Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Rauðiboli
Rauðiboli
Það var eitt sinn karl og kerling í koti sínu. Þau áttu einn son er Sigurður hét; hann vóx upp hjá foreldrum sínum þangað til hann var tólf ára gamall. Þá fóru þeir eitt sinn út á skóg feðgar að veiða dýr og fugla og gekk þeim það vel. En um kvöldið þegar þeir gengu heim sáu þeir rautt naut mikið og stórt og fer karl að reyna að ná því og getur það ekki. Fer þá Sigurður sonur hans að reyna að ná því og gat það strax; svo nú þótti karli vel fénazt hafa um daginn. Nú fóru þeir heim með veiði sína. Þótti þá kerlingu mjög vænt um afla þennan og bað karl sinn að gefa Sigurði nautið og karl lofaði henni því. Nú var kusi látinn í fjós og átti Sigurður að hirða hann. Héldu þeir nú hinni sömu venju að þeir gengu til veiða á hvurjum degi. Eitt sinn þegar þeir koma heim þá var kerling veik mjög; biður hún karl enn að nýju að gefa Sigurði nautið og taka það ekki af honum aftur. Nú deyr kerling og verður hún harmdauð mjög. Halda þeir þó hinni sömu venju að þeir ganga til skógar og veiða dýr og fugla.
Kvöld nokkurt þegar þeir ganga heim finna þeir stúlku undir eik einni ekki langt frá skálanum. Karl býður henni heim til sín og hún þiggur það. Verður hún nú bústýra hjá karli og geðjast hún honum vel og hann henni svo hann giftist henni og unni henni mikið. Fóru þeir nú til veiða sem fyrri, en svo bar við eitt sinn þá þeir komu heim þá var kona karls veik orðin. Verður karl þá hryggur mjög og spyr konu sína hvurt hún haldi það sé það nokkuð til sem geti eytt veikleika hennar; en hún segir það ekkert vera utan blóðið úr Rauð[a]bola. Karl kvað það hægt að fá. Þegar Sigurður heyrir það fer hann að gráta og gengur til Rauðabola og stendur þar lengi grátandi þangað til kallað er til hans og hann spurður af hvurju hann gráti svo mjög; en hann svarar því öngu og grætur eins sem áður. Var hann nú enn spurður af hvurju hann gráti, en hann segir þá að hann sé að gráta af því það eigi að drepa hann Rauðabola sinn á morgun. Var honum þá sagt að hann skyldi ekki gráta af því óvíst væri hvurt annað dræpi fyrri, – „en taktu föt þín og allar eigur út á túngarð og bíddu mín þar.“ Hann gjörir þetta sem nú var sagt og bíður þar á túngarðinum.
Víkur nú sögunni til karls og konu hans. Þegar af líður nóttin vill karl fara að slátra kusa, og kona hans skríður á fætur og býðst til að hjálpa honum þar til. Ganga þau nú til fjóss. Tekur nú karl kusa og leiðir hann heim; en þegar karl vill fara að leggja hann niður þá rekur hann karl í gegn með horninu og konu hans á eftir, gengur síðan út á túngarð til Sigurðar og segir honum lát hjónanna og þar með að hann skuli binda saman föt sín og láta þau á bakið á sér og fara síðan sjálfur á bak. Fer hann nú á stað og gengur nú lengi þar til hann kemur að garði nokkrum; var hann allur stráður rósum og liljum að innanverðu. Biður nú Sigurður bola að lofa sér að fara inn [í] garðinn, en boli vill það ekki gjöra, en líður það þó, en þó með því móti að hann láti allt vera hræringarlaust og Sigurður lofar því. Fer Sigurður nú inn í garðinn og skoðar sig um og tekur eina lilju, þá fallegustu sem honum þótti, og gengur út síðan. Þegar hann kemur út þá gengur hann til bola og sýnir honum liljuna; þykir bola þá miður og segir hann muni illt af því hljóta.
Þegar Sigurður er að fara á bak á bola þá sér hann tröllkarl koma út úr garðinum og hann ræðst þegar á þá Sigurð og bola, en svo lýkur glímum þeirra að Rauðiboli drepur tröllkarl þann. Þegar boli er búinn að þessu þá segir hann Sigurði að fara inn í garðinn aftur og taka þar herklæði sem þriggja manna afl væri í. Að þessu búnu fara þeir á stað og fara mjög langan veg þar til þeir koma að öðrum garði sem var að öllu meiri en sá fyrri, einkum að fegurð og prýði; svo Sigurð langar nú öllu meira en fyrri að komast inn í garð þennan svo boli lætur það eftir honum, þó með sama skilyrði og fyrri, að hann láti allt óáhrært. Þegar hann kemur inn þá fer fyrir honum líkt og fyrri að hann tekur þann ávöxt sem honum þykir álitlegastur og sýnir bola þá hann kemur út. Þykir bola nú þetta verra en það fyrra, segir honum þó hann skuli fara í herklæðin sem þriggja manna afl sé í og duga nú vel. En þegar hann er að fara í herklæðin þá kemur tvíhöfðaður þussi út úr garðinum og ræðst á þá. Eiga þeir örðugt með hann mjög, en geta þó drepið [hann] um síðir. Þegar þetta er búið þá segir boli Sigurði hann skuli fara inn í garðinn og taka þar herklæði sem sex manna afl væri í. Sigurður gjörir þetta. Fara þeir á stað síðan og fara veg mjög langan þar til þeir koma að garði svo stórum og fögrum og að öllu meiri en hinir báðir sem áður eru nefndir. Nú biður Sigurður bola að lofa sér inn í garðinn og boli lofar honum það um síðir og biður hann að láta allt vera kyrrt í garðinum, því það kosti líka líf þeirra ef hann taki á nokkru í garðinum. Þegar hann kemur inn í garðinn þá tekur hann fallegasta blómið og gengur út eftir það og að bola og sýnir honum blómstrið, en boli verður reiður við og skipar honum að fara í herklæðin sem sex manna afl væri [í] og duga nú, því nú muni hann þurfa á öllu að halda. Sjá þeir nú koma þríhöfðaðan þussa og veður hann jörð að hnjám upp og æðir að þeim og vill drepa þá. Verður þeirra glíma hörð og löng, en svo lýkur að þeir fella hann. Að honum dauðum segir boli Sigurði að fara inn í garðinn og taka þar herklæði sem níu manna afl væri [í], hund og tík, spjald sem fjórar óskir væri á og sverð. Nú fer Sigurður út úr garðinum og til bola og sýnir honum hluti þessa. Fara þeir þaðan og fara nú langa leið þar til þeir koma að konungsgarði einum. Þá segir boli við Sigurð að hann skuli byggja handa sér kofa – „hér fyrir utan garðinn sem ég ætla að vera í með hund okkar og tík“. Sigurður gjörði þetta og boli fór þar með hundinn og tíkina, en Sigurður gekk inn í konungsgarð og býður sig til að bera út ösku og inn vatn og hann fékk þá forþénustu. Jafnan fór hann og sagði bola það sem við bar á konungsgarði.
Konungur sá er stýrði garði þessum hét Bjálfi; hann átti einn son og þrjár dætur. Sonur hans hét Kálfur, en dætur hans hétu Ásný, Signý og Helga, Helga var yngst af dætrum kóngs. Kóngur siglir nú úr landi til að taka skatta af öðrum löndum er honum til heyrðu. Gengur honum vel að ná sköttunum og að því búnu siglir hann heimleiðis. En þegar hann er kominn því nær í hafnir sínar kemur þar tröllkarl svo mikill upp úr sjónum að hann tekur skipið í faðm og heldur sinni hendi um hvurn borðstokk skipsins og hótar að drepa kóng utan hann gefi sér dóttur sína Signýju. Kóngi þykir þetta ekki góður kostur, en til að forða lífi sínu þá lofar hann að gefa honum dóttur sína. Tröllkarlinn [segir] kóngi innan þriggja daga þá skuli hann vera búinn að færa hana út á skóg og skilja hana þar eftir hjá steini einum mjög stórum. Þegar konungur er kominn ekki langt þaðan sem hann hitti jötun þennan þá mætir honum annar tröllkarl að öllu sem hinn fyrri og býður honum sömu kosti [og] hinn, áskildi sér það að hann fái Ásnýju ella skuli hann drepa hann þar. Segir hann eins og hinn að hann skuli flytja hana á sama steininn og áður var nefndur og innan sex daga; skilja þeir þar. En þá kóngur er kominn stutt þaðan þá hittir hann þann þriðja, að öllu verri en hinir báðir, og býður honum sömu kosti og þeir fyrri nema hann fái Helgu dóttir konungs og hann flytji hana á sama stað og áður er sagt. Konungur neyðist til að lofa þessu öllu til þess að halda lífi sínu. Siglir hann nú heim í hafnir sínar mjög sorgbitinn og gengur frá skipi síðan. Þegar hann er kominn allt að borginni þá koma á móti [honum] drottning hans og börn. Hryggist hann þá enn meira er hann sá börn sín. Segir hann þá dætrum sínum að hann hafi orðið að gefa þær óvættum eða vera dauður að öðrum kosti; fer þá í borgina og stefnir þing fjölmennt og býður hvurjum þeim manni dóttur sína, hvurja sem er, sem geti frelsað þær frá tröllum þessum.
Maður hét Rauður; hann var ráðgjafi konungs. Hann sagðist skyldi reyna að bjarga þeim. Líður nú að þeim tíma er Signý skal á burt fara.
Nú fréttir Sigurður þetta í eldaskála og biður þá eldabuskur að lofa sér að fara í burt litla stund til að þrífa af sér lýs og önnur óþrif. Þær eru ekki góðar á því, en lofa honum það þó með því móti hann sé fljótur. Sigurður fer nú til Rauðabola og segir honum hvað skeð sé í borginni. Boli segir honum að hann skuli taka herklæðin sem þriggja manna afl væri í. Sigurður gjörir þetta og gengur á skóg þar til er Signý sat og döpur mjög; en Rauður sat í eik einni ekki langt þaðan frá og vildi bíða þ[ar] þangað til tröllkarlinn kæmi. Sigurður bað nú Signýju að lofa sér að leggja höfuð í kjöltu hennar og lofa sér að sofna þar. Signý gjörði þetta sem Sigurður bað. „Þess bið ég þig,“ segir Sigurður, „að þú vekir mig þá þú sér tröllið koma.“ Lofar hún þessu, og nú sofna[r] Sigurður í kjöltu Signýjar. Þegar Sigurður [er] sofnaður þá tekur Signý gullhring af hendi sér, og nafn hennar á hringnum. Hún bindur hringinn í lokk í hárinu á honum og lætur hann upp undir hjálminn á Sigurði. Þegar hún er búin að þessu þá sér hún tröllið koma. Vekur hún þá Sigurð. Hann vaknar þegar og rís upp og gengur á móti þussanum; og nú berjast þeir og lýkur svo að Sigurður felldi tröllkarlinn. Gengur Sigurður nú heim og í kofann til bola og segir honum frá hvar nú sé komið. Fer nú Sigurður þaðan og til skála síns og þykir stúlkum hann hafa verið lengi í burtu.
Víkur nú sögunni til Rauðs þar sem hann situr í eikinni. Þegar Sigurður gekk burt frá víginu tröllkarlsins þá fór hann til Signýjar og bauð henni tvo kosti: annaðhvurt skyldi hann drepa hana ellegar hún skyldi segja að hann hefði fellt tröllkarlinn og enginn annar; hún lofar því. Fara þau þá til borgar og fagnar konungur þeim vel og þykist þau úr helju heimt hafa og lofar mjög hreysti Rauðs. Kemur nú sá tími að Ásný er á skóg flutt og fer Rauður með henni og sezt í eik þá er hann sat í áður og ætlar að bíða þar þangað til tröllkarlinn kemur. Sigurður heyrir þetta og fær leyfi hjá eldaskálabúum að fara burtu litla stund. Fer hann nú til Rauðabola og segir honum fréttir þessar. Boli segir honum að fara í þau herklæði sem sex manna afl er í. Sigurður gjörir þetta og fer til Ásnýjar og fer þetta að öllu sem hið fyrra [skiptið]. Líður nú að því að Helga skal á burtu fara. Fer þá Rauður með henni og fer hann að öllu sem fyrr. Sigurður heyrir þetta og fer til bola og segir honum nú hvar komið er. Boli segir honum að taka herklæðin sem níu manna afl er í, hundinn, tíkina, spjaldið og sverðið og segir að nú muni ekki af veita þó vel væri við búizt og biður hann að nefna sig heldur fyrri en seinna; og nú fer Sigurður og finnur Helgu og býst nú um sem áður að hann sofnar í kjöltu Helgu og [tekur] henni vara fyrir ef hún geti ekki vakið sig strax að siga þá hundinum og tíkinni. Tekur nú Helga fingurgull af hendi sér og hnýtir honum á sama lokkinn og hinir eru. Að þessu búnu þá sér hún karlinn koma. Fer hún þá að vekja hann og getur ekki. Sigar hún þá hundi og tíkinni og gelta þau sitt í hvurt eyra á honum og vaknar hann þá. Sér hann þá tröllið komið rétt að steininum. Fer þá Sigurður á móti honum. Tröllkarlinn spyr hann hvurt hann sé sá maður sem drepið [hafi] fimm bræður sína, þrjá á landi, en tvo í sjó. Sigurður játar því. „Ekki skaltu svo með mig fara,“ segir karl; og tekur hann Helgu og fer til sjávar með hana og á kaf síðan. Sigurður nefnir nú bola og kemur hann þegar. Sér hann nú að stúlkan er hvorfin. Segir nú boli Sigurði hann skuli taka spjaldið [og] óska sér hann eigi þann bát er fari jafnt í sjó og á [landi] þangað til hann komi að hellirsdyrum tröllkarlsins.
Nú kemur báturinn og fara þeir í hann báðir og fara þeir þar til að þeir koma að einum hellirsdyrum. Segir þá boli við Sigurð að tröllið muni nú ekki heima vera og skuli hann nú fara inn til Helgu og spyrja hana hvurt hún hafi lofazt tröllinu, – „en ef hún er ekki orðin lofuð honum þá segðu henni að hún skuli lofast honum í kvöld þá hann kemur heim, þó með því móti að hann segi henni með hvurju móti hann verði unninn, því hún vilji ekki missa hann þegar hún væri búin að fá hann.“ Sigurður biður hana að segja sér á morgun hvað karl segir. Fer hann nú á burt og finnur bola. Nú kemur karl heim um kvöldið. Spyr hann þá Helgu sem fyrri hvurt hún vilji játast sér. Helga segir já; hún skuli gjöra það með því móti að hann segi sér hvurt honum megi nokkuð að bana verða – „því ekki vil ég fara að eiga þig ef þú yrðir þá drepinn þá minnst varði.“ Tröllkarlinn svarar: „Ekki veit ég það neitt vera.“ Helga segir: „F[l]estir hlutir eru þó til búnir, að þeir verða með einhvurju móti enda að taka.“ Tröllkarlinn segir þá: „Ekki veit ég neitt sem geti orðið mér að bana nema ef það væri naut eitt svart að lit. Innan í nauti þessu er hæna ein og innan í hænunni er egg eitt; og ef egg þetta næst og verður brotið fyrir hellirsdyrum mínum þá mundi ég deyja og allur minn ættbálkur. Naut þetta er á fjalli einu langt héðan burtu og er óvinnandi öllum mönnum og öllum skepnum, nema ef Rauðiboli gæti það og er hann ekki hér nálægt.“ Tröllkarlinn ætlar þá [að] fara og sækja boðsfólkið. Helga segir hann skuli ráða því. Fer þá karl þegar af líður nóttin og fer að safna boðsfólkinu.
Þegar karl er í burtu þá kemur Sigurður inn og segir Helga honum þá sem karlinn hafði sagt henni. Fer Sigurður út eftir það hann hefur fengið þetta að vita. Segir Sigurður bola þetta sem tröllkarlinn sagði Helgu. Nú segir boli hann skuli taka spjaldið og óska að þeir séu komnir þar á land sem stytzt væri að fjöllum þeim er nautið væri á; og verður það þegar óðar að þeir koma þar á land sem fjöll mikil ganga í sjó. Segir þá Rauðiboli Sigurði að hann skuli fara á bak sér og Sigurður gjörir [það]. Nú fer boli á stað og hleypur í þrjú dægur svo hvurugur talar við annan. Segir nú boli Sigurði að hann skuli taka dúk þann sem væri vafinn um horn sér og vefja honum um höfuð sér, því nú ætli hann að öskra. Sigurður tekur dúkinn og vefur honum um [höfuð sér]. Öskrar nú kusi þrjú öskur og spyr þá Sigurð hvurt hann hafi heyrt nokkuð til sín. Sigurður segist ekkert heyrt hafa. Hleypur þá boli tvö dægur og öskrar þá hátt mjög og spyr þá Sigurð hvurt hann hafi heyrt nokkuð. Sigurður segir sem fyr að hann hafi ekkert heyrt. Hleypur þá kusi enn eitt dægur og segir nú Sigurði hann skuli vefja vel dúkinn um höf[uð]ið á sér því nú ætli hann að öskra eftir megni og snúa þá aftur ef ekkert heyrist. Sigurður vefur nú dúknum það fastast hann getur, en hvurnin sem hann vefur dúkinn að höfði sér þá ætlar hann þó að heilaklofna, svo öskrar boli hátt. Spyr nú boli Sigurð hvurt hann hafi heyrt nokkuð öskrað á móti. Sigurður segir að hann hafi eitthvað heyrt.
Fer þá boli enn langa leið þar til þeir sjá svart naut koma móti sér og veður það jörð að hnjám upp. Segir nú boli Sigurði hann skuli fara af baki, því hann ætli sjálfur að glíma við bola, – „en far þú þá í þau herklæði sem níu manna afl er í og vertu viðbúinn ef ég kann að geta komið einhvurju bragði á hann, því er hann missti fóta við, því blettur hvítur á að vera undir hægri bóg nautsins, og skaltu leggja hann þar því vopn bíta ekki á hann annarstaðar.“ Þetta vissi boli af því tröllkarlinn sagði það Helgu ásamt hinu þó það sé ekki áður sagt. Hlaupa þeir nú saman griðungarnir og stangast lengi svo ekki mátti sjá hvur hærra hlut [mundi] bera. Um síðir getur þó Rauðiboli velt hinum um. Hleypur þá Sigurður að og leggur hann með sverðinu undir bóginn og drepst hann þá. Stingur hann þá gat á kvið nautinu og tekur þar út hænu og kryfur og tekur eggið. Fara þeir þá til sjávar. Nú segir Rauðiboli Sigurði hann skuli taka spjaldið og óska að þeir væru komnir til hellirs karlsins sem þeir fóru frá áður og vóru þeir þá á augabragði komnir að hellirsdyrum karls. Þá segir boli Sigurði hann skuli fara inn og taka Helgu – „því nú mun karl ekki heima vera“. Sigurður gjörir þetta sem boli segir honum og nær stúlkunni, kemur með hana út til bola. Þegar hann er nýkominn út þá sjá þeir tröll komin á allar síður og láta þau heldur ófrýnlega. Tekur þá Sigurður eggið og brýtur það við dyr hellirsins. Falla þá tröllin öll dauð niður. Nú tekur Sigurður spjaldið og óskar að þau séu komin í kofa Rauðabola, og verður það þegar. Fer nú Helga á skóg og að steini þeim sem hún fór áður frá, en boli fór í kofa sinn með hund sinn og tík og Sigurður fer í kóngsgarð. En áður en þeir skilja Sigurður og boli þá biður boli Sigurð ef svo kynni ske að Sigurður fengi Helgu kóngsdóttir að lofa sér að vera undir rúmi þeirra þá fyrstu nótt er þau svæfi saman. Sigurður lofar þessu og fer síðan til eldaskála og þykir nú stúlkum hann hafa lengi í burtu verið og lá við að þær dræpu hann.
Víkur nú sögunni til Rauðs. Hefur hann alltaf verið í eikinni síðan Helga fór af steininum og var hann nú búinn að rífa af sér öll fötin og særa sig allan eins og hann hefði [í] bardaga verið. Þeg[ar] hann sér Helgu koma þá fer hann ofan úr eikinni og til hennar og býður henni sömu kjör og hinum fyrri, að hann skuli taka hana af lífi utan hún segi hann hafi sig frelsað og enginn annar. Hún lofar því. Fara þau þá heim eftir það og verður kóngur þeim feginn mjög og hrósar Rauði fyrir framgöngu sína og segir honum hann megi eiga hvurja þeirra sem hann vill. Segist þá Rauður helzt vilja fá þá sem hann hafi haft mest fyrir. Segir konungur það sjálfsagt vera hann fái hana. Kvað hann ekki annan meira hafa til hennar unnið. Var nú slegið upp veizlu og skyldi vera jafnt fagnað sem brúðkaupsveizla [væri].
Sigurður fréttir þetta. Fer hann þá til Rauðabola og segir honum hvar komið er. Gefur nú boli Sigurði klæði góð og segir honum að fara í þau og þar utan yfir hin gömlu klæði sín. „Far þú heim eftir það í skála þann er þú hefur verið í áður. En þá þú kemur í skálann þá láttu stúlkur sjá á ermi á þeim góðu klæðum fram undan fatagörmum þeim sem þú ert í utan yfir.“ Sigurður fer að öllu sem boli hefur ráðlagt honum. Sjá stúlkur þetta fljótt og berst það þegar um alla höllina og langar þá margan til að sjá þetta og var því Sigurður þá boðaður í konungshöll. Sigurður segir sig vera ófúsan að fara þangað til þess að láta fólk vera að hlæja að sér. Fer hann þó um síðir. Þegar Sigurður kom í höllina þá vóru dætur konungs komnar í höllina og [á] pall setztar. Þegar Sigurður kemur í höllina þá standa þær allar upp móti honum. Konungur spyr því þær gjöri þetta. Þær segja þetta vera þann mann sem hafi frelsað sig frá vanda þeim sem þær vóru í. Konungur segir að þær verði að sanna þetta. Ganga þær þá allar til Sigurðar og taka hvur sinn hring. Sér þá konungur að þetta muni satt vera. Bað hann þær þá segja sér hvurnin á þessu stæði. Sögðu þær honum allt það sanna. Verður konungur reiður mjög og skipar að taka Rauð og binda hann milli tveggja trippa svo að sinn hvur fótur hans væ[ri] bundinn við hvurt þeirra.
Konungur býður nú Sigurði að [eiga] hvurja dóttir sína sem hann vilji; en Sigurður kýs Helgu og var hún þegar föstnuð Sigurði. Biður þá Sigurður konung að hann lofi sér að láta naut og tík og hund vera undir rúminu sem þau sofi í fyrstu nóttina. Konungur leyfir það. Stíga þau nú í eina sæng, en Sigurður sækir bola og það honum fylgir og lætur hann undir rúm sitt og sofnar eftir það. Um nóttina seint þá kastar boli hamnum og hund[urinn] og tíkin. Tekur þá Sigurður hamina og brennir þá. Um morguninn snemma kemur konungur i[nn] til Sigurðar. Sér hann þá að fjölgað er fólki og undrast það mjög. Segir þá Rauðiboli sem var (en sem nú var fríðasti maður og hét nú Rauður) konungi allt hvurnin á honum stæði og svo systkinum sínum (sem hétu Hróar og Hróðný). Segir nú Rauður kóngi að þetta séu allt systkin og séu kóngborin. „Móðir okkar dó þegar við vorum á unga aldri; eignaðist hann þá aðra konu og var hún systir þeirra bræðra sem áður [eru] nefndir og Sigurður drap. Eitt sinn þá faðir okkar fór úr landi þá þótti stjúpu okkar við okkur börnin og lagði þá á okkur svoleiðis að ég skyldi verða að rauðu nauti, en hin systkin mín að hundi og tík og ei fyr komast úr þessum álögum en hún væri dauð og bræður sínir allir og ég hjálpaði einhvurjum úr bágindum og hann eignaðist einhvurja kóngsdóttur og ég og systkin mín væru látin vera undir rúmi því sem þau svæfi í fyrstu nóttina er þau svæfi saman; og er nú svo komið. Stjúpa okkar var kona sú er faðir Sigurðar átti fyrir síðari konu og [ég] drap.“
Bað nú Rauður Signýjar og fékk hana, en Hróar fékk Ásnýju og bróðir þeirra fékk Hróðnýju.
Giftir konungur nú öll hjón þessi og gefur öllum þeim lönd og ríki og unntist það allt til dauðadags.