Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Peningasteinninn

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni tveir bræður, annar sterkríkur, en annar bláfátækur. Hann hafði ekkert til að lifa á nema það að hann var að fara út á skóg til að viða og var so að selja kol fyrir mat handa því. Einu sinni sem oftar fer hann út á skóg. Hann fer lengra út í skóginn en hann var vanur og verður í skógnum um nóttina. Hann sér um nóttina hvar koma tólf menn á ljósum hestum og eru í rauðum kjólunum. Hann sér stóran stein í skógnum, þar fara þeir allir að. Sá fyrsti fer af baki og slær upp á steininn sprota og segir: „Upp ljúkist steinninn minn,“ og hann lýkst upp og þeir fara þar inn með alla hestana. So um morguninn fara þeir út og sá sem fyrstur fór inn um kvöldið fer seinastur út og segir: „Attur ljúkist steinninn minn,“ og ríða allir í burtu út á skóginn og hann sér þá so ekki. So fer hann að steininum og lemur upp á hann með tág og segir: „Upp ljúkist steinninn minn,“ og hann lýkst upp og hann fer þar inn. Hann sér þar fjögur hús. Hann fer í fyrsta húsið og hann sér að það er hestaherbergi á móti því. Lýkur hann upp húsi og það er fullt af mannabúkum. Hann gengur innar og þar eru tvö hús hvort á móti öðru. Hann lýkur öðru upp og það er með sex rúmum og so lýkur hann upp því fjórða og það er fullt af gulli. Hann tekur sem hann getur borið af gulli og sem hesturinn getur borið og fer so heim með það, og það þarf ekki að orðlengja það að hann gerði það í þrígang.

So einu sinni fer fátæka konan til mágkonu sinnar og biður hana að ljá sér kirnu að mæla í korn sem maðurinn sinn hafi eignazt fyrir kol. Hún fær það. Þessi ríka kona var forvitin og klíndi tjöru í löggina. So fer hún með kirnuna og fer að mæla gullið og færir henni so kirnuna. Þegar hún er farin fer ríka konan að skoða í kirnuna. Þá sér hún að tollir við tjöruna gullpeningur. Þegar maðurinn hennar kemur heim segir hún að það sé fallegt að hann bróður hans sé farinn að stela gulli og skuli hann ganga á hann hvar hann hafi fengið það ellegar að koma því upp um hann. Hann segir það muni ekki hafa verið mikið gull. Hún segir það megi nærri geta þegar hún hafi þurft kirnu til að mæla það. Hún er að þessu þangað til hann fer og kemur til bróður síns og fer að ganga á hann hvar hann hafi fengið þetta gull. Hann er tregur að segja hönum það þangað til að hann segir hönum að koma með sér, og þeir fara báðir eitt kvöld og verða um nóttina í skógnum og sjá þessa menn um kvöldið. Og morguninn þegar þeir fara fara þeir í steininn og stela það sem hestarnir geta borið og þeir sjálfir og þeir gera það í tvígang. So einu sinni hugsar sá ríki með sér að fara einn, bróður sinn sé búinn að fara fimm sinnum, en hann ekki nema tvisvar, og fer nú einn og fer í steininn og þegar hann ætlar út man hann ekki hvað hann á að segja og verður so inni. En það er að segja af þeim fátæka að hann fer einu sinni sem oftar í steininn. Hann sér þá í búkunum bróður sinn höfuðlausan. Hann tekur hausinn og búkinn af bróður sínum og mikið af gulli. So fer hann og til ríku konunnar og fær henni búkinn af hönum bróður sínum og segir að þetta hafi hann fyrir ágirndina, hann hafi einhvurn tíma farið so hann hafi ekki vitað, og ríði henni á að láta ekki vita að hann sé dauður. Hann krítar númer þar á og öllum bæjunum í kring; það verður ómögulega þurrkað af.

Nú líða fram stundir þangað til að tveir menn koma eitt kvöld til fátæka bóndans og hafa sinn hestinn hvor í taumi og eru á belgir. Þeir biðja að lofa sér að vera og láta belgina í læst hús, það sé olía, hún megi ekki rigna. Þeir fá að vera og belgirnir læstir í eitt hús. So eru þeir traktéraðir og so eru þeir látnir fara að sofa, og ein vinnukonan er látin elda um nóttina handa þeim til morgunmálsins. Það logar illa hjá henni so hún hugsar með sér að hún skuli taka úr einum belgnum olíu og fer so og leysir frá einum belgnum og þegar hún ætlar að fara að sökka í þá er sagt: „Eigum við strax að koma?“ „Ekki strax,“ segir hún og bindur fyrir aftur og fer so inn og vekur bónda og segir að það séu andar í þessum belgjum, hún hafi ætlað að fara að stela úr þeim og þá hafi verið sagt: „Eigum við strax að koma?“ en hún hafi sagt nei og bundið fyrir. So fer bóndinn á fætur og þau hita bik og brennistein og hella því oní hvurn belg og heyra þá vilgur. So vekur bóndinn gestina og skipar þeim að fara í burtu og þeir fara so í burt. Bóndinn verður sterkríkur sem áður var fátækur, og so er grafinn bóndinn. Og bóndinn fór ekki oftar í steininn, lifði vel og lengi og endar so þessi saga.