Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hildur góða stjúpa og veltandi vömb

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Hildur góða stjúpa og veltandi vömb

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér ekkert barn og varð af því sundurþykkja á milli þeirra; kenndi hvort öðru. Einu sinni gekk drottning út á skóg í snjóföli so að henni blæddi nasir. Þá sagði hún: „Það vildi ég ætti mér fallega dóttur eins hvíta og snjórinn og eins rjóða í kinnum og blóðið og eins svarta á hár og íbenholt.“ Þá heyrir hún sagt í skógnum: „og þú gætir ekki dáið fyr en þú legðir á hana þrjár þrautir og það sé að drepa mann, brenna borg og eiga barn í lausaleik.“ So fer drottning heim. So líða fram stundir þangað til drottning á meybarn og er látið heita Hildur; hún ólst upp í ríkinu og var eins og drottning óskaði.

Einu sinni leggst drottning veik og hugsa allir hún muni deyja. Þá biður hún að lofa sér að sjá Hildi dóttur sína og það er gert; en þegar Hildur kemur til hennar þá rís hún upp og segir til Hildar: „Mæli ég um og legg ég á að þú skalt drepa mann, brenna borg og eiga barn í lausaleik.“ Síðan leggst hún niður og deyr og kóngur er mikið aumur af þessu. So ráðgjafarnir segja hvort þeir eigi ekki að leita hönum kvonfangs, það dugi ekki að liggja í víl. Hann þiggur það. So sigla þeir í eitt land og finna þar kóng sem á eina dóttir, og hét Hildur. Þeir biðja hennar til handa kónginum. Hildur segir hún geri það ekki öðru móti en hún fái að vera ógift í þrjú ár og ráða öllu. Þeir lofa því. So fara þeir með Hildi og sigla heim í ríkið. Kóngur gengur til skips og segir að allt sé tilbúið í veizluna, en þá segir Hildur að hún vilji vera ógift í þrjú ár og ráða öllu. Kóngur lætur það eftir henni og fer í hernað á meðan og so fer hún heim og fer nú að skoða í öll hús og so kemur hún að skemmu Hildar kóngsdóttir og biður að ljúka upp og það er gert. Hún sér að Hildur kóngsdóttir er dauf. Hún spyr hana af hvurju hún sé dauf; hún segir henni það ekki. Hún biður hana að ganga með sér út á skóg; hún gerir það. So fara þær og ganga lengi þangað til þær koma að stórum viðarrunna. Þar rífur hún upp hríslu og segist skuli hýða hana milli hæls og hnakka ef hún segi sér ekki hvað að henni gangi. So hún segir að hún móður sín hafi lagt á sig þrjár þrautir: að drepa mann, brenna borg og eiga barn í lausaleik. Hún segir að Karkur þræll kóngsins mundi hafa gert það og skyldi hún ekki vera dauf. So fóru þær heim. En so var þar vinnu skipað að hjá eldakellingunni var einn þræll sem átti að sækja vatnið og skyldi hún hafa fataskipti við kellinguna sem Karkur væri hjá; en það væri brunnur sem hann ætti að sækja í vatnið og væri fyrst gengið niður tröppur og so á meðan er verið að sökka í skjólunum heldur kellingin í festina. En þegar Karkur væri farinn að sökka í þá skyldi hún sleppa. So fer hún og hefur fataskipti við kellinguna. Karkur verður illur og segir hún muni dáltið halda sér. Hún segist skuli bera sig að því. So fer hann að sækja vatn og fer niður tröppurnar. So þegar hann er að sökka í skjólunum þá sleppir hún og fer so og segir Hildi drottningarefni. Hún læzt verða ill við hana og slá í hana og segir hún muni hafa gert það óviljandi, það dugi ekki að tala um það fyrst so sé komið.

So fær hún smiði og lætur byggja nýja borg og þegar það er búið er borið allt úr gömlu borginni í þá nýju og so skipar hún Hildi kóngsdóttir að leggja eld í þá gömlu; so setur hún eld í hana og brennir hana. So þá kemur kóngur úr hernaði og þá sér hann þessa nýju borg og þykir mjög vænt um Hildi fyrir. So giftast þau og var mikil veizla og stóð í hálfan mánuð.

So líða fram stundir þangað til Hildur drottning kemur til Hildar kóngsdóttir og segir að af séu tvær þrautirnar, en nú sé sú versta ettir, og segir hún eigi bróður í álögum í hellir og sé þríhöfðaður þussi og skuli hún fara til [hans] og muni hann spurja hana hvort hún vilji heldur sofa hjá sér eða undir rúminu sínu og skuli hún þiggja að sofa hjá honum; og þá muni hann spurja hana hvort hún vilji heldur sofa til fóta eða í arminn hjá sér og skuli hún vilja sofa í arminn. So fær hún henni hnykil og segir hún eigi að halda í endann á hönum og fara allt sem hnykillinn fari. So fer hún og kemur að hellirnum og hnykillinn fer þar inn og hún á eftir. Hún sér þar í eitt rúm; hún fer undir það. Þegar kvöld er komið sér hún hvar kemur inn þríhöfðaður þussi með fuglakippu á bakinu og hann segir: „Þú ert þá komin hingað, Hildur kóngsdóttir.“ Hún gaf sig þá í ljós. Hann spyr hana hvort hún vilji heldur sofa hjá sér ellegar undir rúmi. Hún vill heldur sofa undir rúmi. So sofa þau af um nóttina og er hún mjög hrædd af undirgangi og ólátum í hellirnum. Aðra nóttina spyr hann hana hvort hún vilji heldur sofa hjá sér ellegar undir rúmi. Hún vill heldur sofa hjá hönum. Hann spyr hvort hún vilji heldur sofa í arminn ellegar til fóta. Hún vill heldur sofa til fóta. Þá gengur ennþá meira á en fyrri nóttina og þá verður hún ennþá hræddari, og so líður af nóttin. Þriðju nóttina spyr hann Hildi hvort hún vilji heldur sofa undir rúmi eða upp í. Hún vill heldur sofa hjá hönum. Þá spyr hann hvert hún vilji heldur sofa til fóta eða í arminn. Hún vill heldur sofa í arminn. So fara þau að sofa. Þegar líður á nóttina sér hún að dettur af hönum hamur og er þá fallegasti kóngssonur. Hún fer ofan og brennir haminn og dreypir so á kóngssoninn og er þar so nokkurar nætur. So fer hún og heim í ríkið.

So líða fram stundir þangað til að Hildur drottning segir Hildi kóngsdóttir að það sé búið að segja kónginum að hún sé vanfær og ætli hann að vita á morgun hvort það sé satt með því að [láta hana] stökka yfir virki þar skammt frá höllinni, en það gæti ekki vanfær kvenmaður, og skyldu þær hafa fataskipti, en þær þekktust ekki í sundur, so voru þær líkar. So um morguninn hafa þær fataskipti og Hildur drottning stekkur yfir díkið, og reynist lygi, og lætur [konungur] drepa þann sem sagði hönum.

Nú líða fram stundir þangað til að kóngi er sagt það attur að Hildur dóttur hans sé víst vanfær. Kóngur segist skuli vita það með því móti að láta hana leita sér lúsa á morgun og liggja í keltu hennar. So Hildur drottning segir það Hildi kóngsdóttir og skuli hún láta hvolp undir svuntu sína og láta hann detta þegar hún standi upp. So um morguninn fer hún að leita honum lúsa og hann leggur höfuð í keltu hennar. Þá finnur kóngurinn kvika undir svuntu hennar og hugsar með sér að satt sé að hún sé vanfær. En þegar Hildur stendur upp þá dettur hvolpurinn og þá sér kóngur að það er lygi og lætur drepa þann sem sagði hönum. So líða fram stundir þangað til að Hildur drottning segir við Hildi kóngsdóttur að hún verði nú að fara í hellirinn til að eiga barnið. So fór hún og kom í hellirinn og átti sveinbarn í hellirnum og er þar í mánuð. So þá segir kóngssonurinn að hún verði að flýta sín heim í ríkið, það sé búið að segja kónginum að hún sé hvorfin úr ríkinu. Hann biður hana að vera ógifta í sex ár; so hún lofar því og fer svo, en skilur drenginn eftir hjá hönum og kemst heim til skemmu sinnar. Og strax um morguninn kemur konungurinn í skemmuna og fer að tala við Hildi dóttur sína og fer so út attur.

So líða fram stundir þangað til að Hildur drottning leggst veik og lætur kalla fyrir sig Hildi kóngsdóttir og segir að þessi sótt muni draga sig til bana og muni hún fá attur stjúpu og muni hún ekki betri verða en hún hafi verið og skuli hún hafa fá orð við hana og ef hún legði á hana þá skyldi hún passa að leggja á hana attur og hafa það ekki betra. So deyr hún og er mikil veizla gjörð ettir hana og kóngur syrgði hana mikið; so ráðgjafarnir bjóða að leita hönum kvonfangs. Konungur segir hann muni ekki fá eins væna. Þeir segja að eins geti þeim heppnazt að fá væna eins og í fyrra sinnið; so hann lætur tilleiðast.

So fara þeir og þegar þeir koma að sjónum sjá þeir þar stúlku og sat á gullstól og var að greiða sér með gullgreiðu og var að gráta. Þeir heilsa henni og spurja af hvurju hún sé að gráta. Hún segir hún sé nú búin að missa kónginn sinn og hafi hún gengið að skemmta sér. Þeir segja það beri þá vel til veiði; þeir hafi átt að leita kónginum kvonfangs, hann sé nú búinn að missa sína drottningu, og hvort hún sé ekki fáanleg. Hún segir það muni fara bezt að þau eigist fyrst sona sé komið og fer so heim. Kóngur spyr hana hvort hún vilji giftast strax. So hún segist vilja það strax, kveðst vera búin að vera nógu lengi í sárum. So er slegin upp veizla og Hildur kemur ekki í veizluna. Drottning spyr kónginn hvert hann eigi ekkert barn. „Ójú,“ – segist eiga eina dóttur sem héti Hildur. Hún spyr af hvurju hún komi ekki að prýða samkvæmið. Konungur segir það liggi so illa á henni síðan hún stjúpa hennar hafi dáið. Hún segir það gefi ekki, það sé von. Og so giftast þau og kóngur fer nú í hernað og biður drottning fyrir Hildi og ríkið. Hún segir hann þurfi ekki að biðja sig fyrir þetta eina barn sem hann eigi, og ríkið skuli hún passa. So fer kóngur. En drottning fer að skoða í öll hús þangað til hún kom að skemmu Hildar. Hún biður að ljúka upp og það er gert. Hún sér að Hildur er dauf; hún fer að tala við hana og gera sig blíða í máli, en Hildur anzar henni ekki. Þá segir drottning: „Fyrst þú þykist of góð að tala við mig þá skaltu niðurlægjast og verða að einni veltandi vömb og velta land af landi og skaltu ekki komast úr þessum álögum fyr en þú færð að sofa hjá kóngi eða kóngssyni.“ Þá segir Hildur: „Mæli ég um og legg ég á að þú skalt standa með annan fótinn á skemmuvegg mínum en annan á hallarvegg föður míns og skulu tveir þrælar vera að kynda bál neðan undir og skaltu brenna að neðan en frjósa að ofan og þegar þú lítur hann föður minn koma skaltu þá detta ofan í bálið og brenna.“ Þá segir drottning: „Kippum upp, kinda mín.“ Þá segir Hildur: „Standi það sem komið er.“

So verður Hildur að vömb og fer að velta og veltur land af landi þangað til hún kemur að einu koti skammt frá einni borg og veltur inn í eldhús og sér að kellingin er að elda. Hún biður hana að gefa sér bita. Hún gefur henni bita úr pottinum. Vömbin biður hana að taka sig. Kelling segir: „Getur þú nokkuð gert, skepnan þín?“ Hún segir það geti skeð eða hvað henni komi bezt. Hún segir: að passa féð sitt; sex þrælarnir kóngsins haldi fénu hans sem bezt er, en drífi sitt þangað sem verst er og mjólki það so illa, en flæði mjólkin úr kóngsfénu. Hún segist skuli bera sig að því. So fer hún að passa féð og rekur féð kalls og kerlingar þar sem bezt [er], en drífur féð kóngsins þar sem verst er so þrælarnir sex ráða ekkert við það og flæðir so mjólkin úr kallsfénu. So þrælarnir fara að bera sig upp við kónginn, segja þeir ráði ekkert við það, það sé komin veltandi vömb til kalls og kerlingar sem drífi allt féð þar sem verst [er], en þeirra þar sem bezt er. Hann segir það sé von þeir ráði ekki við eina vömb; hann skuli fara sjálfur á morgun og vita hvort fari ekki betur. So um morguninn fer hann og hefur spjót í hendi. So kemur hann þar sem vömbin er og segir með illyrðum við vömbina hvort hún atli að halda fénu karls þar sem féð hans eigi að vera. „Ojú“ – það segist hún skuli gera. Þá segir konungur: „Ég skal þá drepa þig.“ „Gerðu það,“ segir vömbin. Þá segir kóngur: „Ég skal reka í þig spjótið mitt.“ Þá segir vömbin: „Já, gerðu það.“ Hann rekur þá í hana spjótið. Hann verður þá fastur með höndurnar við spjótið og spjótið við vömbina og so veltur hún og kóngur er alltaf að skrækja og segja hvort hún ætli að drepa sig og biður hana að sleppa sér. Hún segist ekki gera það nema hann lofi sér að sofa hjá hönum í nótt. Hann lofar því. Þá sleppir hún hönum og hann flýtir sín eins og hann getur heim í ríkið og skipar að læsa öllum borgarhliðum og hleypa öngum inn. En þegar hann er kominn þá er vömbin fyrir. Hann á þar móður. So þegar hann er háttaður vill vömbin fara upp í, en hann lofar henni ekki. Þá segir móður hans: „Lofaðirðu henni öngu, sonur minn?“ Hann segir það sé frá. „Var það víst?“ segir hún. „Já, víst var það.“ Þegar hann er farinn að sofa þá teygir vömbin sig upp á rúmstokkinn. Þá lyftir hún henni upp og setur upp fyrir hann. So sofna þau og hann snýr frá henni. So þá sér móðir hans að það dettur af henni hamur og er fallegasta kóngsdóttur. Hún brennir hann og dreypir so á hana. So um morguninn skipar hún hönum að líta upp fyrir sig. Hann segir sér detti það ekki í hug að horfa á þetta bölvað óhræsi. Hún segir það sé jafngott þó hann líti við. Hann lítur þá við og sér að það er fallegasta kóngsdóttir. Hann verður hlessa og segist ekki hleypa henni fram úr nema hún ætti sig. Hún segir það hæfi ekki hans tign, hún sé búin að eiga barn og so sé hún lofuð öðrum. Hann segist ekkert gefa um það, hún sé allt eina góð fyrir því. So hún má til nauðug viljug og er so slegið upp veizlu og er í veizlunni allt sem nöfnum tjáir að nefna. Og um kvöldið er drepið á dyr. So þá fer hún til dyranna og sér þar kominn piltinn sinn með barnið sem þau áttu. So hann segir að nú sé hann kominn að eiga hana. So hún sagði hönum frá öllu. Hann segir að hann mundi ekki lifa nema í eitt ár og er hann þar um tíma og fer so. Þegar ár er liðið þá deyr kóngurinn og er gerð heiðarleg veizla ettir hann. So þá kemur hinn og á hana og verður kóngur yfir ríkinu ettir hinn. – Og endar so þessi saga.