Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Jóhanna

Úr Wikiheimild

Enu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu sér eina dóttur er Jóhanna hét; hún var svo yfirtaks fríð að hvergi var hennar jafningi í öllu því landi og þó víðar væri leitað, það er að segja í fleiri kóngaríkjum. Þar hjá konungshöllinni var fjarskalega stór skógur á aðra hönd, en á hina var fjarskalega stórt stöðuvatn og hólmar í allir viði vaxnir. Skammt frá konungshöllinni var líka karl í koti sínu með kerlingu sína; hún hét Ingiríður. Þau áttu tvo sonu; hét annar Léttfeti, en hinn Snarfari, en karlinn hét Hörður.

Það bar til að þeir karlssynirnir og Jóhanna kóngsdóttir léku barnaleikum saman á fögrum velli er var hjá konungshöllinni og var ætlaður til að halda á hirðleiki og aðrar skemmtanir. Þegar Jóhanna var tólf vetra var hún orðin hin fríðasta jómfrú og allir lofuðu hennar kurteisi og hæversku í smáu og stóru. Léttfeti karlsson var henni jafngamall, en Snarfari var einu ári yngri og var hann fjarska fríður sýnum og líktist móður sinni, því hún hafði á æskuárum sínum verið hin gjörvilegasta kona, en Léttfeti var líkur föður sínum sem var stórskorinn og í meira lagi ófríður, og þókti fjarska forn í skapi svo ekki þótti gott við hann að glettast fyrir þá er honum vildu á móti gjöra.

Nú er þar til að taka að konungur leggst veikur og var mjög þungt haldinn og kunni enginn læknir hönum neitt að hjálpa hvaða ráða sem leitað var og var kona hans og dóttir yfir honum nótt og dag, og fór svo fram í sex vikur; og var það einn dag að drottning segir við dóttur sína: „Það vildi ég að fundinn væri Hörður karl í garðshorni til að vita hvert hann ekki veit nein ráð [við] sjúkdómi konungs.“ Jóhanna segir að hann muni ekki vita mikil ráð við því. Drottning segir það muni þó geta verið og segir að hún verði að fara í karlskot, og fer Jóhanna nú og kemur í karlskot og finnur Hörð karl og var hann heldur ófrýnilegur. Kóngsdóttir segir honum erindi sín og orðsending móður sinnar, en hann kvaðst ekki vita nein ráð til að lækna kónginn, – „en þú skalt fara heim og segja drottning svo búið, en finna máttu mig á morgun ef þú vilt og skal ég þá reyna að ráðleggja þér eitthvað ef ég get, en það verður nú líklega ekki.“ Eftir það fer Jóhanna heim; en næsta morgun fór hún aftur í karlskot og bar sig enn aumlegar en daginn þar á undan. Karl var þá úti og var heldur gustmikill og er hann heyrði hvernig kóngur var þá svarar hann: „Það er ómögulegt fyrir mig að hjálpa þér, en ef þú vilt þá skal ég vísa þér á mann sem er allgóður læknir; það er dvergur. Hann býr í hólma þeim hinum meiri er hér liggur í vatninu og verður þú að vera komin þar í kvöld fyrir sólarsetur, því ella finnur þú ekki dverginn heima, því í nótt verður hann að fara að heiman til dóttir sinnar og þá þykir mér líklegast að þú fáir þig fullkeypta af því; og farðu nú strax; bátur einn er við bakkann bundinn við hæl einn í bakkanum og út í hann fer þú nú og leysir bandið úr hælnum og ýtir frá landi og þá mun báturinn renna sjálfur frá bakkanum til eyjarinnar og ekki þarftu að hugsa meira um hann.“

Kóngsdóttir fer nú eftir tilvísun karlsins og kemur út í hólminn; kemur hún þar að einum stórum steini er hún sá hvergi dyr [á], og er hún hefur aðgætt hann um stund þá verður henni litið til á einum stað er var á klettinum sprunga eða smuga, og þar drap hún á dyr og þá kom þar út dvergurinn. Kóngsdóttir segir honum erindi sitt, en dvergurinn varð fár við og kvað föður hennar annars frá sér verðan þar sem hann hefði flæmt sig frá heimili sínu svo hann yrði nú að vera hér útlagi á eyðieyju þessari, en áður hefði hann átt byggð í stórum steini undir því skógi vaxna fjalli; og hvernig sem kóngsdóttir bað dverginn grátandi um hjálp var ekki nærri því komandi svo dvergurinn fór inn aftur í steininn; en kóngsdóttir stóð úti grátandi og vissi ekki hvað hún skyldi til bragðs taka og varð henni það fyrst fyrir að hún gekk burt frá steininum og þangað sem einn lækur rann, og settist þar og grét; var þá komið rétt að sólsetri. Þá sér hún hvar stúlka lítil kemur með skjólur og ætlar að taka vatn og er hún hafði fyllt skjólur sínar þá sá kóngsdóttir að hún grét sárt. Kóngsdóttir gekk til hennar og spurði hana því hún væri að gráta. „Það er af því ég týndi kníf og belti er móður mín léði mér áðan, en ég held að henni þyki slæmt ef hún tapar því.“ „Þá skal ég reyna að bæta þér það ef ég get,“ – og gaf kóngsdóttir henni kníf og belti, hvortveggja hin mestu gersemi og varð stúlkan glöð við er hún fékk þessa gripi og hvarf hún með þá. Samstundis kom móðir hennar til kóngsdóttir og þakkaði henni fyrir dóttir sína og kvaðst hún ekki vera fær um að launa það sem skyldi, „en ef þú bíður þangað til bóndi minn kemur heim (en hann er nú nýfarinn til undirheima) þá launar hann þér gripina, en hann kemur nú ekki fyrr en í nótt, því hann var að sækja þangað meðöl, og verður þú að gjöra svo vel og ganga inn þó húsakynni hér séu ekki boðleg fyrir kóngsdóttir.“ En kóngsdóttir sagðist ekki fást um þvílíkt og gekk inn; og er hún kom inn varð fyrir henni lítið hús er var í tvö rúm og borð og stólar tveir. Á hvorum stól sat stúlka og var annað stúlka sú er hún hafði gefið knífinn og beltið og var hún fjarska glöð að leika sér að gripunum þeim er kóngsdóttir hafði gefið henni; en með því móðir hennar hélt að kóngsdóttir mundi vera svöng þá bar hún henni vín og vist og síðan bjó hún upp hvílu handa kóngsdóttir og sagði kerling að hún yrði að vera þar þar til er bóndi sinn kæmi heim, en það yrði trauðlega fyrri en á morgun nálægt sólaruppkomu, og eftir það fór kóngsdóttir að hátta og skyldi stúlka sú er hún gaf knífinn og beltið sofa þar hjá henni. Ekki svaf kóngsdóttir fjarska mikið um nóttina, því hún hugsaði einatt til foreldra sinna. Um sólaruppkomu sofnaði hún og dreymdi hana að til hennar kom maður ef mann skyldi kalla; hann var hár og fjarskalega digur. Hann vildi endilega hvíla hjá kóngsdóttir, en það þóktist hún ekki vilja, því henni þókti hann svo ógnarlega ljótur og leiðinlegur; og er hann fékk ekki vilja sínum framgengt þá reiddist hann og kvað að hana skyldi þess mest iðra – „því héðan af mun þér snúast flest til óhamingju og skal það byrja þegar þú hefur hjálpað föður þínum; en að þú hjálpir honum get ég ómögulega bannað, því það gjörir sá ólukkudvergur og hans góðu meðöl er hann kemur með úr undirheimum sem engir galdrar geta deyft. Það er þá fyrst að þú skalt aldrei hafa frið fyrir því að hjá þér skal á hverri nóttu sofa loðinn hundur svo stór og ljótur sem óargadýrið og hann skal gjöra bæði að míga og skíta í klæði þín; en á hverjum degi skaltú verða að ófreskju svo ljótri og líðilegri að öngri mynd líkist nema því skrímsli er ljótast sést skapað.“ Eftir það hvarf jötunninn burt, en kóngsdóttir vaknaði og er þá dvergurinn kominn heim og fagnaði nú kóngsdóttir hönum vel og var hann þá léttur í máli við hana og sagði að nú hefði hann sókt meðöl handa föður hennar og skyldi hún nú fara strax – „og mun báturinn bíða þín við bakkann, en ekki get ég afstýrt álögum þeim er risinn lagði á þig og ræð ég þér til að finna Hörð karl, og ef hann hjálpar þér ekkert þá geta það ekki margir og ef hann verður tregur til þess þá skallu færa hönum gull þetta og seg að mér þykir mikið við liggja að hann hjálpi þér; en hann vanalega neitar mér um ekkert, því hann er minn fóstri, og ef þér liggur lítið á máttu nefna mig.“

Eftir það fer kóngsdóttir heimleiðis og fór yfir um á sama bátnum og fyrr; og er hún kom heim þá var faðir hennar þá engu betri og þá bar hún úr smyrslabauknum á allan líkama kóngs; og er hann hafði legið dálitla stund þá var sem hreistur dytti af öllum hans líkama og stóð hann þá upp og var alveg heilbrigður; og eftir það segir kóngsdóttir foreldrum sínum frá ferðum sínum og urðu þau hrygg er þau heyrðu það og sat kóngur lengi mjög áhyggjufullur; og loksins segir hann: „Það er bezt fyrir þig, dóttir kær, að finna Hörð karl í garðshorni og fara að öllu eftir ráðum hans, en því skal ég heita að hver sá sem frelsar þig frá þessu hönum skal ég gefa þig;“ – og þessu játaði kóngsdóttir. Strax eftir það fer kóngsdóttir að finna karl í garðshorni og var hann heldur þurlegur ákomu; en er kóngsdóttir færði karli hring þann er dvergurinn sendi honum varð hann þá léttbrýnn við, en ekki kvaðst hann vita hvernig færi með að hjálpa kóngsdóttir – „því þar hefur þú hitt hið versta tröll sem til er í þessum heimi. Þó verð ég að reyna til að hjálpa þér ef ég get.“

Það er nú þessu næst að segja úr kóngsríkinu að kóngsdóttir hvarf hvern dag úr höll sinni og vissi enginn hvað af henni varð; en á nóttinni hvíldi hjá henni ið óarga dýr; það var ljótara og leiðinlegra hverju öðru óargadýri og svo óhreinlegt sem daglega velti það sér upp úr mannasaur og öðrum óþverra; en á daginn var þar á gangi í höll kóngsdóttir hið ljótasta skrímsli; það var með þremur hausum og hala og allur þess búkur var alþaktur skeljum. Þetta skrímsli var þar hvern dag í konungshöllinni og voru allir við það hræddir svo fólk allt flýði úr höllinni sem komizt gat; og liðu svo tímar fram að enginn vissi neitt um konungsdóttir og líka spurðist að konungur hefði heitið hverjum þeim dóttur sinni sem yrði til að frelsa hana, því allir vissu að hún var í álögum þó enginn gæti frelsað hana.

Nú komu þessi tíðindi fyrir Hörð karl í garðshorni og segir hann við syni sína: „Nú væri þó sannarlega mannsbragð að frelsa kóngsdóttir og þar hefði þó verið minnar ævi er ég var ungur, og mundi ég þá hafa reynt það hana að frelsa úr þessum nauðum.“ Þá svarar Snarfari: „Þá skal ég þetta reyna þó ferðin sé órífleg, og ei fyrri aftur koma en ég veit hvað veldur álögum kóngsdóttir.“ „Líklegra þækti mér,“ segir karl, „að hinn eldri sonur minn færi en þú, og treysti ég honum betur en þér.“ „Ég skal þó fara,“ segir Snarfari, „en þú legg ráð til hvernig að skal fara.“ Karl mælti: „Það skal ég gjöra sem ég get og skal ég ekki skipta mér af þó þú farir, en ef þér dvelst lengur en þrjá daga þá mun Léttfeti fara af stað og get ég til að þess muni þó við þurfa áður lýkur. Þar er þá fyrst að þú skalt fara hér út með fjallinu braut þá er liggur milli skógarins og fjallsins, og er dagur er að kvöldi kominn muntu finna einn stóran skála. Þar býr bróður minn er Hálfdán heitir og þar muntu vera hina fyrstu nótt, og ber honum kveðju mína og fær honum hring þennan til jarðteikna að hann veiti þér slíkt lið er hann má og mun hann þá kannast við að þú ert hans frændi;“ og eftir það skiljast þeir; og fer nú Snarfari á stað og er ekki getið ferða hans fyrr en seint að kvöldi að hann kemur að skála einum stórum og var hurð hnigin á stafi. Karlsson drap á dyr og kom karl til dyra, og heilsar Snarfari frænda sínum, en karl kvaðst ekki vita hvert hann væri sinn frændi eða ekki og spurði þó um erindi hans, en Snarfari segir af hið ljósasta; og er Hálfdán heyrði það varð hann styggur við og segir: „Aldrei muntu minn frændi og aldrei mundi minn frændi hafa sent þig í slíkar hendur, því það er hin mesta ófæra, og vertu á burt sem skjótast ef þú vilt lífi halda;“ en Snarfari brá sér hvergi og fékk karli hringinn þann er faðir hans fékk honum, og er Hálfdán leit hann þá mælti hann: „Ekki má við því dyljast að þú segir satt og þykir föður þínum á liggja um þína hagi, en ekki get ég þér hjálpað, en hér skaltu vera í nótt;“ og eftir [það] gengu þeir inn og var Snarfara veittur þar hinn bezti beini. Síðan var honum til sængur fylgt og svaf hann vel af þá nótt; og um morguninn snemma klæðist hann og er þá Hálfdán karl líka kominn á flakk og er karlssyni veittur þar hinn bezti beini; og er hann hefur lokið morgunverði þá segir Hálfdán: „Nú skaltu,“ segir hann, „halda áfram í dag og er komið er fram yfir miðjan dag þá verður fyrir þér annar skáli og þar býr hinn þriðji bróður okkar er Úlfur heitir; hann er okkar elztur og ráðugastur. Hann skaltu finna og biðja hann hjálpa þér og ef hann verður tregur til þá skaltu færa honum gull þetta til jarðteikna og mun hann þá það gjöra; en ef þér liggur lítið á þá máttu nefna nafn mitt – og sama hafði faðir hans gjört.

Og nú fer Snarfari á stað og heldur nú áfram þar til komið var nær miðjum degi, þá sér hann hvar skáli mikill stendur og var hans hurð af stáli gjör sem rambyggilegast og ætlaði Snarfari að ljúka henni upp. Þá var hún harðlæst; en Snarfari ber á dyr, en enginn gegndi; og er hann hefur barið þrisvar og enginn gegndi þá fer Snarfari að gá í kringum, og sér hann þá hvar maður kemur og fylgdi honum stór hjarðhundur; hann (maðurinn) leit óhýru auga til komumanns. Þessi maður var stór vexti og drenglegur á að sjá, en þó líkur til að eiga nokk[uð] hjá sér. Komumaður kastar kveðju á hann og tók hann því fálega, en Snarfari bar honum kveðju föður síns og frænda. Karl spyr hvert hann ætli að fara, en Snarfari segir honum erindi sitt; en er karl heyrði þetta varð hann ákaflega reiður og mælti: „Því talar þú svo, hinn armi herjansniður, því ekki hafa bræður mínir sent sonu sína í slíka ófæru sem þessi er.“ Þá tók Snarfari gull það er Hálfdán hafði fengið honum; og er Úlfur sér gullið þagnar hann og var hljóður mjög og mælti síðan: „Það er auðséð að þú munt satt segja og eru það hin verstu tröll er ég af veit í víðri veröldu og sé ég engin ráð til að vinna þann óaldarflokk sem þar er saman kominn; en þó er þér nú bezt að ganga inn og þiggja fæðu, því ekki máttu hér vera lengi;“ og eftir það gengu þeir inn, og er Úlfur hafði borið vín og vist á borð fyrir Snarfara þá sezt Úlfur líka undir borð og var hann daufur á bragð og brún; en er stund leið þá tók hann til máls: „Það mun vera bezt að ég segi þér hvað fyrir þér liggur þegar þú ferð héðan; en þegar þú hefur gengið stundarkorn hér út eftir þá verður fyrir þér hellir ákaflega mikill; hann er í háum björgum; þar búa sjö tröll; það er kerling og sex börn, tveir synir og fjórar dætur. Allt er þetta hyski fjarska ljótt og tröllslegt að aldrei veit ég verri fjendur verið hafa til en þessi óaldarflokkur. Þó er kerlingin verst móðir [þeirra], verri enn allt hitt hyskið, og er hún öll kafloðin svo hvergi er á henni snöggur blettur nema á hægra handlegg, þar er snöggur blettur lítill; en hún hefur eflt seið mikla til þess að á henni vinni ekkert járn eða neinu því hyski, því hún er hinn mesti seiðskratti, full flærðar og fláttskapar eins og allt það hyski er; hún heitir Hildigerður. Hún sendi hinn eldri son sinn er Hildigrímur heitir til þess að komast yfir kóngsdóttir og átti hann að flytja hana í hellirinn, því hún átti að vera kona Hildigríms, og hefði hann fengið að hvíla hjá kóngsdóttir þá hefði hann heillað hana til sín í hellirinn og hefði hún ekki viljað þýðast það þá hefði hún verið tafarlaust drepin; og af því hún var í húsum dvergsins þá gat hann ekki náð henni, því þangað mátti hann ekki koma og komst hann því ekki nema að dyrunum, og því gat hann ekki tekið hana með valdi svo hann varð með göldrum að reyna til að seiða hana til sín, en það tókst heldur ekki af því dvergurinn hafði svo um búið að ekkert óhreint gat komizt inn fyrir dyr hjá honum. Ég hef nú sagt þér af Hildigrím og eru systkin hans engu betri; það hefir allt látið efla seið. Því verður ekki mein gjört nema með því einu móti að það sé allt brennt; en tröll þessi sofa aldrei nema um sólaruppkomu, þá sofa þau öll ef þau eru ekki hrædd um að menn séu nálægir sem vilja granda því, og er þér nú bezt að fara og vera kominn þar fyrir sólarsetur, því þá eru tröllin vön að ganga til lækjar er rennur skammt frá hellirnum og þvo sér þar öll, en á meðan læsa þau hellirnum vel og vandlega og er það svo sterkur lás að hann fær enginn brotið og enginn lykill gengur að hönum nema sá er Hildigerður geymir alltaf fastan við bróklinda sinn og hönum nær enginn. Nú hefi ég sagt þér nokkuð af híbýlum trölla þessara og nú er þér bezt að fara að halda af stað til að vera kominn þangað fyrir sólsetur og er hér járnbor er þú skalt bera að lásnum og grunar mig að hann muni þá bráðum opna sig; og er þér bezt að fara inn og eru sjö rúm í hellirnum og er innst rúm Hildigerðar og undir því er stórt jarðhús og er hún vön að þylja þar fræði sín á hverju kveldi og morgni og er það hætta að hún finni þig ekki; á það verður nú að hætta“ – og fer karl og tekur poka og hristir yfir karlsson – „og nú get ég ekki meira sagt þér að sinni og farðu nú vel, en ef þér liggur á þá máttu nefna nafn mitt.“

Eftir þetta fer Snarfari leiðar sinnar; og er hann kemur til hellirsins var hann harðlæstur, og fer nú karlsson að eins og Úlfur hafði honum til sagt og finnur húsið undir sæng kerlingar og bjóst þar um; og er hann hafði verið þar ekki langa stund þá heyrir hann fjarskalegar dunur og ljót læti; var sem öll jörðin léki á þræði. Því næst sér hann tröllin koma inn og voru þau fjarska ljót. Hildigrímur var þríhöfðaður þurs og eftir því var það allt fjarskalega ljótt og líðilegt. Þegar það kemur inn fyrir dyrnar þá segir kerling: „Mannaþefur! mannaþefur! hér er einhver maður; hann skal ég drepa, hver svo sem hann er.“ Síðan fer hún og leitar um allan hellirinn og verður einskis var; en er hún kemur í jarðhúsdyrnar þá segir hún: „Hér er hann og hér er hann, og skal hann nú ekki sleppa, og nú ekki sleppa;“ en ekki finnur hún karlsson hvernig sem hún leitar; og er hún var uppgefin segir hún: „Hann er hér þó ég ekki finni hann og skal hann finnast á morgun, því ég veit að hann ætlar sér að brenna hellir vorn, en ég skal sjá við því.“ Síðan fara tröllin að sofa og hrjóta ákaflega, en Hildigerður vakir einsömul, og er líður undir sólaruppruna þá leggst hún fyrir og sofnar fast; og er karlsson heyrir það þá fer hann úr fylgsni sínu, fer að leita sér ráða og brátt finnur hann eldinn og kveikir upp og brátt fer eldurinn að loga upp; og er hann hafði logað um stund þá féll og viðarköstur stór er þar var og varð fjarska mikill dynkur svo Hildigerður vaknaði og segir: „Nú er það fram komið sem ég sagði í gærkveldi.“ Eftir það hlupu tröllin öll á fætur og fóru sum í dyrnar svo karlsson ekki skyldi komast út, en Hildigerður fann hann þar sem hann var við eldinn og kallar: „Ég hef fundið hann, ég hef fundið hann, og nú skal hann deyja hinum versta dauða og skal ala hann í hálfan mánuð þar til hann verður vel feitur og síðan skal steikja hann í potti og hafa til matar.“ Eftir það tekur kerling Snarfara og lætur hann í pallkistil sinn og læsir ramlega, en kistillinn var allur járnsleginn og var ekki hægt að ljúka honum upp og því síður brjóta hann.

Nú verður að víkja sögunni heim í kóngsríkið aftur; þar ganga hin sömu ósköp á og fyrr með álög kóngsdóttir að hún er skrímsli á daginn, en á nóttinni liggur hjá henni hið óarga dýr og lætur öllum illum látum svo allir voru hræddir við það og fóru burt úr höll kóngsdóttir nema hún og fóstra kóngsdóttir; þær eru báðar í höllinni og gat kóngsdóttir aldrei talað orð við hana og það sá kerling að kóngsdóttir grét oftlega, en ekki varð við því gjört að sinni. En nú er að víkja í garðshorn þar sem Hörður karl býr. Er þrír dagar voru liðnir þá segir Hörður við Léttfeta son sinn: „Nú er að því komið að þrír dagar eru liðnir frá því er Snarfari sonur minn fór í burtu og er hann ennþá ókominn og sé ég nú að þú verður að fara á stað og leita hans þar til þú finnur hann, en það ræð ég þér að þú finnir kóng og drottning og vitjir einkamála við dóttir þeirra ef þér tekst að frelsa hana;“ og fór Léttfeti til konungs og biður dóttir hans ef hann geti frelsað hana og var það mál auðsótt við kóng og drottningu.

Eftir það fer Léttfeti heim og finnur föður sinn. Síðan segir Hörður að nú verði hann að fara til bróður síns Hálfdáns. Eftir það fer Léttfeti leiðar sinnar og léttir [ekki] þar til hann kemur til Úlfs og er þá komið að kveldi og var Úlfur og Léttfeti kátur um kvöldið; og er á leið kveldið þá segir Úlfur við Léttfeta: „Þú átt ljótt verk fyrir höndum ef þú ætlar að drepa þetta tröllahyski.“ „Svo mun það vera,“ sagði Léttfeti, „og verð ég nú að fá ráð hjá þér til þess ef duga skal.“ „Væri ég þess umkominn skyldi ég það gjarnan gjöra, en því er miður að ég veit ekki vel hvernig þar er til háttað; en af Snarfara bróður þínum má ég þér það segja að hann er geymdur í pallkistli Hildigerðar tröllkonu og er þaðan ekki gott að ná honum, því kistillinn er með þeim gjörningum útbúinn að fáir geta hann opnað; en á því ríður þér einna mest að ná bróður þínum, því fyrst þegar Hildigerður verður vör við þig, þá verður það hennar fyrsta verk að drepa hann.“ Síðan sagði Úlfur karlssyni allt er hann hafði áður sagt Snarfara og fékk honum járn er hann kvað að kistillinn mundi bila ef hann væri barinn við skrána, – „og þegar þú ert búinn að ná bróður þínum þá skaltu taka þessar fimm hárgreiður og láta sína í hvert rúm í hellirnum; en ekkert skaltu láta í tvö hin innstu og er þar rúm þeirra Hildigerðar og Hildigríms; en á því ríður ykkur að drepa þau fyrst, því þau eru verst við að eiga og þegar þið eruð að því búnir, þá skuluð þið fela ykkur í jarðhúsinu sem ég hef áður sagt þér frá; en þegar þau eru dauð Hildigerður og Hildigrímur þá mun ein skessan fara heim í kóngsríkið, en þá verða álögin af kóngsdóttir, og ætla sér að drepa hana, en við því verður nú ekki gert; en það ræð ég ykkur að drepa Hildigrím og Hildigerði sem fyrst og get ég nú ekki sagt þér meira að sinni; en ef þér liggur lítið á þá skaltu nefna nafn mitt og okkar bræðra; og er þér nú bezt að fara á stað, en hér eru tvö sverð, sitt handa ykkur hvorum bræðra; en ekkert sverð bítur á Hildigerði nema það sem þú skalt bera. Það sverð gaf mér Harðhaus jötunn hinn eldgamli og er þér bezt að reyna [að] höggva af henni höndina þar sem snöggur blettur er á og þar bíta hana járn eða hvergi.“

Eftir það fer Léttfeti á stað og léttir ekki fyrr en hann kemur í hellirinn og var hann þá opinn, því tröllin voru að þvotti eins og þau voru vön; en Léttfeti fer í hellirinn og finnur bráðum kistil kerlingar og stingur að honum bornum þeim er Úlfur fékk honum, og er járnið snerti lásinn þá hrökk kistillinn upp og með þeirri ógnarfart að hann brotnaði í mola, því töfrakraftur járnsins var svo mikill er það kom við kistilinn að hvellurinn var svo mikill eins og byssuskot og heyrðist hvellurinn langar leiðir og heyrðu tröllin öll þar er þau voru við lækinn og hrukku upp til handa og fóta. En Léttfeti fann Snarfara bróður sinn í kistlinum og urðu þar fagnaðarfundir; en er þeir heyrðu til tröllanna þá segir Léttfeti: „Það hygg ég að tröllin bjóði okkur ekki setugrið og er okkur ekki ráð að bíða hér; en það er það fyrsta að ég verð að láta greiður þær er Úlfur fékk mér á þá staði.“ En Snarfari sagði: „Það hygg ég að mér verði aldrei meiri þörf á þeim bræðrum Hörði og Hálfdani en nú;“ – og strax komu þeir bræður þar í hellirinn og í því þeystust tröllin inn með miklum gauragangi og var Hildigerður fyrst og Hildigrímur og þustu þau að rúmum sínum, og þá segir Hildigerður: „Illu heilli er nú kistillinn brotinn og burtu er Snarfari og mun Léttfeti hafa hjálpað hönum og eru þetta ráð Úlfs karls og eru þó ei öll upp komin ennþá.

Eftir það fara þau Hildigerður og Hildigrímur inn [í] jarðhúsið, en hinum tröllunum varð það fyrir að hvert leitaði í sínu rúmi og fann ekki utan greiður, og varð þeim það fyrst fyrir að fara að reyna þær og enda voru þeir bræður Hörður og Hálfdán þar fyrir til að verja þeim að komast í jarðhúsið nema þeim Hildigerði og Hildigrím; en er þau komu inn í jarðhúsið þá voru þeir bræður þar fyrir og flaug Hildigerður á Léttfeta, en Hildigrímur á Snarfara, og var þeirra aðgangur bæði harður og langur; og er fyrst að segja frá þeim Léttfeta og Hildigerði er þau áttust við og var lengi áður Léttfeti kom á hana höndum sínum, því hún var bæði stór og sterk; en þó kom þar um síðir að Léttfeti gat losað aðra hönd sér og gat gripið sverðið er hékk við belti hans og hjó [með] því aðra hönd skessunnar svo hana tók af henni; og annað högg hjó Léttfeti á háls tröllkonunni, en ekki beit heldur en í klett kæmi, en Léttfeti sleppti þá sverðinu og glímdu þau lengi þar til er Léttfeti felldi skessuna á hælkrók og skall hausinn á tröllkonunni [svo] hlunkaði [í] hellisberginu svo hún lá í roti og var sem örend og gekk Léttfeti svo af henni.

Nú er að segja frá þeim Snarfara og Hildigrím að þeir eigast við í öðrum stað og er þeirra aðgangur bæði harður og langur. Snarfari var mjúkur og léttur til að glíma, en Hildigrímur var eins og áður er sagt stór og sterkur, því hann var hið versta tröll eins og móðir hans, og nú er þeir eigast við – og glímdu lengi, því ekki gat Snarfari komið sverðinu við, og glímdu þeir lengi þar til Hildigrímur tók að mæðast, þá var það eitt sinn að Snarfari sá sér færi; þá hljóp hann í fang risans og gat brotið hann á bak aftur og var þá Léttfeti þar með brugðið sverð og sneið hausinn af Hildigrím og setti hausinn við þjó honum; og svo gengu þeir upp úr jarðhúsinu og voru þeir bræður Hörður og Hálfdán þá búnir að drepa hin tröllin nema eina er undan komst og segjum vér síðar frá henni; en er þeir fóru að kanna hellirinn til að leita að fé þá gekk Léttfeti inn í jarðhúsið og er hann kemur inn fyrir dyrnar þá kemur Hildigerður kerling á móti honum og er þá hálfu verri viðureignar en áður. Ræður hún þegar á Léttfeta og eigast þau lengi við og sér Léttfeti að hann ekki má við þessum fjanda og hugsar hann að nú muni sér mest þörf á að Úlfur komi og strax var hann þar kominn og fór til og tók sverð er hékk þar í hellirnum og hjó því á háls tröllkonunni svo af fór höfuðið; og eftir það brenndu þeir öll tröllin á björtu báli og eftir það tóku þeir allt það er fémætt var í hellirnum og fóru heim.

Nú er að segja frá kóngsdóttir að þegar tröllin vóru dauð þá hvurfu af henni álögin og fékk hún sitt rétta eðli; en er minnst varir þá hljóp þar inn í höllina ógnarlega stór tröllkona og brýtur allt og bramlar í höllinni svo allir verða hræddir og kóngsdóttir þó helzt og hugsar hún nú að aldrei muni sér meiri þörf á að dvergurinn kæmi en nú, og að vörmu spori er hann þar og heilsar kóngsdóttir blíðlega. Eftir það tekur hann gráan poka og hristir úr ösku framan í tröllkonuna og brá henni svo við að hún varð sem sjónlaus; hleypur hún nú á allt sem fyrir henni verður og brýtur allt er hún nær til, og loksins braut hún gat á hallarvegginn og hljóp þar út og fram á sjávarhamra og steypti sér í sjóinn og drapst þar; og er svo allt þetta tröllahyski dautt og þókti það góð landhreinsun; en dvergurinn bætti það sem tröllkonan braut.

Eftir þetta kemur Léttfeti til hallarinnar og bað kóngsdóttir og var það mál auðsókt og var síðan búizt við brúðkaupi og boðið mörgu fólki. Þar var dvergurinn og þeir föðurbræður Léttfeta og Snarfara og stóð veizlan í hálfan mánuð og voru allir með gjöfum út leystir; og Léttfeti tók ríkið eftir föður Jóhönnu og ríkti bæði vel og lengi. – Og kann ég ekki þessa sögu lengur.