Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Karlssonur leikur á kóngssyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Karlssonur leikur á kóngssyni

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og kall og kelling í koti sínu. Kóngurinn átti sér þrjá syni, en kallinn sér einn. Þau voru fátæk foreldrar hans, og strákurinn lærði upp á að vera smiður og átti smiðju sem hann var að smíða í og seldi smíðina fyrir mat. So deyr kallinn og þau eru í kotinu. Kóngssynir koma til stráksins og hafa gaman að skoða smíðina hjá hönum. So leggst kóngur í ríkinu og deyr, og gengur nú af strákunum, en strákurinn í kotinu græðir af sinni smíði so kóngssynir fara að öfunda hann.

Einu sinni þegar hann er ekki heima leggja þeir eld í smiðjuna hans og brenna hana upp. Þegar hann kemur heim er smiðjan hans í öskuhrúgu. Móðir hans segir að kóngssynir hefðu brennt smiðjuna. Hann tekur tvo poka og fyllir af ösku og ríður so með hest í taumi og hefur öskupokana á. Hann ríður lengi þangað til að hann kemur að einu herramannssloti. Þar voru kallmenn ekki heima. Hann biður um gistingu og láta pokana í læst hús, það megi enginn skoða í þá, sér ríði á því. Hann fær það. Um nóttina er skoðað í pokana og það er aska. Um morguninn þegar hann er kominn á fætur segir hann að illa hafi hann verið svikinn; það hafi verið skoðað í þá og sé so orðið að ösku sem hafi verið gull og megi þær fylla þá aftur af gulli. Þeir eru fylltir af gulli og so fer hann heim í kot. Þegar kóngssynir sjá til hans þá koma þeir til hans. Hann segir þeir hafi atlað að gera sér illt að brenna upp smiðjuna sína, en það hafi ekki verið so illt sem þeir hafi hugsað; hann hafi fengið fyrir öskuna allt þetta gull sem er í pokunum. Nú verða þeir hreint hlessa, hugsa með sér að brenna upp sína smiðju; þeir fái meira af gulli, hún sé so stór; og fara so heim og brenna smiðjuna. Þegar hún er orðin að ösku fylla þeir fjóra poka af öskunni og ríða so á stað með sinn hestinn hvor í taumi og koma so að stórbæjum og bjóða alstaðar ösku fyrir gull; en fólkið hugsar að þeir séu vitlausir að þeir muni fá gull fyrir ösku so þeir mega fara heim með sneypu og skömm.

Einu sinni þegar karlssonur er út á skóg drepa kóngssynir móður hans og þegar hann kemur heim er kerling dauð og hann veit að kóngssynir hafa gert þetta. Hann tekur móður sína og færir hana í beztu fötin sem hún á, tekur síðan hest og leggur á söðul og bindur hana í söðulinn og ríður so á stað með móður sína. Þegar hann er kominn langa vegi mætir hann fjórum mönnum með stóran nautaflokk. Hann ríður til mannanna, en skilur móður sína [eftir] skammt frá og fer að skrafa við þá. Rása nautin að kerlingunni og seta hana úr söðlinum. Þá segir strákur: „Það er fallegt ef nautaskrattarnir eru búnir að drepa hana móður mína“ – og ríða allir þangað og þá er hún dauð. Strákur segir að nautin hafi drepið hana. Þeir hefðu getað sagt sér að þau væru manneygð og megi þeir borga sér það eða skuli hann klaga þá. Þeir fá hönum helminginn af nautunum. Hann fer so heim með nautin og móður sína og fer so að skera nautin. Þá koma kóngssynir og spurja hvar hann hafi fengið þessi naut. Hann segir þeir hafi ætlað að gera sér illt, en það hafi ekki verið so illt sem þeir hafi hugsað; hann hafi fengið öll nautin svarna fyrir hana. Þeir hugsa með sér að þeir skuli drepa hana móður sína; meira fái þeir fyrir hana, hún sé drottning. So fara þeir heim og drepa móður sína, færa hana so í allan drottningarskrúðann og leggja so á hest söðul, ríða so á stað. Hvar sem þeir koma eru þeir að bjóða hana fyrir naut. Það vill enginn heyra það, segja að enginn maður muni taka hana fyrir, og mega fara heim með so búið.

So nú vita þeir ekki hvurnig þeir eiga [að] borga hönum nema að þeir taka hann og seta í poka og binda fyrir og fara með hann. Þegar þeir eru að bera hann heyrir hann að þeir eru að tala um að seta hann ofan fyrir björg í grænan sjó. Hann heyrir að þeir eru að tala um að koma að þessu herramannssloti að fá sér góðgjörðir; það sé óhætt að skilja pokann ettir undir einum garði. Hann finnur að þeir seta sig niður og fara. Þegar dálítil stund er liðin heyrir hann að þar kemur maður og er að tala við sjálfan sig hvað muni vera í pokanum; hann skuli skoða í hann. Þá segir strákur: „Skoðaðu í hann, lagsmaður.“ Hann leysir frá og sér að þar er í stálpaður strákur. Strákurinn í pokanum spyr hvað hann sé að gera. Hann segir hann sé að smala hjörðinni herramannsins. Þá segir strákur smalastráknum að fara í pokann, það sé gaman að vera í hönum, en hann eigi að þegja hvað sem á gangi. Smalastrákur fer í hann, en hinn bindur fyrir og fer so í burtu og tekur nokkuð af hjörðinni og fer með það heim í karlskot og fer að slátra fénu; og þá koma kóngssynir; og spurja kóngssynir hvar hann hafi fengið þetta fé. Hann spyr hvar þeir hafi fleygt sér. Þeir segja þeir hafi fleygt hönum í grænan sjó. Hann segir að hann hafi komið á græna velli og þar hafi verið byggð og bæir og margt fólk – „og einn herramaður gaf mér þetta fé“. Þeir biðja hann að koma sér þangað. Hann segir þeir verði að vísa sér þá á hvar þeir hafi fleygt sér, ekki viti hann það. Þeir fara. Hann segir að það sé betra að hafa hund; hann hafi verið í vandræðum af því hann hafi verið hundlaus. Þeir hafa hund og fara so allir. Þeir fara fram á eina fjallbrún og þar er undir grænn sjór. Þeir segja þarna hafi þeir fleygt hönum ofan fyrir. Hann segir að þeir skuli þá fara þarna. Þá fleygir sér sá fyrsti, og um leið og hann dettur skýzt upp hendin. Þá segja hinir að hann sé að benda þeim, og seta sig ofan fyrir bræðurnir hvor á ettir öðrum. Og so fer strákur heim og giftist, verður sterkríkur og verður vænsti maður. Og endar so þessi saga.