Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Keisarasonurinn siðlausi og kóngsdóttirin bragðvísa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Keisarasonurinn siðlausi og kóngsdóttirin bragðvísa

Einu sinni í fyrndinni var keisari einn; hann var so voldugur og víðfrægur að undir hann voru skattgildir tuttugu kóngar. Hann átti einn son barna við drottningu sinni og er ekki nefnt hvað hann hét. Þegar hann vóx upp var hann bæði voldugur og drambsamur mjög og þókti sér hvurgi fullkosta og so var hann ósiðaður að hann tók dætur skattkónga föðurs síns með valdi og lá hjá þeim þrjár nætur og lét þær so fara heim með vansæmd og þorði enginn í móti að mæla fyrir ríki þeirra feðga. Leið so fram tímar.

Einn af skattkóngum keisara eignaðist dóttur eina, og þar hann óttaðist keisarasoninn þá lét hann byggja jarðhús eitt þegar barnið var fætt svo fáir af vissu og lét barnið þangað með konu einni sem átti að fóstra það, og var mærin fóstruð upp í húsi þessu svo öngvir af vissu þar til hún var tólf ára. Það var eitt sinn að hún sagði við fóstru sína að hún vildi finna föður sinn og lét hún hana ráða því. Bjó hún sig þá og gekk í höllina fyrir föður sinn. Kóngi hnykkti mjög við og spurði því hún væri þar komin. Hún svaraði að sér leiddist í einsetu þessari niður í jörðinni og vildi hún biðja hann þeirrar bænar að láta byggja sér skemmu eina eins og aðrir kóngar hefði gert dætrum sínum so hún gæti verið þar og fengið sér meyjar til þjónustu. Kóngur sagðist mundu hafa gjört það fyrri hefði hann ei óttazt þann stórláta og vonda keisarason að hann mundi smána hana eins og aðrar kóngadætur og þess vegna hefði hann látið hana vera í einhýsi þessu og sagt lýðnum að hún hefði dáið þegar hún var barn; og höfðu allir borgarmenn álitið þá sögu trúlega og því brá öllum hirðmönnum við þegar þeir sáu hana lifandi og þar komna, og báru nú ótta fyrir að keisarasonurinn frétti að hún væri enn á lífi og mundu afdrif hennar verða eins og annara kóngadætra. Þá svarar kóngsdóttir að hvorki skuli faðir sinn né aðrir bera ótta fyrir sér vegna keisarasonarins, því hún mundi ábyrgjast sig sjálf, en óskar einasta að faðir sinn láti byggja sér skemmu. Kóngur er lengi vel tregur til að samþykkja það, en lætur þó loks til leiðast að lofa því fyrir einlægan bænastað hennar. Og er þá skemman byggð með mikillri viðhöfn og er á stuttum tíma fullgjörð. Flytur hún sig so í skemmuna og ræður sér ríkra manna dætur til þjónustu og liðu so nokkrir tímar að ekki bar til tíðinda.

Fer so að keisarasonurinn fréttir af þessari kóngsdóttir. Þá vill hann ná fundi hennar eins og annara. Býr hann þá skip úr landi og segir ei af ferðum hans fyr en hann kemur á höfnina fyrir borg konungs þess sem áður er nefndur og sendir hann menn heim til hallar að boða honum komu sína. Þegar kóngur heyrir þessi tíðindi verður hann hræddur og gengur til dóttur sinnar og segir henni þetta. Henni bregður ekki við og segir hönum að bjóða keisarasyni heim til hallar og skuli hann gera veizlu á móti hönum og taka honum hið bezta; so skuli hún sjá ráð fyrir. Konungur gjörir þetta og setur keisarason í hásæti hjá sér og er slegið upp dýrðlegri veizlu. Þegar hún stóð sem hæst þá kemur kóngsdóttir í höllina með skemmumeyjum sínum fagurlega búin og kveður föður sinn hæversklega og eins keisarason. Hann tekur vel kveðju hennar og segist ætla að heimsækja hana í skemmu hennar í kvöld. Hún segir það megi svo vera. Er so drukkið um daginn; en um kvöldið gengur hún til skemmu sinnar með meyjum sínum. Skömmu síðar kemur keisarasonurinn í skemmuna, en fylgdarmenn hans ganga þá til skips. Þegar hann kemur í skemmuna fagnar kóngsdóttir honum vel og drekka þau nokkra stund saman. So segir keisarasonur að hann ætli [að] samrekkja með henni í nótt. Hún lætur það so vera og segir hönum að ganga til hvílu sinnar. Þegar hann er afklæddur og kominn í hvíluna þá sýnir hún sig líklega að fara upp í, en áður en hún gerir það hellir hún úr flösku á staup eitt og réttir að keisarasyni og segir að þau verði nú að drekka saman hvíluskálina. Hann tekur við og drekkur, en þá bregður hönum so við að hann dettur þegar út af sofandi. Þá fer kóngsdóttir til skemmumeyja sinna og biður þær hjálpa sér til að taka keisarason úr rúminu. Leggja þær hann þá í kistu eina og er henni so læst. Sendir hún þá strax um morguninn tvo af þrælum sínum til skips með þau boð frá keisarasyni að tólf af þeim skuli samstundis koma til skemmu kóngsdóttir. Þeir hlýða því þegar; og þegar þeir koma þangað lætur kóngsdóttir þjóna sína bera út kistu eina og með henni þau boð frá keisarasyninum að þeir skyldu fara með kistu þessa á skip og hið fljótasta vinda upp segl og flytja hana heim til föður síns, en það varðaði þá alla líftjóni ef þeir skoðuðu í hana, því faðir sinn ætti fyrstur að ljúka henni upp. Þeir spurja hvar keisarasonur sé, en hinir segja að hann muni hvíla hjá kóngsdóttir. Taka þeir þá kistuna og fara með hana út á skip og vinda þegar upp segl og sigla dag og nótt þar til þeir koma heim til keisarans. Láta þeir bera upp kistuna og afhenda hönum hana. Keisari hugsar að hér í sé sjaldgjæfar og dýrar sendingar. Verður hann því fljótur til að ljúka upp kistunni; en þá bregður hönum mjög í brún er hann sér mann liggja í kistunni í línklæðum einum og kennir hann þar son sinn. Hugði hann fyrst að hann væri dauður, en þegar hann gætir betur að þá finnur hann að hann muni lifandi vera, en sofa. Lætur hann þá taka hann úr kistunni og leggja í hvílu eina, en við hreyfingar þessar vaknar keisarasonurinn og veit ei hvaðan á sig stendur veðrið þegar hann sér föður sinn standa þar hjá sér sorgbitinn og spyr hann föður sinn hvurnin á því standi að hann sé hjá sér. En keisarinn segir hönum þá hvurnin hann sé þangað kominn. Þegar keisarasonurinn heyrir þetta kannast hann þegar við, því hann man að hann sofnaði í hvílu kóngsdóttir og að þetta muni vera af völdum hennar. Verður hann þá bæði hryggur og reiður og varð þó so búið að hafa, en hugsaði sér að gjalda henni grimmilega þessa smán ef hann gæti.

Liðu so fram stundir að keisarasonur vissi ei hvurnin hann skyldi hefna sín. Kemur hönum þá í hug að leita ráða til völvu einnar er þar bjó utan borgar; fer þá á hennar fund og gefur henni fé mikið og biður hana liðsinnis. Valvan er treg til og segir að það sé ekki sitt meðfæri að eiga leik við fóstru kóngsdóttir eða hana sjálfa sem sé orðin jafnlærð fóstru sinni í þeirri list. En þar keisarasonurinn sækir fast á, en völvunni þykir fagurt féð, þá lofar hún um síðir að liðsinna hönum eftir mætti þó það muni fyrir ekkert koma. Ráðleggur hún hönum þá að láta byggja kastala einn í borginni og láta vanda hann að öllu sem mest. Gefur hún hönum þá stól einn og segir hönum að setja hann í kastalann og loka hönum so vandlega svo enginn fái þar inngöngu; en ef so kunni til að bera að kóngsdóttir sæki hann heim þá skuli hann taka henni blíðlega og sýna henni bæði hallir sínar og gersemar og síðast kastala þennan og leiða hana inn í hann; en þegar þau gangi hjá stólnum skuli hann hrinda henni á hann og hlaupa síðan út sem snarast og læsa kastalanum rammlega. Keisarasonurinn þakkar völvunni fyrir ráð þessi og glaðnar yfir hönum.

Nú víkur sögunni til kóngsdóttir að hún fær löngun til að heimsækja keisarason. Leitar hún þá ráða hjá fóstru sinni og er hún samþykk því að hún skuli fara, en ráðleggur áður mörg heilræði sem hér eru ekki nefnd. Kóngsdóttir býr sig nú af stað á einu skipi og er faðir hennar mjög hugsjúkur um þessa ferð hennar, því hann heldur að hún sé töfruð að keisarasyninum, en hún biður hann að láta sig nú ráða og gefur hann það um síðir eftir. Fer hún þá á skip og segir ei af ferð hennar fyr en hún kemur á höfnina fyrir höfuðborg keisarans. Þegar keisarasonur fréttir það þá þykir hönum vænkast sitt ráð. Lætur hann nú á öngvu bera, en gengur til strandar með fríðu föruneyti og býður henni heim til hallar föður síns að þiggja þar veizlu. Kóngsdóttir þiggur það og er henni ekið í vagni til borgarinnar; en á meðan stendur á tilbúning veizlunnar fer keisarason að sýna henni bæði dýrgripi hallarinnar og bygging hennar og að lyktum leiðir hann hana í þann fyrnefnda kastala; og er þau ganga bæði innar hjá þessum stól þá ætlar keisarasonur að hrinda henni á hann, en hún var ekki varbúin við því og varð fyrri til og hrinti hönum á hann sjálfum. Greip hún um leið yfirhöfn hans og lagði yfir sig og gekk síðan snarlega út, læsir kastalanum og tekur lykilinn og stingur hönum á sig og gengur þegar út úr borginni og til skips síns og siglir þegar heim til föður síns. Hugði keisarinn að sonur sinn hefði siglt með henni þar menn sáu hann ganga út úr borginni og til skips. Keisarason hafði bannað öllum mönnum að forvitnast í kastalann hvað sem þeir heyrði og lagt so ríkt við að hvur sem óhlýðnaðist þessari skipun skyldi lífið missa. Nú fóru menn að heyra hljóð og vein í kastalanum og var verið að kalla um hjálp og heyrðist mönnum það líkt málróm keisarasonarins, en allir álitu það hefði ekki stað þar menn þóttust hafa séð hann ganga úr kastalanum og læsa hönum eftir sér og burt úr borginni. Var það hvorutveggja að menn komust ei í kastalann og líka so að menn þorðu ei að brjóta á móti skipun keisarasonarins. Liðu so tímar þangað til þessi hljóð fóru smáminnkandi.

Karl einn gamall bjó í borginni sem þókti þetta undarlegt og fór því til keisarans og segir sér þyki undarleg þessi hljóð í kastala keisarasonarins og segist vilja forvitnast um það. Keisari er tregur til og segir það hætturáð þar sonur sinn hafi harðlega bannað það og lagt lífsstraff við. Karl segist skuli á það hætta, því hann sé gamall og væri því lítill skaði í sér þó hann væri drepinn, því hann væri orðinn gamall. Lætur keisari hann þá ráða. Fer þá karl til kastalans og eftir mikla fyrirhöfn fær hann brotið upp dyrnar og gengur inn. Bregður hönum þá mjög við er hann sér mann sitja á stóli næstum dauðvona og þegar hann kemur nær þykist hann þekkja þar keisarasoninn. Fellur hann þá í forundran og spyr keisarason hvurnin á því standi að hann sé hér. Keisarason fær litlu svarað, því hann var nær dauða en lífi, en þó skilur karlinn að hann biður hann finna föður sinn. Karlinn skundar þegar til keisara og segir hönum að sonur hans sé í kastalanum nær dauða en lífi og biðji hann finna sig. Keisari verður ókvæða við og skundar þegar þangað og sér þar son sinn mjög illa haldinn. Keisari vill þegar ná hönum af stólnum, en þegar hann tekur í hann veinar keisarasonurinn aumlega og finnur keisari að hann er fastur og segir hann þá föður sínum hvurnin þetta hafi til gengið og þegar hann hafi viljað standa upp af stólnum hafi gaddar rekizt upp í rass sér sem hafi pínt sig ógurlega, en minna hafi hann fundið til þegar hann hafði setið kyr. Vill nú keisari umfram allt ná syni sínum af stólnum, en fær ei að gjört; lætur síðan sækja alla læknara í borginni og fer það á sömu leið að þeir fá ei að gjört. Þá biður keisarason að senda eftir völvu þeirri sem hafi gefið sér stólinn og er það þegar gjört, en þegar þar var komið fréttu menn að völvan hefði snögglega dáið fyrir nokkrum tíma um sama tíma og kóngsdóttir hafði komið til keisaraborgarinnar. Fara sendimenn aftur og segja þessi tíðindi. Verða nú bæði keisari og sonur hans ákaflega hryggir og sjá engin ráð. Verður keisarason að gista á stólnum og er hönum hjúkrað þar eins og bezt verður og hressist hann heldur við.

Nú víkur sögunni til kóngsdóttur að hún biður föður sinn orðlofs að fara og finna keisarasoninn. Hann er tregur til, því hann óttast um farir hennar, en lætur þó loks til leiðast. Stígur þá kóngsdóttir á skip og siglir þar til hún kemur undir land. Leggur hún þá skipi sínu í leynivog einn skammt frá höfuðborg keisarans. Gengur hún þá ein á land og tekur sér stafkarlsgjörvi og bindur sér geitarskegg og gengur so í borgina og kom sér þar fyrir í húsi einu. Þá var ekki annað tíðræddara í borginni en að tala um veikindi og ástand keisarasonarins og heyrði tötramaður þessar ræður. Þá segir hann að það sé bágt að keisarasyni verði ei neitt við hjálpað og muni ekki vera góðir læknarar í borg þessari. Þeir spurja hann hvort hann viti nokkur ráð til að hjálpa hönum eða hvort hann hafi fengizt við lækningar. Karl segir að það sé að vísu lítið, en þó hafi hann á yngri árum séð fengizt við lækningar, því hann væri egypzkur að kyni og hafi hann lengi verið í þjónustu hjá læknurum þar. En nú lék það orð á hjá öðrum þjóðum að egypzkir læknarar væru þeir beztu í heimi. Þetta var þegar flutt til keisara, og boðar þegar karl á sinn fund og stumrar hann á eftir sendimanni fyrir keisara og kveður hann kurteislega. Keisari tekur vel kveðju hans og spur hvort það sé satt að hann sé egypzkur að kyni eða hvort hann hafi fengizt við lækningar. Karlinn kvað það satt vera. Keisari kvaðst hafa sent eftir hönum til þess að reyna að hjálpa syni sínum sem sé illa haldinn, og skuli hann hönum það góðu launa ef hann geti það gjört. Karl segist búast við hann geti það ekki, en þó megi hann sjá hann. Þá leiðir keisari karl inn í kastalann til sonar síns þar sem hann situr á stóli; og þegar karl sér hann þá segir hann að þessi maður sé illa haldinn og sé hann óviss að hann geti hér við gjört. Þá lætur karl fletta hann klæðum og skoðar hann vandlega. Síðan tekur hann þá upp hjá sér glas eitt og krukku. Úr glasinu lætur hann gefa keisarasyni nokkra dropa, en úr krukkunni bar hann á læri hans. Síðan tók hann á hönum og losnar hann þá við stólinn, en þó svoleiðis að gaddarnir slitnuðu upp í rass hönum. Var keisarasonurinn mjög máttlítill, en þó þókti keisara mjög vænt um að sonur sinn var losnaður við stólinn. Skipar þá kall að leggja hann í hæga sæng og var það þegar gjört. Síðan segir karlinn að ekki náist gaddarnir úr rassi keisarasonar, en ef hann eigi að reyna það þá verði hann að láta slátra uxa sínum hinum góða og láta síðan færa sér blauta húðina. Verður keisari fljótur til að láta gjöra þetta. Þegar húðin er komin ber karl eitthvað í hana og lætur síðan sletta henni við rass keisarasyni. Þegar hann hefur legið þar nokkra stund finnur hann að broddarnir fara heldur að losna og kippir karlinn þeim jafnóðum út með töng og fer hann síðan að græða sárin og gengur það vel. Fer keisarasonurinn smám saman að hressast og kemst á fætur. Þykir nú keisara mjög vænt um.

Eitt sinn talaði keisari og sonur hans saman um þetta og sagði þá keisarasonur að sér þækti nokkuð undarlegt ef karl þessi væri svo gamall sem hann segði, því hann væri svo fínhentur og mjúkfingraður, og til að prófa þetta komu þeir sér saman um eitt kvöld að láta slá eina fyrir innan hallardyrnar þegar væri dimmt orðið og kallsins væri von, og mundi hann detta væri hann svo hrumur sem hann léti. Þetta var þegar gjört; en þegar karlinn kemur í höllina dettur hann um slána og stendur upp og gengur fyrir keisara og segir að hann eigi slæma hirðmenn sem séu að glettast við sig með því móti að leggja gildru fyrir fætur sér sem hann detti um hrumur og vesæll. Keisari lætur sem sér líki þetta illa og ávítar hirðmenn sína nokkuð hér fyrir. Er nú keisarasonur orðinn alheill. Spurja þeir hann hvað hann vilji í laun fyrir starf sitt. Karl segir að hann setji þar ekkert fyrir, en einnar bónar ætli hann að biðja þá, sem sé sú að vilji svo til að þeir verði einhvurn tíma staddir í bardaga og ef svo kynni við að bera að þeir sæi sig eins og hann væri nú þá eigi þeir þegar að hætta bardaganum og halda uppi friðarskildi; þeim kunni líka sjálfum að vera það fyrir beztu. Þeir lofa hönum því og sverja hönum eið til þess að þeir skuli gjöra það, því þeir hugsa að þetta muni ei fyrir koma.

Ekki er þeim feðgum ennþá grunlaust að kall þessi muni vera annar en hann þykist vera og því hitta þeir það ráð með sér að þeir skuli fá karlinn til að fara í laug með sér og geti þeir þá glöggt séð hann þegar hann afklæðist, og tala þeir um þetta við karlinn að keisarasonur ætli í laug og þeir feðgar og vilji þeir gjöra hönum það til virðingar að fara í laugina með sér. Hann segir það megi vel vera og er svo laugin tilbúin. En svo hafði kóngsdóttir fyrir lagt áður en hún gekk af skipi að nokkrum dögum síðar skyldu tveir af trúnaðarmönnum sínum ganga í borgina í dularbúningi og hafa með sér hund sinn svo hún gæti fundið þá ef sér á lægi. Nú búast þeir allir í laugina sem var utan borgar; en áður þeir gengi til laugarinnar fann kóngsdóttir menn sína að máli og talaði við þá einmæli. Ganga þeir nú allir til laugar. Spyrja þeir keisarason og faðir hans þá karl hvort hann vilji heldur fara í laugina á undan þeim eða eftir. Karl segir sér standi á sama, en þó sé það samboðnara virðing þeirra að fara fyr í vatnið meðan það sé sem hreinast. Þeir segja þá að hann skuli koma með þeim í laugina. Fara þeir feðgar þá og afklæðast og þá fer karlinn að mynda sig til að fara úr yfirhöfn sinni og sýnist hann vart komast úr henni fyrir stirðleika og sezt þá niður hjá fötum hinna og nær brókum þeirra og snýr um annari skálminni svo þeir sjá ekki. Nú herða þeir á karlinum að afklæðast; og þegar karlinn er kominn til hálfs úr yfirhöfninni þá heyra þeir allt í einu skræki mikla. Þá sprettur karlinn þegar upp og steypir aftur á sig yfirhöfninni og segir: „Miklir óþokkar eru mennirnir ykkar, herrar mínir, því nú eru þeir víst að kvelja hundinn minn góða og ætla líklega að drepa.“ Tekur karlinn þá hlaup mikið í burtu frá lauginni og sýnist þeim hann nú hvorki fóthrumur né seinfær og dettur þeim nú í hug hvur þetta muni verið hafa. Flýta þeir sér nú úr lauginni og fara að fara í klæði sín og fara inn í borgina og senda þegar menn að leita karlsins, en hann var þá allur í burtu.

Nú taka þeir feðgar enn ráð sín saman hvað þeir skuli til gera og verður það að lyktum ráð þeirra að safna óflýjandi her og fara með flota mikinn að ríki föður kóngsdóttur; og þegar þeir koma þar við land láta þeir geysa bæði eld og járn og flýja menn hvervetna undan og heim til kóngsborgar og segja þessi tíðindi. Kóngur verður ákaflega hræddur og fer á fund dóttur sinnar og segir henni hvar komið er og eigi hann þetta óhapp upp á hana og muni þau verða tekin og herfilega pínd til dauða. Hún svarar að hann skuli ei hræðast, heldur skuli hann búa þegar allt það lið sem hann geti fengið og fara þegar móti þeim til orustu og muni hún þá koma til liðs við hann. Kóngur hlýðir þessu og er þó lafhræddur. Þegar hann hefur búið lið sitt fer hann á móts við keisara og jafnskjótt þeir hittast slær í bardaga; en svo var mikill liðsmunur að tíu keisaramenn vóru um einn kóngsmann. En þegar orustan stóð sem hæst og kóngsmenn vóru rétt komnir að því að flýja þá heyra menn allt í einu brest ógurlegan. Litu þá allir við og sá þá keisari og sonur hans á hæð einni utan við herinn karl þann er grætt hafði áður keisarasoninn. Veifaði hann þar hvítum klút á stöng og kallaði hátt svo heyrði um allan herinn: „Keisari, mundu eið þinn, mundu eið þinn.“ Við þetta brá keisara svo og syni hans að hann lætur þegar bregða upp friðarskildi og hætta bardaganum. Gengu þá menn á milli kóngs og keisara og sættast þeir þar heilum sáttum. Býður þá kóngur þeim feðgum heim til borgarinnar að þiggja veizlu, og þiggja þeir það. Og að þeirri veizlu hefur keisarasonur bónorð sitt til kóngsdóttir, og játar kóngur því fúslega fyrir sína hönd. Ganga þeir þá báðir til skemmu kóngsdóttir. Er hún þar fyrir og fagnar þeim vel. Biður þá keisarasonur hennar sér til drottningar og tók hún því vel. Var þá veizlunni snúið upp í brúðkaup og var veizla hin virðuglegasta og vóru menn út leystir með góðum gjöfum. Þá gaf keisarinn kóngi upp skatta þá er hann átti hönum að greiða fyrir ójöfnuð þann er hann hafði gjört á ríki [hans]. Að því búnu hélt keisarinn heim ásamt syni sínum og konu hans og tókust nú upp með þeim góðar ástir. Og eftir andlát keisara varð sonur hans keisari og ríktu þau til ellidaga.

Áttu börn og burur,
grófu rætur og murur.

Og er svo þessi sagan úti.