Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Karlsdæturnar þrjár

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Karlsdæturnar þrjár

Eitt sinn var kall og kelling sem áttu þrjár dætur sem hétu Ása, Signý og Helga. Þær Ása og Signý voru í eftirlæti, en Helga út undan og lá í öskustó. Einhverju sinni dó eldurinn á bænum. Þá sagði kall Ásu að fara eftir eldi á einhvern bæ, en langt var frá kotinu til allra bæja. Ása fór af stað og gekk lengi þangað til hún fann hrút. Hann bað hana að rýja sig og binda ullina milli hornanna. „Það gjöri ég ekki,“ sagði Ása og hélt áfram. Þá fann hún strokk. Hann bað hana skaka sig og láta smjörið á lokið. Ekki vildi Ása gjöra það og hélt enn áfram. Þá hitti hún kú sem bað hana að mjólka sig og láta skjóluna milli hornanna. Ekki gjörði hún það, en gekk lengra þangað til hún kom að helli; þar logaði eldur á skíðum og ketill yfir. Ása greip eldibrand, brauðköku og kjötstykki úr pottinum og hljóp sína leið. Skömmu seinna kom hellisbúinn heim, en það var tröllskessa. Hún sá vegsummerki að einhver hafði komið, og hljóp á eftir þjófnum. Þegar hún kom til kýrinnar spurði hún: „Sástu ekki fox fox fara hér hjá?“ „Hér hljóp hún hjá með köku, kjötstykki og eldibrand í hendi,“ sagði kýrin. Þá hljóp skessa þangað sem strokkurinn var og spurði hann hins sama og kúna, en hann svaraði eins. Þá hljóp skessan lengra og fann hrútinn. Hún spurði hann sem hin og fekk sama svar. Nú hleypur hún þangað til hún sér Ásu og eru þá komnar heim að garði. Þar tekur skessa af henni brandinn, kjötið og kökuna og slítur um leið af henni handlegginn. Nú kemur Ása heim við svo búið og sagði farir sínar ekki sléttar. Kall lét sér ekki bregða við og sagði þetta skyldi ei saka Ásu sína og setti á hana tréhandlegg.

Nú sendir hann Signýju, en fór á sömu leið fyrir henni nema skessan sleit af henni nefið. Ekki sagði kall þetta skyldi saka Signýju sína og setti á hana trénef.

Þá segir hann Helga skuli snáfa eftir eldinum. Hún gjörir það og finnur fyrst hrútinn. Hann biður hana rýja sig og binda ullina milli horna sér. Helga gjörir þetta. Þegar hún kom til strokksins biður hann hana skaka sig og láta smjörið á lokið. Þetta gjörir hún og gengur nú áfram til kýrinnar. Kýrin biður hana mjólka sig og setja skjóluna milli hornanna. Helga gjörir það sem kýrin bað og nú heldur hún enn áfram til hellisins. Þar tekur hún eitt logandi skíði úr eldinum, en ekki annað, og hleypur þangað sem kýrin er. Hún gaf henni kistil og segir hún skuli ekki opna hann fyrr en henni liggi mikið á. Eftir þetta heldur Helga heim með eldinn og þótti henni nú hafa farizt vel. En það er að segja af skessunni að hún saknaði eldibrandsins og hljóp á eftir Helgu. Þegar hún kom til kýrinnar spurði hún: „Sástu ekki fox fox fara hér hjá með eldibrand í hendi?“ „Hér hljóp hún hjá,“ sagði kýrin, „og héðan í austur og vestur, suður og norður.“ Þá hljóp skessa í allar áttir og fann engan. Seinast kom hún til strokksins og spurði hann sama og kúna, en hann svaraði hinu sama og hljóp skessan eftir því í allar áttir, en fann ekkert. Nú kom hún til hrútsins og fóru eins orðin milli þeirra og skessunnar og hinna. Skessa hljóp enn í allar áttir og náði aldrei Helgu; sneri því heim við svo búið.

Nokkru eftir þetta kom skip að landi – og gengu menn af því og upp að kallskoti. Þar var konungsson með úr fjarlægu landi. Hann fann kall að máli og sagðist vera kominn til að biðja einnar dóttur hans; bað hann sýna sér þær. Kall fór inn og bað Ásu að þvo sig og búast sem bezt. Þegar hún kom út tók kóngsson í hönd henni. Þá datt af tréhandleggurinn. Ekki sagðist konungsson vilja þessa. Þá gekk kall inn og skipaði Signýju að búast um sem bezt og koma út fyrir konungsson. Signý gjörði það, en þegar konungsson heilsaði henni datt af henni nefið. „Ekki vil ég neflausa stúlku,“ sagði hann; „og sýn mér fleiri dætur þínar, kall.“ „Engar á ég fleiri,“ sagði hann. „Það er ekki satt,“ segir konungsson. „Nauðugur er ég að sýna þér öskustelpu sem kölluð er dóttir mín því ekki mun þér þykja hún girnileg.“ „Láttu hana þó koma,“ sagði konungsson. Nú skipar kall Helgu að koma fljótt út því konungsson vildi sjá hana. Þá lýkur Helga upp kistlinum sem kýrin gaf henni; en þar voru þá í tveir drottningarskrúðar, annar lagður með silfurvír, en hinn með gullvír. Hún klæddi sig hinum silfurlagða, tók kistilinn undir hönd sér og gekk út. Þegar konungsson sá hana þótti honum stúlkan hin fríðasta, tók í hönd henni og leiddi með sér af stað, en kvaddi engan. Sagði hann þá Helgu að hann væri hrúturinn sem hún hefði rúið; – „vorum við þrjú systkin í álögum vondrar stjúpu og áttum aldrei að komast úr þeim fyrr en einhver gjörði það sem við báðum þig. Nú frelsaðir þú okkur öll úr álögunum og vil ég launa þér með því að eiga þig.“ Síðan fór hann með hana heim í ríki sitt og gekk að eiga hana. Ríktu þau þar vel og lengi og endar með því þessi saga.