Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hringur konungsson og Vilborg bóndadóttir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hringur konungsson og Vilborg bóndadóttir

Svo er sagt að í fornöld hafi verið kóngur og drottning í ríki sínu er átt hafi son þann er Hringur hét. Hann var snemma bráðgjör og þókti af flestum bera; en einn galli var á honum sem var að hann var mjög dramblátur og olli það honum mikillar vanvirðu. Nálægt konungsríkinu bjó bóndi nokkur með konu sinni og áttu þau allmikinn bústofn og þar að auki jarðagóðs mikið. Svo bar við eitthvert sinn að bóndakona verður þunguð eins og lög gjöra ráð fyrir. Líður nú að þeim tíma er bóndakona skuli fæða og fæðir hún þá fagurt meybarn og eykur það hjónunum mikillar gleði. Eru nú gjörð boð eftir kóngssyni að hann komi og haldi barninu undir skírn, og það gjörir hann. Var meyjan síðan vatni ausin og nefnd Vilborg og var þar viðstatt fjöldi fólks meðal hverra var Finna nokkur fjölkunnug. Kveður hún upp úr eins manns hljóði og segir sig gruni að kóngssonur haldi nú konuefni sínu undir skírn. Af þessu þykkist konungsson, en lætur þó eigi á bera. Biður hann síðan hjónin að gefa sér barnið, en þau voru treg til þess. En hann biður því ákafar, því hann var þegar búinn að fá hatur á því og ætlaði með því að fyrirbyggja að hún yrði kona sín. Verður það samt að þau gefa honum barnið og fer hann heim með það. Líður svo nokkur tími þangað til barnið er orðið tveggja ára. Kallar hann þá þræl sinn fyrir sig og fær honum barnið og bréf með sem hann átti að færa föðursystir hans ásamt barninu; en áður en þrællinn færi á stað hjó hann skurð á milli herða barnsins svo hann gæti þekkt hana aftur ef þetta fyrirtæki hans kynni að bregðast. Leggur þrællinn síðan á stað og er hann á ferð um nætur, en svaf um daga.

Eitthvert sinn kemur hann að prestsetri nokkru og gengur út í kirkjugarðinn og leggur sig til svefns og barnið hjá sér. Verður presti þá reikað út í kirkjugarð og sér hvar maður sefur, og undrast það mjög og fer að grennslast eftir og sér hann þá barnið liggja við aðra hlið hans, en tösku við hina. Opnar hann töskuna og sér að þar er bréf með innsigli konungssonar. Brýtur hann bréfið upp og sér að innihald þess er að konungssonur biður föðursystur sína að láta strax drepa barnið og það komi til hennar svo það gæti ei orðið sem fyrir var spáð. Tekur prestur þá bréfið og stílar annað bréf svolátandi að hún eigi að ala hana upp sem bezt hún geti svo hún gæti orðið sér samboðin. Innsiglar prestur síðan bréfið eins og það var áður og lætur á sinn stað. Vaknar þrællinn síðan og veit ekki hvað við hefur borið, heldur síðan leiðar sinnar og linnir eigi fyr en hann kemur þangað sem frændsystir kóngssonar var og afhendir henni bréfið og barnið og verður hún fegin að geta gjört bróðursyni sínum það til þægðar. Líður svo fram um hríð og kyrrð er á öllu.

Einu sinni fer Hringur konungsson að finna systir sína og spyr hann hana þá hvort hún hafi gjört það sem hann hafi beðið hana. Hún sagði að hún hefði gjört það eftir getu; síðan fer hún burtu og kemur aftur og leiðir við hönd sér Vilborgu búna konunglegum skrúða. Verður kóngsson þá afar reiður og spyr hvort hann hafi beðið hana þess. Hún kvað já við. Kýttu þau svo um þetta þar til hún sýnir honum bréfið og getur hann þá ekkert sagt, heldur heimtar þræl á fund sinn og skipar honum að fara með Vilborgu út á skóg og drepa hana og færa sér úr henni lifur og lungu, hárlokk og blóð í horni. Fer þrællinn síðan sem fyrir hann var lagt; en er hann kemur út á skóginn getur hann ómögulega fengið af sér að drepa hana, en tekur hárlokk úr hári hennar og drepur dýr sem hann fann í skóginum og tekur úr því lifur og lungu og blóð í horn. Leggur hann síðan á stað og fær kóngssyni og tekur hann það fyrir satt er þrællinn sagði.

En það er frá Vilborgu að segja að hún heldur áfram þar til hún kemur ofan að sjó og sér þar skip á floti. Biður hún þá skipverja að taka sig og gjöra þeir það sökum meðaumkvunar við hana. Sigla þeir síðan frá landi og létta eigi ferð sinni fyr en Þeir lenda við Frakkland. Gengur kóngur til strandar og býður skipsmönnum heim með sér. Geðjast honum svo vel að Vilborgu að hann lætur hana í kastala hjá dætrum sínum sem voru tvær og lýsir því yfir að hún sé dóttir sín. Ber Vilborg langt af hinum um alla hluti og berst það um öll lönd að kóngur þessi eigi þrjár dætur og allar efnilegar, en sú yngsta beri þó af hinum. Berst þetta til eyrna Hringi kóngssyni og leggur hann þá á stað í þeim tilgangi að fá yngstu dóttir kóngs fyrir konu; og er hann kemur til kóngs biður hann hennar og fær hana. Leggur hann þá heimleiðiðs og gengur að eiga hana og erfði ríkið að föður sínum látnum; en drottning varaðist að láta hann sjá sig nakta á bakinu. En einu sinni kemur konungur að henni þegar hún er að hafa fataskipti, og sér skurðinn á baki hennar. Verður drottningu þá svo hverft við að hún fellur í ómegin, en konungur kemst svo að orði: „Hægt er að fresta forlögunum, en ekki fyrir þau komast.“ Dreypir hann síðan á drottningu og biður hana forláts á öllu því er hann hafi gjört henni. Setjast þau síðan að í ríki sínu og taka foreldra drottningar heim í ríkið og eignuðust mörg börn sem fetuðu í fótspor þeirra, og önduðust í góðri elli. Og ljúkum vér svo sögunni af Hringi og Vilborgu.