn er kóngur hefur misst og veit ég ekki hvurt ég á að fara til þess að geta fundið hann og vil ég biðja þig ráða.“ Konan segir: „Vond var ferð sú er kóngur sagði þér að fara hið fyrra sinn, en verri er þó þessi sendiför því hringurinn er hjá tröllkarli og tröllkonu og taka þau hann aldrei fyrr en ef kerling á barn.“ Þegar Þórsteinn hefur verið lítinn tíma hjá konu þessari þá kemur hún eitt sinn að máli við hann og segir: „Nú held ég þér bezt að byrja ferð þína. Þú skalt taka hnoða það er þú hafðir áður og skalt þú fara þar eftir sem það fer fyrir. Og þá þú kemur að skála tröllanna þá far þú upp á hann og að þeim glugga sem er yfir bóli þeirra; þar skalt þú inn fara og ofan á milli þeirra karls og kerlingar; og þegar þú er[t] þangað kominn þá skaltu kalla: ,Hringinn góða, mamma!'“ Fer nú Þórsteinn af stað og er ekki getið um ferð hans fyrr en hann kom að skála tröllanna. Fer hann þá upp á skálann og að glugga þeim sem er yfir rúmi þeirra karls og kerlingar. Heyrir hann þá að þau hrjóta fast. Fer hann nú inn um gluggann á festi einni er konan hafði fengið honum. Fer hann nú ofan milli karls og kerlingar og kallar: „Hringinn góða, mamma!“ Vaknar þá kerling og vekur karl sinn og segir að hann verði nú að sækja hringinn – „því nú er ég búin að eiga barn og biður það nú um hringinn.“ Karl fer og sækir hringinn og fær hann drengnum og sofnar hann þá og leggja þau utan um hann hramma sína. Þegar þau eru sofnuð karl og kerling þá fer Þórsteinn að reyna að komast í burtu og lukkast honum það. Hefur hann sig þá út á festi þeirri sem hann hafði farið inn á, og þá hann er út kominn þá fer hann heim til konunnar á hólinn. Og þá hann hafði þar verið litla hríð þá fer hann á fund kóngs og afhendir honum hringinn. Þótti kóngi þá vænt um og setti Þorstein hjá hirðmönnum sínum.

Nokkru eftir þetta þá biður kóngur Þórstein að fara sendiför fyrir sig. „Hver er hún?“ segir Þórsteinn. Kóngur segir: „Þú skalt sækja fyrir [mig] hestinn Gullskó og sverðið Dynfjöður.“ „Hvar er það?“ segir [Þórsteinn]. „Það verður þú sjálfur að segja þér,“ segir kóngur. Fer nú Þórsteinn á fund konu sinnar á hólinn og biður hana leggja ráð til þess að hann geti þetta framkvæmt. Konan kvað þetta vera verra en hitt hvertveggja er kóngur hafi sagt honum að gjöra – „því gripi þessa hafa varðveit[t]a tröll tólf og vaka þau yfir hestinum til skiptis bæði dag og nótt utan eina stund á páskadagsmorguninn og er þá hesturinn bundinn fyrir framan rúmstokk trölla og sverðið fyrir ofan þá. Tólf hurðir eru fyrir hellir þeirra og ljúkast þær allar upp þegar þeir anda frá sér og þá þeir draga andann að sér þá skella þær allar aftur og er það hvers manns bani ef hann verður á milli þá þær leggjast aftur.“ Þegar líður að páskum þá býst Þorsteinn til ferðar og leggur konan honum ráð eftir því er hún bezt gat. Segir ekki af ferð hans fyrr en hann kom að hellirnum og var það á páskadagsmorguninn og voru þá tröllin öll sofandi. Var þá eins og konan hafði sagt að hurðirnar lukust upp á milli. Einu sinni þegar hurðirnar lukust upp þá hleypur Þórsteinn inn og gat hann þá komizt að rúmi tröllanna. Tekur hann þar sverðið og hestinn og fer út eftir það. Þá hann tók sverðið þá vökvar hann sér blóð og ber á sverðið til þess að ekki syngi í því. Þegar Þórsteinn er kominn út fyrir dyrnar þá fer hann bak hestinum og slær hann. Hrökkur hestur þá við og hljóp á stað, en í því hann fór á [stað] sló hann hófnum við dyrnar og tók þá undir [í] hellirnum. Þegar Þórsteinn er ekki langt kominn þá sér hann tröllin öll á eftir sér og fara þau hart mjög. Hvatar þá Þórsteinn reiðinni, en þó drógu tröllin hann uppi. Þegar tröllin eru komin allt að Þórsteini þá kemur móti honum svört tík og hleypur hún í hæla tröllunum og rífur þau svo þau falla öll til jarðar. Snýr Þórsteinn þá aftur og höggur haus af þeim öllum. Eftir það ríður hann heim og kemur til konunnar og er hún þá að binda sár sín. „Þú gjörðir illa,“ segir hún, „að þú fylg[d]ir ekki mínum ráðum í því að fara ekki so fljótt á bak hestinum eins og þú gjörðir.“ Þórsteinn kvað það satt vera, – „og er ég þess maklegur að þú drepir mig fyrir þá yfirsjón.“ „Ekki vil ég það gjöra,“ segir hún, „því ég vildi að þú mættir sem mestur maður verða. Þegar þú kemur með hluti þessa til kóngs þá mun hann spyrja hvað þú viljir til launa hafa fyrir verk þessi; þá kjós þú þér dóttir hans og annað ekki.“ Þegar Þórsteinn hefur verið nokkra hríð hjá konunni þá fer hann og afhendir kóngi hestinn og sverðið. Verður kóngur þá glaður mjög og setur Þórstein hið næsta sér.

Eitt sinn þegar þeir voru undir borðum þá spyr kóngur Þórstein hvað hann vilji til launa hafa fyrir verk sín. „Ekki annað en dóttir þína,“ segir Þórsteinn. Þagnar kóngur þá og verður harmfullur, en segir þó um síðir: „Ég átti eina dóttir, en ég veit ekki hvað af henni er orðið.“ Þórsteinn segir: „Vilt þú þá gefa mér hana ef ég get fundið hana?“ „Já,“ segir kóngur. Þórsteinn segist vilja hafa hestinn Gullskó; kóngur kvað það velkomið. Nokkru síðar fer Þórsteinn á stað og kemur hann til konunnar í hólinn. Hún spyr hvað hann vilji nú gjöra. „Leita kóngsdóttur,“ segir hann. „Hún er þá sú er þú talar við og muntu ekki finna hana annarstaðar þó þú leitir.“ Spyr hún hann hvert hann vili eiga sig. „Gjarnan,“ svaraði Þórsteinn, „þó þú værir hálfu ljótari en þú ert.“ Fara þau nú heim og ríður hún hestinum Gullskó og þá rennur með þeim svört tík; hana hafði Þorsteinn ekki fyr séð. Þegar Þórsteinn kemur heim þá kemur kóngur á móti honum og hyggur að sjá dóttir sína, en þá hann sá konu þessa þá þótti honum hún ekki lík dóttur sinni og bað Þórstein að láta þessa konu á burt fara það fljótasta. Þorsteinn kvaðst þessa eiga mundi eða enga konu. Kóngur sagði það vera minnkun fyrir hann að eiga svoddan skrímsli sem þessi kerling væri, en Þorsteinn sagðist skyldi eiga hana ei að síður. Var þá stofnuð veizla og gekk Þorsteinn að eiga konu þessa og stíga þau í eina sæng; og um nóttina þá fellur þessi ljóti kerlingarhamur af konu Þórsteins og eins af tíkinni. Tekur Þórsteinn þá hamina og brennir og dreypir á þær og eru þær þá hinar fríðustu stúlkur.

Um morguninn snemma fer kóngur að finna Þórstein. Sér hann þá að skipt er um konu hans og líka sá hann aðra. Þótti honum það undarlegt og spyr Þórstein hvurnin á þessu standi. Þóttist kóngur sjá þar dóttir sína og spyr hana hvernin á þessu standi. Hún segir að hann skuli í dag þá allir eru við máltíð láta þann mann segja ævisögu sína er Rauður heitir – „og hefur verið hirðmaður þinn“. Kóngur lofar því og ganga þau nú öll í höllina. Og þá menn eru setztir undir borð þá gengur kóngur að Rauði með reiddu sverði og skipar honum að segja ævisögu sína. Rauður gjörir það og er það þannig sem kemur við þessa sögu: „Þegar ég var ekki búinn að vera hér lengi hjá kóngi þessum þá sá ég dóttir hans og fekk ég brátt góðan þokka til hennar. Eitt sinn fór ég á fund kóngsdóttir og lagðist með henni, þó á móti vilja hennar, og varð hún þá ólétt. En þá [ég] vissi að hún var ólétt orðin þá óttaðist ég fyrir, þá kóngur frétti það, þá mundi hann láta drepa mig. Lagði ég því á hana að hún skyldi verða að þeirri ljótustu konu og barn það er hún gekk með að svartri tík, og hún skyldi ekki úr þeim álögum komast fyrr en hún hefði hjálpað manni úr þremur þrautum og sá hinn sami gengi fríviljuglega að því að eiga hana, og mundi það seint verða.“

Þegar Rauður hafði sagt sögu þessa þá lét kóngur taka Rauð og drepa hann. Eftir það lét kóngur stofna veizlu mikla og að þeirri veizlu gaf kóngur Þorsteini dóttir sína og hálft ríkið og allt eftir sinn dag. Ríkti Þórsteinn þar vel og lengi og átti mörg börn við konu sinni.