Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kóngsdóttir og konan í steininum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kóngsdóttir og konan í steininum

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu eina dóttir; ekki er getið hvað hún hét.

Einhvurju sinni fer kóngur á skóg að skemmta sér. Þegar hann er ekki kominn langt í skóginn þá heyrir hann barnsgrát, gengur á hljóðið. Finnur hann sveinbarn og tekur það og ber það heim; ólst drengur síðan upp með kóngsdóttir og féll þeim vel drengnum og kóngsdóttir.

Ekki löngu eftir þetta tekur drottning sótt og dó, en kóngur fær sér aðra konu; átti hún dóttir eina alllaglega. Drottning þessi fékk fljótt hatur á stjúpdóttur sinni og reyndi hún með öllu móti að ráða hana af dögum. Einu sinni sendir hún hana út á skóg að sækja eld, en á skóginum vóru margháttuð villidýr sem hún ætlaði til að rifi hana í sundur. Hún fór á stað út á skóginn. Gengur hún lengi þar til hún kemur að steini einum og var sá opinn. Hún gengur inn í steininn. Sá hún þar pott á hlóðum og logaði undir honum, og fat er var verið að sauma. Fugla þrjá sá hún vera að vappa um gólfið. Hún laumast fáein spor og strýkur fuglana og lét undir pottinn. Þegar hún er að þessu þá kemur kona og var dökk á brún og brá. Hún segir: „Ég þakka þér fyrir það er þú hefur gjört fyrir mig. Ég veit vel hvurnin á stendur fyrir þér,“ segir hún; „þú ert í nauðum því stjúpa þín vill bana þinn. Ég held að ég verði að hjálpa þér.“ Gefur hún henni belti og segir henni: „Þessu skalt þú bregða utan um þig og stjúpson kóngs því drottning mun fara með ykkur bæði fram á há björg og láta ykkur reyna að spinna þar ofan af og fá honum hör, en þér fífu, og hrinda því fram af sem fyr slitnar hjá, því hún ætlar dóttir sinni piltinn, og þá mun ég sjá um ykkur þó þið fallið bæði.“ Fær hún henni eldinn og fer stúlkan heim. Bregður þá kellu við og öfundar hana af beltinu, sendir dóttir sína á stað og ætlast til hún sæki sama. Fer hún og kemur að fyrnefndum steini, sér sama og hin, fer og stelur nálinni úr fatinu, drepur fuglana og tekur eldinn; fer síðan út. Kemur þá konan og segir: „Fyrst þú fórst svona að þá legg ég það á þig: þú skalt stinga úr þér augun og drepa þig.“ Með þetta fer hún heim og gjörir það er hin mælti fyrir, en kerlingu gremst því meir, fer á stað með þau og ætlar að láta þau fara að spinna; en kóngur var að taka skatt af löndum sínum og var ekki heima. Fara þau að spinna. Slitnaði strax hjá henni er nærri má geta. Brá þá telpan utan um þau beltinu. Ætlar nú kerling að hrinda henni fram af bjarginu, en þau fara bæði. Reiðist þá kerling á ný að drengur skyldi fara, fer heim og drepur tvo hunda og lætur smíða um þá og jarðsetja.

Kemur nú kóngur heim og spyr að börnum sínum. Verður hún þá hrygg og segir þau vera dáin og sýnir honum leiðin. En það er af þeim að segja að þegar þau fóru ofan fyrir bjargið þá var konan komin á báti undir bjargið og breiddi dúk undir þau og lét þau detta þar á og fóru þau heim með henni í steininn. Kóngur er hryggur mjög af þessum missir og fer að ráfa einförum. Heyrir hann fugla kvaka og benda þeir honum til að grafa upp þau fyrnefndu [leiði] og gjörir hann það og sér hann þá hvurs kyns er. Verður nú drottning [að] versta flagði og gengur út á múrana og drepur sig þar fram af; en kóngur ráfar út á skóg og verður þar fyrir honum steinninn. Þekkir hann þar inni börn sín og varð þá fagnaður mikill. Sögðu þau honum þá alla sögu. Fór hann heim með allt saman, átti bláklæddu konuna, en gifti þau fósturson sinn og dóttir sína og varð hann þar kóngur eftir hann.