Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hundurinn Svartur

Úr Wikiheimild

Það var eitt sinn kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu þrjár dætur. Ekki [er] getið hvað þær hétu utan sú yngsta; hún hét Ingibjörg og var hún í minnstum metum hjá foreldrum sínum. Þegar þær voru á legg komnar þá lét kóngur búa til handa þeim hús mikið og voru þær látnar vera í því.

Eitt sinn ætlaði kóngur úr landi að taka skatta af öðrum löndum er hann átti. Áður kóngur gekk á skip þá fór hann að finna dætur sínar: „Nú ætla ég úr landi og vildi ég að þið beidduð mig að útvega ykkur eitthvað það er ykkur langar til að eiga.“ Dætur konungs tvær, þær er ekki eru nefndar, biðja föður sinn að útvega handa sér stól og gullrokk. „Hvurs biður þú, Ingibjörg?“ segir kóngur. „Ekki neins,“ segir hún. „Þú ert eins [í] þessu sem öðru,“ segir kóngur; „þú fyrirlítur jafnan það er ég vil gjöra þér til ánægju.“ Ingibjörg segir: „Fyrst þú vilt að ég biði þig einhvurs og þú tekur það upp fyrir óþokka af mér að ég bið þig ekki bónar þá bið ég þig að útvega mér gullepli.“ Kóngur lofar því og kveður hann nú dætur sínar, siglir á stað og er ekki getið um ferð hans.

Fáum árum síðar þá kemur kóngur heim og hafði honum gengið vel ferðin og gat hann útvegað bæði stólinn og gullrokkinn. Fer hann með þá gripi til dætra sinna og afhendir þeim þá. Segir hann Ingibjörg[u] að hann hafi ekki getað fengið eplið það sem hún beiddi, og varð Ingibjörg ekki óánægðari en áður þó hún fengi ekki eplið.

Liðu nú svo fram tímar að ekki bar til tíðinda. Eitt sinn fór kóngur út á skóg með hirð sinni og vildi kóngur skemmta sér. Reið kóngur og hirðin langt út í skóginn og sló þar yfir þá [þoku] mikilli. Fór þá hirðin að sundrast og kom þar um síðir að kóngur villtist frá öllum mönnum og vissi hann ógjörla hvað hann fór. Þegar hann hefur riðið mjög lengi þá kemur hann loks að garði einum mjög stórum. Sér hann hvar hlið er á garðinum og fer þar af baki við hliðið og skilur þar eftir hestinn og gengur síðan inn. Þegar hann kemur inn í garðinn sér hann höll mikla og voru hlið hennar opin. Gengur kóngur inn í höllina. Sá hann þar allt sópað og prýtt og mat á borðum. Hásæti var þar í höllinni. Settist kóngur í það og [tók] til matar. Þegar hann er búinn að borða þá kemur skál full af vatni á borðið og þvoði kóngur sér úr skálinni. Að þessu búnu þá sér kóngur koma ljós í höllina. Gekk kóngur þangað er hann sá ljósið, en ljósið færðist undan honum þar til er hann kom að rúmi einu og var það vel búið. Kóngur hugsar nú sér muni bezt að hvíla þar um nóttina. Slokknar nú ljósið og finnst kóngi vera dregin af sér skór og sokkar, en hvurgi gat hann mann séð. Fór nú svo fram nokkra daga að [kóngur] var í höll þessari og át þar og drakk og fór allt á sama veg og áður er sagt og aldrei varð hann var við nokkurn mann. Þegar kóngi fer að leiðast þessi einvera þá fer hann að ganga í kringum höllina. Sér hann þá sunnan til við höllina garð einn og var hann þakinn af gulleplum. Minnist þá kóngur þess er Ingibjörg bað hann um eplið. Tekur hann þá hið fallegasta epli er hann fann í garðinum og fer hann nú að leita að hliði því er hann kom inn um og finnur hann það bráðum og vill hann þá út ganga. Þegar hann kemur út í hliðið þá mætir honum svartur hundur og var mjög stór. Hundurinn tekur til orða þannig: „Hvur leyfði þér hér inngöngu?“ Kóngur segir það hafi enginn gjört. Hundurinn segir: „Þú hefur ekki látið þér nægja allar þær góðgjörðir er þú hefur hér af mér þegið, heldur tekið epli er ég átti fallegast. Kjós þú nú um tvo kosti, kóngur,“ segir hundurinn; „er það sá fyrri að þú gefir mér þá dóttir þína sem hefur beðið þig að útvega þetta epli, en ef þú vilt það ekki gjöra þá drep ég þig.“ En kóngur kjöri heldur að lofa honum dóttir sinni þó honum þækti neyðarúrræði. Að níu dögum liðnum sagðist hundurinn koma eftir dóttur kóngs.

Eftir þessa viðureign þeirra kóngs og hundsins svarta þá ríður kóngur heim og fær hann dóttir sinni eplið og segir henni með hvurju móti hann hafi fengið það. Segir hann henni hann hafi vorðið að lofa henni óargadýri til eignar til þess að geta haldið lífi. Segja þær systur hennar að henni verði það að maklegleikum, því hún hafi líklega ætlazt til að faðir þeirra yrði drepinn.

Þegar þeir ákveðnu níu dagar voru liðnir þá kemur hundurinn og var hann í vagni og drógu hestar vagninn. Ekki sáust þar menn neinir. Bjóst nú Ingibjörg til ferðar og fór hún í vagninn. Fylgdi faðir hennar henni út yfir borgarhliðin og systur hennar og létust þær gráta hana. Snýr nú kóngur aftur og dætur hans tvær, en Svartur fer leiðar sinnar og Ingibjörg með honum heim til sín. Þegar hund[urinn] kemur heim lætur hann Ingibjörgu fá að borða, en hverfur í burt. Um kvöldið kemur hundurinn til Ingibjargar og fylgir henni til rúms. Spyr hann hvurt hún vilji eiga sig, en hún neitar fljótt. „Svo er ástatt fyrir mér,“ segir hann, „að ég er jafnan hundur á daginn, en maður að nóttunni.“ Liggur hann nú hjá henni um nóttina. Þegar líður að degi þá fer hann úr rúmi. Vill þá Ingibjörg að hann sé kyr, en [hann] kvaðst það ekki mega. Segir hann að hún muni heyra allra handa skemmtanir, en ekki muni hún sjá neitt, og fer það eins og hann sagði; hún heyrði jafnan allra handa hljóðfæraslátt, en sá ekki. Svartur var ætíð í burt á daginn, en lá hjá Ingibjörgu um nætur, því þá var hann jafnan maður.

Þegar liðið var ár frá því er hún kom í þennan stað þá var hún ólétt orðin og komið allt að þeim tíma er hún skyldi ala barnið. Morgun einn þegar Svartur vill fara í burtu þá kennir hún sér sóttar og beiddi hann að vera hjá sér meðan hún ali barnið, en hann kvaðst hvurki geta það eða mega. „Stúlka skal koma til þín og á hún að vera hjá þér meðan þú elur barnið, en gáðu að því: talaðu ekki við hana og skiptu þér ekkert af henni nema þigg það er hún vill þér gott gjöra.“ Skilja þau nú; og stuttu eftir það þá kemur til hennar kona gömul mjög og var hún hjá Ingibjörgu meðan hún ól barnið. Tók hún barnið og fór á burt með það; það var sveinbarn. Töluðu þær ekki orð saman Ingibjörg og hin gamla kona. Ingibjörg var í höll þessari í sex ár og átti þar þrjú börn og voru það allt sveinar og vóru þeir allir teknir frá henni þegar þeir fæddust. Sú hin gamla kona var ætíð hjá henni meðan hún átti börnin og hún tók börnin með sér á burt.

Nótt eina þá Svartur lá hjá Ingibjörgu þá spyr hann hana hvurt hún vili ekki fá að sjá sonu sína. Ingibjörg sagðist það gjarnan vilja. Þegar dagar þá hverfur Svartur á burt, en áður langt líður kemur hann aftur. Bendir hann þá Ingibjörgu að fylgja sér og gjörir hún það. Þegar hún kemur út fyrir borgina þá sér hún þar vagn og voru hestar spenntir fyrir vagninn, en ekki sá hún mann neinn. Fara þau nú í vagninn Ingibjörg og Svartur og stýrði Svartur vagninum, en hestarnir drógu hann. Fara þau nú langa leið þar til þau koma að höll einni. Svartur sagði að í þessari borg væri hinn elzti sonur hennar og skyldi hún nú fara og finna [hann], – „en vertu ekki lengi“. Gengur nú Ingibjörg í borgina og er henni þar vel tekið og fékk hún að sjá son sinn, var hjá honum litla hríð og út eftir það, sté í vagninn og fór hann á stað og fór dag allan. Koma þau að kvöldi [að] annari borg og var hún að öllu meiri en hin. Nú lætur Svartur vagninn þar staðar nema og segir Ingibjörgu að í þessari höll sé annar sonur hennar – „og far þú nú að sjá hann og vertu ekki lengi“. Fer nú Ingibjörg í höllina og var henni þar vel fagnað; sá hún þar son sinn. Var hún hjá honum litla stund og fór á stað eftir. Gengur hún í vagninn og fór hann á stað eftir það. Fara þau nú langan veg þar til þau koma að hinni þriðju borg. Stanzar Svartur þar og bað Ingibjörgu leita að syni sínum þeim yngsta í þessari borg. Fór Ingibjörg nú í borgina og fann hún þar son sinn. Áður þau skildu Ingibjörg [og] Svartur þá bað hann hana að vera ekki lengi inni í borginni, já, ekki lengur en klukkutíma. Ingibjörg lofar þessu. Þegar hún er komin í borgina þá gleymir hún því og var þar lengi. Þegar kvöld er komið þá man hún hvurju hún lofaði. Verður henni þá illa við og hleypur út; er þá hvorfinn hundurinn og vagninn. Veit nú Ingibjörg ekki hvað hún skal gjöra. Ræður hún það þá af að hún fer að ganga og gengur hún lengi og vissi ekki hvað hún fór.

Þegar hún hefur farið langan veg þá finnur hún að hallar undan fæti. Gengur hún ofan eftir þessum halla. Sér hún þá fyrir sér dal mikinn. Fer hún ofan eftir dalnum. Sér hún þá bæ í dalnum. Fer hún þar heim. Kemur þá tröllkona út úr bænum og býður hún henni inn, gjörir henni greiða og lofar henni að vera. „En verk nokkurt verður þú að gjöra fyrir mig á morgun,“ segir kerling. Ingibjörg lofar því hverki eða neitar og hvíla þær nú nóttina. Morguninn eftir koma þær á fætur. Biður þá kerling Ingibjörgu að gæta sauða sinna. Síðan fær hún henni flekkótt skinn: „Skinn þetta áttu að elta svo það hvíta verði svart og það svarta hvítt.“ Fer nú Ingibjörg með sauði til beitar og fer að elta skinnið. Fer þá svo að það hvíta hvítnar því meir sem það er meira elt og það svarta það verður því svartara sem það [er] elt meira, en allt fyrir það er hún [að] elta og er hún við það allan daginn fram yfir dagsetur og er þá skinnið eins og áður. Fer hún nú að gráta og situr þar ráðalaus því hún átti drepin að verða um kvöldið ef hún gæti ekki gjört það er kerling lagði fyrir hana. Þá hún hefur verið þarna grátandi nokkra stund kemur til hennar maður; býður hann henni að hjálpa henni ef hún vili kyssa sig, en hún vill það ekki gjöra. Aðkomumaður tekur nú stokk úr vasa sér og slær honum á skinnið. Fær það þá þann lit er kerling hafði til ætlað, og að þessu búnu þá fer aðkomumaður frá henni á burt og fer hún heim til kerlingar. Undrast þá kerling er hún sá skinnið og segir: „Duld er ég hvur þig styður, en varla munt þú ein vera.“ Er hún nú hjá kerlingu þessa nótt og þiggur hún af henni góðan beina. Daginn eftir biður kerling hana að fara fyrir sig ferð eina til systur sinnar og sækja til hennar poka fullan af fuglum. Ingibjörg fer á stað og vissi hún ekki hvað halda átti því ekki vildi kerling segja henni það. Gengur hún nú þar til hún er orðin uppgefin; sezt hún þá niður og fer að gráta. Þegar dimmt er orðið kemur til hennar maður og segist skuli hjálpa henni ef hún vili kyssa sig, en hún vill það ekki. Maðurinn segir: „Þó þú vilir ekki þetta gjöra sem ég bið þig þá vil ég hjálpa þér.“ Tekur hann þá hnoða úr vasa sér og fær það Ingibjörgu og segir henni að hún skuli láta það velta á undan sér – „og þegar það er [á] enda þá muntu komin svo [langt] að þú getur séð býli kerlingar. Þegar þú kemur til kerlingar þá mun hún gefa þér að borða brauð og blómur, en þú skalt [ekki] éta blómur þann því hann á að deyða þig.“

Skilja þau nú og fer Ingibjörg þar er hnoðað fer fyrir, og þá það er á enda þá er hún komin allt að býli kerlingar. Gengur hún þá heim á bæinn og ber á dyr. Kemur þá kona heldur ljót. Býður hún Ingibjörgu að koma inn og þiggja að borða. Ingibjörg þiggur það. Segir nú Ingibjörg kerlingu frá hvurjum hún væri send og hverra erinda. Kerling tekur því vel. Útvegar hún mat handa Ingibjörgu og var það er áður var nefnt. Fer nú kerling burtu á meðan Ingibjörg borðar. Borðar hún nú brauðið, en fleygir blóðinu upp fyrir kistu. Kemur þá kerling inn og spyr hvurt hún hafi étið slátrið. Ingibjörg segir já. „Hvar ertu, blómur?“ segir kerling. „Fyrir ofan kistu,“ segir hann. Tekur hún þá blóðið og segir Ingibjörgu borða; með það fer hún fram. Nú tekur Ingibjörg blóðið og lætur það upp í skáp. Þá kemur kerling og spyr: „Hvar ertu blómur?“ „Ég er upp í skáp.“ Tekur kerling hann þá og segir Ingibjörgu borða ella skuli hún drepin verða. Fer nú kerling frá henni og fer að búa til fuglapokann. Kemur nú kerling og spyr hvurt hún hafi borðað blóðið. Ingibjörg segir já. „Hvar ertu, blómur?“ segir kerling. „Ég er á maga Ingibjargar.“ Heyrist þá kerling hann segja hann væri í maga Ingibjargar; en Ingibjörg hafði látið hann á maga sér á meðan kerling var á burtu. Fær nú kerling Ingibjörgu fuglapokann og [eru] fuglarnir allir lifandi. Fer nú Ingibjörg á stað með fuglana og létu þeir heldur illa í pokanum. Þegar hún er búin að ganga daglangt þá þreytist hún og sezt hún niður undir eik einni og fer að skoða í pokann; en þar hafði hún verið beðin fyrir af manni þeim er hjálpaði henni mest, að leysa ekki frá pokanum hvernin er fuglarnir léti í honum. Þegar Ingibjörg hefur leyst frá pokanum þá fljúga fuglarnir allir úr pokanum og upp í eikina. Verður hún nú ráðalaus og fer að gráta. Um kvöldið þá dimmt er orðið þá kemur til hennar maður og segist skuli hjálpa henni ef hún vili kyssa sig, en hún vill það ekki gjöra; en allt fyrir það þá hjálpar aðkomumaður henni að ná fuglunum og láta þá í pokann og [að] því búnu fer hann frá henni, en hún fer heim og fær kerlingu pokann. Segir þá kerling eins og fyrri: „Duld er ég hvur þig styður, en varla muntu ein vera.“ Er nú kerling kát mjög og lætur hana hafa hvað hún vill til matar um kvöldið.

Daginn eftir biður kerling Ingibjörgu að útvega sér svartan hund með hvítan díl á bringunni og í rófunni. Þykir nú Ingibjörg[u] það ekki betra en það fyrra, því hún vissi það mundi vera hundur sinn. Fer hún þó á stað. Þegar hún hefur ekki lengi gengið mætir henni hundurinn. Snýr hún þá aftur og fylgir Svartur henni og þegar hún kemur heim á bæinn þá hleypur hundurinn upp á kerling[u] og rífur hana á hol. Fara þau þá þaðan og koma að borg þeirri er yngsti sonur þeirra var. Þegar þau eru til hvíldar komin um kvöldið þá spyr Svartur sem fyr hvurt hún vili ekki eiga sig, og sagðist þá Ingibjörg gjarnan vilja; kvað hún hann hafa unnið til þess þá hann hafi hjálpað sér úr mörgum vanda. Morguninn eftir heldur Svartur brúðkaup sitt og um kvöldið þá þau eru í rúm komin þá biður hann konu sína að taka haminn og brenna – „því nú er ég laus við hann.“ Hún gjörir það er hann bað hana og um morguninn lá hann kyr hjá henni er hann hafði aldrei gjört áður. Nú sá Ingibjörg að þetta var hinn fríðasti maður og þótti henni nú vænkast ráð sitt. Spyr hún hann þá hvernin á honum stæði og af hvaða fólki hann væri kominn og lofar hann því að segja henni það. „Ég er son kóngs nokkurs og bróðir þeirra manna er ráða borgum þeim er synir okkar eru í. Eitt sinn fór ég á skóg að skemmta mér. Kom þá yfir mig þoka mikil og villtist ég og kom að lyktum til tröllkonu þeirrar er þú varst hjá. Vildi hún að ég ætti sig, en ég vildi það ekki og fyrir þá sök lagði hún á mig og átti ég ekki að komast úr þeim álögum utan að ég gæti átt þrjá sonu með þeirri stúlku er væri komin af kóngaætt og jafnframt hjálpaði henni úr þremur þrautum og hún væri sjálf dauð. Er þetta nú allt fram komið og því er ég laus þessara álaga.“ – Lifðu þau bæði vel og lengi og bræður hans allir og átti það allt bæði syni og dætur.