Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Rauði boli og Sigurður kóngsson

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Rauði boli og Sigurður kóngsson

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki, sem áttu sér son þann er Sigurður hét. Hann ólst svo upp hjá foreldrum sínum eins og önnur sögubörn þangað til móðir hans dó. Kóngurinn varð nú alveg úrvinda af sorg út af dauða drottningar sinnar og sinnti ekkert ríkisstjórn. Ráðgjafar hans komu þá til hans og sögðu að ekki mætti svo búið standa að hann sinnti ekki ríkisstjórn og buðust til að leita honum kvonfangs er honum sæmdi. Féllst kóngurinn á það og ráðgjafarnir héldu af stað og sigldu nú lengi lengi þangað til að það sló yfir þá þoku og þeir lentu í hafvillum. Loksins komu þeir að einu landi sem þeir þekktu ekki. Þeir gengu þar upp á land og í einu skógarrjóðri fundu þeir undurfallega stúlku; sat hún þar á gullstól við gullborð og var að leika sér að gulltafli. Þeir spurðu hana svo hvaða manna hún væri, en hún sagðist vera ekkja eftir konung sem rekinn hafði verið frá ríkjum; sagðist hún með naumindum hafa getað komizt undan með gripi þessa sem þeir sæi þar hjá sér. Er svo ekki að orðlengja það að þeim lízt svo vel á hana að þeir taka hana og fara með hana heim með sér. Þegar kóngur sá hana varð hann strax ástfanginn í henni, og fór svo að hann giftist henni og þótti honum svo vænt um hana að hann mátti ekkert gjöra henni á móti skapi. Þegar hún var orðin drottning varð hún svo slæm við Sigurð kóngsson að honum var varla viðvært. Kom hún kóngi til að láta Sigurð passa kýrnar. Mátti nú Sigurður gjöra það nauðugur viljugur. Einu sinni þegar Sigurður var að passa kýrnar kom rautt naut úr skóginum og fór saman við kýrnar. Sigurði þótti þetta naut svo fallegt að hann þóttist aldrei hafa séð jafnfallegt naut. Þegar Sigurður fór heim með kýrnar um kvöldið gekk Rauðiboli fast hjá Sigurði og sagði við hann: „Eigðu mig, Sigurður kóngsson! Eigðu mig, Sigurður kóngsson!“ Nú kom Sigurður heim með kýrnar og sagði föður sínum að það hefði komið naut saman við kýrnar í dag og bað hann síðan að gefa sér það. Kóngur gjörði það strax.

Nú líður dálítill tími. Þá leggst drottningin mjög veik og segir hún kóngi að sér muni ekki batna fyr en hún fái að borða hjartað úr honum Rauðabola hans Sigurðar kóngssonar. Kóngur gat ekki neitað henni um neitt og var því Rauðiboli sóttur og bundinn við stein. Sigurður gekk þá til hans og fór að klappa honum öllum utan og harma það að það ætti að drepa hann. En Rauðiboli sagði honum að hann skyldi fara út fyrir skíðgarðinn og bíða sín þar. Fór svo Sigurður burtu. Þegar drottningin heyrði að það var búið að binda bola varð hún strax svo frísk að hún fór út til þess að horfa á þegar hann væri drepinn. Settist hún nú á stól og horfði á, en þegar átti að fara að höggva hausinn af bola sleit hann sig upp og þaut þangað sem drottningin sat; síðan rak hann hornin í hana og fleygði henni upp í háa loft svo hún drapst. Breyttist hún þá á augabragði í tröllkerlingu, en Rauðiboli þaut nú út fyrir garðinn til Sigurðar og sagði honum að setjast á bakið á sér; gjörði Sigurður það. Hljóp nú boli lengi lengi þangað til þeir komu að háum garði. Þar setti hann Sigurð af sér og spurði hann hvort hann vissi hvert þeir væri komnir. Sigurður kvað nei við því. Rauðiboli sagði honum þá að þeir væru komnir að helli einum sem væri mjög rammbyggður og væri þrefaldur skíðgarður utan um hann. Hann sagði að þar byggi risi einn mjög göldróttur. Hann sagði að hann hefði stolið kóngsdóttur einni sem þar væri hjá honum; sagði hann að risinn vildi eiga hana, en hún vildi það ekki. Síðan sagði boli að þeir skyldu nú frelsa hana úr höndum risans. Sigurður spurði hvernig þeir ættu að fara að því. Rauðiboli sagði þá að Sigurður skyldi fara inn í hellinn, því að risinn væri ekki heima, og segja kóngsdóttur að hún skyldi lofa risanum að eiga hann ef hann vildi sýna henni allt sem hann ætti og náttúru hvers hlutar og fá henni lyklana að öllum hirzlum hans. Hann sagði að risinn mundi vilja draga undan einn lykil sem hann bæri ævinlega á brjóstunum og gengi að stórri kistu sem hann ætti; en umfram allt þyrfti hún að ná í hann. Síðan fóru þeir inn fyrir yzta garðinn og miðgarðinn og stönzuðu fyrir utan innsta garðinn. Þar skildi boli við Sigurð, en hann fór inn í hellinn. Þar fann hann kóngsdótturina eins og Rauðiboli hafði sagt honum. Þegar hún sá hann bað hún hann blessaðan að flýta sér burtu ef hann vildi ekki verða drepinn. Sigurður sagði að ekki væri hætta á því. Síðan sagði hann henni allt sem boli hafði sagt honum og lofaði hún að framkvæma allt vel. Faldi nú Sigurður sig einhverstaðar í hellinum og skömmu síðar kom risinn inn í hellinn og sagði: „Fussum svei, fussum svei! Mannaþefur í helli mínum.“ Kóngsdóttir sagði að það væri nú ekki furða þar sem hún væri þar inni. Sefaðist risinn þá og fór að spyrja hana hvort hún vildi ekki eiga sig. Hún tók fyrst þvert fyrir það, en sagði samt seinast að hún skyldi eiga hann ef hann vildi sýna sér allt sem hann ætti og trúa sér fyrir öllum lyklum sínum. Var risinn lengi tregur til, en lét þó til leiðast um síðir. Var hann nú búinn að sýna henni allt nema í kistuna; sagði hann að það væri ekki merkilegt og fram eftir þeim götunum. Jæja, hún sagðist þá ekkert eiga hann. Mátti hann þá til að sýna henni í kistuna. Tók hann nú upp úr kistunni eitt sverð, þrjá dúka og þrjá steina. Var einn steinninn svartur og var svartur dúkur utan um hann; einn steinninn var hvítur og var hvítur dúkur utan um hann; og einn steinninn var rauður og var rauður dúkur utan um hann. Sú var náttúra svarta steinsins að þegar slegið var í hann þá kom rigning; þegar var slegið í hvíta steininn kom haglhríð; en þegar var slegið í rauða steininn kom eldhríð. Síðan fékk hann henni lykilinn og fór svo af stað að bjóða í veizluna tröllum og risum. Kemur nú Sigurður fram úr fylgsni sínu og gefur sig á tal við kóngsdóttur. Féll honum hún æ betur í geð. Bað hann nú um lykilinn að kistunni og fékk hún honum hann; tók hann þá steinana, dúkana og sverðið og fór með það út. En áður en hann fór út bað hann kóngsdóttur umfram alla muni að fara ekki út hvað sem á gengi úti. Þegar Sigurður kom út var boli þar kyr. Sigurður sagði honum nú hvernig farið hafði og sýnir honum gripina. Lét boli vel yfir því, en þó segir hann að ekki sé allt búið fyrir þetta. Segir hann nú Sigurði að þar langt niðri í jörðunni sé svart naut; fyrir nösunum á því sé stór blaðra og í henni sé fjöregg risans og sé ekki hægt að drepa risann nema að sprengja blöðruna, en ekkert sverð biti á hana nema þetta sverð sem hann hefði tekið úr kistunni. Ennfremur sagði hann honum að ekki væri hægt að koma Svartabola upp á jörðuna nema með því að hann sjálfur baulaði hann upp. Sagðist hann mundi þurfa að baula svo hátt að Sigurður yrði ærður af hljóðunum nema hann vefði dúkunum utan um höfuðið á sér. Tók nú Sigurður svarta steininn og sló í hann; kom þá húðarrigning. Því næst vafði Sigurður svarta dúknum utan um höfuðið á sér; og öskraði nú Rauðiboli svo hátt að Sigurði þótti nóg um og hafði hann þó margvafið dúknum utan um höfuðið á sér. Heyrðist þá neðan úr jörðunni eins og kálfur baulaði. Nú tók Sigurður dúkinn af höfðinu á sér. Þá sagði boli að betur mundi hann þurfa að baula ef sá svarti ætti að koma upp. Því næst tók hann hvíta steininn og sló í hann, kom þá haglhríð svo mikil að hvergi sá frá sér. Svo vafði hann hvíta dúknum utan um höfuðið á sér, en boli rak upp öskur sem var helmingi meira en hið fyrra og þá heyrðist greinilegt öskur að neðan, en þó ekki ýkja-hátt. Tók hann nú dúkinn utan af höfðinu á sér. Já, betur sagðist Rauðiboli mundu þurfa að baula ef Svartiboli ætti að koma, en nú sagði hann líka að hann kæmi. Bað hann því Sigurð vera fljótan þegar hann hætti að öskra að taka þá dúkinn utan af höfði sínu, grípa sverðið og reka það í blöðruna á bola. Sigurður tók nú rauða steininn og sló í hann; kom þá svo mikil eldhríð að undrum gegndi. Því næst tók hann rauða dúkinn og vafði honum utan um höfuðið á sér, en Rauðiboli rak upp svo mikið öskur að Sigurður ætlaði að ærast af því. Rétt á eftir heyrðist það gríðarlegt öskur neðan úr jörðunni að Sigurður varð að halda utan um höfuðið á sér með báðum höndum svo hann alveg gengi ekki af göflunum. En þegar öskrið var um garð gengið fleygði Sigurður dúknum í snatri utan af höfði sínu; en rétt í þeim svifum rak Svartiboli granirnar og blöðrurnar upp úr jörðunni; var þá Sigurður ekki lengi á sér, heldur tók hann sverðið og tvíhenti því í blöðruna á bola. Drapst þá boli um leið; þetta mátti heldur ekki seinna vera því að þá var risinn rétt kominn að þeim; en þegar Sigurður hjó í blöðruna datt hann steindauður niður. Þá létti og eldhríðinni sem hafði verið; en öll tröllin sem risinn hafði farið að bjóða drápust í eldhríðinni.

Sigurður og boli fóru nú inn í hellirinn og fundu þar kóngsdóttur alveg frá sér af ótta og hræðslu; sagðist hún hafa heyrt öskrið og hafa haldið að Svartiboli væri að drepa þá; en þegar hún sá þá snerist hryggð hennar upp í gleði. Tók nú Sigurður allt það sem fémætt var í hellinum og hélt svo með allt saman heim í kóngsríkið til föður síns. Þegar faðir hans sá hann varð hann mjög glaður því að hann sagðist hafa haldið að Rauðiboli hefði drepið hann líka. Einnig sagðist hann skyldi þakka Rauðabola fyrir það að hann hefði frelsað sig frá tröllkerlingunni sem hann hafði gifzt. Er svo ekki að orðlengja það að Sigurður heldur brúðkaup sitt til kóngsdótturinnar sem hét Hildur. Fyrstu nóttina sem Sigurður ætlaði að sofa hjá kóngsdóttur sagði Rauðiboli við hann að ef honum þætti nokkuð koma til þess sem hann hefði gjört fyrir hann þá bað hann hann að lofa sér að sofa til fóta þeirra um nóttina. Sigurður sagði að það væri ekki of mikið og þó meira væri. Sofa menn nú af um nóttina; en þegar Sigurður vaknaði um morguninn lá nautshamurinn á gólfinu, en fríður kóngssonur í rúminu. Dreypti nú Sigurður á hann vatni svo hann raknaði við. Sagði hann þá að Hildur væri systir sín og hefði risinn stolið henni, en lagt það á sig að hann skyldi vera í nautslíki þangað til einhver kóngsson lofaði honum að sofa hjá sér brúðkaupsnóttina sem seint mundi verða. Sagði hann að hann hefði ætlað að eiga systur sína, en hún hefði ekki viljað það. Ennfremur sagði hann Sigurði að stjúpa hans hefði verið systir risans og hefði hún ætlað að drepa föður hans og byggja svo kóngsríkið með tómum tröllum. Varð nú fagnaðarfundur með systkinunum; og þegar kóngssonurinn var búinn að vera hjá þeim Sigurði nokkurn tíma hélt hann heim í ríki sitt og ríkti til elli. En Sigurður tók við ríki föður síns og ríkti með Hildi til elli. Áttu þau börn og burur, grófu rætur og murur o. s. frv.