Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ríkarðs saga ráðuga

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Ríkarðs saga ráðuga

Það var einu sinni ríkur konungur sem lét gjöra nýtt rambyggt geymsluhús fyrir auðæfi sín. Innst í húsinu við gaflþilið lét hann gjöra afþiljað afhús sem hann geymdi í dýrmætustu gripi sína og gullpeninga. Hús þetta smíðaði hinn mesti listamaður í borginni og var kallað ómögulegt að úr því yrði stolið ef það væri vel læst. Lét konungur það og ekki vanta og bar hann sjálfur á sér lyklana jafnan.

Eftir að húsið hafði staðið um hríð kom á gang milli manna nýslegin gullmynt konungs er hann geymdi í afhúsinu og hafði enn ekki látið út ganga. Hann fer til og gætir að og sér að stolið hefir verið, en ekki sér hann nývirki nein eða merki til hvar inn væri farið. Hann hugði oft að, og hafði jafnan stolið verið á ný. Hann lét vaka yfir húsinu og kom þá enginn þar nærri. Þóttist konungur þurfa að hugsa upp bragð nokkuð til að veiða þjófinn. Listamaður sá er húsið gjörði átti son frumvaxta er Ríkarður hét. Hann var efnilegur maður og manna ráðugastur. Það var eina nótt þá er ekki var vakað yfir húsinu að smiðurinn kallar son sinn með sér, og ganga þeir að gafli hússins. Smiðurinn dregur úr fjöl og gengur inn, kemur út aftur og mælti: „Verði ég lengi burt um nótt venju fremur, þá leita mín hingað.“ Síðan ganga þeir heim. Fáum nóttum síðar er smiðurinn lengi burtu. Fer Ríkarður þá til hússins og dregur fjölina úr og gengur inn. Þá er sagt við fætur honum: „Farðu varlega.“ Það var faðir hans og var sokkinn til axla ofan í ker fullt með tjöru og vax sem konungur hafði látið grafa ofan í gólfið. Ríkarður ætlar þegar að draga hann upp, en fær ekki að gjört. Þá mælti faðir hans: „Ef eg finnst hér fæ eg hinn versta dauða, og vil ég heldur góðan og fljótan dauða. Högg því höfuð af mér og far burt með það svo konungur viti ekki gjör eftir en áður.“ Ríkarður gjörir þetta þó honum þætti mikið fyrir, fer svo burt og lætur fjölina í þilið aftur, en jarðar höfuðið þar honum þykir vænlegast. Þegar konungsmenn komu í húsið fundu þeir höfuðlausan mann í kerinu. Þykjast þeir sjá að fleiri hafi verið en einn. Þá skipar konungur að draga lík hins dauða fyrir dyr á hvurju húsi í borginni og vita ef nokkur taki sér nærri. Þegar þeir koma að húsdyrum Ríkarðs sér móðir hans út um glugg hvað títt er, og þykist þekkja líkið og rekur upp hljóð mikið. Ríkarður var út í dyrum að trésmíði. Hann setti þá smíðaöxina í lær sér og varð það allmikið sár. Hann hljóðaði nú ákaflega svo ekkert heyrðist til móður hans; ætluðu konungsmenn að hann einn mundi æpa, bundu þeir sár hans og fóru burt eftir það. Varð konungur engu að vísari fyrir þetta bragð. Þá lætur hann taka líkið og hengja á gálga og setur til böðla marga er skuli skiptast um að berja það daga og nætur. Móðir Ríkarðs varð þessa vör, og fór sem konungur hafði ætlað að hún vildi þegar fara til að kaupa út líkamann, en Ríkarður bannaði henni að fara, lézt sjálfur mundi ná líkama föður síns. Um kvöldið síð þegar níðamyrkur var á komið kemur til böðlanna maður, svo bjartur sem á eldsloga sæi. Hann mælti: „Fáið mér líkið. Guðir sendu mig að sækja það“ Böðlarnir urðu hræddir mjög og flýðu sinn í hvurja átt, en þessi tók líkið og fór burt með það. Þetta var raunar Ríkarður. Hafði hann um kvöldið gengið í fiskakös og núið sig allan í maurildi; því var hann svo bjartur. Jarðar hann nú lík föður síns þar sem honum sýnist.

Nú sér konungur að við brögðóttan er að eiga. Hann tekur enn það ráð að hann lætur boð ganga um alla borgina og bannar að selja nokkurn mat hinn næsta mánuð hvað sem við liggi, en hann hefir sjálfur til sölu kálf einn og skyldi hann verða svo dýr að enginn gæti keypt hann utan sá er hefði hina nýju gullmynt, því það þóttist konungur vita að sá mundi gullauðugastur í borginni. Móðir Ríkarðs varð fljótt matþurfi og kvaðst hún þegar vilja fara og kaupa kálfinn, kvað hina nýju gullpeninga er maður sinn hefði aflað mundi til hrökkva. Ríkarður bað hana kyrra vera, kvaðst sjálfur mundi fara að kaupa kálfinn þá honum sýndist. Það var á einu kvöldi að fríð yngismey kom í hús það er kálfurinn var í og kaupir hún kálfinn fyrir eintóma nýja gullpeninga. Sá sem fyrir sölu kálfsins stóð lét málara gjöra eftirmynd eftir yngismey þessari, og eftir það fór hún burt með kálfinn. Þetta var raunar Ríkarður og hafði breytt útliti sínu og klætt sig í kvenbúning. Um þessar mundir hefir konungur látið gjöra nýjan skála hjá höll sinni, ógurlega stóran. Hann lætur nú kalla saman allan borgarlýðinn svo vandlega að ekki var mannsbarn eftir. Lét konungur þá bera myndina saman við hverja þá manneskju sem þar var, og fannst engin henni að öllu lík sem von var. Nú lætur konungur konur og börn heim fara, en karlmenn allir eru eftir, og gjörir konungur þeim öllum veizlu í hinum nýja skála og er drukkið fast fram á nótt. Dýnur voru lagðar á setin allt um kring í skálanum, og er menn tók að syfja bauð konungur að hvur skyldi leggja sig til svefns þar sem hann væri kominn, og það gjörðu menn. Þess er að geta að konungur átti dóttur gjafvaxta. Hana leiðir hann í skálann fyrir gestina um kvöldið og lét hana bera þeim drykk, en er menn tóku að sofna lætur konungur setja lausasæng eða bedda á mitt gólf og tekur til orða: „Þér hafið nú, góðir menn, gjört oss góða skemmtun og vil ég nú veita yður þá virðingu að láta dóttur mína hvíla hjá yður í nótt á bedda þessum.“ Þeir þökkuðu honum þá sæmd er hann gjörði þeim. Fer konungsdóttir nú í rekkjuna og því næst eru ljósin slökkt. Sofna menn nú fast.

Ríkarður bjóst jafnan við að brögð mundu í tafli vera, og því drakk hann varlega. Hann vakir þá er aðrir eru sofnaðir, og kemur honum í hug að neyta þess er konungsdóttir var svo að segja gengin í greipar hans, og skemmta sér við hana um stund. Hann stendur upp og gengur að rekkja hennar; stígur hann upp í hjá konungsdóttur, og bregður henni ekki við það. Þar er hann meðan honum sýnist og fer burt síðan, og í því bili snerti hún hægri kinn hans með votri hönd. Hann strauk kinnina og gekk til rúms síns og lagðist niður. Eftir litla hríð stendur hann upp aftur og fer í rekkju konungsdóttur og er þar um stund. Þegar hann fór snerti hún vinstri kinn hans með votri hönd. Hann þerrði sér og gekk til rúms síns, Það fannst á að gott þótti honum að vera hjá konungsdóttur, því hið þriðja sinn stóð hann upp og fór í rekkjuna til hennar og er hann hefir gjört það er honum líkaði fer hann burt, en konungsdóttir snerti þá nef hans með kaldri hönd. Honum þótti þetta kynlegt og þreifar á höndum hennar. Finnur hann hún heldur á krukku. Hann nær krukkunni og fór burt. Aldrei höfðust þau orð við. Hann gekk til rúms síns, en hún stóð upp og gekk út og læsti eftir sér. Og er Ríkarður veit að hún er farin tekur hann upp stein svo bjartan að lýsti af, er faðir hans hafði tekið frá konungi. Hann lítur í skuggsjá og sér að svartur blettur er á nefi hans og kinnum. Hann vill núa þá af og má ekki. Hann sér að svört væta er í krukkunni. Allir sváfu fast í skálanum. Gengur þá Ríkarður á röðina og klínir svarta bletti á hinnar og nef á hvurju mannsbarni í skálanum, kastar síðan krukkunni í bedda konungsdóttur og leggur sig síðan að sofa. Um morguninn kemur konungur í skálann og hyggur nú víst að þjófurinn eða sá er í vitorði var sé veiddur, en það brást honum er allir voru blettaðir. Hann mælti þá: „Hér er við brögðóttan um að eiga. Er því ekki að leyna að öll þessi ráð hafa gjör verið til að veiða þann mann er í vitorði var með þjófnum sem stal gripum og gullpeningum mínum, en þessi maður er mér vitrari og mun ég ekki fá hann með brögðum unnið. Því vil ég yður kunnugt gjöra að með því ég veit að maðurinn hefir ekki stolið sjálfur, fyrst aldrei hefir neitt horfið síðan hinn lézt, og þar hann er án efa vitur og vel að sér, þá fyrirgef ég honum, tek hann í sátt og gef honum dóttur mína ef hann getur sannað að hann sé sá.“ Ríkarður sá að konungi var alvara. Féll hann því til fóta honum og sýndi honum steininn fagra. Sagði hann þá konungi alla söguna og bað fyrirgefningar. Konungur mælti: „Drengilega fer þér og ertu maklegur að njóta dóttur minnar.“ Er nú þegar veizla sett og gengur Ríkarður að eiga konungsdóttur. Síðan lét konungur taka olíu og þvo af mönnum blettina og eftir veizluna eru menn með gjöfum út leystir. Lýsti konungur því þá að hann legði niður völdin fyrir elli sakir og gæfi Ríkarði ríkið. Ríkarður tók við stjórninni og ríkti til elli og þótti æ hinn mesti spekingur að viti. Og lýkur svo sögu þessari.