Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Orðabelgurinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Orðabelgurinn

Það var einu sinni kóngur og drottning sem áttu eina dóttir að nafni Ingibjörg. Karl og kerling bjuggu í karlskoti og áttu einn son sem Sigurður hét. Karl og kerling áttu þrjá gripi: gullstól, gullsnældu og gullhring. Kerling átti stólinn og snælduna, en karl hringinn.

Einu sinni bað Sigurður móður sína að ljá sér gullstólinn sinn. Kerling gjörir það, en áður en hún er búin að sleppa stólnum þýtur strákur með hann út á skóg. Þar finnur hann kóngsdóttir. Hún spyr hann hver stólinn eigi. Hann segir að hún móðir sín eigi hann. Kóngsdóttir biður hann blessaðan að gefa sér stólinn. Það segir strákur að sé af og frá í alla staði. Ingibjörg spyr hann hvort enginn vegur sé til að hann láti sér eftir stólinn. Strákur segist skuli gjöra það ef að hún lofi sér að sofa hjá sér. Kóngsdóttir segir hvort hann sé aldeilis vitlaus að hugsa að hún gjöri [það]. Strákur læzt þá ætla að snúa heim aftur. Þá kallar Ingibjörg til hans og seg[ir] að hún muni verða að ganga inn á þetta. Síðan fer strákur heim með henni og svaf hjá henni um nóttina og bar ekki á að hún kvartaði yfir neinum hvíluspjöllum. Síðan fór strákur heim. Móðir hans spyr hann hvað hann hafi gjört af stólnum. Hann segist hafa gefið kóngsdóttirinni hann. Hún spyr hann hvað hann hafi fengið fyrir hann. „Ekki neitt,“ segir strákur. Kerling tekur hann þá og ber hann svo að hann liggur í viku á eftir.

Skömmu síðar bað hann móður sína að ljá sér gullsnælduna sína. Kerling segir að það verði nú ekkert annað en að hún láti hann fara með hana eins og hann fór með stólinn sinn. En strákur hættir ekki fyrr en hann fær snælduna, en þó með því skilyrði að fara hvergi burt með hana. En jafnskjótt og hún er búin að sleppa við hann snældunni er hann horfinn með hana út á skóg. Þar finnur hann kóngsdrottningu. Hún spyr hann hver eigi snælduna. Hann segir að hún móðir sín eigi hana. Það fór svo allt á sömu leið með þeim sem kóngsdóttir og honum. En hann fékk það harðari ráðningu en í fyrra sinni þegar hann kom heim að hann lá eftir í hálfan mánuð.

Einu sinni biður hann föður sinn að ljá sér hringinn. Karl verður bálreiður við hann og spyr hann hvort hann sé aldeilis vitlaus að hugsa að hann sleppi við hann hringnum og láti hann fara með hann eins og gripina hennar móður sinnar. En strákur hættir ekki fyrr en hann fær hringinn og lofar föður sínum því að fara ekki með hann frá augunum á honum. En strákur skýzt það skjótasta út á skóg, en finnur þar engan og heldur heim í kóngsríki. Hann finnur þar kóng. Hann spyr hann hver eigi hringinn sem hann hefði á hendinni. Strákur segir að hann faðir sinn eigi hann. Kóngur spyr hvort hann vilji ekki gefa sér hann. Strákur segist ekki mega það, því hann faðir sinn verði ólmur við sig. Kóngur býður honum þá hálft ríkið og dóttur sína. En strákur vildi það ekki. Kóngur spyr hann þá hvort hann sé ekki falur fyrir neitt. Strákur segir að hann skuli láta hann fá hann ef hann taki ofan kórónuna og kyssi á beran rassinn á sér. Kóngur segir: „Ertu alveg vitlaus? Veiztu ekki við hvern þú talar?“ „Jú,“ – strákur segir að hann viti það. Hann segir að sér sé engin þá[ga] í að láta hringinn og ætlar að fara burt; en kóngur kallar á eftir honum og segist ætla [að] kaupa þessu við [hann] og segir honum að koma með sér. Kóngur fer með hann inn í svefnherbergi sitt og tekur af sér kórónuna og kyssir á rassinn á honum. Síðan fer strákur heim. Þegar hann kemur spyr faðir hans hann hvað hann hafi gjört af hringnum. Hann segir honum eins og var að hann hafi gefið kónginum hann og ekkert fengið fyrir hann. Varð þá karl bálreiður og hýðir strák svo að hann lá mánuð á eftir.

Það var vani konungs að kveðja til þings árlega og bjóða hverjum þeim dóttur sína sem [fyllt] gæti belg of orðum, en aldrei gat neinn fyllt belginn. Þegar að því kom að þingið yrði haldið sagði Sigurður við foreldra sína að koma nú og leggja orð í belg og segir þeim að vera fjandi hreykin og segir þeim hvernig þau skuli fara að. Þegar þau koma á þingið fer kóngur að furða sig á því hvað þau muni ætla; en þau gefa því engan gaum, heldur eru hin hreyknustu. Þegar að því kom að menn fóru að leggja orð í belg segir kerling: „Hér legg ég orð í belg, Sigurður sonur. Hvað gjörðir þú við gullstólinn minn?“ „Hér legg ég orð í belg, móðir mín. Ég gaf kóngsdóttirinni hann.“ „Hér legg ég orð í beig, Sigurður sonur. Hvað gaf hún þér fyrir hann?“ „Hér legg ég orð í belg, móðir mín. Hún lofaði mér að sofa hjá sér.“ Með það sama fór kóngsdóttir út með mestu sneypu. Þá byrjar kerling aftur og segir: „Hér legg ég orð í belg, Sigurður sonur. Hvað gjörðir þú við gullsnælduna mína?“ „Hér legg ég orð í belg, móðir mín. Ég gaf kóngsdrottningunni hana.“ „Hér legg ég orð í belg, Sigurður sonur. Hvað gaf hún þér fyrir hana?“ „Hér legg ég orð í belg, móðir mín. Hún lofaði mér að sofa hjá sér.“ Fékk þá drottning ekki minni buxur en dóttir hennar og þaut út með það sama. Þá kemur karl til sögunnar og segir: „Hér legg ég orð í belg, Sigurður sonur. Hvað gjörðirðu af hringnum mínum?“ „Hér legg ég orð í belg, faðir minn. Ég gaf kónginum hann.“ „Hér legg ég orð í belg, Sigurður sonur. Hvað gaf hann þér fyrir hann?“ „Hér legg ég orð í belg, faðir minn. Hann tók ofan kórónuna og…“ Þá greip kóngur fram í og sagði: „Æstu ekki, æstu ekki, sprengdu ekki, sprengdu ekki!“ Þá hætti Sigurður, en kóngur játaði að belgurinn væri fullur, svo hann varð að gefa honum dóttur sína og fékk hann ríkið eftir hans dag.