Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Matthildur vitra og Marcebil væna

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Matthildur vitra og Marcebil væna

Fyrir ríki því er í Braut nefndist réði ágætur konungur og er hann ei nefndur; hann hafði fengið sér drottningu af dýrum ættum og buggu þau lengi saman svo þeim varð eigi barna auðið og þókti báðum þeim það böl mikið.

En er svo hafði lengi gengið bar það til einhveru sinni að drottning gekk út árdegis þegar ný mjöll hafði drifið um nóttina. Bar þá svo til að drottning fekk nefdreyra og dundu blóðdroparnir fagurrauðir úr nösum hennar niður í nýdrifna snæmjöllina. Þá mælti drottning: „Þá þæktist ég fullsæl og allt mundi ég náliga vilja til þess vinna að ég mætta eiga meybarn það er jafnfagurliga skipti litum í andliti sem hér skiptir nú mjöllin og blóðið mitt og skyldi þar eftir fara allur vöxtur og vænleikur meyjarinnar.“ Þá er so sagt að þar væri nærstödd valva ein, norn eða spákona og þókti henni drottning jafnan meta sig lítils. En er hún heyrði þessi orð drottningar gegndi hún til og mælti: „Það læt ég um mælt að þú drottning fáir að öllu uppfyllta ósk þína áður en ár sé liðið héðan frá, en það fylgi þar með að þessi dóttir þín verði þér æ því leiðari og þú hatir hana æ því meir sem þið lifið lengur báðar saman.“ Drottning bað hana það mæla allra norna armasta og kvað ei mega mundu orð hennar. Nornin mælti: „Mega munu jafnt til þessa sem hins fyrra og hefir þú mig, drottning, lengi lítilsvirta í ríki þínu og er vel þótt þú reynir hver okkar meira á undir sér.“ Eftir það skildu þær valvan og drottning heldur fáliga og er ei getið að þær hafi síðan fundizt að máli.

En það er af drottningu að segja að þegar eftir þetta varð hún barnshafandi og á hæfilegri tíð þaðan frá ól hún meybarn svo mikið og fagurt að engi þóttist jafnfagurt og frítt barn séð hafa og varð konungur allglaður við; en drottningu fannst fátt um og var sem hún vildi það ei augum líta og bað bera það burt frá sér og svo var gert; og voru meyjunni er nefnd var Marcebil fengnar konur til fósturs og ólst hún þar upp í borg föður síns er sumir segja að heitið hafi Braut og tæki ríkið nafn þar af; en aldrei vildi drottning sjá hana né heyra rætt um vænleik hennar né kvenkosti og ætluðu menn að það eitt hamlaði mest drottningu frá að sjá ráð fyrir mærinni að hún vildi ei hryggja né styggja þar með konunginn bónda sinn, því þau unntust allvel, enda unni hann mikið dóttur sinni sem von var og lét þegar á unga aldri gjöra kastalaskemmu ágæta og fékk til inar högustu og vitrustu konur í ríkinu að kenna henni allar kvenligar listir og fróðleik er stórhöfðingjadætrum sæmdi vel að kunna.

Liðu nú svo fram stundir að ekki bar til tíðinda unz konungsdóttir var sextán ára, þá tekur drottningin móðir hennar sótt og liggur lengi sjúk. En er sóttin elnaði á hendur drottningu og hún þóttist sjá að sú sótt mundi sig til dauða draga gerir hún orð dóttur sinni og kveðst fyri hvern mun hana finna vilja áður hún dæi; en er konungsdóttur koma þessi orð móður sinnar vill hún ei fara að finna móður sína og kveður sér þar illa hug um spá; og er konungur spyr þetta fer hann sjálfur að hitta dóttur sína og biður hana fyrir kost og mun að gera þessa einustu og seinustu bæn móður sinnar. Konungsdóttir mælti þá: „Skylt er mér að gera þetta að bæn og vilja þínum, faðir; en þó kemur mér ekki óvart þó bæði við iðrumst lengi þessarar farar.“ Og að svo mæltu býr hún sig á fund drottningar. En sem Marcebil hefir heilsað móður sinni biður drottning alla menn út ganga meðan hún mæli launmæli við dóttur sína. Og sem allir eru út gengnir þá mælti drottning: „Það læt ég um mælt að þú hafir ekki yndi, þol né þreyju fyrr en þú hefir unnið og aðhafzt þessa þrjá hluti er ég nú fyrir mæli: Sá er inn fyrsti að þú drepir einn hirðsvein í höll föður þíns, þann er hann vildi sízt missa; sá er annar að þú brennir upp höll föður þíns; og hinn þriðji sá að þú getir barn með inum ljótasta þursa sem til er í ríki föður þíns; og hef eg nú út talað allt er ég átti vantalað við þig og vil ég ei lengur sjá þig fyrir augum mér.“ Síðan lætur drottning þjónustukonur sínar aftur inn koma í herbergið, en Marcebil gengur á braut þaðan döpur og hrygg til skemmu sinnar og leggst í rekkju af hryggð og hugarangri, en vill þó fyrir engum um geta hvað helzt olli hryggð hennar. En drottningin andast litlu þar eftir og er gjör útför hennar sæmilig sem siður var til. En af því að drottning hafði lengi legið sjúk áður hún dó fýstist konungur sem fyrst að fá sér aðra drottningu.

Í ríki konungs var jarl einn eða hertogi ágætur; hann átti dóttur eina er Matthildur hét, kvenna fríðust; en þó þótti hún enn meir bera af öllum jarla- og konungadætrum að kvenligum listum og ágætum kvendyggðum. Þessarar konu biður konungur þegar, og var það að ráðum gert að hann fekk Matthildar; og þótti mönnum hús hans brunnið hafa til batnaðar, því allir hugðu gott til hennar komu.

Og er Matthildur hafði skamma stund þar heima verið spyr hún brátt að konungsdóttir er sorgfull og sjúk, og engi veit hvað veldur. Gengur hún þá til skemmu konungsdóttur og biður að mega tala við hana einmæli, og er kóngsdóttir í fyrstu treg til þess; en af því hún hafði góðar einar sögur af drottningunni leyfir hún henni einni að koma inn í svefnbúr sitt. Drottning heilsar henni með allri blíðu og tekur Marcebil að hófi vel kveðju hennar. Síðan tekur drottning með mjúkum orðum að leita eftir hvað henni sé til hugarangurs og býður sig til ef hún mætti bæta að nokkru úr raunum hennar. Marcebil er lengi treg til máls, en mælti þó að lyktum (eftir að hin hafði lengi með mjúklætis- og manngæzkuligum orðum á hana gengið): „Svo hefir mér nú áður reynzt móðirin að ekki mun stjúpmóðir mín mega mér verr reynast; og með því ég hef gott eitt af þér að segja að raun og reynd þá mun ég á hætta að segja þér það um mitt ráð er ég hugðist engum segja mundi og má minn hlutur fyrir það varla verða verri en illur.“ Síðan segir Marcebil konungsdóttir Matthildi drottningu allt af létta svo sem áður er sagt hvað á hana var lagt og mátti þó varla mæla fyrir sorg og gráti. En er hún hafði lokið sögu sinni mælti Matthildur: „Vel hefir þú nú gjört, dóttir góð, að þú sagðir mér allt ið sanna um harma þína og haf góða þökk fyrir; og verum nú glaðar, dóttir góð, því alla stund skal ég á leggja að sem fyrst megi rakna úr raunum þínum og skulum við engan láta þetta með oss vita. Nú kann ég þér það fyrst að segja að innan fjögurra daga ætlar faðir þinn að halda í leiðangur og heimta um leið skatta af búum sínum og mun hann að heiman vera nær sex mánuði; og mun ég þá freista hvað skipast mætti um hagi þína á þessari stundu; og ef þú vilt þá mun ég á hverum degi koma hér til tals við þig ef þér mætti nokkur harmaléttir að verða.“ Marcebil mælti: „Ei má ofsögum af segja af gæzku þinni, Matthildur drottning, og fæ ég þér aldrei fullþakkað sem verðugt er allan þinn góðleika við mig; þó ei sé vænligt að þér takist að bæta úr bölraunum mínum þá vil ég þó í öllu fela mig móðurligri umönnun þinni, og er mér in mesta þökk á komu þinni til mín sem oftast.“ – Síðan skildu þær drottning og kóngsdóttir með inni mestu blíðu; og hresstist nú kóngsdóttir svo hún tók að fylgja fötum og verða mönnum sinnandi og glöddust allir þar af, því hún var allástsæl af allri alþýðu, en einkanliga þó af þjónustumeyjum sínum.

En er konungur hafði sem fyrr er getið haldið í leiðangur og umboðið drottningu að hafa á meðan æðstu umráð ríkis síns þá lætur hún þegar efna til ýmsra leika á sléttum velli skammt frá konungshöllinni. Síðan lætur hún einn góðan veðurdag stefna þar til leika öllum vígum mönnum úr borginni, en þær drottning og kóngsdóttir sátu á stólum á hávaða nokkrum þar allnærri hvar hægast var að sjá yfir leikana. Þá spyr Matthildur Marcebillu hvert hún sjái í mannaflokki þessum nokkurn þann mann er hana langaði til að mega drepa ef hún mætti. Marcebil mælti og benti á einn mann í leiknum: „Þar er sá maður er ég girnist svo að drepa að ég þykist varla mega viðþol né ró hafa nema ég fái honum í hel komið.“ Drottning mælti: „Þann mann mundi ég og ef því væri að skipta helzt hafa vilja að dauðamanni, því ég hefi þar að komizt að hann er ótrúr konunginum þó kóngur virði hann umfram aðra menn fyrir frændsemis sakir. Nú skal ég láta slíta leik þessum fyrir miðaftan; síðan mun ég í kveld senda þenna mann að ná heilsuvatni því er sprettur upp framan í hávu hamarbergi hér skammt frá höllinni; en því vatni má ei ná nema sá er sækir fari í sig eða haldi í handvað er um hæl sé borinn. En þegar maðurinn er í bergið siginn þá skal þú vera þar nær og kippa upp festarhælnum og er honum þá viss bráður bani er ofan hrapar og mun þá engan annað gruna en að festarhællinn hafi verið ótrúlega niður keyrður og sjálfkrafa upp dregizt.“ Konungsdóttir þakkar henni þessa ráðagerð og kveðst svo gera mundi; og fer þetta allt svo sem ráðgert var. Kemur kóngsdóttir heim um kveldið er hún hefir þetta sýslað og er nú kátari en nokkru sinni fyrr.

Þó er ei langt þess að bíða að hún gerist aftur hljóð og hrygg; og er drottning spyr hana enn hvað nú valdi ógleði hennar segir hún henni að nú langi sig ákafliga að uppbrenna höllina föður síns. Þá mælti drottning: „Vel gerðir þú enn, dóttir, að þú sagðir mér hvað að þér gengi; og skal ég sjá um að þú fáir þetta áður langt líður, en haf viðþol og biðlund um hríð unz mér þykir hæfilig tíð fyrir þig þetta að starfa.“ Og að so mæltu stefnir drottning að sér öllum ágætustu smiðum og hagleiksmönnum úr öllu landinu og fær til menn að draga að tré og timbur. Síðan biður hún þá reisa höll eina í sömu mynd og líking sem hin forna höllin var og gekk sú smíð bæði fljótt og vel fram, því drottning lét alla þar að vinna er eitthvað máttu þar til styrkja. Og að þremur mánuðum liðnum var hallarsmíðin langt á leið komin. Þá gekk drottning einn morgun til kóngsdóttur og mælti: „Nú mun ég ei lengur banna þér að gera að girnd þinni; ef þér er nú jafnmikill hugur á sem fyrr að kveikja í höllinni þá máttu nú gera það í kveld þegar allir menn eru gengnir að sofa svo að því síður verði kostur á að slökkva eldinn.“ Konungsdóttir verður kát við þetta og gerir nú sem fyrir hana var lagt og slær nú eldi í höllina á öndverðri nóttu þegar allir voru nýsofnaðir. En drottning hafði áður látið flytja allt er fémætt var á braut úr [höllinni] og í hina nýju höll. Svo hafði hún og til stillt að engir menn sváfu þar um nóttina og vissi því engi að kalla af þessu fyrr en um morguninn að öll höllin var uppbrunnin nálega til kaldra kola. En konungsdóttir hoppaði og dansaði af gleði kringum eldinn alla nóttina; en um morguninn kemur hún að drottningu og er nú svo kát að hún réði sér varla og segir drottningu allt hvað hún hefir aðhafzt um nóttina og lætur hún vel yfir því.

Skömmu síðar gerðist Marcebil enn stúrin og fálát; og er drottning fann það frétti hún hana enn hvað henni stæði fyrir gleði. Marcebil mælti: „Eigi er því að leyna þó ljótt megi þykja að nú sækir mig svo mikil ergi eða vergirni að mér finnst sem ég megi eigi ró né viðþol hafa nema ég mætti verða barnshafandi; en þó girnist ég engan mann þann er ég hér sé eða þekki.“ Drottning mælti: „Þá mun enn þurfa nokkurra ráða í að leita að leysa þig undan þessari þraut þó það þyki ei vænliga á horfast og munt þú enn verða að hlýða mínum ráðum hvert þér þykir beint eða bjúgt, ljúft eða leitt.“ Á næsta degi biður drottning kóngsdóttur að ganga með sér til skógar eina saman; og ganga þær lengi dags unz þær koma að skála einum í skógarrjóðri nokkru. Þær ganga inn í skálann og sjá þar eina rekkju mikla og liggur þar í maður mikill og ófrýnligur og að öllu líkari þussa en mennskum manni. Þá mælti drottning: „Hér er nú sá maður er þú munt helzt girnast að því er um var mælt að þig geri barnshafandi; og hjá þessum manni í þessum skála skal þú vera í fjórtán nætur og má vera þér þyki hann ei svo ljótur áður lýkur sem nú virðist þér hann; en þess vil ég biðja þig að þú finnir mig á hinum fjórtánda deginum, því þar mun líf mitt við liggja.“ Síðan kveður hún kóngsdóttur virkta vel og þókti þeim mikið fyrir að skilja. En konungsdóttir varð þar eftir bæði glöð og grátin og svaf hjá þursanum um nóttina. En um morguninn er hún vaknaði og bjart var orðið sér hún að liggur í sænginni fyrir framan sig ungur maður allfríður og yndislegur og þykir henni nú heldur vænkast hagur sinn úr því sem á horfðist. Sveinninn svaf allvært fyrir framan og leiddist kóngsdóttir eftir að hann vaknaði og fekk ei bundizt að kyssa fast á munn honum svo hann vaknaði og mælti um leið: „Þenna koss er ég fús að gjalda þér þrennum gjöldum.“ Snerist hann þá að henni og kyssti hana þrim sinnum sem bezt hann kunni. Síðan mælti hann við hana: „Aldrei mun ég þér launað fá sem verðugt er að þú hefir nú í nótt leyst mig úr ósköpum og álögum og væri þó vel ef ég hefði líka getað orðið þér að nokkru liði. Nú vil ég segja þér í fám orðum ávarp ævi minnar:

Ég heiti Ásmundur og er ég bróðir Matthildar drottningar er faðir þinn á. Í ríki föður míns og í borg hans bjó ein hirðmannsekkja, forn í skapi og fjölkunnug. Hún átti dóttur eina er var mér jafnaldra (en ég er nú tvítugur að aldri) og vildi hún fyri hvern mun fá mig til að eiga dóttur sína, en það var mér fjærri skapi. Leið nú svo og beið unz kóngurinn faðir þinn kom og bað Matthildar systur minnar; þóttist kerling þá sjá að svo mundu fara leikar að Matthildur kæmi því stigi á að ég mundi biðja og fá þín og mátti hún slíkt með engu móti vita sakir öfundar á mér af því ég vildi ekki hænast að dóttur hennar. En daginn eftir að konungur sigldi burt með systur mína hitti þessi norn mig einan saman utan borgar og mælti so við mig: „Nú skal ég, Ásmundur, launa þér að nokkru forsmán þá er þú hefir jafnan sýnt mér og dóttur minni; og mæli ég það um og legg á þig að héðan í frá skalt þú verða að hinum ljótasta þursa í þessu landi, og úr þessum álögum skaltu aldrei komast nema þú getir barn við hinni fríðustu konungsdóttur sem menn séð hafa og þó að henni ónauðugri og mun það seint verða. Og eigi skaltu mega eiga sambúð eða siðblendi við aðra menn héðan í frá;“ og urðu þessi norna ummæli þegar að áhrínsorðum á mér og hef ég síðan hafzt við í skógum úti í skála þessum er nú bý ég í. En nú hefir þú leyst mig undan þessum álögum og skulum við nú búa hér saman og skemmta okkur þessa þrettán daga sem systir mín mælti fyrir að þú byggir hér hjá mér. En þó verð ég nú fyrst og það þegar í dag að hefja ferð mína heim í ríki föður míns til að veita sem fyrst makleg málagjöld norninni örmu er á mig lagði ósköpin, meðan hún uggir sízt að sér; því það mun hana minnst vara að ég sé nú þegar laus undan álögum hennar, því hún ætlar víst að það muni aldrei verða. En verði hún þess vís af fjölkynngi sinni og töfrum að ég sé frjáls orðinn þá mun hún lítt við tefja að leggja á mig annað sinn og bæði okkur og hlýt ég í tíma að sjá við þeim leka; en þú bíð mín hér á meðan og skal ég aftur koma svo fljótt sem ég má og ei síðar en á þriðja degi að heilum mér og lifanda.“

Konungsdóttur þótti mikið fyrir að sjá af honum, en sá þó að full nauðsyn bar til að láta hann ráða ferðinni. Eftir það kvöddust þau ástúðlega; og segir nú ekki af ferð Ásmundar fyrr en hann árla morguns á næsta degi kemur í borgina föður síns stundu fyrir rismál eða fótaferðartíma. Ásmundi var kunnug öll húsaskipan þar í staðnum og vissi hann vel að kerlingarnornin og dóttir hennar og ein þerna sváfu þar í einu litlu húsi. Þangað gengur hann og bíður þar búinn fyrir dyrum úti, því hann vissi að það var vandi kerlingar að fara jafnan á fætur fyrst allra. Ei hafði hann þar lengi beðið áður hann heyrir að kerling gengur fram, dregur loku frá hurðu og gengur út; en jafnskjótt sem hún er út gengin þrífur jarlsson til hennar heldur óþyrmiliga og mælti: „Margt fer annan veg en ætlað er. Hér er ég nú kominn, Ásmundur jarlsson, að þakka þér fyrir síðast og em eg nú laus úr álögum þínum þótt þér megi ólíklegt þykkja; og skal ég nú so um sjá að þú leggir engi ósköp á mig né aðra menn héðan af.“ Kerlingu varð so bilt við orð Ásmundar sem hún væri steini lostin eða lyst reiðarslagi; rak hún skyggnurnar ámátliga upp á hann og vildi taka til máls; en í því bili rak Ásmundur buddubelg yfir höfuð henni og rykkti fast saman að hálsinum; síðan tók hann upp snæri og bregður með því rúmsnöru að hálsi kerlingar og herðir að stundar fast; síðan dregur hann þessa drægsu eftir sér og þangað að sem lá vaðmeiður eða þvottaás kvenna í sundi milli húsa. Upp yfir þenna vaðás snarar hann snærisendunum, dregur síðan kerlingu upp og drengir fast við ásinn; og lætur hana svo dollsa og dingla þar neðan við. Og hefir hann lokið þessum umbúnaði öllum fyrr en menn voru á fætur risnir í borginni. Síðan gengur hann aftur sömu leið til skógar og gerir ekki við sig vart neinstaðar; og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann að aftni annars dags nær heim til skála síns og er þá alldasaður og vegmóður. Varð konungsdóttir honum yfirmáta fegin og lagði báðar hendur um háls honum og kyssti hann ástúðlega og tók hann því svo sem nærri má geta. Sváfu þau nú bæði saman um nóttina með ást og yndi og klæddust í seinna lagi á næsta degi; og liðu nú svo þrettán dagar að þau Ásmundur og Marcebil undu sér hvern dag öðrum betur.

En að morgni hins fjórtánda dags mælti Marcebil: „Nú mun mér mál að minnast þess er drottningin systir þín bað mig að láta sér ei bregðast, að ég kæmi til sín á fjórtánda degi, því þar mundi líf sitt við liggja. Nú mun faðir minn heim kominn og kann vera að hann gefi henni sök á brauthvarfi mínu og má ég það ei vita né lifa eftir ef hún skal missa lífið fyri mína skuld.“ Ásmundur mælti: „Mæl þú allra kvenna heilust; og skulum við nú skilja þegar að þessu sinni. Er mér eigi síður mál að hverfa heim í ríki föður míns og hugga foreldra mína, því þau vita enn ekki um mig síðan nornin arma lagði á mig; og hefir faðir minn víða látið mín leita dauðaleit og lifandi og munu þau þykjast mig úr helju heimtan hafa. En að ári liðnu héðan frá mun ég að heilum mér og lifanda koma að finna föður þinn og biðja þín mér til eiginkonu og mun drottningin túlka svo mál mitt að þetta takist.“ Marcebil bað hann gjöra svo sem hann héti. Eftir það kvöddust þau sem ástúðlegast og héldu síðan af stað í sína átt hvert til átthaga sinna.

Nú er frá því að segja er til bar heima þar í borginni að á tíunda degi eftir að þær Matthildur og Marcebil gengu til skógar siglir konungur til hafnar með fríðu föruneyti. Gengur drottning út á móti honum og fagnar með allri blíðu; og rís þar upp in virðuligasta veizla til að fagna heimkomu konungs. Hann spyr brátt um dóttur sína hví hún komi ei að fagna sér, en drottning lézt ei um hana vita. Konungur spyr þá fleiri menn og kemur það þá upp að þær drottning hafi fyri fám dögum gengið báðar á skóg og síðan viti engi um kóngsdóttur. Konungur verður við það bæði hryggur og reiður og lætur þegar taka drottningu og seta í fangelsi og hótar henni dauða ef hún segi ei hvað orðið sé af dóttur hans. Drottning biður hann að gefa sér lífsfrest um eina þrjá daga, en geti hún þá ekki látið hann vita hvar dóttir hans sé eða sýnt honum hana lifandi þá megi hann láta sig lifandi á báli brenna sem hann heitaðist að gera. Konungur sefast þá um hríð og lætur þetta tilleiðast. Og líða nú svo þessir þrír dagar að konungsdóttir kemur ei í leitina; og voru nú liðnir þrettán dagar frá hvarfi kóngsdóttur, en inn fjórtánda daginn skyldi brenna drottninguna. Lætur konungur þá gera bál mikið utan borgar og lætur hann aka þangað með drottningu og situr hún bundin á stóli. Og að liðnu miðdegi er slegið eldi í bálköstinn; og sem bálið tók að loga skipar konungur til fjóra þræla að taka stólinn með drottningu og kasta á bálið. En er þeir skyldu hefja upp stólinn heyrðu menn allt í einu óp mikið og gátu að líta hvar kona kom hlaupandi og svo sem hún kom nær kenndu menn að þetta var Marcebil konungsdóttir. Kastaði hún sér þegar í fang drottningar og mælti – þó varla mætti hún orði upp koma fyri mæði: „Nú lagði of nærri, móðir mín góð, að ég mundi ei fá bjargað þér; og varaðist ég ekki að þú mundir í so bráðar nauðir komast fyri mína skuld, ella myndi ég miklu fyrr komið hafa. En hefði ég ekki náð þér áður þú værir á bálið borin þá mundi ég þegar hafa á bálið hlaupið og brunnið so með þér.“ Og er hún hafði þetta mælt leið hún í óvit í faðmi drottningar. Konungur varð af öllu þessu sem agndofi og frá sér numinn af feginleika og gleði og bað alla menn sem fljótast kæfa niður bálið. Síðan faðmaði hann þær báðar að sér drottningu og dóttur sína og spurði þær á margan hátt hve við viki um þenna undarliga atburð í hvarfi og afturkomu dóttur sinnar. Drottning segir þá: „Það fær þú ekki að vita að svo búnu; og máttu vel yfir láta og una við að þú hefir aftur heimt dóttur þína heila og hressa og að hún fekk nú þó nauðugliga varnað þér af óstjórnligu bráðræði og óþreyju að vinna á mér voðaligt níðingsverk; en að ári liðnu héðan frá mun ég heita þér að láta þig fá að vita ið sanna um tildrög öll að hvarfi og afturkomu dóttur þinnar; og er þér það ekki meir en skaplig skrift þó ei fáir þú sadda forvitni þína um þetta mál fyrr en mér þykir hæfilig tíð að segja.“ Og varð nú konungur að láta sér þetta lynda og svo vera sem drottning mælti fyrir. – Tókust nú aftur góðar ástir með konungi og drottningu þó konungur kveldist alltjafnt meðfram af að fá ei svalað forvitni sinni.

Nú er að segja frá Marcebillu að þegar er hún var heim komin settist hún að um kyrrt í skemmu sinni. Fann hún það fullskjótt að hún var með barni og leyndi hún því þó sem hún kunni og var það lengi að engi vissi það með henni nema drottningin ein er hún nefndi nú ávallt móður sína. En þó fór svo að lyktum að hún lét tvær af þjónustumeyjum sínum er hún trúði bezt vita þetta með sér. Drottning kom jafnan til hennar og var in ástúðligasta við hana. Leið nú að þeirri stund að hún skyldi barnið ala og fæddi hún sveinbarn mikið og mennilegt og var það á engra manna viti nema þeirra þriggja er fyrr er getið. En litlu áður en hún skyldi barnið ala hafði konungur heiman farið að vanda að heimta skatta landa sinna; og kom hann heim aftur að ákveðinni stundu og fekk hann engan pata af þessu.

Liðu nú fram stundir unz sveinninn var vel þriggja mánaða og var allfríður og efniligur. Þá bar so til einn blíðan veðurdag að menn sáu drekaskip eitt allglæsilegt renna þar til hafna; var þar framan á gyllt drekahöfuð útskorið og gulli rennt í skurðina; so var og svírinn allur gulli búinn og gylltir ennispænir, seglin hvít sem drift og stöfuð víða bláum og rauðum vendi og var dreki þessi allur inn skrautlegasti. Konungur mælti við drottningu: „Hver ætlar þú að stýra eigi þessu skipi inu fríða?“ Drottning mælti: „Ógjörla má ég það vita; en þó ætla ég helzt að fyri því ráði Ásmundur bróðir minn; og er ráð ef svo er að fagna honum sem bezt í fyrsta sinn er hann sækir oss heim.“ Konungur kvað það vel talað og segir að svo skyldi vera. Nú sjá menn að upp af skipinu ganga tólf menn, allir í litklæðum, skrautliga búnir; þó var sá mestur og fríðastur og að hvívetna bezt búinn er fyrir þeim gekk, og kenndi drottning þar Ásmund bróður sinn. Gengu þau konungur og drottning þá móti honum og buðu honum til hallar og öllum hans mönnum og reis þar upp in virðuligasta veizla og var veitt og vel drukkið allan þann dag. Var og þeim mönnum er skipsins skyldu gæta sent vín og vistir so þá skyldi ekki skorta neinn góðan fagnað.

Að morgni var veizla engu miður en inn fyrra daginn og sat Ásmundur ið næsta konungi, en drottning til annarar handar. Og er hæst stóð veizlan gekk í höllina meyjaskari skrautliga búinn; voru það allar skemmumeyjar konungsdóttur og gekk hún þar í ferðarbroddi fremst og bar á armi svein einn, ungan og allfagran á að sjá og fagurliga búinn; og er Ásmundur gat að líta kóngsdóttur og sveininn þann inn fríða er hún bar á hendi spratt hann upp úr sæti sínu og hljóp fram á hallargólfið móti henni og minntist ástúðlega við hana og sveininn. Síðan tók hann kóngsdóttur með svein[in]um upp á armlegg sér og gekk með hana til sætis síns og setti í kné sér og sáu menn ekki að hún reyndi mót að brjótast. En er konungur sá þetta allt saman setti hann dreyrrauðan, en mælti þó ekki orð um og var sem hann yrði forviða og frá sér numinn, því hann vissi þess enga von að þau Ásmundur hefði áður sézt og því síður að hún hefði nokkuð sinn barn alið. Ásmundur mælti þá: „Þess vil ég biðja yður, herra, að þér misþykkið ei né reiðizt við mig þó yður þyki ég taka heldur djarfmannliga til dóttur yðar meðan þér vitið engi sönn tildrög til þess, því bera verður til hverrar sögu nokkuð og má það telja sem til ber; en þetta allt er yður enn dulið. En það má ég segja yður að þenna unga svein og fríða eigum við Marcebil dóttir yðar bæði saman; og er það nú aðalerindi mitt hingað að biðja yður gifta mér dóttur yðar er nú situr hér á knjám mér. En sé svo að dóttir yðar vili nokkurn mann taka til jafns við mig þá mun ég þó ekki þessa lengi biðja.“ Þá mælti konungsdóttir: „Vili faðir minn ekki gefa mig Ásmundi sem frelsað hefir mig úr álögum þá skal föður mínum ekki stoða að gifta mig nokkrum öðrum manni í víðri veröldu.“

En er þau Ásmundur áttu þetta að ræða og kóngur vissi ekki hvað hann ætti að segja og var beint sem milli steins og sleggju þá tók drottning svo til orða og þokaði sér um leið að síðu konungs: „Nú mun mál, herra, að ég bindi enda á það er ég hét fyrir ári síðan, að láta þig fá að vita það er eg dulda þig þá, sem sé hvað ollað hafi hvarfi og heimkomu dóttur þinnar í fyrra. Og tek ég þar þá fyrst til máls sem nornin arma lagði það á drottninguna móður Marcebillu að hún ei skyldi geta annað en hatað dóttur sína æ því meir sem hún eltist meir. En er drottning lá í banasótt þá neydduð þér, herra, dóttur yðar til að finna hana og hlýða á tal hennar; mælti hún þá so um að hún skyldi fyrst drepa einn hirðmann þinn er þú vildir sízt missa, það annað að hún skyldi upp brenna höll þína og það ið þriðja að hún skyldi eiga barn með inum ljótasta þursa í landi hér. En dóttir þín var so dyggðarík að hún vildi þetta engum segja og ekki sjálfum yður að ei skylduð þér fyri það leggja óþykkt á drottningu yðar lífs né liðna. En af þessum ummælum móður sinnar lá dóttir þín sjúk af harmi þegar þú hélzt í leiðangur og gat ég seint og um síðir með inum mestu eftirgangsmunum fengið hjá henni þetta að vita.“ Eftir það segir drottning konungi og öllum innan hallar allt af létta svo sem áður er sagt hvern veg hún fekk fríað konungsdóttur úr þessum álögum öllum saman og heldur fram sögunni allt til þess er kóngsdóttir kom hlaupandi til drottningar er hana skyldi á bálið bera.

Og er drottning hafði lokið sögu sinni þagði konungur lengi og horfði hugsi í gaupnir sér og mælti síðan: „Það er þó sannast að segja að engi maður mun svo vel kvæntur sem ég; og hefir þú, drottning, sýnt svo mikla vitru og góðvild í að hjálpa dóttur minni úr ánauðum að ég fæ þér slíkt aldrei fullþakkað, og var það gæfa mikil að dóttir mín og bróðir þinn gátu að þinni tilstilli hjálpað hvört öðru úr álögum; og engi hjónaefni ætla ég betur og mátuligar samvalin að njótast en þessi tvö og er ég þeim ráðahag á allan hátt samþykkur ef drottning vill að svo sé, því skylt er að ég hlíti hennar ráðum hér um, því það mun oss öllum bezt gegna, því hún er jafnvitur sem hún er góðgjörn.“

Þau Ásmundur og Marcebil litu þá blíðum augum til drottningar, en hún mælti: „Þá er nú ráð að auka veizluna og snúa henni í brúðkaup.“ Og var nú svo gjört og stóð það í fjórtán daga með miklum prís og fögnuði. – En að veizlulokum gaf konungur Ásmundi konungsnafn yfir ríki því er faðir hans átti fyrir að ráða.

Þau Matthildur drottning og konungur áttu eina dóttur; hennar fekk síðar sonur þeirra Ásmundar og tók hann seinna að erfð bæði ríkin og varð inn ágætasti konungur.

Og lúkum vér svo þessari sögu af Matthildi vitru og Marcebil fríðu.