Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Orlofsgjöf Maríu meyjar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Orlofsgjöf Maríu meyjar

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu; þau áttu dóttur eina barna. Maður var þar nálægt sem hafði huga á dóttur þeirra, en karli og kerlingu var ei um hann. Einhverju sinni ræða þau um að fara og finna sankti Maríu og son hennar. Spyr þá karl kerlingu sína hvað hún hafi að gefa Maríu; kvaðst hún hafa smjörsköku, klæðisbætur og mjölskjóðu. Þá spyr kerling karl um orlofsgjafir hans; kveðst hann hafa snærisspotta, hamar og leðurskæði. Þykja þeim nú gjafirnar góðar og búast til ferðar. En áður en þau færi af stað læsa þau dóttur sína inn í búri og fela lyklana undir hlóðahellunni. Leggja þau síðan af stað. En er þau hafa skammt farið hitta þau piltinn sem hafði hug til dóttur þeirra. En er þau mætast segir kerling við hann: „Aldrei skaltu finna dóttur mína; ég læsti hana inn í búri og fól lykilinn undir hlóðahellu.“ Héldu þau síðan leiðar sinnar, en pilturinn fór heim í kotið, fann stúlkuna og giftist henni.

Það er af hjónum að segja að þau halda áfram og segir ei af ferðum þeirra fyr en þau koma að leirflagi sem miklar sprungur voru í. En er kerling lítur leirflagið og sprungurnar segir hún: „Mikið er að sjá hvað blessuð skepnan tekur út; Maríu minni mun sama vera hvort henni er gott gjört eða aumingjunum.“ Drepur hún þá orlofssmjörinu í rifurnar á flaginu og kveðst nú vona að henni hægist að nokkru. Þessu næst koma þau í skóg mikinn og sjá þar fauska marga. En er kerling lítur fauskana segir hún: „Mikið er að sjá hvað skepnurnar líða; Maríu minni mun sama vera hvort henni er gjört gott eða aumingjunum.“ Tekur hún þá klæðisbæturnar og saumar utan um fauskana meðan þær hrökkva. Því næst koma þau að á nokkurri. Segir þá kerling að mikið sé að heyra til aumingjans er veini þannig af sulti; kastar hún þá mjölinu í ána, en áin veinar ei að síður. Fær hún þá af karlinum að hann kastar skæðunum líka. Segir nú ei af ferðum þeirra fyr en þau koma enn í skóg þar er mýbit var. Setjast þau þar niður, en fluga sezt á nef kerlingar. Karlinn reiðir hamarinn og ber á nef kerlingu högg svo mikið að hún líður í öngvit; verður karl þá hræddur og flýr burt þegar. Fer hann nú unz hann finnur kýr margar; þar er á meðal kvíga ein hyrnd, rauð á lit. Karl tekur snærisspottann og bindur um horn kvígunni og teymir hana eftir sér; mælir hann þá við sjálfan sig: „Nú mun ég koma í konungsríki; mun ég gefa konungi kvígu þessa; mun hann þá bjóða mér að kjósa úr eigu sinni það er ég vilji; mun ég þá kjósa dóttur hans og mun hann gefa mér hana; mun hún þá fæða mér son; mun ég þá sitja undir syni mínum; mun hann þá pissa ofan á mig; mun ég þá standa upp og hrista mig.“ En er karl mælti þessum orðum hristi hann sig. Kvígan var manneyg og æstist hún þegar skrjáfaði [í] skinnstakki karls og tók hún að reka hann undir. Karl hafði í leiðslunni ei veitt því eftirtekt að þau voru komin fram á hamrabrún og ultu þau nú bæði fram af karlinn og kvígan. Komu þau bæði heil niður karlinn og kvígan og fann karl þar kerlingu sína. Þökkuðu þau Maríu og orlofsgjöfunum lausn sína og héldu heim með kvíguna og töldu hana orlofsgjöf frá Maríu.