Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Karlssonur og yfirhirðir kóngs

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Karlssonur og yfirhirðir kóngs

Einu sinni var karl og kerling í koti sínu, nálægt þeim stað hvar kóngur og drottning sátu. Karl og kerling áttu sér einn son barna og unnu honum mjög, en hann var svo óþægur og latur að hann vildi ekkert verk vinna. Þau áttu eina kú og skyldi hann gæta hennar, en svo fór að hann hætti að gæta kýrinnar; þá urðu þau svo reið að þau ráku hann burt.

Nú er hann var farinn af stað gekk hann lengi lengi unz hann kom að einum bæ, þar barði hann að dyrum. Þar kom út maður og spurði hvað hann væri að ferðast. Hann kvaðst hafa verið rekinn burt af foreldrum sínum vegna óþægðar og leti. „Nú ætla ég að biðja þig gistingar,“ segir drengur. „Það skaltu fá,“ segir hinn, „en skipa mun ég þér verk á morgun; því vita skaltu að ég er æðsti hjarðumsjónarmaður konungs.“ Drengur hljóðnar við, en jánkar eftir lítinn tíma. Síðan leiðir húsráðandinn dreng inn. Þar sér drengur tvær stúlkur og konu húsráðandans. Drengur situr litla hríð unz matur er honum færður, kjöt og brauð með sméri og mjólkursufl. Fátt er um viðræður um kveldið og ekkert verk er fyrir hann lagt. Síðan fer hann að sofa og sefur til morguns. Þá hann er klæddur kemur húsráðandi til hans og segir: „Verk hef ég þér ætlað.“ „Hvurt er það?“ segir drengur. „Að gæta hundrað svína,“ segir húsráðandi. „Því er ég óvanur,“ segir drengur. „Það hlýtur þú þó að hafa,“ segir húsbóndi. Síðan tekur drengur við svínunum og rekur þau í haga, en þegar hann hefur litla hríð verið með þau í haganum gjörast þau svo ólmleg og ókyrr að hann ræður engu við og ætluðu þau að fljúga til fjalls, en hann sætir lagi þar sem fyrir þeim verða þrengsli nokkur; þar hnappar hann þau og keyrir þau viðstöðulaust heim að koti karls og kerlingar. Karl verður forviða og spyr hann hvar hann hafi fengið hjörð þessa. Drengur segir: „Hinn æðsti hjarðvaktari konungs á svín þessi og fékk mér þau til geymslu, en þau urðu mér svo erfið í geymslunni að ég tók það ráð að reka þau heim til þín og skaltu nú nota þér veiðina og skera þau öll strax í stað.“ „Það gjöri ég ei,“ segir karl, „því það verður þinn bani.“ „Nei,“ segir drengur, „gjörðu sem ég segi, ég skal vita ráð að komast út af þessu.“ Síðan skar karl öll svínin og komu þau þeim sem fljótast undan. Síðan biður drengur karl að fá sér duglegan spotta; karl gjörir svo. Síðan tekur drengur spottann og allar rófur svínanna og festir þær upp á spottann, fer svo af stað þar til hann kemur þar sem er stórt dý nálægt þeim stað hvar hann vaktaði svínin. Þar hleypir hann niður rófnakippunni í dýið og lætur alla rófnabroddana standa upp úr með litlu millibili. Þar var steinn stór á dýbakkanum; drengur streitist við og færir stein þennan að dýinu og veltir í dýið, svo hann lendir ofan á taugina milli rófnanna svo hann sást ei og eigi gengu upp rófurnar þó í væri togað.

Eftir þennan umbúnað hleypur drengur heim til húsráðanda og er mikið hryggur í bragði. Þegar hann kemur spyr húsráðandi: „Hvurnig stendur á þessu? Hvar eru svínin, drengur?“„Æ, herra minn, minnizt þér ekki á það; það er saga að segja yður af því. Þegar ég var kominn með þau í hagann urðu þau svo ólm að þau flugu sitt í hvurja áttina, en ég hljóp fyrir alla brodda og lá við spreng, en þegar ég var búinn að hringhlaupa þau kom það undur fyrir er ég hélt aldrei mundi verða. Sjá, þau þyrluðust saman og að einu dýi og stukku öll út á og á kaf svo ég sá ekki nema á sjálfar rófurnar.“ „Þessu lýgur þú,“ segir húsráðandi. „Nei, ég segi það gullsatt,“ segir drengur. „Þú skalt mega sýna mér merki þess svo ég trúi,“ segir húsráðandi. „Já, komið sjálfir og sjáið,“ segir drengur. Síðan hlupu þeir báðir til dýsins og sá þá húsráðandi að allt var sem drengur hafði sagt; tekur hann þá til að toga í rófurnar, en hvurgi gekk. „Taktu á með mér líka,“ segir húsráðandi. Síðan tekur drengur á líka og toguðu þeir báðir, en eigi gekk að heldur. „Þetta er mikil undratilviljun,“ segir húsráðandi, „og sé ég þú getur eigi að gjört og því vil ég ekki átelja þig, en hlýt að hafa skaða minn óbættan.“ Síðan ganga þeir heimleiðis og lætur húsráðandi dreng sofa af um nóttina.

Um morguninn kemur hann til drengs og segir: „Verk hef ég þér ætlað enn; ég á hundrað sauði, þeirra skaltu gæta í dag og láta engan tapast.“ „Ég vil reyna það,“ segir drengur. Því næst tekur drengur við sauðunum og rekur þá í haga, stendur þétt fyrir og ætlar að verja þeim að dreifa sér, en eftir litla hríð gjörast þeir svo óspakir að þeir hlaupa út úr greipum honum; þá verður hann hryggur og reiður og mælir við sjálfan sig: „Þetta kemur mér maklega því ég var svo ótrúr þegar ég átti að vakta kú föður míns og vildi ekkert vinna fyrir hann.“ Síðan tekur hann til fóta og hleypur kringum alla sauðina, keyrir þá saman í harðahnapp og drífur heim að koti karls föður síns. Karl stanzar allan þegar hann sér sauðabreiðuna og spyr dreng hvurju þetta sæti eða hvar hann hafi fundið og hvur eigi. Drengur segir honum allt sem orðið hafði. Karl segir: „Gjör ei slíka fíflsku, far heldur strax heim með sauðina til húsbóndans.“ „Nei,“ segir drengur, „við skulum skera þá og skaltu hafa í bú þitt slátur þeirra.“ „Nei,“ segir karl, „það verður bráður bani þinn.“ „Ekki er það víst,“ segir drengur, „en hvurnin sem fer skal ég nú einn um ráða og fyrir sjá.“ Síðan verður það fyrir fortölur drengs að þeir skera sauðina og koma undan slátri þeirra, gærum og höfðum, en drengur biður karl að gefa sér höfuðið af forustusauðnum; það hafði bjöllur í hornum. Með það hleypur drengur til skógar og allt þar til hann kemur í þann stað hvar hann átti að gæta sauðanna. Þar var hár hóll; upp á þeim hól var drangi, en efst á dranganum var grastó; á þeirri tó stóð hrísla hávaxin með viðarlimi sem sló sér víðs vegar út. Upp á þennan dranga klifrar drengur með höfuðið, les sig upp eftir kvistum og öngum á hríslunni þar til hann nær til miðgreinarinnar; við hana festir drengur höfuðið svoleiðis um búið að hann hafði dregið taug gegnum það, en hornin voru laus við greinina með bjöllunum og hringlaði í bjöllunum því að vindur var hvass á kominn. Síðan gekk hann niður af dranganum, en gat eigi séð höfuðið að neðan fyrir hæð drangans og þéttleika brums hríslunnar.

Nú skundar drengur heimleiðis til húsbónda; er hann bæði sveittur, þrunginn og sorglegur í útliti nær hann kemur. Húsráðandi spyr hvað valdi ógleði hans, „eða hvar eru sauðirnir?“ „Ó, minnizt þér ekki á það,“ segir drengur, „ég veit ekki hvur undur fyrir mig ætla að koma.“ „Nú,“ segir húsráðandi, „segðu fljótt, hvar eru sauðirnir?“ Þá segir drengur með grátstaf í kverkum sér: „Ég, ég – get ekki sagt yður frá því; þeir létu svo illa að ég réði engu við; ég hljóp og hljóp þar til ég var nær því sprunginn og með mestu þrautum komst ég fyrir þá; en, en – ég gat varla trúað mínum eigin augum; allt í einu heyrði ég mikinn þyt og hugsaði vindbylur væri í nánd, en sjá, sauðirnir liðu allir upp í loftið frá augum mér. Eg varð frá mér numinn, stóð og horfði á eftir þeim langa stund og alltaf heyrði ég hringlið í bjöllunum í hornum forustusauðarins. Þeir hafa orðið uppnumdir til himna; já, ég heyrði bjölluglamrið upp yfir skýjunum.“ „Hvílíka feiknalygi fer þú með, strákur,“ segir húsráðandi. „Nei, ég segi þetta dagsanna,“ segir drengur og grét mjög. „Þú verður að sýna mér merki til ef ég skal trúa,“ segir húsráðandi. „Já, komið og sjáið,“ segir drengur. Síðan fara þeir báðir af stað, en dagur var að kvöldi kominn og orðið skuggsýnt. Drengur fer á undan þar til þeir koma að dranganum er hríslan stóð á og sást hann varla því óðum dimmdi af nótt. Nú heyrði húsbóndi bjölluglamrið upp yfir sér í loftinu. Þá segir drengur: „Herra minn sæll, heyrið þér nú hvar hringlar í hornum á forustusauðnum yðar?“ „Já,“ segir húsráðandi og lítur upp í loftið, „ég heyri þú segir þetta satt; þeir eru uppnumdir og get ég ekki gefið þér þetta að sök og skaltu vera af mér óásakaður, en ég hlýt að gista með skaða minn.“ Síðan gengu þeir heimleiðis og sváfu af um nóttina.

Um morguninn kemur húsráðandi til drengs og segir: „Það er von þó þú sért orðinn þreyttur á þessu starfi, en nú hef ég enn einu sinni fyrirhugað þér verk í dag, og hygg ég þér verði léttbærast það af hendi að leysa: Þú skalt geyma 40 nauta sem ég á eður réttara konungur, og sjá vel til að ekkert tapist því einn uxinn er með gullrenndum hornum og klaufum, mesta gersemi konungs.“ Drengur lætur lítið yfir, tekur þó við nautunum og fer á stað með þau hálfnauðugur. En þá hann kemur með þau í hagann gjörast þau brátt ókyrr og hleypur hinn konunglegi uxi öskrandi á undan þeim. Dreng var vel kunnugt hvar karl faðir hans var vanur að halda kú sinni; gjörir hann nú hark að nautunum svo þau hrökkva í þá átt er kýr karls var. Þá rekur hinn konunglegi uxi upp öskur mikið við hvað kýr karls tekur undir svo allt nálgast hvað öðru, nautin og hún. Drengur herðir á eftir þar til öllu slær saman. Nú hleypur drengur að kú föður síns og teymir heim á stöðul. Karl er þá heim við bæjargarð og sér hvar nautaflokkur mikill steðjar heim á stöðul, en son sinn teymandi kú sína í bandi á undan. Karl verður hálfskelkaður, arkar þó upp á stöðul og spyr dreng: „Hvurju veldur þetta?“ Drengur segir sem var. Karl segir: „Far sem bráðast með nautin aftur til húsráðanda.“ „Nei,“ segir drengur, „þú skalt hafa þau og færðu stóra steik því í þeim er gott sláturtak.“ Karl færist á allar lundir undan, en drengur sækir fast á unz hann fær talið karl til að leggja hönd á þau. Síðan taka þeir til og múla þau og fjötra hvurt að öðru og slátra þeim; var karl mikilvirkur enda þurfti hann nú á karlmennsku að halda. Þeir hættu ei fyrr en þeir höfðu lagt öll að velli og afhöfðað. Nú kemur að hinum konunglega uxa; þeir færa á hann bönd og gátu jarðvarpað. Drengur skal halda í taugina sem vant er, en uxinn gjörir þá svo mikinn rykk að af honum spretta böndin, hann sprettur á fætur, skimar sig yfir blóðvöllinn, verður ærr og hleypur af stað, drengur á eftir til skógar; hlupu þeir yfir holt og hæðir, en hvurki dró sundur né saman þar til uxinn kemur að einu klettagili í landi húsráðanda; í því gili voru margar gjár og sprungur og myrkt í. Ofan í eina þessa gjá hljóp uxinn, og var lengi áður drengur heyrði hann kom niður og heyrði eiminn af öskri hans nær hann nístist við gjáarbotninn. Drengur hafði á sér brennisteinskyndla. Hann hugsar það ráð að hann kveikir í þessum kyndlum og lætur þá síga niður á gjáarbotninn; síðan finnur hann viðarolíu og lætur síga niður í næfurberki; í þetta les eldurinn sig á gjáarbotninum. Síðan verður drengur þess var að tekur að kvikna í hári uxans. Nú hleypur drengur heim allt hvað af tekur til húsráðanda. „Nú hefur þú lengi verið,“ segir húsráðandi, „eður hvar eru nautin?“ Drengur gat varla komið upp orði fyrir ekka, en síðan segir hann: „Allt, allt fer á sömu leiðina, nautin eru farin.“ „Hvað?“ segir húsráðandi, „farin? Þú skrökvar, þrællinn þinn.“ „Ég segi satt,“ segir drengur. „Þegar ég hafði rekið þau í hagann urðu þau svo vitlaus að ég réði engu við; hinn mikli uxi hljóp á undan og öll nautin á eftir þar til þau hvurfu niður; ó herra minn, þau hafa víst sokkið því ég kom að einni gljúfraholu; þar virtist mér ég heyra óminn af öskri þeirra niður í, sér í lagi hins horngyllta uxa; svo sýndist mér þar eldur brenna undir og hygg ég það hafa verið af völdum gamla karlsins, því brennusteinsfýluna lagði upp í móti mér. Ég varð skelkaður og hljóp heim.“ „Þó þú hafir aldrei logið, þá lýgurðu nú,“ segir húsráðandi. „Nei,“ segir drengur, „þér skuluð bráðum fá að sjá merki þess.“ „Þér er það gagn þú segir satt,“ segir hinn, „því annars skal það verða þinn bani.“ Síðan hlaupa þeir á stað og drengur á undan þar til þeir komu að hinni áður um getnu holu. „Sjáið þér nú til,“ segir drengur. Húsráðandi skyggndist ofan í holuna, sá mikinn eld brenna þar niðrí og fann megna brennisteinsfýlu leggja upp úr. „Hvílík býsn,“ segir húsráðandi; „ég sé þú segir satt og get ég því ekki átalið þig, en ég má sitja með skaða minn óbættan; nú hef ég þannig þennan skaða beðið. Nú skulum við heim ganga og skaltu nú ekki framar hjarða gæta, heldur vinna það starf sem náðugra er.“ Síðan ganga þeir heim. Þá kemur húsráðandi að máli við dreng og segir: „Nú hef ég að vísu hugað þér verk að morgni og skaltu smíða tíu ljái, sinn handa hvurjum húskarla minna, er ég ætla að því búnu að láta taka til sláttar á engi.“ Dreng brá mjög við þetta þar hann vissi sig eigi neitt til smíða kunna, en þorði þó eigi undan að teljast. Síðan leggst hann niður um kvöldið, en um nóttina þegar allir eru í svefn komnir rís drengur á fætur og leitar til dyra og tekst honum að komast út. Síðan hleypur hann heim til karls og kerlingar og segir þeim upp alla sögu. Þau tóku við honum og héldu hann á laun; leitaði húsbóndi hans víða að honum, en fann ekki. Gjörist hann nú trúr og þægur hjá karli og kerlingu.

Liðu svo fram langar stundir. Einu sinni kemur hann að máli við karl föður sinn og kveðst vilja fá sér kvonfang. „Ekki lízt mér það gjörlegt,“ segir karl. „Jú,“ segir drengur, „þegar ég var hjá húsráðanda átti hann tvær dætur og lék mér strax hugur á hinni yngri og vil ég nú til freista að fá hennar.“ „Ver ei svo fífldjarfur,“ mælti karl, „að ganga í greipar húsráðanda, því það verður þinn bráður bani.“ „Á það mun þó hætta verða,“ mælti drengur, „en þú gef mér sverð gott til fararinnar.“ Karl telst undan því, en svo fer um síðir að karl verður til að láta sverðið. Síðan skundar drengur á stað og kemur síð dags að bæ húsráðanda. Þar ber hann strax að dyrum, þar kemur út piltur einn lítill. Drengur biður hann segja húsráðanda að hann girnist hans fund. Piltur hleypur inn og segir húsráðanda; hann kemur út og segir: „Ertu nú kominn? Þú fórst skyndilega burt seinast. Skaltu nú samt vera hér í nótt.“ „Annað er nú reyndar erindi mitt fyrst.“ Síðan bregður hann sverðinu og segir: „Með þessu sverði skaltu nú strax höggvinn verða utan þú gefir mér yngri dóttur þína.“ Bóndi þorir ei annað en sverja honum þetta strax í stað. Því næst fer hann þessa á leit við meyjuna og fer svo að hún lofast honum.

Síðan fer hann heim, sækir karl og kerlingu; fara þau með honum til húsráðanda. Síðan er drukkið brúðkaupið og að því enduðu segir drengur húsráðanda upp alla sögu; hún berst síðan fyrir kóng og drottningu. Kóngur kallar hinn nýgifta mann fyrir sig; fréttir hann allt það sem skeð var, en þá hann hafði heyrt alla þessa sögu gjörir hann hann að einum æðsta ráðgjafa sínum og fær honum mikið fé. Fóru karl og kerling síðan í horn til hans, en hann lifði með konu sinni til ellidaga, hafði mikla velsælu og auðsafn. – Endum vér svo þessa sögu.