Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Jón og Þorsteinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón og Þorsteinn

Einn prakkarastrákur var á fátækum kotbæ er Jón hét. Hann var hjá foreldrum sínum og var eitt skipti ógn svangur. Hann vissi að foreldrar sínir áttu eitt mikið ker og var þar í súrs þeirra og biður hann nú móður sína að gefa sér góðan bita þar úr. Fer kelling í forðabúr þeirra og stendur nú upp á stóru skammeli, en nær samt illa ofan í. Kemur Jón þangað og lyftir undir móður sína og kæfir hana í keri þessu. Og er hún var dauð hleypur hann til föður síns sem var sveittur að smíða og segir móður sín hafi drukknað nærri því í stóra kerinu. Kallinn upp til handa og fóta og ætlar að fara að bjarga konunni, en Jón lyftir undir föður sinn og kæfir hann líka; fer síðan í eldhúsið og kveikir í kotinu; gengur síðan í þankaleysi til er hann mætir öðrum strák á við sig og spyr hann að nafni. Hann segist Þorsteinn heita og segist hafa átt fátæka foreldra og ekki nennt að vinna hjá þeim og kæft þau í vatni einu og brennt bæ þeirra og ráfað síðan í burtu. Þá segir Jón: „Það er líkt á með okkur; ég hefi eins farið að ráði mínu og þú og er nú bezt við fóstbræður verðum.“ Segir þá Jón: „Veiztu hvar við verðum í nótt?“ „Nei,“ segir Þorsteinn. „Í kvöld komum við að borg þeirri er fólk þar [er] tómir blámenn, en þeir halda í kvöld stóra veizlu og borða þeir hrossa- og mannakjöt; drekka þeir í gleðiskálum eiturbikara og ef hvur ekki getur út drukkið er [sá] dræpur. Þar ætlum við að verða í nótt og skulum búa okkur til belgi tvo og hafa á brjóstum okkar. Við verðum víst settir þar so til borðs að skuggi verður nokkur á okkur og er því þess betra.“

Fer nú allt ettir Jóns orðum. Og er allt var orðið ölvað segir blákóngur að óvatnað sé reiðhestum sínum. Þá segir Jón: „Ekki má minna fyrir greiða er þér gerið okkur óverðugum en við vötnum hestum yðar, herra.“ Er þeim sagt að hesthús þeirra sé hér skammt frá. Fara þeir og gefa hestunum sem voru tólf á stalli sinn eiturdropa hvurjum og duttu þeir allir því nær strax niður dauðir. Skera þeir nú vöðvastykki úr hvurjum þeirra og fara svo úr borginni. Um daginn ettir sjá þeir tólf hrafna vera að sveima til og frá. Fleygja þeir bitunum og eta hrafnar þá og detta þar dauðir niður. Þá taka þeir alla hrafnana og segir Jón við Þorstein: „Veiztu nú hvar við í nótt verðum?“ „Nei,“ mælti hinn. „í hellri einum hér skammt frá búa tólf risar og tveir þeirra eru mestu illmenni; þeir ráða yfir hinum. Þeir eiga þá hesta tvo; er enginn þeirra líki. Eru þeir söðlaðir og vopn þeirra hanga yfir söðlum þeirra. Þarna ætla ég við munum búa í nótt.“

Fara þeir þangað til þeir koma að hellri þessum, ganga þar inn og sjá þar eru tólf rúm. Eru þau so löng að þó þeir spyrni iljum saman ná þeir ekki nærri til. Leggja þeir nú sinn hrafn á hvurs höfðalag og fara so undir sitt rúmið hvur. Og er þeir stund höfðu legið heyra þeir undirgang hræðilegan og koma nú þeir allir inn, og er þeir sáu hrafnana gleypa þeir þá og ettir langa stund eru þeir allir dauðir. En Jón fer nú í hús það er hestar voru geymdir í og leiðir þá út og tekur herklæðin og fara þeir nú hvur í sín og brenna hellirinn með skrokkunum, en taka allt það dýrmætt var og ríða þeir nú heim til hallarinnar hvar þeir áður höfðu nótt verið. Biðja þeir nú borgvaktarana að biðja þeirra náðuga kóng að lofa sér sem hermönnum að vera í nótt. Segja þeir að enginn fái gistingu hjá kóngi nema sá er geti komið með þá gátu er hann ekki geti ráðið. Þá vill Jón fá að tala við hann. En kóngur sagði sama og að þar hefðu tveir strákar komið og drepið alla reiðhesta sína. Síðan sagðist hann öngvum lofa að vera, því líka setti hann þessa kosti því líka væri hann so vitur að enginn gæti með gátu þá komið að hann gæti ekki ráðið. Þá segir Jón gátu þá er sona er: „Tveir eiturbikarar drápu tólf hesta á stalli; tólf hestar á stalli drápu tólf hrafna í lofti; tólf hrafnar í lofti drápu tólf blámenn í hellir.“ Þegar kóngur heyrir þessa gátu mælti hann: „Þið verðið að vera hér í nótt því gátuna ræð ég ekki fyrri en á morgun.“ Er þeim nú gerður góður greiði og leiddir til svefnstofu og er þar uppbúið virðuglegt rúm. Um kvöldið sagði Jón við Þorstein: „Í nótt verður þú fyrir framan og hina nóttina því ei getur kóngur gátuna ráðið. En báðar þessar nætur sendir hann þernur dóttur sinnar á þinn fund og munuð þið kaupa saman að þær sængi hjá þér, en þú segir þeim gát- una. En að morgni lofar þú þeim að segja gátuna og lest hana fyrir þeim og lætur þær so leið sína fara.“ Líða nú báðar næturnar og fór sem Jón sagði.

Þriðju nótt sem þeir voru þar segist Jón fyrir framan verða og taka á móti þeim gesti er þá komi. Og er þeir voru sofnaðir er bankað á dyr og vaknar Jón við að kóngsdóttirin sjálf með mikilli blíðu kemur og biður hann nú um að neita ekki sinni bón og segja sér gátuna. [Jón segir] að í nótt verði hún hjá sér að vera og á morgun fái hún hana að heyra. Er nú prýði hennar innst og yzt að hún er í gullofinni skikkju og dýrindis kórónu á höfði sér. Um morguninn biður hún hann að útþýða gátuna, en hann segir henni hana og ekki víðar. Fer hún nú þung í skapi í burtu og kemur kóngurinn sjálfur og vill nú heyra hana. Segir Jón hana og bætir við að drápu tólf blámenn í hellir og hrepptu síðan þrjár gæsir. Kóngur sagði að það væri sín dóttir og þernur hennar. Var nú kóngurinn eins ettir sem áður. Voru þeir nú í góðu yfirlæti og vill nú kóngurinn að Jón eigi sína dóttir og Þorsteinn þernu hennar er næst gekk henni og gefur hann Jóni sitt ríki allt ettir sinn dag.

Lýkur so sögu Jóns og Þorsteins.