Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Missögn um Vakur vesæla

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Missögn um Vakur vesæla

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og kall og kerling í koti þar skammt frá. Kall átti son einn sem í ungdæmi sínu var mjög lítilfjörlegur og illa upp artaður bæði til fæðis og klæðis. Hann lá í eldaskála við slæman aðbúnað og hét Vakur. Kóngur átti dóttur eina fríða og fallega. Hún bjó í skemmu einni veglegri með þernum sínum. Þangað kom Vakur stundum og var heldur sultarlegur. Skemmumeyjar atyrtu hann og sögðu óþvera þann ekki þangað erindi eiga; hönum væri hentara að vera í öskustó móður sinnar því þar mundi hann rúm eiga. En þegar kóngsdóttir heyrði hrakyrði þerna sinna bannaði hún þeim það og skipaði að gefa hönum bita þegar hann kæmi, því skeð gæti að einhvern tíma yrði hann meiri maður en þeim sýndist hann nú.

Það var einn dag að Vakur gengur út á skóg einn og kemur þar að steini einum. Þar stendur hann til sólarlags. Þá kemur dvergur einn og bar fuglakippu. Hann biður Vakur að fara frá húsdyrum sínum, sér liggi á að komast heim með björg til barna sinna. Vakur lofar því ef hann gefi sér stein þann sem sú náttúra fylgi að yfirvinni allar þrautir sem fyrir sig kunni að koma, og lofar dvergur því. Síðan fer Vakur frá, en steinninn lýkst upp og fer dvergur inn og kemur út stundu síðar með stein einn svartan að lit og fær hönum. En Vakur tekur undan yfirhöfn sinni fleskstykki er kóngsdóttir hafði gefið hönum, og gefur dvergi. Við það varð dvergur hjartanlega glaður og segir: „Það læt eg um mælt að öll þín fyrirtæki verði þér að höppum, og muntu vel launa mér steininn þegar þú verður kóngur í ríkinu.“ Síðan gengur Vakur heim og líða stundir.

Eitt sinn gengur Vakur heim í kóngsríki og kemur í smiðju kóngssmiða og eru þeir að smíða gullmen handa kóngsdóttir. Vakur biður meistarann að lofa sér að færa henni gripinn, en þeir segjast ei trúa hönum fyrir því. Hann segir það óhætt og þangað til er hann að biðja þess að hann fær, en [þeir] segja að það gildi líf hans ef hann gjöri það ei trúlega. Síðan hleypur hann með menið og hittir kóngsdóttir, sýnir henni menið og segist eiga að færa henni menið, en ekki fái hún það nema hún lofi sér að taka á berum fæti hennar. Hún mælti: „Svei þér Vakur, Vakur vesæli, það færðu aldrei.“ „Þá fær þú aldrei menið,“ segir hann. Hún var glysgjörn og hyggur með sjálfri sér að hún sé jafngóð þó hún láti hann snerta fót sinn og lætur hann það gjöra og tekur hún þá við meninu. Síðan fer Vakur heim.

Fáum dögum síðar kemur Vakur aftur í smiðju kóngssmiða og er þá gullhnappur stór í smíðum handa kóngsdóttir. Vakur beiðist eftir að mega flytja gripinn til eigandans. En meistarinn segir: „Fyrir trúmennsku þína síðast er þér slíkt velkomið.“ Og þegar hnappurinn er búinn fer Vakur með hann og hittir kóngsdóttir og sýnir henni hnappinn og segir: „Ef þú vilt hann fá verð eg að fá að taka á hné þínu.“ Hún segir: „Svei þér, Vakur vesæli, það fær þú aldrei.“ „Þá fær þú aldrei hnappinn,“ segir Vakur. En so fór að hana mæddi huggæði og vildi heldur láta þetta eftir hönum en að missa hnappinn og fer hann heim síðan.

Og líður so ein vika og þá kemur Vakur enn til kóngssmiða og þá eru þeir að ljúka gullhálsfesti handa þeirri sömu og beiðist hann eftir að mega færa henni. Meistarinn játar því þar hann hafi áður verið so skilalegur. Síðan fer Vakur og finnur konungsdóttur, sýnir henni hálsfestina gimsteinum setta og segir að hana fái hún ei nema hann megi þreifa á þykkvalæri hennar. Hún mælti: „Marg-svei þér, Vakur vesæli, það færðu aldrei.“ „Þá verður þú hálsfestarlaus,“ segir Vakur og lætur festina í vasa sinn. En þó fer so að hún kallar á hann í svefnherbergi sitt og lætur þetta eftir honum og fer [hann] síðan heim og líða tímar.

Kóngur átti uxa einn, konungsgersemi. Hann var hyrndur mjög og hornin grafin og gulli og silfri í smelt. Silfurfesti var milli hornanna og voru gullhringir á og tvær silfurbjöllur. Tólf menn áttu að þjóna nauti þessu og passa það og áttu jafnan sex að vaka en sex að sofa í senn. Enn varð sá atburður að eina nótt hvarf naut þetta, en vökumenn fjórir vegnir, en tveir fundust hvergi. Nú lætur kóngur boð út ganga að hver sem uxann finni skuli fá dóttur sína og hálft ríkið við sig strax; en sjálfur hafði hann látið leita nær og fjær og ei fundið. Margir fóru að leita, en ætíð til forgefins, og varð kóngur við þá mjög æfur og reiður. Nú finnur Vakur vesæli kóng og biður orðlofs að leita að uxanum góða. Kóngur segir að meiri og gildlegri menn en hann hafi farið og forgefins leitað, en samt megi hann fara, en drepinn skuli hann ef hann aftur komi jafnnær. Vakur segir að sér fari valla ver en þeim sem meiri hafi verið kallaðir mennirnir. Nú fer Vakur og hittir kóngsdóttir og segist vera kominn og ferðbúinn til að leita að uxanum góða og biður hana ráða. Hún segir að enginn annar hafi til sín ráða leitað. Hún fær hönum rauðan hnykil og segir hönum að fara þar eftir sem hann velti undan, en í einhvern krappan stað muni hann koma í ferð þessari.

Síðan fer Vakur á stað með nesti og nýja skó og rennur hnykillinn undan hönum yfir holt og hæðir, fjöll og jökla og kemur loks að fjalli einu. Með því rennur hnykillinn lengi unz hann kemur að einstigi einu miklu. Þar hoppar hnykillinn upp. Í einstigi þessu voru þrjú spor og so langt [á milli] að Vakur höggur þrjú stig í hvert hinna og síðan kemst hann þar upp með þraut mikilli. En þegar þangað kem[ur] er þar hellir mikill og eldur á skíðum. Kringum eldinn sá hann höfuð og hendur manna. Vakur stingur hnyklinum í vasa sinn, sezt við eldinn og fer að kynda undir katlinum þangað til hann heyrir dunur og kemur þar þá inn afar mikill jötunn, svartur sem sót og digur sem mesta naut, og segir: „Og svei, hér ertu kominn, Vakur vesæli, að leita að uxanum góða; hann finnur þú aldrei.“ Ekki bregður Vakri við þetta, heldur hlær að jötninum. Þá mælti jötunn: „Mun það ei geta skeð að hlátur þessi fari af þér. Far strax og tak fjalhögg sem þarna liggur og lát á mitt gólf.“ Vakur gjörir það hlæjandi, en veldur því eigi og veltir því á sinn stað. Síðan segir jötunn: „Tak þar öxi og trog, lát trogið þar hjá og exina.“ Allt þetta gjörir Vakur með hlátri miklum. Nú segir jötunn: „Legg háls þinn þar á, því eg stýfi nú af þér hausinn.“ Nú tekur jötunn exina og reiðir hátt, en stillir höggið þegar að hálsinum kom. Þetta gjörði hann í þrjár reisur, og skellihlær Vakur að þessu. Þá mælti jötunn: „Þig get ég ei drepið, þú hlærð að sjálfum dauðanum. Og því skaltu bæði sæmd og happ á minn fund sókt hafa sem fáir munu ætla og skulum við nú glíma.“ Og það gjöra þeir. Kastar jötunn hönum sem sopp eða fisi með annari hendi. Þá tekur jötunn horn eitt og skipar Vakur að drekka, hvað hann gjörir. Hann drekkur tvo drykki mikla, og glíma síðan og eru þá jafnir. Jötunn lætur hann drekka í þriðja sinn, og glíma síðan og þá fellir Vakur jötun strax. Siðan sækir jötunn uxann og er hann með sínum búnaði. Hann gefur Vakri hest gráan að lit, sverð og herklæði, allt heldur stórvaxið, og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér fyrir hughreysti þína og muntu mér vel launa þegar þú verður kóngur í ríkinu; en ei mun kóngur vilja halda orð við þig með að gefa þér dóttur sína eða ríkið og skaltu þá ganga að hönum og bregða hönum á loft og draga út sverðið, en hann mun sér griða biðja og síðan til brúðkaups efla láta.“ Eftir þetta býr j[ötunn] þeim góðan kvöldverð, vín og vistir, og skipar Vak[ri] sæng ágæta, og sefur hann af nóttina og er snemma á fótum um morguninn og býst til ferða; og þegar hann er búinn tekur jötunn hestinn en Vakur uxann og bera ofan einstigið. Þar eftir heilsast þeir og óskar jötunn hönum allrar hamingju og lukku og snýr heim síðan; en Vakur heldur leiðar sinnar og kemur heim í kóngsríki og þá eru menn að leikum, en kóngur situr á stóli og dóttur hans hjá hönum. Öllum bregður í brún þegar þeir sjá Vakur vesæla koma með uxann góða og sýnist öllum Vakur nú heldur mikilfengur. Hann ríður fyrir kóng og kveður hann og mælti: „Hér er ég kominn með uxann góða og undireins til ráðahags við dóttur þína og annara þinna loforða.“ Kóngur brást reiður við og segir hann ómaklegan sinnar dóttur að njóta og því síður kóngur verða. Þá segir Vakur: „Þá er að reyna hver meira má,“ hleypur að kóngi og bregður hönum á loft sem ungbarni og rekur hann undir sig og reiðir upp sverðið. Þá biður kóngur vægðar og lofar að halda öll loforð sín og lætur Vakur hann þá upp standa. Þá fagnar kóngur Vakri og þakkar hönum framgöngu sína og býður hönum til hallar hvað hann þiggur. Er þá setzt til drykkju og segir Vakur frá ferðum sínum. Síðan er við brúðkaupi búizt og skortir þar eigi góðan drykk og ágætar vistir með allra handa gleði, dansi og hljóðfærum, og að endaðri veizlunni sezt Vakur að sínu ríki með drottningu sinni og tókust með þeim góðar ástir. Og að fáum árum liðnum deyr kóngurinn tengdafaðir Vakurs. Þá tekur Vakur allt ríkið og semur lög og landsrétt miklu betur en áður hafði verið. Hann fór í hernað og vann alstaðar sigur. Engir víkingar treystust að ráða á ríki hans. Hann sendi gulltunnu út á skóginn til dvergsins sem fyr um gat og mikið af gulli og gersemum til hellirsins þar sem jötunninn var, og líða so tímar fram.

Það bar eitt sinn við þegar Vakur sat yfir borðum að jötunninn vinur hans kom inn í höllina alblóðugur og stóðu gegnum hann fjögur sverð. Hann gekk fyrir kóng og mælti: „Mál er upp að standa og hætta að drekka; óflýjandi her er [í] land þitt kominn og hefi ég drepið nærfellt helming hans, en ég er nú lagður til bana. Skaltu nú sækja það sem fémætt er í hellir mínum, en veita mér gröft og umbúning,“ og hnígur síðan dauður niður. Síðan kallar kóngur saman lið sitt og fer á móti óvinum sínum með lið sitt og drepur niður óvini sína og tekur þar herfang mikið. Þar næst lætur Vakur efna til hauggerðar mikillar og lætur jötuninn þar í leggja og með virðing og miklum fékostnaði. Síðan fer hann til hellirsins og er þar mikið fé í alls konar gripum, gulli og silfri, sem hann allt lét heim flytja. Litlu síðar dreymdi Vakur að dvergurinn kæmi og segði Vakri að sækja gull sitt út á skóg og eiga. Hann réði ríki sínu langa ævi og átti börn með drottningu sinni. – Og endar so þessa sögu.