Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Missögn af orðabelgnum

Úr Wikiheimild

Einu sinni var kóngur [og drottning] í ríki sínu og karl og kerling í garðshorni; þau áttu sér son, en kóngur og drottning áttu sér eina dóttur; hún var allra meyja fríðust. Konungur hafði lofað hverjum þeim dóttur sinni sem gæti talað fullan orðabelg. Vildu margir það til vinna til slíks ráðahags, en enginn gat talað fullan orðabelg.

Karlsson í garðshorni hugsar að hann megi freista þessa sem aðrir. Hann fer til gullsmiðs eins og biður hann selja sér eða lána gullkórónu. Hinn var tregur í fyrstu, en þar kemur að hann lánar honum kórónuna; hún var harla skrautleg, gimsteinum sett. Kvaðst strákur mundu skila henni aftur eða borga hana fullu verði. Karlsson fer nú með kórónuna til konungs og nær honum á einmæli. Konungur falar kórónuna og býður við henni of fjár, en strákur lætur hana ekki fala; og hversu mikið sem konungur býður er kórónan ekki föl. Þar kemur að konungur vill ekki meira fé bjóða og spyr hvað strákur vilji hafa fyrir kórónuna. Hún kostaði þá hvorki meira né minna en að konungurinn vildi mildilegast kyssa á rassinn á stráki. Konungur var þess ófús; en með því ekki var annars kostur og enginn viðstaddur þennan gjörning þeirra í millum verður það að konungur kyssir á beran rassinn á karlssyni. Eftir þetta gefur hann sig fram hvort ekki megi hann freista sem aðrir að tala fullan orðabelg. Nú er inn færður belgur í höllina og karlsson lýtur ofan að belgnum og ruglar nú um hríð alla vitleysu. Hann hneigir nú heimskuþulur sínar að gullkórónunni og þegar hann kemur þar að sem hann átti kaupin við konunginn æpir konungur: „Fullt er orðið, fullt er orðið!“ Hann varð nú að gefa karlssyni dóttur sína; fékk hann honum hálft ríkið með sér, en heilt eftir sinn dag.