Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Missagnir um Vilfríði Völufegri

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Missagnir um Vilfríði Völufegri

Af þessari sögu eru til fjarska margar missagnir og vísunum breytt og bylt á ýmsa vegu. Fyrst er á því að taka að sumir nefna stúlkuna sem sagan er af Valfinnu og svo er nún nefnd í drögum þeim sem til eru af henni í safni Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn; en Árni álítur þó Viðfinnu réttara enda nefna sumar sagnir hana Vírfinnu. Annað er það að alls staðar nema í þessari frásögn hér er Vilfríður látin vera kóngsdóttir. Árni hefur sagt eins frá og hér að Vala væri móðir en ekki stjúpa Vilfríðar eins og flestir segja og allt eins þýzka ævintýrið Sneewittchen. Árni hefur og hitt þá sögu að kóngsson nokkur (= kóngurinn af Saxlandi sem hér segir) hafi frelsað Vilfríði úr ey einni (því eftir sumum sögnum og vísum áttu dvergarnir eða Finnarnir sem sumir segja að vera í steini úti í eyju) og úr þeim vandræðum sem hún var í stödd fyrir tilstilli móður sinnar, en að Vala hafi elt þau fyrst á öðru skipi og þegar hana þraut byr til að ná skipi Vilfríðar hafi Vala steypt sér í sjóinn og orðið hvalfiskur neðan til, en haldið kvenmannsmynd ofan til og synt svo það sem af tók. Þegar hún kom nærri skipi því sem Vilfríður var á lagði hún það á móður sína að hún skyldi aldrei úr þessum ham komast. Það varð að áhrínsorðum og er svo af Völu allt meyfiska kyn komið.

Fróður maður hefur sagt mér að Jón Guðmundsson lærði geti þess í riti sínu um alla hvali stóra og smáa í Íslands höfum og um öll smáfiska kyn að seinast hafi verið lagt á kerlingarnornina stjúpu Vilfríðar að hún skyldi verða að ljótasta fiski í sjó og sé það blágóman.[1] Þessarar sögu getur Jón sem gamallar á sinni tíð, en engan hef ég vitað kunna að segja frá því að faðir Vilfríðar hafi ásótt hana nokkurn tíma og líkist þessi frásögn hér að því leyti mest sögunni af Birni bragðastakk. Vísurnar eru mjög ýmislega hafðar, allt eins og frásögnin, og set ég hér þær breytingar sem ég hef almennt orðið var við af þeim.

Spurnarvísan til glersins:

„Segðu mér það, glerið mitt,[2]
gullinu búna:
[hvernig líður Vilfríði[3]
Völufegri núna?“

1. svar glersins:

„Hún er út á[4] einni ey
inn í[5] einum steini;
fæða hana Finnar tveir,
fátt er henni að meini.“

Eða svo 1. svar:

„Það segi eg þér, glerið þitt góða,
gullinu búna:
[víst lifir[6] Vilfríður
Völufegri núna.
Ala hana dvergar tveir í steini,
verður henni þar flest að gleði.“[7]

2. svar glersins:

„Vel líður Vilfríði;
fátt er henni að meini,
grætt hafa hana dvergar í steini.“
  1. [Réttara vogmerin. Sbr. Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur, Islandica XV, 15. bls.: „Ein saga gömul hefur hér í landi til gamans samt öðrum sögð og lesin verið af þeirri vænu Völu drottningu og Viðfinnu Völufegri, hvar af drottning fylltist öfundar og kom Viðfinnu í ósköp, stórar þrautir og lífsfár. Hún skyldi hafa átt eitt gullker með sannsagnaröndum þar inni sem henni sögðu nær hún spurði. So stendur í sögunni. Sem hún gekk til kersins sagði hún: „Seg þú mér það, kerið góða gulli bundið, hvort er Viðfinna Völufegri lífs eður dauð?“ Kerið svaraði: „Lifir hún.“ En þegar allar þrautir voru afstaðnar varð sú vonda Vala drottning fyrir makligri hefnd og þeim álögum að hún stefndist norður í hinn djúpa sjó og skyldi þar verða að soddan fiski, en ker hennar að ígulkeri sem er fullt rauðra hrogna hvar af kerin frjóvast sem fiskakyn sem oss er ljóst.“]
  2. Séra Jón Yngvaldsson bætir hér við: góða.
  3. frá [ hefur J. Y.: hve lifir (má) hún Vilfríður.
  4. fram í, A. M.
  5. þar í, A. M.; undir, aðrir.
  6. frá [ hafa aðrir svo: Vel má hún.
  7. Þessi vísa er tekin eftir séra Jóni Yngvaldssyni, en dr. Maurer hefur einnig heyrt vísuna hafða þannig í Eyjafirði:
    „Vel líður Vilfrfði;
    fátt er henni að meini,
    geyma hana dvergar í steini,
    eða: hana ala dvergar í steini.“