Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Jábogi

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni karl og kerling í koti sínu og áttu sér þrjár dætur og var mikið haldið upp á tvær þær eldri, en Helga hét sú yngsta og var þeirra laglegust og höfðu þær á henni óvirðingu. Þegar þær voru orðnar gjafvaxta þá bauð karl þeim að útvelja þeim [menn] eftir því sem þær kysu nöfn þeirra vera. Önnur kaus að sá héti Sigurður sem hún fengi, en hin Sigmundur. Þá heyrðist Helgu sagt í skugga einum: „Kjóstu Jáboga“, og gerir hún það. Ríður karl so á stað og finnur Sigurð og Sigmund, en hvurgi Jáboga. Er so farið að búa til brúðkaups. Þá kemur mjög ófélegur kall í mikillri bugðu og biður um Helgu og segist heita Jábogi. Fær hann so Helgu; en þær verða mjög glaðar er þær sjá hvursu ljótur biðill Helgu er. Kallinn hafði komið með fallegan hest með glæsilegum söðli og lætur hann hana stíga á hrygg sér til þess að komast á bak. Síðan gengur hann með hesti hennar þar til þau koma að einni rétt og var hún full af fé og var einn sauðurinn sem bar af hinum öllum og héngu gullbjöllur í hornum hans. Hún spyr hvur þetta eigi; hann segir: „Jábogi þinn á það, en þú átt að eiga fallegasta sauðinn.“ Halda þau so áfram þar til þau koma að annari rétt og er hún full af nautum og kúm og bar eitt nautið af öllum hinum og héngu silfurbjöllur á hornum hans. Hún spurði hvur þetta ætti; hann sagði: „Jábogi þinn á það, en þú átt að eiga fallegasta nautið.“ Halda þau so áfram þar til þau koma að þriðju réttinni og er hún full af hrossum. Hún spyr hvur þetta eigi; hann segir: „Jábogi þinn á það, en þú átt að eiga hestinn sem þú ríður.“ Síðan koma þau að einum húsdyrum og eru þær lágar eins og lambhúsdyr, en þegar inn er komið er þar eins og fallegasta kóngshöll. Lætur hann síðan undirbúa veizlu.

Síðan sita þau brúðkaup systranna og að afloknri veizlu ríður það allt með þeim og koma að fjárréttinni. Þær spurja hvur þetta eigi; hún segir: „Jábogi minn á það, en ég á fallegasta sauðinn.“ Síðan koma þau að nautaréttinni. Þær spurja hvur þetta eigi; hún segir: „Jábogi minn á það, en ég á það fallegasta.“ En so koma þau að hrossaréttinni. Þær spurja hvur þetta eigi; hún segir: „Jábogi minn á það, en ég á hestinn sem ég ríð.“ Og síðan kemur það að híbýlunum og eru dyrnar eins og lágar lambhúsdyr. Þær verða mjög kátar yfir híbýlunum þegar þær sjá þau utan og þykja þau samsvara biðlinum, en þegar inn er komið verða þær hissa og er þá haldin mikil veizla. Hún sýnir þeim þrjá drottningarskrúða og bar einn af þeim öllum og hafði Jábogi gefið henni þá. En um nóttina stálu þær lakari skrúðunum og ætluðu þær að komast út með þá, en Jábogi villti þeim so sjónir að þær lentu í öskustónni. En um morguninn eru þær hvorfnar og er þeirra leitað og finnast þær í öskustónni. So leiðir hún þær inn og gefur þeim skrúðana sem þær tóku um nóttina, en þegar þær koma inn sjá þær þar standa tíðuglegan kóngsson. Þær spurja hvur sé þar. Hún segir að það sé Jábogi sinn sem hafi verið í álögum, so þær brenna mjög af öfund og fara þegar í burtu og eru þær úr sögunni. En Jábogi náði undir sig ríki sínu er hann hafði misst og gerðist kóngur. Þau unntust bæði vel og lengi og áttu börn og buru, grófu rætur og muru. – Og so er sagan úti.