Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Lokalygi

Úr Wikiheimild

Einu sinni voru kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni; þau áttu sér einn son sem Loki hét, en kóngur og drottning eina dóttur. Konungur hafði heitið þeim manni dóttur sinni sem gæti sagt sér það sem hann tryði eigi. Höfðu margir reynt það, en engum hafði það tekizt, því konungur var manna heimskastur og fjarska trúgjarn.

Nú tekur Loki sig til og býr sig heim í kóngsríki og sagðist vilja segja kóngi sögu. Kóngur leyfði honum það og byrjaði strákur þá söguna. Hún hljóðar þannig: „Einu sinni var ég í eldhúsi hjá móður minni. Hún var að þeyta flautir í kollu og uxu svo mikið flautirnar að það fór að renna út úr kollunni svo að fylltist eldhúsið og fór að renna út úr því; en áður langt leið sást hvergi í dökkvan díl. Fór ég þá að ganga og hita ef ég fyndi nokkurstaðar dökkvan díl. Fyrst gekk ég í hundrað ár og sá ég hvergi í dökkvan díl, en að hundrað árum liðnum sá ég eitthvað dökkt og gekk ég þangað og var það þá færilús, og gekk ég þá inn í hana og kom þar á græna og grasi vaxna völlu. Og þá fór ég að hlaupa og hljóp þá langan tíma, en loksins fór ég að mæðast og svitna. Fór ég þá að kasta af mér fötunum þangað til ég var orðinn klæðlaus. Kastaði ég þá af mér handleggjunum og þar næst höfðinu og svo kastaði ég af mér báðum fótunum og þá hljóp ég sem harðast. „Á hverju hljópstu þá, Loki minn?“ sagði kóngur. „Á lyginni og tveimur puntstráum.“ „Því lýgurðu!“ sagði kóngur. Og fékk strákur síðan dóttur kóngsins er hann gat sagt honum það sem hann trúði ekki.