Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Missögn af Kisu kóngsdóttur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Missögn af Kisu kóngsdóttur

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki; þau áttu sér tvær dætur sem hétu Ingibjörg og Helga. Þær voru ljómandi fallegar báðar, en þó var Ingibjörg ennþá fallegri. Einu sinni lagðist drottningin veik og lét kalla dætur sínar fyrir sig og spurði þær hvort þessi sótt mundi verða helsótt. Helga sagðist ekki vita það, en Ingibjörg sagði að það myndi verða helsótt. Reiddist þá drottningin svo mikið að hún lagði það á hana að hún skyldi verða að ketti og ekki komast úr þeim álögum fyrri en einhver fríður kóngsson vildi eiga hana hvað seint mundi verða. Síðan dó drottningin, en Ingibjörg varð á augabragði að hvítum ketti. Helgu þótti nú þetta leiðinlegt og einu sinni þegar hún var í öngum sínum gekk hún út á skóg og elti Kisa hana. Gengu þær nú lengi lengi þangað til þær komu að koti; þar börðu þær að dyrum og kom kerling út. Helga bað hana að lofa sér að vera og fékk hún það. Daginn eftir þegar Helga ætlaði að fara af stað sagði kerlingin að hún ætti nú að moka út úr hesthúsinu sínu og finna gullnálina sína sem hún hefði týnt í því fyrir fjórum árum, fyrir næturgreiðann. Helga fór þá að gráta og sagðist ekki geta það. En Kisa sagði henni að vera ekki að þessu; hún skyldi biðja kerlinguna um pál, reku og trog. Gjörði nú Helga það og hélt hún svo út í hesthús. Þegar þangað var komið sagði Kisa: „Páll stingdu, reka mokaðu, trog berðu út.“ Síðan settist hún upp á hesthússtallinn og horfði einlægt niður í húsið. En allt í einu stökk hún fram á gólf og greip gullnálina úr taðinu. Rekan, pállinn og trogið héldu nú öll áfram að hreinsa hesthúsið þangað til allt var búið. Þá fór Helga til kerlingar og sagðist vera búin og fékk henni gullnálina. Kerlingin varð nú mjög glöð yfir þessu og voru þær svo hjá henni aftur næstu nótt. Næsta dag sagði hún Helgu að henni væri bezt að fara heim því að þar væru komnir tveir kóngssynir sem væru bræður að biðja þeirra systranna. Hélt nú Helga heim aftur með Kisu. Þegar hún kom heim voru þar komnir kóngssynirnir og ætluðu að biðja þeirra systranna; enginn vissi hvað orðið var af Ingibjörgu og því gat ekki nema annar þeirra beðið Helgu, en hún sagðist ekkert eiga hann nema bróðir hans ætti hana Kisu sína fyrir konu. Var hann fyrst lengi tregur til þess, en fyrir bænastað bróður síns gjörði hann það þó seinast. Settist nú kisa á brúðarbekkinn hjá kóngssyninum og var hin sperrtasta, en brúðguminn var daufur í bragði. Svo sváfu þau saman fyrstu nóttina eins og lög gjöra ráð fyrir; en um morguninn þegar kóngsson vaknaði sá hann undurfríða kóngsdóttur fyrir ofan sig í rúminu, en kattarhaminn hvíta á gólfinu, og þótti honum nú vænkast ráðið. Var hann ekki lengi á sér að brenna haminn, en dreypa á kóngsdóttur. Vaknaði hún þá og sagði honum hver hún væri og hvernig á sér stæði. Er svo ekki að orðlengja það að kóngssynirnir settust að þarna í ríkinu hjá konum sínum og ríktu til elli í friði og gleði.