Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kisa kóngsdóttir og Ingibjörg systir hennar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kisa kóngsdóttir og Ingibjörg systir hennar

Konungur og drottning réðu fyrir ríki og áttu ekki barna. Það þótti konungi mikið mein. Og eitt sinn er hann fór að heiman að taka skatt af löndum sínum segir hann við drottningu: „Nú skaltu hafa alið mér barn áður ég kem aftur, ella mun ég láta taka þig af lífi.“ Hún varð hrygg við. Og er konungur var farinn gekk drottning út í aldingarð sinn, settist undir vegginn og grét. Þá kom þar til hennar gömul kona og heilsar henni. Hún spyr hví hún sé svo harmþrungin. Drottning segir af hið ljósasta. „Ég mun hjálpa þér úr þessum vandræðum,“ segir konan. „Þú skalt ganga hér út á skóginn“ – og benti henni til. „Þar muntu finna lind. Þú skalt drekka úr lindinni. Þá munu þar koma tveir silungar litlir, hvítur og svartur, og munu vilja fara ofan í þig; þú skalt gleypa hinn hvíta, en gjald varhuga við að hinn svarti fari ekki ofan í þig.“ Drottning þakkar konunni ráðið og gengur þegar út í skóginn. Hún finnur lindina og fer að drekka. Þá komu silungarnir og rennur sá hvíti í munn drottningu, en hinn svarti beit í sporðinn svo hún varð að gleypa þá báða. Nokkru eftir þetta finnur drottning að hún tekur að þykkna undir belti og þá tími var til leggst hún á gólf og fæðir meybarn dáfrítt; en þá var annað eftir og er það kemur í ljós er það svartur köttur. Hann stekkur þegar upp í hallargluggann, en drottningu varð mjög bilt við og bað reka ókind þessa burtu og út á skóg og skyldi allir leyna að hún hefði fætt þessa skepnu.

Nú kemur konungur heim og verður harla glaður er hann veit drottning hefir alið barn. Meyjan var vatni ausin og nefnd Ingibjörg. Elst hún nú upp með hirðinni og er mjög fríð. Konungur lét byggja henni fagra skemmu og fekk ágætar þernur að þjóna henni.

Það bar til eitt sinn þá Ingibjörg var vaxin að Kisa systir hennar kom á skemmugluggann og segir: „Sæl vertu, Ingibjörg systir!“ „Svei þér burtu! Ekki ertu systir mín, ókindin þín!“ segir Ingibjörg. Við þetta fór Kisa þetta sinn. Næstu nótt kom hún aftur og heilsaði sem hið fyrra sinni, en Ingibjörg sveiaði henni burtu. Daginn eftir gengur Ingibjörg til móður sinnar og segir henni frá þessum atburðum. Drottning segir: „Í nótt mun ég sofa hjá þér í skemmu þinni,“ og það gjörði hún. Um nóttina kemur Kisa og kallar inn: „Sæl vertu, móðir mín! Sæl vertu, systir mín!“ Þá tekur drottning undir: „Vertu ekki svo djörf, dubban þín, að kalla mig móður og Ingibjörgu systur. Snáfaðu út á skóg og vertu þar – ella færðu verra!“ Við þetta fór Kisa sína leið. Nokkru seinna vill Ingibjörg konungsdóttir ganga á skóg og skemmta sér og fara þernur með henni. Þær ganga víða um skóginn; er veður hið blíðasta. En allt í einu þykknar loft og tekur að rigna. Þá vildi Ingibjörg snúa heim og var ein þerna hjá henni. Þær gengu um stund og komu ekki út úr skóginum; þá tók að dimma og vissu þær ekki hvert þær skyldu stefna. Þernan bauð að leita vegarins, en Ingibjörg beið undir mikilli eik. Þar settist hún niður.

Eftir litla stund kemur þar að henni risi ferlega stór og illilegur. Hann spyr hvort hún vilji heldur koma með sér eða deyja þar um nóttina. Hún segist heldur vilja vera þar. Þá tekur risinn til axar sem hann hafði, og hjó undan konungsdóttur báðar fætur og hafði heim með sér. Ingibjörg bar sig aumlega og kallaði á þernuna, en hún kom ekki. Nú líður enn stund. Þá sér Ingibjörg að Kisa systir hennar fer þar skammt frá og dregur kerru í rófunni. Hún kallar til hennar og segir: „Hjálpaðu mér nú, Kisa systir!“ „Þú vildir ei áður heita systir mín,“ segir Kisa, „og mun ég nú eigi hjálpa þér.“ „Æ, hjálpaðu mér, systir mín!“ segir Ingibjörg. Það varð um síðir að Kisa ók til hennar og segir henni að brölta upp í kerruna. Það gerir Ingibjörg og ekur Kisa henni að kofa í skóginum. Þar ekur hún kerrunni inn og að rúmi. Þá segir Kisa: „Skríddu nú upp í rúmið!“ Það gjörir Ingibjörg. Þá færir Kisa henni mat og hleypur út. Skömmu síðar kemur Kisa aftur með lífgrös og leggur við fótastúfana og dró þá úr allan sviða. Þar var salttunna í horninu á kofanum. Þangað fer Kisa og veltir tunnunni upp í kerruna og ekur út. Hún ekur lengi eftir skóginum unz hún kemur að helli. Þar ekur hún kerrunni upp á eldhússglugga og lítur inn. Sér hún þar situr jötunn við eld og hjá honum mikil skessa; þar voru og tvö börn þeirra, strákur og stelpa. Kisa heyrir að kelling segir: „Hvað fórst þú út á skóg í dag, kall minn?“ „Fór ég og fann Ingibjörgu konungsdóttur,“ segir hann, „og bauð henni heim með mér, en hún vildi ekki.“ „Hvað gjörðirðu henni þá?“ „Ég hjó undan henni báðar fætur.“ „Hvað viltu með þá?“ „Ég lagði við þá lífgrös til morguns; þá ber ég þá aftur til Ingibjargar og ef hún tórir býð ég henni að græða við fæturna ef hún vill koma með mér. Vilji hún það þá ekki heldur, vinn ég á henni svo hún þurfi ei meira.“ Meðan kall talaði um þetta opnaði Kisa salttunnuna og sáði saltinu inn um gluggann og niður í grautarpott sem [var] á eldinum. Kall tekur enn til máls: „Mun ei grauturinn soðinn, kella mín?“ „Bráðum mun það,“ segir hún og tekur að smakka; þótti henni grauturinn þá svo góður að hana furðaði og býður kalli sínum. Hann smakkaði og sagði: „Svo góðan graut hefir þú aldrei soðið og skulum við taka til að snæða.“ Á meðan sáði Kisa öllu úr tunnunni í ketilinn, en þau kall og krakkar þeirra tóku að eta graut og furðaði öll hversu smekksætur hann var. Þau hættu ei fyrr en þau höfðu etið allt upp. Að stuttri stund liðinni segir kall við strák sinn: „Mig þyrstir; sæktu mér að drekka!“ „Farðu sjálfur!“ segir strákur. „Sæk þú mér vatnið, stelpa mín!“ segir kall. „Sæktu þér sjálfur!“ segir hún. Þá fer kall og gengur til brunns. Hann leggst niður og svelgur vatnið. Þar kom þá Kisa og tekur undir fætur risanum og steypir á höfðinu í brunninn. Þar drukknaði hann. Nú tekur kellingu að þyrsta og biður börn sín að sækja sér vatn, en þau nenntu hvergi svo hún vagaði sjálf til brunnsins, leggst niður og tekur að drekka. Kisa hefir þá sama tak og fyrr og steypir skessunni í brunninn svo hún drukknaði. Þá tekur strákinn að þyrsta ákaflega og biður systur sína að sækja sér vatn, en hún sagði hann gæti gengið sjálfur til brunns. Hann gerir svo og drekkir Kisa honum á sama hátt og foreldrum hans. Nú fer stelpunni að lengja eftir foreldrum sínum og bróður, enda þoldi hún ekki lengur drykkjarlaus, stekkur upp og gengur til vatns. En er hún svalg vatnið steypir Kisa henni í brunninn og týnist hún þar. Eftir þetta gengur Kisa í hellinn og kannar hirzlur. Þar finnur hún margt fémætt og í einni kistu fætur Ingibjargar. Þá tekur hún og ekur heim í kofann. Nú bindur hún fæturna við stúfana og leggur við græðigrös. Furðaði Ingibjörgu hvað henni fór þetta allt mjúklega.

Nú liggur Ingibjörg nokkra daga og kennir engra meina. Vill hún þá stíga á fæturna, en Kisa sagði hún mætti það ei fyrr en að viku liðinni. Eftir þá stund lætur Kisa systur sína í kerruna og ekur til konungshallar. Þá segir hún: „Nú máttu ganga í skemmu þína.“ „Hverju get ég goldið þér alla þessa velgjörð, systir?“ segir Ingibjörg. „Það skal ég segja þér,“ segir Kisa; „þín mun biðja, áður langar stundir líða, konungsson og muntu eiga hann; þá skaltu lofa mér að sofa á fótum ykkar hina fyrstu nótt sem þið eruð í einni sæng.“ „Því skal ég lofa þér og efna,“ segir Ingibjörg.

Nú skilja þær og gengur Ingibjörg í skemmu sína. Allir fögnuðu henni og spurðu hvar hún hefði verið; en hún talaði fátt um og kvaðst hafa villzt í skóginum. Þó sagði hún móður sinni allt eins og var. Drottning gladdist af sögu hennar og bað hana efna vel loforð sitt. Skömmu eftir þetta kemur þangað konungsson úr öðru landi og biður Ingibjargar. Það mál var auðsótt og var stofnað til brúðkaups. En hina fyrstu nótt er brúðhjónin skyldi ganga í eina sæng kemur þar kisa og hleypur upp í hvíluna. Brúðguminn segir: „Rek burtu kvikindi þetta!“ „Æ, nei!“ sagði Ingibjörg. „Við verðum að lofa kisu minni að sofa á fótum okkar; hún hefir hænzt að mér.“ Þá lét hann það eftir. Um miðja nótt vakna þau við umbrot og heyra þau að nokkuð dettur á gólfið. Konungsson kveikir ljós og sér að kattarhamur liggur á gólfinu, en í rúminu dáfríð kona. Hann dreypir á hana víni svo hún raknar við. Þegar hún getur talað segir hún þeim sögu sína:

„Við vorum tvær systur, konungsdætur, og misstum móður okkar áður við yrðum fulltíða. Nokkru síðar fekk faðir okkar sér aftur konu. Við höfðum ama á henni og vildum ekki þýðast hana, því það var reyndar hið versta flagð. Einn dag kom stjúpa okkar og vildi koma í skemmu okkar; við létum það eftir um síðir. En þá hún kom inn sagði hún: „Þið hafið lengi verið mér erfiðar, enda skuluð þið nú gjalda þess. Legg ég það á ykkur að þið verðið að silungum, hvítum og svörtum. Skuluð þið aldrei komast úr þeim álögum fyrr en drottning nokkur gleypir ykkur og þið verðið endurbornar; og þó skal sú ykkar sem mér hefir verri verið og varð að hinum svarta silungi fæðast köttur og ekki komast úr þeim ham fyrr en systir hennar giftist konungssyni og Kisa nær að sofa á fótum brúðhjónanna fyrstu nótt er þau hvíla saman – og mun þetta seint verða.“ Nú erum við hér systur og allt fram komið sem flagðið lagði á okkur og svo það sem leysa skyldi okkur úr álögunum.“

Þau Ingibjörg urðu næsta glöð þegar þau heyrðu þetta og buðu henni hjá sér að vera. En hún sagðist mundi fara heim í ríki föður síns því hann væri nú látinn – „en ég mun sjá ráð fyrir stjúpu okkar.“ Þetta gjörði hún, vann á stjúpu sinni og giftist skömmu seinna, réði síðan ríki föður síns til elli. Þau Ingibjörg systir hennar tóku ríki eftir föður þeirra sem kallaður var og unnu hvort öðru vel og lengi – og ljúkum vér svo þessari sögu.