Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ingibjörg kóngsdóttir

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Ingibjörg kóngsdóttir

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og voru barnlaus. Þau langaði þó mjög að eignast barn. Einu sinni var drottning að ganga úti og var lausamjöll mikil. Henni blæddu mjög blóðnasir og óskaði hún sér þá að hún ætti eins fallega dóttur eins og blóðið og snjórinn væri að sjá saman. Hjá kóngi var þræll sem Surtur hét. Hann heyrði orð drottningar og bætti við ósk hennar þessum orðum: „Og þú hefðir dauðlegt hatur á henni.“

Nú liðu tímar fram og ekkert er til frásagnar fært. Eitt sinn finnur drottning á sér að hún muni vera með barni. Þegar líður á meðgöngutímann biður hún mann sinn þeirrar bónar að láta þegar fyrirfara barninu þegar það fæðist. „Því skaltu aldrei fá að ráða,“ segir hann. Nú kemur að því að drottning fæðir barn og er það fríð og fögur mey sem nefnd er Ingibjörg. Kóngur lætur smíða skemmu, fær sér fóstru og lætur barnið þangað með henni, en þetta mislíkar drottningu mjög. Meyjan vex upp og verður svo fögur að menn höfðu ekki séð hennar líka. Einu sinni verður drottning veik og er mjög þungt haldin. Þá lætur hún kalla til sín dóttur sína og hvíslar einhverju að henni sem enginn heyrir. Eftir það deyr drottning og er hún heygð og syrgir kóngur hana mjög. En Ingibjörg fer til skemmu sinnar og er aldrei ógrátandi.

Nú víkur sögunni að jarli einum; hann bjó í eyju skammt frá konungi og átti dóttur eina er Hildur hét. Kóngur biðlar til þessarar jarlsdóttur, fær hana og er brullaup þeirra haldið í höll konungs og er þá mikið um dýrðir, en engu getur Ingibjörg sinnt vegna óánægju; hún situr í skemmu sinni og grætur. Einu sinni fer hin unga drottning til skemmu Ingibjargar, ber á dyr og biður hana að ljúka upp. Það gjörir hún. Drottning biður hana ganga með sér út á skóg í dag. Ingibjörg færist mjög undan því, en þó verður það úr eftir langa nauð að þær fara báðar af stað. „Nú bið ég þig,“ segir drottning, „að segja mér hvað að þér gengur og hvað ollir þínum mikla harmi.“ Ingibjörg færist undan að segja frá því og þó drottning spyrji hana hvað eftir annað vill hún ekkert segja. Loksins koma þær að móðu einni. Þá segir drottning: „Annaðhvort skal ég nú steypa þér í móðu þessa eða þú skalt verða að segja mér af hverju þú grætur.“ En Ingibjörg kaus heldur líf og sagði henni frá að þegar móðir sín hefði talað við sig þá hefði hún lagt það á sig að hún skyldi eiga barn í föðurgarði, drepa mann og brenna borgina hans föður síns. „Þetta skaltu ekki láta fá á þig,“ mælti drottning, „og skal ég hjálpa þér úr þessum kröggum. Þú skalt segja þræli Surt að þú hafir séð fagurt gras í sjávarklettum í dag og biddu hann að síga eftir því og þegar hann er kominn svo langt í klettana að hann kemst ekki upp aftur þá skaltu sleppa bjargfestinni svo hann falli í sjóinn.“ Þessu hlýddi Ingibjörg og drap hún Surt með þessu móti. Síðan fór Ingibjörg heim.

Nú kemur drottning eitt sinn að máli við konung og mælti: „Þú situr mikið kyrr heima í borg þinni, konungur, og aldrei ferð þú út á skóg að skemmta þér eins og aðrir konungar gjöra.“ Konungur kvaðst fara skyldi út á skóg þegar hún vildi og tók sig til og fór einn dag með alla hirð sína. Gjörði drottning þá Ingibjörgu vara við, lét hana hjálpa sér að bera alla dýrgripi út úr höllinni og lagði síðan eld í hana. Síðan fékk hún Ingibjörgu knýtilskauta og sagði henni að elta hann út á skóginn, og mundi hann staðnæmast við skáladyr nokkrar og þegar hún kæmi þangað riði henni á að sjá skálabúann áður en hann sæi hana. „En fari svo að þig dreymi mig,“ mælti drottning, „þá skaltu koma til mín svo fljótt sem þá getur.“ Nú fer Ingibjörg á skóginn og kemur loksins að skáladyrum; þar gengur hún inn og stendur bak við hurðina. Að góðum tíma liðnum kemur risi mikill í skálann; hann heldur á bjarndýri á bakinu og kastar því á gólfið. Þá sér hann Ingibjörgu, en hún var búin að sjá hann áður. Ingibjörg biður risann frá stjúpu sinni að lofa sér að vera nokkrar nætur. Hann tekur því vel og segir henni að koma lengra inn í skálann. Hún sér þar stórt rúm uppbúið og annað lítið undir hinu og var það rúm kringlótt. Risinn spyr hvort hún vilji heldur sofa hjá sér eða hundinum sínum, en hún kaus heldur að sofa hjá hundinum. Nú er Ingibjörg í skála þessum nokkrar nætur. Eina nóttina vaknar hún og heyrir drunur miklar, og þær svo ógurlegar að eins er og jörðin ætli að bresta í sundur. Síðan sér hún að ófreskja mikil kemur inn í skálann í mannslíki; hann hafði húfu úr uxahemingum, var í hrossskinnsbuxum, skrápvesti og reiðingskjól. Hausinn var herfilega ljótur; hann var króknefjaður og nasaflár, kolsvartur á hár og hörund. Kjafturinn var allur skakkur og stóð skögultönn mikil fram úr honum. Við þessa ógurlegu sýn varð Ingibjörg svo hrædd að hún stökk upp fyrir risann. Fram af þessu dreymir hana drottningu og vekur þá risinn hana; stekkur hún þá af stað og flýtir sér mjög til borgarinnar. Þegar hún kemur þar sér hún bál mikið og drottningu sitja á silkiserk við bálið. Hún gengur að bálinu, hrindir nokkrum þrælum á bálið, tekur síðan í hönd drottningar og leiðir hana til borgarinnar. Hún atyrðir föður sinn og kveður hann launa drottningu illa þegar hún hafi ætlað að hjálpa sér úr álögunum. En það segist kóngurinn ekki hafa vitað, heldur hafa haldið að drottningin mundi hafa brennt hana inni í borginni.

Nú líður nokkur tími og þykjast menn sjá að Ingibjörg þykknar undir belti. Eitt sinn kemur skrautbúinn maður ríðandi rauðum hesti til borgarinnar. Hann biður Ingibjargar og er hún lofuð honum. Síðan er brúðkaup þeirra haldið með miklum veg. Eftir þetta fæðir hún barn og veit hún þá að þessi maður hennar er faðir að því og að það er risinn úr skálanum sem var í álögum og bróðir drottningar.

Það er sagt að þau ynnu hvort öðru til elli og fengju á endanum ríkið eftir konung og öll auðæfi.