Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Koltrýnu saga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Koltrýnu saga

Það var einu sinni karl og kerling í koti sínu; þau áttu þrjár dætur er hétu Sigríður, Signý og Helga. Karl hélt mjög af tveimur dætrum sínum, Signýju og Sigríði, en Helga var olbogabarnið og lá í öskustónni.

Einu sinni var barið að dyrum í kotinu; fer karl til dyra og sér fagran konungsson standa úti fyrir. Konungssonur spyr hvort karl eigi ekki dætur ógiftar, og segir karl svo vera. Hefur konungsson þá upp bónorð og biður þeirrar er föðurnum þyki sér helzt samboðin. Karl býður konungssyni að vera um nóttina og þiggur hann það. En að morgni kemur karl með Signýju er hann hélt mest upp á og afhendir hana konungssyni. Leggja þau nú á stað, en þegar þau eru komin út fyrir túngarð breyttist konungsson í tröllkarlslíki og spyr hvort heldur hún vilji að hann beri hana eða dragi. Hún kveðst miklu heldur kjósa að hann dragi sig. Þetta gjörir hann líka þangað til hann kemur að helli allmiklum. Þegar hann er þangað kominn með hana spyr hann hana hvort hún vilji eiga sig. Hún fussar og sveiar og segir það sé öldungis frá. Og þegar engin von var framar til þess þá fer hann með hana inn í afhelli einn, bindur hana þar upp á hárinu, höndurnar á bak aftur, en í kné henni setur hann disk, fullan af allra handa krásum og yfirgefur hana síðan.

Í annað sinn skömmu eftir þetta er barið að dyrum í koti karls. Og þegar hann kemur til dyranna sér hann ennþá tígulegan kóngsson heimsækja sig og á hann sama erindi sem hinn fyrri. Í þetta sinn lætur hann Sigríði af hendi og fór allt eins og um var getið viðvíkjandi Signýju. Hún komst eins í hellinn og hlaut samfélag með systur sinni.

Í þriðja sinn kemur mikill og voldugur kóngsson til karls í koti hans og spyr hvort hann eigi ekki ógifta dóttur. Það segist karl ekki geta sagt; hann eigi stelpu sem einlægt liggi í öskustó og sé ekki mönnum sinnandi. Kóngsson segist ekki hirða um það og sækir fast að geta fengið hana svo karl lætur það eftir honum, fer til Helgu og færir henni tíðindin. Rís þá Helga upp og rýkur askan mjög úr henni. Þegar hún var búin að dusta sig fer hún til hins tígulega kóngssonar og leggur af stað með honum. Eins og vant var breyttist hann í tröllkarlslíki fyrir utan túnið og spyr hvort hún vilji hann beri hana eða dragi. Hún kvaðst fegin vilja að hann bæri sig. Heldur karl síðan á Helgu þangað til þau koma í hellinn. Þá spyr karl hvort hún vilji eiga sig og játar hún því fúslega. Er hann nú í burtu á hverjum degi til þess að útvega veizlukost, en kemur þó heim á kvöldi hverju.

Einn dag þegar Helga litast um í hellinum finnur hún leynidyr og lýkur upp þó örðugt veitti; finnur hún þar systur sínar báðar nær dauða en lífi. Hún leysir þær í skyndi og veitir þeim betri samastað. Nú fer hún að hugsa upp ráð hvernig hún geti bjargað þeim og komið til föðurhúsa. Dettur henni þá í hug að búa um þær í pokum og vita hvort henni heppnist ekki að villa karlinn með þeim hætti.

Einhverju sinni þegar karl kemur heim þá segist Helga ekki giftast honum fyrr en hann hafi fært föður sínum lítilfjörlegar sendingar frá sér; hún segist hafa safnað saman smávegis ruðum í poka og verði hann að halda á honum fyrir sig til föður síns, en hann megi ómögulega hnýsast neitt í það hvað í pokanum muni vera, og ef hann gjöri það þá muni hún kalla til hans og láta hann vita að sér sé ekki ókunnugt hvað hann sé að hafast að. Karl kveðst muni gjöra þessa bón hennar. En hún segir um nóttina systrum sínum hvernig þær skuli fara að ef hann ætli að fara að leysa frá pokanum.

Að morgni leggur karl af stað með poka sinn. Þegar hann er kominn spölkorn frá hellinum fer hann að hvíla sig og vaknar þá hjá honum mikil löngun eftir að vita hvað pokinn hafi að geyma. En undireins og hann ætlar að fara að leysa frá pokanum þá heyrir hann sagt: „Sé ég og heyri ég.“ Við þessi orð brá karlinum svo að hann hætti við áform sitt og mælti: „Glöggt er auga í Helgu minni, sér hún gegnum hellisaugað.“ Nú heldur hann lengra áfram, léttir á sér byrðinni og ætlar aftur að skoða í pokann; fór þá á sömu leið og áður; hann heyrir sagt: „Sé ég og heyri ég,“ og hann segir aftur: „Glöggt er auga í Helgu minni, sér hún gegnum hellisaugað.“ Síðan heldur hann áfram heim undir tún á karlskoti og ímyndar hann sér að nú muni ekki Helga sjá til sín. En undireins og hann fer að fipla á fyrirbandinu þá heyrir hann sagt: „Sé ég og heyri ég til þín og veit ég ef þú vitjar um,“ og segir sjálfur eins og fyrr. Kemst hann loksins með pokann heim, finnur karl, færir honum kveðju og sendinguna og fer síðan leiðar sinnar. Karlinn í kotinu fór bráðum að gæta að pokanum, leysir frá honum og þá kemur Signý úr honum, segir frá öllu er gjörzt hafði og að hún ætti Helgu lífgjöf að þakka. Næsta dag þar eftir fer hann með hinn pokann og fór allt á sömu leið, en í þessari ferðinni komst Sigríður heim.

Eftir þetta fer tröllkarlinn í helli sinn og kemur að máli við Helgu að nú hljóti hún að fara að matreiða í veizluna; skipar hann henni nú að hafa tilbúin borð og bekki, bera bæði mat og vín á borð og vera setzt í sæti að kvöldi hins þriðja dags því nú ætli hann að fara að bjóða vinum sínum og vandamönnum. Síðan leggur hann af stað, en Helga fer að matbúa; flýtir hún sér mjög að því, ber vistir og vín á borð, byrlar einhverju óheilnæmu saman við vínið, og þegar þetta er búið tekur hún staur, málar á hann andlitsmynd, færir hann í fagran búning og setur hann við borðið í sæti það sem hún vissi að hún átti að sitja í. Eftir þetta fer Helga í förukerlingar flíkur, makar sig alla í framan með öskukolum svo að á henni verður engin mannsmynd. Að því búnu tekur hún staf í hönd og leggur af stað burt úr hellinum. Þegar hún er komin nokkuð töluvert í burt þá fer hún að mæta boðsfólkinu, þussum og allra handa óaldarlýð; reið það á gandreið, sumir hrossleggjum og sumir hrosshausum. Þar á meðal var sjálfur brúðguminn. Hann spyr kerlingu:

„Kemur þú frá helli mín,
koltrýnan þín?“

Hún svarar:

„Já, kom ég til þín.
Skenkt var á skálar,
brúður sat á bekk.“

Þá segir hann: „Kukk, kukk, og ríðum við sem harðast.“ Eftir þetta heldur Helga áfram þangað til hún kemur að koti foreldra sinna. En hinir stórkostlegu veizlugestir halda til hellisins, ganga inn í skyndi og án þess að hugsa mikið um kveðjur fara þeir að hressa sig á vistum og víni. Þó ei sé auðgjört að vita hver frá hafi sagt þá segir sagan að brúðguminn tók að ávarpa brúði sína, en hún var næsta þegjandaleg. Þegar hann ásamt öðrum gestum sínum hafði gjört sig glaðan og ætlaði að hafa gleðilæti við brúðina, en hún anzaði ekki blíðlátum hans eða jók fögnuð hans, þá gefur hann henni kinnhest og sér hvernig öllu er háttað þegar hún kollsteypist af högginu. Verður þá mesti þys og órói í hellinum. Allir stóðu upp og tóku að berjast hvor við annan, vitlausir af víni og eitri. Urðu þau endalokin að allir lágu dauðir í hellinum. Nokkru eftir þetta fór Helga í hellinn, safnaði saman öllu fémætu og færði heim að koti karls, lifði síðan í allsnægtum; og ekki kann ég þessa sögu lengri.