Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hyrnihraukur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hyrnihraukur

Kall og kerling bjuggu í garðshorni allvel fjáð og áttu einn son; hann hét Hyrnihraukur. Eitt sinn [fóru] kall og kona hans heim í konungsríki erinda sinna, en skildu eftir strák sinn heima. Kall léði honum gulltafl sem hann átti og hafði þá náttúru að það tefldi sér sjálft móti öðrum. Hyrnihraukur átti hund sem hét Gullintanni. Nú sezt strákur á pallinn í baðstofunni og fór að tefla. Eftir nokkra stund geltir hundurinn úti og hleypur inn. „Að hverju geltirðu, Gullintanni minn?“ sagði Hyrnihraukur. „Gýgur er komin að garði,“ sagði hundurinn. „Hvað langt?“ „Að túngarði.“ „Ekki lengra?“ sagði Hyrnihraukur; „tefla má ég enn.“ Nú geltir Gullintanni annað sinn. „Að hverju geltirðu, Gullintanni minn?“ sagði Hyrnihraukur. „Gýgur kemur að garði,“ sagði Gullintanni. „Hvað langt komin?“ sagði Hyrnihraukur. „Heim á mitt tún,“ sagði Gullintanni. „Tefla má ég enn eitt,“ sagði Hyrnihraukur. Og enn gelti Gullintanni. Þá spyr Hyrnihraukur: „Að hverju geltirðu, Gullintanni minn?“ „Gýgur er komin að garði.“ „Hvað langt?“ „Í baðstofudyr.“ Og í sömu svifum er skessan komin upp á pallinn, þrífur Hyrnihrauk og taflið og kastar í belg sinn. Síðan hleypur hún út og til fjalla. Á miðri leið segir hún: „Ég þarf að ganga þarfinda minna, en vertu kyrr á meðan.“ „Farðu út á hvínandi haf svo hvergi leggi þefinn af,“ sagði Hyrnihraukur. Skessan fór burtu, en hann skar sig úr belgnum, tók taflið, en fyllti belginn í staðinn með grjóti og lét al í sem hann bað svara fyrir sig einu orði. Nú hljóp hann heim. Þegar skessan kom að belgnum segir hún: „Ertu þar Hyrnihraukur?“ „Já,“ segir alurinn. Síðan kastaði hún belgnum á bak sér og gekk heim til hellis. Þegar hún leysti ofan af belgnum sér hún þar tómt grjót. Nú verður hún reið og hleypur aftur heim að garðshorni. Þá fór sem fyrra sinni að Hyrnihraukur tefldi þó Gullintanni varaði hann við, þangað til skessan kom og tók hann og taflið. Á miðri leið þurfti hún enn að ganga þarfinda sinna. Hyrnihraukur sagði sem fyrri: „Farðu út á hvínanda haf svo hvergi leggi þefinn af.“ „Nei,“ sagði hún, „heldur mun ég gjöra allt í skinnbrók mína.“ Síðan hélt hún áfram með belginn og heim í helli sinn. Nú tekur hún strák og fer með hann til dóttur sinnar. Það var ung stelpa. „Hvort viltu heldur verka skinnbrók mína og sækja boðsfólkið,“ sagði kelling, „eða slátra stráknum, matreiða og bera á borð?“ „Verka þú sjálf brók þína!“ sagði stelpa, „en ég skal matreiða.“ Kelling fær henni öxi og fer svo út. „Bítur öxin?“ sagði Hyrnihraukur. „Nei,“ sagði stelpa. „Þá skal ég draga hana,“ segir hann. Þegar hann var búinn að því segir hann: „Kanntu nú að höggva mig?“ „Nei,“ segir hún, „það hefi ég aldrei gjört.“ „Þá skal ég kenna þér það,“ segir Hyrnihraukur; „leggstu niður! Ég skal ekki meiða þig.“ Hún gjörir þetta, en hann hjó af henni höfuðið. Nú fer hann í föt hennar, brytjar skrokkinn og sýður; síðan ber hann á borð. Eftir þetta kemur kelling með fjölda trölla; voru það hinar verstu ófreskjur, tví- og þríhöfðaðir þussar. Nú settust allir að borðum og tóku til snæðings og hafði kelling nóg vín áfengt á borðum. Dóttir skessunnar gekk um beina. Þegar tröllin fóru að verða ölvuð gjörðust þau hávaðamikil, og voru mikil sköll og gleði í hellinum. Þá segir skessan: „Sæktu hörpuna mína góðu, Hveðra litla, og leiktu fyrir okkur.“ „Hvar er hún?“ segir stelpa. „Veiztu það ekki kindin þín? Í neðstu kistunni minni.“ „Já, svo var það!“ segir Hveðra, fer í afhelli og eru þar tólf kistur hverjar upp á öðrum. Hún tekur allar ofan og finnur hörpuna, fer inn og tekur að leika; en Hyrnihraukur kunni manna bezt þá íþrótt. Við þetta þögnuðu tröllin og þótti mesti unaður. Fór svo um síðir að allir sofnuðu. Þá fór Hyrnihraukur til og bar allt fémætt úr hellinum, bar allan eldiviðinn í hellisdyrnar og lagði eld í. Hellirinn fylltist af reyk og loga og brunnu öll tröllin þar inni. Nú fer Hyrnihraukur heim og flytur síðan allt gótsið frá hellinum, en það var ógrynni fjár. Varð hann vellauðugur og mikils metinn.

Svo er þessi saga búin.