Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn
„Kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn“
Einu sinni var karl og kerling í koti sínu; þau voru svo snauð að þau áttu ekkert fémætt til í eigu sinni nema snúð einn af gulli á snældu kerlingar. Það var siður karls að hann fór dag hvern á veiðar eða til fiskifanga til að afla þeim lífsbjargar. Skammt frá koti karls var hóll einn mikill; það var trú manna að þar byggi huldumaður sá er kallaður var Kiðhús og þótti hann nokkur viðsjálsgripur.
Einu sinni sem oftar bar svo við að karl fór á veiðar, en kerling sat heima eins og hún var vön. Af því gott veður var um daginn settist hún út með snældu sína og spann á hana um hríð. Brá þá svo við að gullsnúðurinn datt af snældunni og valt nokkuð til svo að kerling missti sjónar á honum. Hún undi þessu allilla og leitaði dyrum og dyngjum, en allt kom fyrir ekki, hún fann hvergi snúðinn. Eftir það kom karl heim og sagði hún honum ófall sitt. Karl kvað Kiðhús hafa tekið snúðinn og væri það rétt eftir honum. Bjóst karl enn að heiman og segir kerlingu að hann ætlaði að fara og krefja Kiðhús um snúðinn eða eitthvað fyrir hann. Við það bráði heldur af kellu. Karlinn gengur nú sem leið lá að hólnum Kiðhúss og ber þar lengi á og óþyrmilega með lurk. Loksins svarar Kiðhús:
- „Hver bukkar mín hús?“
Karl segir:
- „Karl er þetta, Kiðhús minn,
- kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn.“
Kiðhús spurði hvað hann vildi hafa fyrir snúðinn. Karl bað hann um kú sem mjólkaði fjórðungsfötu í mál, og veitti Kiðhús honum þá bæn. Fór svo karl heim með kúna til kerlingar. Daginn eftir er hún hafði mjólkað kúna um kvöldið og morguninn og hafði fyllt alla dalla sína með mjólk kom henni til hugar að búa til graut, en þá man hún eftir því að hún á ekkert ákast á grautinn. Fer hún þá til karls og biður finna Kiðhús og biðja hann um ákast. Karl fer til Kiðhúss, ber á hólinn með lurknum sem fyrr. Þá segir Kiðhús:
- „Hver bukkar mín hús?“
Karl segir:
- „Karl er þetta, Kiðhús minn,
- kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn.“
Kiðhús spyr hann hvað hann vilji. Karl biður hann að gefa sér út á pottinn því þau kerling sín ætli að elda sér graut. Kiðhús gaf karli méltunnu. Fór svo karl heim með tunnuna og gerir kerling grautinn. Þegar grauturinn var soðinn settust þau að honum, karl og kerling, og átu eins og í þeim lá. Þegar þau höfðu étið sig mett áttu þau enn mikið eftir í pottinum. Fóru þau þá að hugsa sig um hvað þau ættu að gjöra við leifarnar; þótti þeim það tiltækilegast að færa þær sankti Máríu sinni. En fljótt sáu þau það að ekki var auðhlaupið upp þangað sem hún var. Þeim kom því ásamt um að biðja Kiðhús um stiga sem næði upp til himna og héldu að snúðurinn væri ekki ofborgaður fyrir því. Karl fer og ber á hólinn hjá Kiðhús. Kiðhús spyr sem fyrr:
- „Hver bukkar mín hús?“
Karl svarar enn:
- „Karl er þetta, Kiðhús minn,
- kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn.“
Við það byrstist Kiðhús og segir: „Er þá snúðskömmin aldrei borgaður?“ Karl bað hann því meir og kvaðst ætla að færa Máríu sinni grautarleifarnar í skjólum. Kiðhús lét þá til leiðast, gaf honum stigann og reisti hann upp fyrir karl. Varð þá karl glaður við og sneri heim til kerlingar. Bjuggu þau sig svo til ferðar og höfðu með sér grautarskjólurnar. En er þau voru komin æði hátt upp í stigann tók þau að sundla. Brá þeim þá svo við að þau duttu bæði ofan og sprengdu sundur í sér höfuðskeljarnar. Flugu þá heilasletturnar og grautarkleimurnar um allan heim. En þar sem heilaslettur karls og kerlingar komu á steina urðu úr þeim hvítar dröfnur, en úr grautarkleimunum urðu hinar gulu, og sjást hvorar tveggju enn í dag á grjóti.