Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kjangarsaga

Úr Wikiheimild

Kóngur og drottning réðu fyrir ríki og áttu sér einn son; hann hét Sigurður. Þegar hann ólst upp tamdi hann sér alls konar íþróttir og varð hin mesti afbragðsmaður.

Eitt sinn kemur faðir hans að máli við son sinn og segir: „Lítill mun frami þinn verða ef þú situr alla daga heima. Vil ég þú farir nú úr mínu ríki og kynnir þér háttu annara höfðingja; mun ég fá þér hesta og riddara til föruneytis.“ Sigurður tekur þessu vel, en segir: „Ekki hirði ég um fjölmenni og mun ég ríða einn og vita hvað mér verður að frama. Vil ég kjósa mér hinn bezta hest sem þú átt og ríða honum.“ Kóngur segir: „Það er þér heimilt; en heldur vildi ég þú færir með konunglegu föruneyti.“ Nú fer Sigurður til hrossa föður síns að velja reiðdýrið. Sá háttur var á í þann tíð að hestar höfðu klaufir og horn og vömb í kviði þó nú sé ekki svo. Þegar Sigurður kemur í stóðið er þar flókatrippi hverjum hesti ólmara. Það hljóp allt í kringum hann, hvert sem hann sneri sér, og sagði: „Kjóstu mig! Kjóstu mig!“ en hann gaf því lengi engan gaum. Þó fór svo um síðir að hann tók trippið og varð það þá spakt. Það var mertrippi og sagðist heita Kjöng. Nú ríður Sigurður trippinu heim og þótti mönnum hann óviturlega hafa kosið og ekki konunglega. Þó varð við það að vera.

Ríður nú kóngsson Kjöng sinni að heiman og er hún hið bezta reiðhross. Þegar degi hallar segir Kjöng: „Veiztu hvar þú kemur í kvöld?“ „Nei,“ segir hann. „Þú kemur að koti einu, og munt beiðast þar gistingar. Það mun þér verða heimilt, en þú skalt kjósa að mega vera í hesthúsi hjá hrossi þínu, því þú viljir snemma af stað; og láttu mér ekki bregðast að vera hjá mér.“ Sigurður lofaði því. Um kvöldið kemur hann að koti og biður húsa handa sér og hrossi sínu. Bóndi sagði það heimilt. „Þá vil ég hvílu í hesthúsi, því ég fer snemma af stað.“ Það vildi bóndi ekki, en þó varð svo að vera. Þegar þau Kjöng voru komin í hesthúsið segir hún: „Nú verðurðu að gjöra það sem ég bið þig: Þú skalt fara með mig út og slátra mér; en muna skaltu mig um að bera allt af mér aftur inn í húsið og ekki æðrast hvað sem þú heyrir í nótt; á morgun mun ég þá verða úti fyrir húsinu.“ Sigurður gjörir eins og hún bað og leggst nú til hvíldar. Þegar hann hafði sofið litla stund heyrir hann úti dunur miklar og ólæti eins og húsið ætlaði niður og gekk þessu allt til dags. Þá slotaði og fer Sigurður á fætur. Þá stendur Kjöng fyrir hesthúsdyrum og segir: „Ekki varstu mér trúr; þú skildir eftir úti klaufir mínar í nótt; því er ég nú klaufalaus, en hefi fengið hófa. Legg ég á og mæli ég um að enginn hestur hafi hér eftir klaufir, heldur hófa.“

Nú fer Sigurður af stað og ríður unz degi hallar. Þá segir Kjöng: „Veiztu hvar þú kemur í kvöld?“ „Nei,“ segir hann. „Þú kemur að koti og biður húsa og muntu fá það. Þú skalt kjósa að vera hjá mér.“ „Það skal ég gjöra,“ segir hann. Þetta fór allt eins og Kjöng sagði. En þá þau voru komin í hesthúsið segir Kjöng: „Nú skaltu slátra mér aftur og muna að bera allt inn og ekki fara á fætur þó þú heyrir eitthvað.“ Kóngsson gjörði eins og hún bað og verður honum ekki svefnsamt um nóttina; en um morguninn er Kjöng fyrir dyrum og segir: „Enn gleymdirðu úti nokkru af mér; horn mín lágu eftir, því er ég nú kollótt og hefi fengið fax. Legg ég á og mæli um að allir hestar verði hér eftir kollóttir og fextir.“

Þá fer kóngsson af stað og ríður fram að úthalli. Nú segir Kjöng: „Veiztu hvar þig ber að í kvöld?“ „Nei,“ segir hann. „Þú kemur að kofa og biður þar náttstaðar. Bóndi mun taka þér vel, en þú skalt segja þú verðir að vera hjá hrossi þínu. Það mun hann láta eftir og vertu svo hjá mér!“ Þessu játar hann. Þetta fór eins og hún sagði. Og um kvöldið biður hún hann að slátra sér og gleyma nú engu úti. Hann lofar að nú skuli fara betur en fyrr. Síðar slátrar hann merinni og ber inn slátrið og gengar að sofa. Enga stund hafði hann ró þessa nótt og var allt á reiðiskjálfi svo Sigurður varð feginn er dagur rann. Kjöng stóð fyrir hesthúsdyrum þegar hann kemur út, og segir: „Illa sveikstu mig enn og fór nú verst; gleymdir vömbinni úti. Fyrir það er ég nú vambarlaus og langar einir í kviðnum. Legg ég á og mæli ég um að aldrei verði vömb hér eftir í hesti, heldur langar.“

Eftir þetta fer Sigurður á bak og ríður hart þangað til hallar degi. Þá tekur Kjöng til orða: „Veiztu hvort þú lendir í kvöld?“ „Það veit ég ekki,“ segir kóngsson. „Þú kemur í kóngsríki og skaltu biðja konung veturvistar; hann mun veita þér það. En það fylgir veturvistinni að konungur mun setja þér þrjár þrautir og þú átt að setja honum aðrar. Vinnirðu allar þrautir hans, en hann ekki þínar, þá gefur hann þér dóttur sína sem er hinn bezti kvenkostur. Konungur er vitur maður og hinn fjölkunnugasti. Þú skalt kjósa að þjóna hrossi þínu og mun verða veitt það.“ Skömmu eftir þetta kemur Sigurður til konungsborgar og biður konung veturvistar. Konungur tekur því vel, en segir: „Það fylgir veturvist hjá mér að sá verður [að] vinna þrjár þrautir sem ég set honum, og setja mér aðrar þrjár. Vinni hann mínar, en ég ekki hans, hefi ég lofað að gefa honum dóttur mína. Skalt þú nú fá að reyna þig.“ Sigurður segir: „Það mun mér ekki auðnast að vinna þrautir yðar, en þó má ég freista.“ Nú er Sigurður tekinn þar til hirðvistar og þjónar Kjöng sinni.

Undir veturnætur segir konungur: „Nú mun ég fela mig fyrir þér þrjár fyrstu vetrarnætur og skaltu finna mig.“ „Það mun ég ekki geta og skal þó reyna.“ Nú kemur hin fyrsta vetrarnótt og hverfur konungur. Sigurður gengur til Kjangar og segir henni hvaða þraut honum er sett. „Hvað ætlarðu nú að gjöra?“ segir hún. „Þar eru öll ráð sem þú ert, Kjöng mín!“ segir hann. „Þú skalt,“ segir hún, „leita víða í borginni, en seinast skaltu fara þangað sem eru tveir járnsmiðir í sömu smiðju og fá að sjá hamra þeirra; en þar mun vera einn hamar sem hefir tvo skalla. Þann skaltu taka og berja öðrum hamri í skallann og reyna hvort þú finnur þá ekki konung.“ Sigurður þakkar henni ráðin og fer að leita konungs og finnur ekki. Að síðustu kemur hann í smiðjuna og finnur hamarinn sem Kjöng vísaði til og tekur að berja í annan skallann. Þá er hljóðað upp og sagt: „Ætlarðu að rota mig!“ og er þar konungur. „Á! Eruð þér hérna?“ segir Sigurður: „það vissi ég ekki.“ „Þú ert ekki einn í leik,“ segir konungur. „Fyrir sama skal yður koma,“ segir Sigurður.

Nú felur konungur sig aðra nótt, en Sigurður gengur til Kjangar og segist nú eiga að leita konungs. „Hvar ætlarðu nú að leita?“ „Þar eru öll ráð sem þú ert, Kjöng mín!“ segir hann. „Nú skaltu fara að læk þeim sem er fyrir austan borgina og haf net með þér. Þar er lækur og muntu finna í honum einn hyl. Í hylnum sérðu tvo silunga og er annar með gulllit. Þann skaltu veiða og búa þig til að skera og muntu þá vita hvað þar er í efnum.“ Sigurður gjörði sem Kjöng réði. Leitaði hann fyrst víðs vegar og fekk sér net. Þá gengur hann að læknum og kemur að hylnum. Þar sér hann silungana og veiðir nú hinn fagra um síðir og ætlar að skera hann. Þá er kallað: „Ætlarðu að skera mig!“ Sigurður heyrir að þar er konungur og segir: „Ekki vissi ég að þér væruð þar, konungur minn!“ „Þú ert ekki einn í leik,“ segir konungur. „Fyrir sama mun þér koma,“ segir Sigurður.

Nú felur konungur sig hina þriðju nótt, en Sigurður gengur til Kjangar sinnar og segir: „Enn verð ég að njóta þinna ráða.“ „Nú skaltu seinast óska að sjá konungsdóttur og mun þér veitt það. Þú skalt gæta að öllu kringum hana og seinast skaltu skoða í nálhús hennar. Þar muntu sjá eina nál með gullslit. Þú skalt taka hana og taka að bora annari nál í auga hennar. Þá muntu finna konung.“ Sigurður gjörir nú eins og honum var ráð til lagt. Seinast þegar hann hafði fengið að sjá kóngsdóttur sat hún við sauma. Hann lítur eftir öllu kringum hana þangað til hann sér nálhúsið. Hann tekur það og skoðar nálarnar. Þar sér hann gulllitu nálina og tekur að bora í augað. Þá er kallað: „Ætlarðu að stinga úr mér augað!“ „Á! eruð þér þar?“ segir Sigurður; „það vissi ég ekki.“ „Þú ert ekki einn í leik,“ segir konungur. „Fyrir eitt mun þér koma,“ segir Sigurður. „Nú skaltu fela þig,“ segir konungur; „en ég mun leita.“

Þá gengur Sigurður til Kjangar og biður hana hjálpa sér – „og hvar skal ég felast?“ „Þú skalt vera minnsta strá í stalli mínum,“ segir hún. Þegar konungur fer að leita gengur hann fyrst að hesthúsi Sigurðar og vill sópa upp fyrir merinni, en hún bítur og slær, svo konungur kemst hvergi að og varð að hætta leitinni. Þá gengur Sigurður fyrir konung og segir: „Ekki funduð þér mig.“ „Ég vissi hvar þú varst.“ „Hvar var ég þá?“ „Þú varst minnsta strá í stalli merar þinnar.“ „Hví tókuð þér mig þá ekki?“ „Merin varnaði því.“

Þá fer Sigurður annað sinn til Kjangar og spyr hana: „Hvar skal ég nú felast?“ „Þú skalt vera minnsti nagli í hægra afturfæti mínum.“ Þegar kvöldaði tekur konungur sér mikinn naglbít og gengur að hesthúsi og vill draga járn undan Kjöng, en hún slær og ærist, svo hann kemst hvergi að og varð að snúa heim svo búinn. Næsta morgun gengur Sigurður til konungs og segir: „Ekki funduð þér mig.“ „Ég vissi hvar þú varst,“ segir konungur; „þú varst minnsti nagli í hægra afturhóf merar þinnar.“ „Því tókuð þér mig ekki?“ „Merin varnaði því; og skaltu nú fela þig þriðja sinn.“

Sigurður biður enn Kjöng að hjálpa sér. „Nú skaltu vera minnsta hár í tagli mér,“ segir Kjöng. Um kvöldið gengur konungur að hesthúsi Kjangar og vill skera tagl hennar, en það fór sem fyrr að hann varð að hverfa frá við svo búið því merin beit og sló og festi ekki hönd á henni. Morgninum eftir gengur Sigurður fyrir konung og segir: „Ekki funduð þér mig.“ „Þó vissi ég hvar þú varst.“ „Hvar var ég þá?“ „Þú varst minnsta hár í tagli merar þinnar.“ „Hví tókuð þér mig þá ekki?“ „Merin varnaði því.“ „Þá munuð þér gefa mér dóttir yðar,“ segir Sigurður. „Það mun verða svo. En nokkrir eru enn meinbugir og ekki af mínum völdum.“

Konungur hafði ráðgjafa sem Rauður hét, mikill maður fyrir sér. Hann hafði beðið konungsdóttur og ekki fengið að sinni. En þá Rauður heyrir að hún átti að gefast Sigurði varð hann æfur við og segist skora Sigurð á hólm – „skal ég heldur falla með drengskap en þú rænir mig konunni.“ Sigurður segist búinn til að reyna riddaraskap sinn – „og skulum við ríða út.“ Þessu játar Rauður og er nú ákveðinn burtreiðardagur, en síðar skyldi þeir berjast ef hvorugur vinnur í burtreiðinni. Að ákveðnum degi fara þeir út á víðan völl og mikill mannfjöldi til að horfa á. Sigurður ríður Kjöng og hefur mikla stöng. Þeir ríðast nú að og setur Sigurður stöngina í Rauð svo hann fellur úr söðli. Þá hleypur Kjöng að honum og bítur hann illa. Þá varð konungur reiður og skipar að drepa merina og slógu menn hring um Sigurð; en Kjöng hljóp á hringinn, beit og barði með fótum hvern mann frá sér svo allir stukku undan. Komst Sigurður út úr mannhringnum og heim til borgar. Nokkru seinna gekk hann fyrir konung og krafðist dóttur hans. Konungur sagði: „Svo skal vera.“ Var nú búið til brúðkaups; en áður veizlan byrjaði segir Kjöng við Sigurð: „Nú skaltu launa mér það sem ég hefi hjálpað þér og skaltu láta mig vera hjá ykkur inni í svefnherbergi þegar þú hvílir fyrstu nótt hjá konu þinni. Þetta máttu ei láta mér bregðast.“ Sigurður lofar þessu.

Nú var tekið til veizlu og mikið við haft. En að loknu hófinu var brúðhjónum fylgt til svefnherbergis. Þá segir Sigurður að hross sitt skuli vera þar hjá þeim. Menn hlógu að þessu og kölluðu mestu heimsku. En hvað sem menn töluðu um það varð svo að vera sem Sigurður vildi. Nú var Kjöng teymd í brúðarsalinn og var þar um nóttina. Þegar Sigurður vaknaði um morguninn lítur hann á gólfið og sér þar liggja konu dáfríða í öngviti og hjá henni ham Kjangar. Kóngsson hleypur á fætur og dreypir víni á konuna, en brennir merarhaminn. Nú raknar konan við og verður harla glöð. Þakkar hún Sigurði velgjörð hans og segir honum hann hafi frelsað sig úr álögum; segist vera konungsdóttir og hafi stjúpa sín lagt á sig að hún skyldi verða að hinu ljótasta flóka-mertrippi og aldrei komast úr þeim álögum fyrr en konungsson nokkur gjörði við hana og fyrir hana allt það sem Sigurður hafði gjört; – „nú á ég þér að þakka frelsi og gleður það mig að þú hefir og haft nokkuð gott af mér.“ Sigurður þakkaði henni alla hjálp hennar. Um þessar mundir lá Rauður ráðgjafi í sárum mjög illa haldinn af bitinu Kjangar. Nú fór kóngsdóttir sem í álögunum var til hans og þjónaði honum unz hann varð heill. Þá bað Rauður hennar og tókst sá ráðahagur. Sneru þau þá heim í ríki Kjangar og sáu ráð fyrir stjúpu hennar því faðir hennar var þá látinn. Eftir það settist Rauður þar að ríki. En Sigurður kóngsson settist að ríki tengdaföður síns og ríkti þar til elli.