Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Meykóngurinn
Meykóngurinn
Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttur mjög efnilega; hún ólst upp hjá foreldrum sínum. Kóngur vill að hún verði tekin fyrir kóng ettir sig ef hún lifi sig, so hann lætur kenna henni allt sem hann kann sjálfur. So leggst hann og deyr og hún er tekin til kóngs og ríkir mektuglega. Hún lætur búa sér mjög háan turn og er í hönum; hún lætur þar öngvan koma inn nema sem henni þjóna; so allir kóngssynir eru að biðja hennar, en þeir fara allir hæddir og spéskornir í burtu og þetta spyrst um öll lönd.
Í einu landi voru kóngssynir tveir. Þeir voru að talast við að enginn geti fengið þennan meykóng. So sá eldri segir við þann yngri að hann skuli fara að vita hvort sér takist ekki betur. Hann afeggjar hann því, segir að hönum muni ekki takast betur en öðrum. Hann tekur skip og fær menn og siglir að landinu sem meykóngurinn er. Þegar kóngur sér skip skipar hún ráðgjöfum sínum að bjóða þeim heim. Þeir gera það og þeir þiggja það allir og þá er tilreidd veizla handa þeim. Þegar staðið er upp af borðum biður kóngssonurinn að fá að hafa tal af kónginum. Hönum er sagt það að hann megi fara upp í turninn. So fer hann upp í turninn og hún hefur þar vín á borðinu handa hönum. So ber hann upp bónorð við hana. Hún segist skuli segja hönum það á morgun. So er farið með hann í eitt herbergi og þar er uppbúið fallegt rúm. So um morguninn þegar hann er að klæða sig sér hann þar stóran spegil. Hann fer að skoða sig í hönum og sér að það er búið að klippa af sér hárið hingað og þangað og hvítar slettur og hann getur ekki náð þeim. So fer hann að skoða kjólinn sinn og hann er allur með hvítum slettum; so hann verður nú hreint hlessa. So þegar komið er með matinn handa þeim og með þeim skilaboðum frá meykónginum að ef þeir fari ekki strax þá verði hann hengdur upp á hæsta gálga, so hann fer í burtu með sína menn og siglir so heim í sitt land og finnur so bróður sinn og segir hönum þetta. Hann segir sig hafi alténd grunað þetta; hann skuli ekki hætta við so búið, hann skuli fara með hönum, það geti ekki farið ver.
So líða fram stundir þangað til þeir fara báðir og koma að landi þar sem meykóngurinn var; og ráðgjafar hennar bjóða þeim heim, en þeir þiggja ekki, ganga so upp á græna velli þar og tjalda þar. Þeir fara heim [og segja] kónginum þeir hafi ekki þáð það. Hún sér að þeir eru búnir að tjalda með so fallegu. Hún biður ráðgjafana að fara með peninga að kaupa tjaldið. Þeir fara og segja að kóngurinn biðji þá að selja sér tjald[ið]. Þeir segjast skulu gera það, [en] þeir verði að liggja í því til morguns. So um morguninn fá þeir tjaldið og fá henni og so tjalda þeir með ennþá fallegra tjaldi. Daginn eftir þegar hún sér það langar hana skelfing að eiga það og biður þá að fara aftur með tjaldið og helmingi meira af peningum og skila því aftur ef hún fái það. Þeir fara og segja þeim það. Þeir segja hún skuli fá það fyrir peninga, en ekki tjaldið, á morgun; þeir verði að sofa í því. So um morguninn fá þeir það. So þriðja daginn seta þeir upp tjald langtum fallegra en hin; það er allt gulli búið. Þegar hún sér það er hún hlessa, biður þá að fara með helmingi meiri peninga en fyrir hin tjöldin bæði og þau líka ef hann fengi það. Þeir fara og skila því til þeirra. Þeir koma með skilaboð til hennar að ef hún komi sjálf eftir því þá skuli hún fá það. Hún vill það og er fylgt til tjaldsins. Þeir segja það geti farið heim, hún verði til morguns, það gangi ekkert að henni. Hún vill það og verður hjá þeim um nóttina.
En þegar hún vaknar sér hún ekki tjaldið né nokkurn mann nema kall sem hún liggur í faðmlögum við. Hann var með hor niðrá höku og mjög ljótur og eftir því var hans búnaður; hann hafði mjög ljótan hatt niðrá nef; og þegar hann vaknar er hann so úfinn og illur að það liggur við hann berji hana. Þegar hann stendur upp hleypur hann sem hann getur allan daginn og hún á eftir. Þegar kvöld er komið koma þau að einum kofa. Kall fer þar inn og hún á eftir og þau eru þar um nóttina. Um morguninn þegar hann vaknar þá er hann mjög illur og segir hvort hún ætli að láta þau drepast í sulti. Hún segir að hún hafi ekkert að kaupa fyrir. Hann segir hún geti farið úr nokkrum fötunum. So fer hún og kemur so inn með ket og brauð. Hann étur það sem bezt var, en fleygir í hana það sem verst var. Það gengur á sömu leið daginn eftir og þá er hún búin að láta öll utanhafnarföt af sér. En þriðja daginn þegar liðið er á miðjan hann fótbrotnar kall og liggur eins og slytti. Þá segir [hann] hvort hún ætli að láta sig drepast, hún verði að bera sig. Hún segir hún geti það ekki. Hann segir hún megi til; so hún fer að rogast með hann þangað til komið er kvöld, þá koma þau að einum kofa og eru þar um nóttina. Hann skipar henni að kaupa mat. Hún segir hún megi ekki missa meira af fötum. Hann segir hún geti beðið að gefa sér. So fer hún og fær ket og brauð, en þegar hún kemur er kall í burtu. So hún fer og að þessu húsi sem hún fékk brauðið og stendur úti og enginn kallar á hana þangað til að maður kemur út og var með hvítum slettum og slær hana sitt undir hvort og fer so inn. Hún fer til eldakellingar og biður hana að gefa sér bita; hún gerir það. Hún biður hana að ljá sér föt utan yfir; hún gerir það. So um kvöldið fer kelling með hana í eitt hús. Þar var matur á borði, rúm og bekkur. Hún skipar henni að borða og hún eigi að sofa í rúminu. So fer kelling og hún sefur af um nóttina. En um morguninn þegar hún er búin að klæða sig kemur stúlka og segir henni að koma með sér. Hún leiðir hana inn í stofu alla gulli búna og hún lætur hana setast á gullstól og fer so út og læsir. Hún er mjög hrædd. Það er lokið upp húsinu og kemur inn maður og kjóllinn allur blettugur. Hún þekkir að það er sá sem fór til hennar. Hann heilsar henni og segir hvurnin henni þyki að fara nú. Hún var bæði grátin og hrædd og sagði: „Mjög illa.“ Hann segir hann hafi verið seinast á hennar valdi, en nú sé hún á hans og skuli hún velja um tvo kosti. Það sé sá fyrri að eiga sig, en hinn ef hún vilji það ekki þá verði hún hengd á morgun. Hún tekur þann kostinn að eiga hann. So fer hún úr fötunum sem kelling léði henni og so eru henni fengin föt og hún þekkir það eru fötin sem hún var að selja fyrir matinn.
So er farið að bjóða í veizluna og er slegið upp veizlu og stendur í hálfan mánuð. Og so hættir hún stjórninni, en hann tók [við] og fóru so heim í landið hennar og varð þar kóngur, en yngri bróðurinn var kóngur í hinu. Þessi ljóti kall var maðurinn hennar og lézt vera fótbrotinn, en var heilbrigður. Hann gerði henni þetta til örðugleika. Unntust þau vel og lengi. Og endar so þessi saga.