Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hildur góða stjúpa og Ingibjörg kóngsdóttir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hildur góða stjúpa og Ingibjörg kóngsdóttir

Einu sinni var kóngur og drottning; þau áttu dóttur er Ingibjörg hét. Hún var afbragð annarra kóngsdætra bæði af fegurð og vænleika. Kóngur lét byggja henni skemmu og fekk til meyjar að þjóna henni. Þegar hún var vaxin nokkuð tók drottning sjúkdóm mjög hættulegan og lét kóngur leita henni lækninga. En læknararnir sögðu að það liti ekki út fyrir að hún mundi koma aftur til heilsu. Nú dró alltaf af drottningu og þegar hún var orðin mjög máttfarin gjörði hún boð eftir Ingibjörgu dóttur sinni áður en hún dæi. En þegar Ingibjörg kom þá hvíslaði drottning að henni og segir: „Legg ég á og mæli ég um að þú verðir aldrei ógrátandi og ósorgandi fyrr en þú ert búin að drepa mann, brenna hús og eiga barn fyrir utan frændaráð.“ Þegar Ingibjörg heyrði þetta brá henni svo við að hún varð grátin og harmandi, og tók enginn það til orða þar sem móðir hennar lá dauðvona. Litlu eftir þetta dó drottning og var hún grafin virðuglega eftir sem siður var. Harmaði kóngur drottningu mjög og hirðin, en þó barst enginn af eins aumlega og kóngsdóttir því hún var óhuggandi, hvursu sem talið var um fyrir henni; en það orðsakaðist af álögum móður hennar, en ekki af sorg eftir hana.

Þegar fram liðu stundir gengu ráðgjafar kóngs fyrir hann og sögðu hann skyldi láta af hörmum og leita sér kvonfangs. Kóngur segist mundi verða kostavandur. Þeir segja að fátt sé svo fullgilt að ekki eigi sinn líka, og muni mega fá jafnvænt drottningarefni og hin hafi verið. Kóngur segir þá að þeir skuli ráða; ekki skuli þeir taka hana á eyjum eða annesum.

Nú fara ráðgjafar kóngs og sigla þeir lengi. Kemur á þá þoka og vita þeir óglöggt hvað þeir fara þar til þeir koma að landi, og ganga nokkrir á land og þar til þeir koma að bæ vel byggðum og reisuglegum; bjó þar bóndi vellauðugur. Þeir gista þar nótt. Bóndi átti dóttur sem Hildur hét, yfirburða falleg og góðmannleg. Leizt sendimönnum svo vel á hana að þeir báðu hennar til handa herra sínum og var það mál auðsótt. Býst Hildur með þeim og er ekki getið um ferð þeirra fyrr en þeir koma heim til kóngs. Fagnar hann vel drottningarefni sínu og fékk strax ástarhug til hennar. Var til veizlu búið og mörgu stórmenni boðið. Stóð veizlan með prís og sóma; vóru höfðingjar með gjöfum út leystir. Tókust góðar ástir með þeim Hildi og konungi og líkaði öllum vel við drottningu.

Nú er að segja frá Ingibjörgu kóngsdóttur að hún er sísorgandi og óhuggandi. Var allra bragða við leitað bæði með læknismeðölum og huggunarorðum, en allt hafði sama árangur og leit ekki út fyrir annað en sorg sú mundi hana til bana leiða.

Einu sinni spyr drottning kóng hvurt hann eigi ekkert barn. Kóngur segir: „Ég á dóttur sem Ingibjörg heitir og er að dauða komin af sorg er hún hefur eftir móður sína; neytir hún hvurki svefns né matar og hefur allra bragða verið leitað, en allt til einkis.“ Daginn eftir fer drottning til skemmu Ingibjargar og er hún þá ekki betur á sig komin en henni hafði sagt verið. Gefur Hildur sig á tal við hana, en segir við þénustustúlkurnar að þær skuli ganga burtu, og þegar þær eru orðnar tvær einar segir drottning: „Þér er bezt að hyggja af hörmum eftir móður þína, og úr því ég er drottning föður þíns, en stjúpa þín, er ég skyldug að ganga þér í móður stað.“ Ingibjörg gefur lítinn gaum að orðum drottningar, en þó er hún að grafast eftir um hagi hennar þar til hún segir henni allt eins og var. Drottning segir: „Það er ekki mikilsvert að tarna.“ Ingibjörg segist frekar vilja deyja en fremja þvílík ódáðaverk. Drottning kemur henni þó til að nærast ofurlítið og eftir það fer hún til konungs. Hann spyr hvursu henni lítist á veikindi dóttur sinnar. Drottning segir hún sé þunglega veik, – „en þó held ég henni batni.“ Næsta dag fer drottning til Ingibjargar og telur um fyrir henni og líða svo nokkrir dagar og fær drottning Ingibjörgu til að vera í höllinni hjá kóngi stund og stund, og þótti honum það fara eftir öðrum dyggðum drottningar hvursu vel hún reyndist Ingibjörgu. Og einn dag eru þær á gangi úti á strætum borgarinnar; þá segir drottning: „Nú er held ég mál fyrir þig að fara að hugsa til verka þinna.“ Ingibjörg segir: „Ég get ekki hugsað til að vinna illvirki þau.“ Drottning segir: „Hér í garðshorni er drengur uppvaxandi sem heitir Sigurður, mesti aumingi bæði að viti og vexti og heilsulaus; það er einkisvert þó þú fyrirkomir honum.“ Ingibjörg segir: „Nei, það get ég ekki.“ Drottning segir: „Hann er oft hér heim í borginni hjá eldakonunum að fá sér bita; og þá skulum við hafa hann með okkur út að móðu sem er hér skammt í brott og háir klettar við. Þú skalt segja að þú hafir misst lyklana þína ofan í björgin og bið hann að fara í sig eftir þeim.“ Er ekki að orðlengja það að með fylgi drottningar fær hún piltinn til þess að fara með sér og gefa honum áður nógan mat að eta. Fer nú allt út að móðunni og á klettana þar sem þeir voru hæstir. Ingibjörg segir við Sigurð: „Hér niðrí tó í björgunum eru lyklar sem ég missti úr hendi mér og ætla ég að biðja þig að síga eftir þeim.“ Hann segir það sé annaðhvurt þó hann gjöri það henni til vilja. Binda þær nú um hann festi og heldur Ingibjörg í endann. En þegar Sigurður er kominn á ferð ofan eftir kippir drottning í Ingibjörgu svo henni verður undur bilt við og sleppir festinni, en Sigurður var dauður áður niður kom. Ingibjörg andvarpar og barmar sér yfir ódáðaverki þessu. Drottning segir það sé ekkert. Eftir það fara þær heim og varð enginn var við ferð þeirra, en Ingibjörgu fannst sér létta sorgin mikið strax þegar þessi þraut var unnin.

Litlu síðar segir drottning við Ingibjörgu eitt kvöld að hún skyldi koma út með sér. Og fara þær þar til þær koma að gullhúsinu kóngsins og skipar drottning Ingibjörgu að leggja eld að því – „er það minnstur skaði, því það stendur eitt sér.“ Hin var treg, en mátti þó til; og þegar var kviknað í húsinu fara þær heim. En um morguninn fréttist að gullhúsið væri brunnið og vissi enginn hver gert hafði. En Ingibjörgu létti meir og meir, en þó var þyngsta þrautin eftir. Kóngur elskaði drottning langtum meir fyrir það er hún bætti Ingibjörgu.

Rauður er nefndur ráðgjafi konungs og með honum í öllum ráðum, en hann var illgjarn og undirförull og spillti um fyrir öllum það sem hann gat.

Nú er að segja frá drottning að hún segir við Ingibjörgu að hún skuli koma með sér og ganga þær þar til þær koma að elfu. Þá segir drottning: „Hér verðum við að skilja og skalt þú ganga meðfram elfunni þar til fyrir þér verður skáli mjög stórkostlegur og hurð fallin að klofa. Þú gengur inn og sérð þar rúm og þó þér rísi hugur við þá verðurðu að fara upp á skörina og taktu af þér skóna og leggstu til fóta í fletinu. Síðan mun inn koma jötunn og get ég þér muni þá skjóta skelk í bringu að sjá stærð hans og ófríðleik því horið lafir á tær niður og að öllu er hann hinn leiðinlegasti. Hann mun kasta sér á fletið og sofna, en þá verðurðu að kyssa hann, og ríður þér og kannski mér mikið á að þú gjörir það. En ef þú getur það ekki með nokkru móti þá máttu leggja silki þitt á hvoft honum og kyssa hann svo, og mun það duga. Þar muntu vera sex nætur og mun ykkur það þá báðum ljúft. En þar við liggur líf mitt að þú komir þá til borgar.“ Kveðjast þær nú drottning og Ingibjörg, og heldur drottning heimleiðis, en Ingibjörg fer meðfram elfunni þar til hún kemur að stórum skála; hún gengur inn í hann, því hurð var hnigin í hálfa gátt, og að rúminu, fer upp á skörina og tekur af sér skóna og settist til fóta í rúminu. En þegar að kvöldi leið heyrir hún úti dunur og dynki og síðan er hurð upp lokið og gengur inn risi; hann var ófrýnlegur og mjög stórvaxinn og lafði hordringullinn ofan á tær. Hann tekur til orða: „Hvað, er hér þá komin Ingibjörg kóngsdóttir; ekki hafði ég það hugsað.“ Síðan slettir hann sér á fletið og leggst til svefns; hrýtur hann bráðum heldur mikillega. Ingibjörgu finnst hún ekki geta með nokkru móti kysst á hans leiðinlega hvoft, og lék um hann horið; en samt herðir hún upp huginn og tekur silki er hún hafði á silfurbelti sínu og fleygir yfir andlitið og kyssir á, fleygir svo silkinu frá sér. En að lítillri stundu liðinni heyrir hún þrusk og verður henni bilt við. Hún litast um og sér hvar risahamur liggur á gólfinu, en fríður og fallegur kóngsson í rúminu. Hún brennir haminn og dreypir á kóngssoninn. Hann raknar við og þakkar henni frelsið. Og er ekki frá því að segja nema hún er þar hjá honum sex nætur.

En frá drottningu er það að segja að eftir að Ingibjörg hvarf var hún spurð hvurt hún vissi ekkert af henni, en drottning neitaði. Var svo farið að leita að kóngsdóttur og fannst hún hvergi. Rauður ráðgjafi taldi kóngi trú um að drottning mundi hafa séð ráð fyrir dóttur hans. Kóngur var lengi tregur að trúa því, en þó gat Rauður talið svo um fyrir honum að hann féllst á sögu hans og dæmir að drottning skyldi á báli brennast og fór böðullinn með hana til aftökustaðar og kóngur og fjöldi fólks fylgdi með.

Nú segir frá Ingibjörgu að þegar liðnar eru sex nætur segir kóngsson við hana að nú muni henni mál að koma heim til borgar og vita hvað þar fram fer. Síðan kveðjast þau innilega og fer Ingibjörg og flýtir sér sömu leið og hún kom. En þegar hún kemur þar sem drottning og hún skildu áður þá kemur tík er drottning átti, á móti henni, einhvurn veginn svo dapurleg, og flaðrar að Ingibjörgu, en hleypur þó strax til baka aftur. Ingibjörg tekur til að hlaupa það henni er mögulegt því þetta gaf henni grun um að hagur drottningar mundi ei sem beztur. En þegar skammt var til borgar sér hún bál mikið, og skammt frá koma tveir þrælar með Hildi drottningu og þar eftir kóngur og fjöldi fólks. Öllum brá við þegar þeir sjá Ingibjörgu heila á hófi og stanzaði ferðina. Ingibjörg gengur fyrir föður sinn og kveður hann heldur stuttlega og segir: „Mér þykir Hildur eiga að fá laun fyrir dyggð þá er hún hefur sýnt mér, þar þú ætlar að láta brenna hana sem óbótamann.“ Kóngur segir að þetta hafi verið af fljótræði sínu og umtölum Rauðs, einnig af því að hún hefði haft við hana mest mök. Að svo mæltu skipar kóngur að leysa drottningu og tekur hana í fang sér og biður hana að fyrirgefa sér það og var það auðfengið. Fer nú kóngur og drottning og Ingibjörg til borgar og sezt hún nú í skemmu og er lítið á felli, en er frá leið fer hún að þykkna undir belti og vildu þær drottning og hún leyna því sem þær gátu.

Nokkru síðar segir Rauður við kóng: “Nú skal ég segja þér nokkuð sem þér þykir kannske ekki lítilsvert; hún dóttir þín er með barni.“ Kóngur segir: „Það getur ekki verið.“ Rauður segir: „Þú skalt þá fara og segja henni að fara upp á múrinn á morgun og kemba sér þar og vera svuntulaus á meðan.“ Kóngur féllst á þetta ráð. En drottning verður þess áskynja og fer til Ingibjargar og segir henni allt sem komið var og segir: „Þú skalt hvíla þig vel áður og ganga svo léttilega upp á múrinn sem þú getur og kemba þér þar og hafðu fötin sem víðust fyrir ofan mittið svo lítið beri á að þú sért framsett.“ Nú kemur kóngur til dóttur sinnar og segir: „Á morgun skaltu fara upp á múrinn og kemba þér þar og vera svuntulaus á meðan.“ Ingibjörg segir: „Tarna er hlálegt fyrirtæki, en þó get ég gjört þetta.“ Um morguninn fer Ingibjörg og gengur upp á múrinn og kembir sér þar, og þegar það er búið segir hún: „Nú er þetta búið“ – og fór hún svo inn aftur í skemmu sína. En kóngur gat ekkert séð á dóttur sinni að hún væri neitt ólík sjálfri sér.

Skömmu síðar segir Rauður enn við kóng að hann sé viss um að Ingibjörg sé vanfær. Kóngur segir: „Þú mátt vara þig á að ljósta lygum á dóttur mína.“ Rauður segir: „Þú skalt á morgun láta hana fara með þér og tína korn og væntir mig að hún þoli illa að beygja sig.“ Drottning verður þessa enn vör og fer til Ingibjargar og segir hvað nú sé í ráð[a]gerð, – „og skaltu láta sem þér sé ekkert á móti að fara með þeim.“ Síðan kom kóngur og segir dóttur sinni hvað hún skuli á morgun. Ingibjörg segir: „Þér hafið ekki haft það til siðs að segja mér verk og því þyki mér undarlegt að þér skuli byrja þetta nú; en þó er mér þrautlaust að gera vilja yðar í þessu.“ Um morguninn fer kóngur og Rauður og drottning og Ingibjörg út á mörkina og ætla að fara að tína og segir kóngur að þau Rauður og drottning skuli vera saman – „en ég verð með dóttur minni.“ Drottning segir: „Þér verðið nú að lofa mér að hafa það eins og ég vandist í mínu landi, að þá voru alténd saman kvenfólkið og kallmennirnir saman og vil ég að við Ingibjörg séum saman.“ Kóngur segir að það verði svo að vera, og fer drottning og Ingibjörg spölkorn frá og er drottning hin ákafasta, en er að laumast til að láta Ingibjörgu hvíla sig ofurlítið. Þeir Rauður og kóngur voru að skrafa og kepptust ekkert við. Um kvöldið vóru þær búnar með miklu meira en þeir. Fara þau svo öll heim til borgar. Kóngur segir við Rauð að hann hafi logið að sér, því ekki hafi hann séð að dóttir sín hafi nokkuð borið sig illa.

Að litlum tíma liðnum segir Rauður enn við kóng að dóttir hans sé með barni. Kóngur segir: „Ef þú lýgur nú að mér þá verður það þinn bani.“ Rauður segir: „Þú skalt fara á morgun snemma í skemmu til Ingibjargar svo þú náir henni í rúmi og láttu sem þér sé illt og leggðu höfuðið í hné henni og vittu ef þú finnur hræringar með henni.“ Kóngur féllst á þetta. En drottning komst að þessu og fer til Ingibjargar og segir henni sem fyrr er sagt. „Nú skaltu á morgun setjast snemma upp og sittu upp í rúminu og hafðu mikla fatadyngju í keltu þinni og farðu að sauma, en láttu tíkina mína vera undir fötunum og þegar faðir þinn kemur inn mun hann kvarta yfir að sér sé illt og leggja höfuðið í hné þér. En ef hann fer að tala um að hann finni hræringar þá skaltu segja að það sé tíkin.“ Um morguninn snemma fer kóngur til skemmu dóttur sinnar og varpar mæðilega öndinni. En Ingibjörg var þá setzt upp í rúminu eins og drottning hafði ráð til gefið og býður föður sínum að halla sér fyrir framan sig og ætlar að færa sig frá. En hann segir hún skuli vera kjurr og skákar sér á rúmið og leggur höfuðið á fatadyngjuna; en þegar lítil stund er liðin stendur hann upp og segir: „Hvað, ég finn hræringar með þér.“ Ingibjörg segir: „Ógnar vitleysa er í yður, það er tíkin hennar Hildar minnar sem þér eru að tala um; hún er hérna undir fötunum.“ Hann anzaði ekki og þaut út, en þegar hann er kominn út fyrir skemmuna mætir hann drottningu og leggur hún hendur um háls honum og spyr hvað hann hafi verið að fara og segir hann sem var. Hún segir: „Það er ekki fyrsta lygin hans Rauðs ráðgjafa og væri betra að hann væri drepinn.“ Kóngur kvað það satt vera. Síðan fara þau til hallar. En kóngur lét hengja Rauð á hæsta gálga og syrgði hann enginn.

Að tilteknum tíma fæddi Ingibjörg sveinbarn frítt og fagurt og var það nefnt Sigurður. Vissu öngvir af þessu nema drottning og trúustu þernur hennar. Kom drottning honum í fóstur á laun hjá einum bónda þar í borginni og galt með honum nógan auð. Og er liðin voru frá þessu tvö ár kom skipafloti að landi mjög skrautlegur. Þar af gengu tólf riddarar vel búnir að vopnum og klæðum; þó bar einn langt af öðrum. Þeir ganga heim til borgar og er kóngur og borgarlýður úti og fagnar þessum ókennda höfðingja og spyrja hann að nafni; hann kveðst Hálfdán heita. Eftir það er þeim boðið í höllina til virðuglegrar veizlu. Og annan dag veizlunnar gengur Ingibjörg í höllina með sínum meyjaskara og ber frítt og fagurt sveinbarn á handlegg sér og gengur að Hálfdáni og segir: „Ég lýsi þig eins sannan föður að þessum sveini og ég er móðir.“ Hann stendur upp á móti henni og segir það muni satt vera. Síðan fellur hann kóngi til fóta og biður hann að fyrirgefa sér þetta. Kóngur segir það muni verða svo að vera, – „en illa hef ég látið drepa Rauð minn saklausan.“ Drottning tók þá til orða og hirðin og sögðu að ekkert hefði verr fram farið síðan hann dó því hann hefði flestum hvimleiður verið og öllu frekar spillt en bætt. Drottning segir við Ingibjörgu að hún skuli nú segja ævisögu sína í áheyrn kóngs og allra og var hún treg til þess, en þó varð drottning að ráða. Byrjaði hún á því er hún kom til móður sinnar á banasæng hennar og sagði til þess er þá var komið. En er hún hafði lokið sögu sinni þakkaði kóngur fyrst þeim hæsta og þar næst drottningu sinni að Ingibjörg skyldi vera frelsuð úr ánauð þessarri. Síðan tók drottning til máls og segir að Hálfdán sé bróðir sinn, en tröllskessa hafi viljað eiga hann, en hann ekki viljað samþykkja og hún því lagt á að hann skyldi verða að ljótum og leiðinlegum risa og ekki komast úr þeim álögum nema ef kóngsdóttir vildi gefa sig til hans viljug og kyssa hann – „og það hefur Ingibjörg gjört.“ Síðan bað Hálfdán Ingibjargar og var því máli vel svarað. Er nú veizlan aukin að nýju og gerð að brúðkaupi. Gaf kóngur Hálfdáni hálft ríkið meðan hann lifði; og er átta ár vóru liðin frá þessu dó kóngur og tók Hálfdán þá við öllu ríkinu og var Hildur hjá honum og Ingibjörgu drottningu. Unntist það allt bæði vel og lengi. Og lýkur hér með þessarri sögu.