Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Missagnir um olbogabarnið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Missagnir um olbogabarnið

Eftir annari sögn borgfirzkri eru þær breytingar á sögu þessari sem hér segir:

Þegar Ingibjörg karlsdóttir fór að sækja eldinn kom hún að fjalli einu ógnarlega stóru. Hún settist þar undir stein hálfuppgefin og hugsandi út úr því hvernig hún eigi að ná eldinum. Þá heyrir hún að sagt er í fjallinu yfir sér: „Einbúi í fjalli. Einbúi í fjalli.“ Hún svarar: „Búðu allra manna armastur, einbúi í fjalli.“ Þá kom að henni geysistór hundur og beit af karlsdóttur hendina. Hljóp hún þá heim í ofboði eldlaus og einhent og sagði sínar farir eigi sléttar.

Nú var Sigríður send. Hún komst að fjallinu, settist undir steininn og heyrði sama kall yfir sér í fjallinu og svaraði því á sömu leið og hin fyrri. Þá kom stóri hundurinn og beit af henni nefið. Hljóp hún svo heim í ofboði eldlaus og neflaus.

Þá var Helga rekin á stað í bræði og skipað að sækja eldinn. Hún kemur að fjallinu eins og hinar systurnar, sezt undir sama stein og þær til að hvíla sig. Heyrir hún þá að kallað er í fjallinu uppi yfir sér: „Einbúi í fjalli. Einbúi í fjalli.“ Hún svarar: „Sittu allra manna heilastur, einbúi í fjalli!“ Þá kemur stóri hundurinn og flaðrar upp á Helgu og teygir hana með sér inn í helli í fjallinu. Er hún þar um nóttina og liggur í fleti hjá hundinum. Þá fellur af honum hamurinn og brennir Helga hann um morguninn. En í staðinn fyrir hund er í fletinu fríður og fallegur kóngsson.

Nú fer allt eins fram í sögunni og að framan segir. Og þegar kóngssonur kemur að vitja Helgu unnustu sinnar þá sýnir karl honum tvær eldri dæturnar, en kóngur fann þann galla á þeim að önnur hafði tréhönd, en hin trénef. En þegar hann spurði hvernig á því stæði svaraði karlinn: „Minnstu ekki á það, herra, ég setti á hana tréhönd“ – og um hina: „Minnstu ekki á það, herra, ég setti á hana trénef.“ Eftir það fer allt eins og fyrr er sagt.

Eftir þessari sögn er kóngssonurinn í hundslíki og koma ekki nein önnur kvikindi fyrir í henni.

Enn er sú breyting eða viðauki þessarar sögu til í Borgarfirði að sá sem talaði í hólnum við karlsdæturnar hafi verið kóngssonur sjálfur. Hundurinn hafi verið veiðihundur hans og í engum álögum og engan hring gefið Helgu. En sumar sagnir láta hundinn gefa Helgu hringinn, og um leið og hún þiggur hann fellur hamurinn af honum og verður [hann] þá fóstri eða trúnaðarmaður kóngssonar.