Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Rauðiboli og Ásmundur kóngssonur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rauðiboli og Ásmundur kóngssonur

Svo er sagt að í fornöld hafi kóngur nokkur ráðið fyrir ríki einu; hann var vitur og vinsæll og enn mesti hermaður. Hann átti drottningu af göfigum ættum og við henni einn son er Ásmundur hét. Hann vóx upp með hirð föður síns þar til hann var fullorðinn að aldri; var hann þá umfram aðra menn að afli og íþróttum; hann var fríður sýnum og að öllu hinn kurteisasti.

Nú bar svo til að drottningin móðir hans tók sótt og andaðist. Var útför hennar gjörð hin veglegasta og orpinn um hana haugur að fornum sið; varð hún hverjum manni harmdauði er hana kenndu og mest konungi. Fekk honum þetta svo mikillar hryggðar að hann lét af allri ríkisstjórn.

Grani hét öndvegismaður konungs er hönum hafði lengi fylgt; hann bað að kóngur vildi láta af sorg þessari og taka á sig gleði. Kóngur kvað sér það lítt mundu duga. Grani spyr ef kóngur liti þar nokkurstaðar til konfangs er hönum þækti sér fullkosta og kvaðst skyldi fara hvert er kóngur vildi vera láta. Kóngur kvaðst það hvergi hugað hafa og bað Grana fyrir sjá. Eftir það býr Grani ferð sína við nokkurja menn og eftir að hann hafði tekið orðlof af kóngi ríða þeir af stað. Verður ekki sagt um ferð þeirra fyrr en seint á degi einum að þeir ríða eftir skógarbraut nokkurri. Verður þar fyrir þeim rjóður eitt. Þeir litast þar um og sjá tjald eitt forkunnar vænt. Þaðan heyra þeir hörpusöng fagran. Grani gengur að tjaldinu og lyftir upp skörinni og sér þar konu. Hún sat á stóli og sló hörpuna sem áður. Hár féll henni að belti næsta fagurt og öll var hún hið tignarlegasta búin. Grani heilsar henni virðuglega. Hún tók vel kveðju hans og spurði hann að nafni og erindum. Hann sagði henni af hið ljósasta. Hún blæs við mæðulega og mælti: „Mjög er líkt ástatt fyrir konungi yðrum og mér. Ég átti kóng mikinn og mektugan. Hann felldu víkingar frá ríki, en ég slapp úr höndum þeim og á skóg þenna. Ætla ég að eyða hér ævi minni í einveru.“ Þeir kváðu það aumlegt og sögðu betra að leita annara ráða. Og með því að þeim sýndist kona þessi hin vænsta kom þeim ásamt að flytja við hana konungserindið. Bar Grani það síðan upp fyrir henni. Hún tók því ekki fjarri, en kvaðst þó ekki hafa ætlað að gifta sig í öðru sinni; en fyrir tillögur Grana fór hún með þeim. Ríða þeir nú til baka og þóktust hafa fengið góð erindislok. Léttu þeir ekki ferð sinni fyrr en þeir koma heim til konungs og færa hönum drottningarefnið. Brá þá svo við að allt í einu hvarf hönum sorgin og felldi strax ástarhuga til hinnar fögru frúr er nú var hönum heim færð; og því næst drekkur hann brúðkaup til hennar. Urðu með þeim litlar ástir. Þókti henni kóngur gamall og kaldur í hvílu; unni þó kóngur henni mikið.

Leið nú svo fram um hríð þar til drottning tekur sótt mjög þunga. Kóngur lét þegar leita til lækna þeirra er beztir vóru, en það kom fyrir ekki. Kóngur gengur þá að sæng hennar og spurði ef hún vissi það nokkuð er hægja mætti meini hennar. Þá reis drottning við í rekkjunni og mælti: „Veit ég þann einn hlut er mér mundi að fullu bæta kröm þessa.“ Kóngur bað hana segja sér hvað það væri. Hún mælti: „Út á skógi ekki allskammt héðan er rautt naut. Er það mjög auðkennilegt fyrir fegurðar sakir og mikils vaxtar. Það er hyrnt mjög og fer jafnan eitt saman. Gæti ég fengið blóð þess og kjöt að neyta af mundi mér það ærið til bata. En það hygg ég að enginn yðar manna fái það höndlað utan Ásmundur son þinn.“ Kóngur kvaðst freista vilja ef Ásmundur vildi fara.

Síðan kallar hann Ásmund fyrir sig og spurði ef hann vildi takast á hendur að hitta bola. Ásmundur kvaðst þess albúinn. Bjó hann sig að öllu sem henta þókti; eftir það gekk hann til skógar. Önga hafði hann sveina með sér, því svo hafði drottning fyrir sagt. Og er Ásmundur var kominn á skóginn og hafði gengið um stund leit hann koma rautt naut á móti sér. Þóktist Ásmundur kenna það eftir sögn drottningar og býst að vega að því. Þetta sér Rauðiboli og mælti: „Þar ert þú Ásmundur kóngsson og kenni ég þig gjörla. Veit ég hvört erindi þitt er og vil ég biðja þig að þú leyfir mér að mæla nokkuð við þig áður en ég skal missa lífið.“ Ásmundur kvað svo vera skyldu. Rauðiboli mælti: „Það skaltu vita Ásmundur að alls á ég kosti við þig og það vissi drottning að ef við ættumst við mundir þú aldrei heill af mínum fundi komast. Eru þér nú og tveir kostir fyrir höndum: Sá fyrri að við reynum með okkur og [þú] hættir svo gæfu þinni; hinn er sá að við gjörumst fóstbræður og látir þú mig sjá fyrir hlut okkrum þó þér sýnist ég all-ólíklegur þar til.“ Ásmundur hugsar nú mál sitt og kjöri heldur að ganga í fylgd með Rauðabola, og staðfestu þeir það með sér. Þá mælti boli: „Nú til þess að nokkru geti orðið framgengt um beiðni drottningar skaltu skera bita tvo úr báðum lærvöðvum mínum og láta blæða í ker.“ Ásmundur gjörði svo og bjó um síðan. Rauðiboli mælti: „Það hygg ég að stjúpa þín láti sér ekki hér með nægja. Mun hún segja mig á lífi er hún hefur neytt þessa er nú fer þú með, og get ég til hún láti senda þig til fundar við mig öðru sinni.“ Fer Ásmundur unz hann hittir föður sinn og selur hönum það er hann hafði með sér haft af Rauðabola. Kóngur skipar að matbúa það og færa drottningu. Og er hún hafði matazt mælti hún: „Ekki er þetta tekið af Rauðabola að hönum dauðum; er þetta prettur einn og mun mér ekki af þessu batna mega. Vil ég nú að Ásmundur fari annað sinn og færi Rauðabola hingað til konungshallar. Skal ég þá skipa fyrir sem mér líkar og ekki mun mér bata von fyrr en ég hefi fengið hjarta hans og lungu að eta.“

Nú er Ásmundur kvaddur til ferðar í annað sinn. Hann býr sig skjótt og skundar til skógarins. Ekki hefur hann lengi gengið áður Rauðiboli mætir hönum. Ásmundur segir hönum hvörnig farið hafði og að hann sé nú eftir hönum sendur og eigi að flytja hann heim á konungsgarð. Rauðiboli mælti: „Þess uggði mig að svo mundi fara. Skalt þú nú höndla mig og leiða með þér til hallar. Þar mun verða færður niður í strætið staur mikill er ég skal bindast við; en þess bið ég þig að geyma að fjöturinn sé ei sterkari en svo að ég geti orðið laus þá er ég vil. Drottning mun sjálf rísa úr rekkju og ganga þangað sem ég stend við staurinn. Þér mun verða skipað að drepa mig og muntu ganga næstur drottningu. Hún mun ganga að mér, strjúka hendi um mig og mæla síðan: „Þá ertu nú hér kominn, boli minn!“ En þá mun ég veita henni tilræði og skaltu þá varpa þér á bak mitt hið skjótasta. Mun ég leita til skógarins. Verður þú að gæta þess vel að ei fallir þú af baki, því drottning mun skipa að okkur sé veitt eftirför.“ – Síðan höndlar Ásmundur bola og leiðir til hallar. Fer allt á sömu leið er Rauðiboli hafði ráð fyrir gjört. Og er drottningu var sagt að Ásmundur sé kominn rís hún úr rekkju, en biður fyrir hvörn mun gæta þess að Rauðiboli sleppi ekki undan. Og er hún hafði klæðzt stumrar hún þangað er boli stóð bundinn; fylgdi henni konungur og allur borgarlýður. Ásmundur gekk henni hið næsta og er hún hafði strokið bola og brúkað við hann mörg blíðyrði verður boli laus við staurinn, snýr að drottningu – og áður vörn yrði komið fyrir hana hafði Rauðiboli lagt hana í gegn með horninu svo henni varð það ærið til bana. Og í þessari svipan er Ásmundur kominn á bak bola og hleypur hann með Ásmund til skógar. Drottning býður að veita þeim eftirför, en það kom fyrir ekki. Eftir þetta deyr drottning og þykir þetta allt nokkuð undarlega fyrir bregða.

Nú er að segja frá Rauðabola að hann nemur ekki fyrr staðar en hann hefur hlaupið langt í skóginn; er hann þá kominn í rjóður eitt. Þar segir hann Ásmundi að stíga af baki. Ásmundur litast nú um og sér skammt þaðan þrjú hús skrautlega byggð. Þá mælti Rauðiboli: „Nú skaltu ganga að húsum þessum og inn í þau. Muntu finna í hvörju þeirra herklæði; í þau skaltu klæðast og mun þér vaxa orka um mannsafl við þau fyrstu og við önnur um tveggja manna megn og við hin þriðju um þriggja manna styrkleika og hefir þú þá fengið sex manna afl auk þess er þú áður hafðir, og mun þér ei af veita áður lýkur. Þú munt sjá standa yfir dyrum allra húsanna blómstur næsta fögur, en það skaltu varast að snerta þau, hversu sem þig langar til, og ríður mér mikið á að þú bregðir hér ekki út af.“

Ásmundur lofar því. Síðan gengur hann í húsin, finnur herklæðin og færir sig í þau, en mestur hugur leikur hönum á blómstrunum; og er hann gengur út úr síðasta húsinu grípur hann til blómstranna og stingur hjá sér. Síðan gengur hann þar til er hann hittir bola. Spyr hann Ásmund hvört hann hafi að öllu farið eins og fyrir hann hafði verið lagt. Ásmundur kvað hvergi út af brugðið. Boli mælti: „Þá mun þér vel endast!“ Ásmundur mælti: „Hvað skal nú aðhafast?“ Rauðiboli mælti: „Nú mun ég segja þér ævisögu mína hingað að, en þú sezt niður og hlýð!“

Þessu næst tekur Rauðiboli til máls og byrjar ævisögu sína á þessa leið:

„Faðir minn var kóngur sem réði fyrir ríki einu. Hann átti drottningu; hún var vel viti borin og hin vinsælasta. Við henni átti hann son þann er Sigurður hét og tvær dætur. Uxu þau upp með foreldrum sínum þar til þau gjörðust mjög fullorðin. Öll vóru þau hin mannvænlegustu og þókti kóngsson umfram aðra sína jafnaldra að íþróttum og fríðleika; hann var og hinn hraustasti maður. Nú ber svo til að drottningin móðir þeirra tekur sótt og andast; var útför hennar hin veglegasta og drukkið erfi eftir hana að fornum sið. Kóngur harmaði hana mjög og hafði það eina sér til skemmtunar að hann reið á dýraveiðar hvörn dag. Einn tíma bar svo til að kóngur reið út í skóg eftir vanda. Hann var þá staddur í rjóðri einu, en menn hans höfðu dreifzt um skóginn, og var þar einsaman. Kóngur litast um og sá þar standa tjald eitt allskammt frá sér. Hann reikar þangað og inn í tjaldið. Þar leit hann konu og sat hún á stóli og greiddi hár sitt með gullkambi. Kóngur heilsar henni, en hún tók kveðju hans. Hönum sýndist konan döpur í bragði og þó hin fegursta og felldi þegar ástarhug til hennar. Og svo varð hann gagntekinn af elsku að hann hóf bónorð til hennar. Tók hún því ekki fjarri. Flutti kóngur hana heim með sér. Vóru þá menn hans heim komnir og urðu fegnir komu hans. Kóngur lætur nú stofna til veglegrar veizlu og býður til sín margmenni. Og að þeirri veizlu lýsti kóngur yfir fyrirætlan sinni að hann ætli að taka sér til drottningar konu þá er hann fann á skóginum. Sögðu menn það vel til fallið. Var nú boðinu snúið upp í brúðkaupsveizlu og gekk kóngur að eiga hana. Ekki urðu ástir þeirra miklar; leið ei á löngu áður henni þókti kóngur gamall. Felldi hún mjög huga til kóngssonar, en hann leitaði allra undanbragða að verða fyrir áleitni hennar. Og er hún fann það fylltist hún upp mikillar reiði og eitt sinn er þau hittust þá mælti hún á þessa leið: „Það sé ég, Sigurður, að þú leggur að litlu ást þá er ég vil sýna þér. Legg ég það nú á þig að þú verðir að rauðu nauti og leggist út á skóga. En systur þínar skulu verða að svörtum tíkum og fylgja bræðrum mínum. Skulu þið aldrei úr álögum komast fyrr [en] ég á þann stjúpson er felli alla bræður mína og hætti svo lífi sínu fyrir þig og mun það seint verða um þann síðasta.“ Eftir það drap hún kónginn og hvarf síðan brott. Og er nú þetta allt hin sama drottning og stjúpa þín er ég sá ráð fyrir í konungsgarði, en ég er sá Sigurður er þér var sagt frá um sinn.

Faðir minn átti bróður þann er Hringur heitir; hann ræður ríki héðan skammt frá. Hann er kvæntur og á þrjár dætur er svo heita: „Signý, Ása og Helga; eru þær allar hinn bezti kvenkostur. Hringur kóngur var mesti íþróttamaður; henti hann mjög gaman að dýraveiðum og hélt mönnum sínum þar til. Það var einn dag að kóngur var riðinn út á skóg að veiða dýr og fugla. Varð hann þá viðskila við menn sína; höfðu þeir dreifzt mjög um skóginn. Verður kóngur ekki fyrr var en fram úr skógnum kom jötunn mikill og illilegur; ei þóktist kóngur ámáttligra tröll séð hafa. Jötunninn hafði járnstöng mikla um öxl. Hann veður að konungi og mælti: „Nú skaltu annaðhvört gjöra, Hringur kóngur, að gifta mér Signýju dóttur þína og skal hún flutt hingað innan fjögra daga, en að öðrum kosti mun ég ljósta þig í hel með staf mínum.“ Nú þóktist kóngur harla vant um kominn, en kjöri þó heldur að frelsa líf sitt úr þessum vandræðum. Hét hann að gifta jötninum dóttur sína og við það gekk jötunninn í skóginn aftur, en kóngur reið til manna sinna og var mjög hljóður. Þetta gekk í þrjá daga þar til kóngur hafði neyðzt til að lofa öllum dætrum sínum, og var jötunninn, sá er seinasta daginn kom, umfram hina að vexti og öllum tröllskap. Þetta fær kóngi mikillar áhyggju og segir mönnum sínum frá og kveðst skuli gifta hvörjum þeim dætur sínar er vogi að frelsa þær úr trölla höndum. En það treystust engir að vinna til ráðahagsins og er nú hinn síðasti dagur að þeim verði hjálpar leitað á morgun. Nú mun ég fylgja þér í skóginn þangað sem konungsdætur skulu bíða biðlanna og skal flytja þær sína hvörn dag í þrjá daga. Þú skalt leynast í skógnum þangað til konungsmenn hafa yfirgefið þær. Þá skaltu ganga fram og biðja þá fyrstu að þú megir sofna í knjám hennar því þú ætlir að freista ef þú mættir fría hana frá óvætti þessu. En það skaltu í skilyrði hafa við hvörja þeirra að þær festi á þig eitthvert gull er þær bera á sér. Og er þú hefir sofnað um hríð hjá hverri fyrir sig munu biðlarnir koma; en hvörsu sem þér kann erfitt að veita þá banna ég þér að nefna nafn mitt og ríður það á lífi okkar beggja.“

Síðan fylgdi Rauðiboli Ásmundi í skóginn ekki langt frá rjóðri því er konungsdætur skyldu bíða risanna, og eftir það skilur Rauðiboli við Ásmund. – Nú kemur að því að Signý er flutt á skóginn; var hún sett á stól og síðan yfirgefin. Grét hún þá mjög. Ásmundur gekk þá til hennar og kveður hana vel; hún tók því dauflega. Síðan mælti Ásmundur til að mega sofna í kjöltu hennar og sagði henni ætlan sína og allan skilmála. Veitti hún hönum það fúslega er hún vissi hvörs erindis hann var þar kominn. Nú sofnar Ásmundur skjótt, en hún tekur eyrnagull sitt og festir í eyra Ásmundar. Að því búnu heyrast dunur og brestir í skóginum. Kemur því næst jötunninn fram í rjóðrið og með hönum svört tík. Og er kóngsdóttir leit risann var hún nærri að líða í ómegin. Þó gat hún vakið Ásmund og sprettur hann upp skjótt og fimlega; síðan ræðst hann móti jötninum. Varð þeirra atgangur allharður og veitti svarta tíkin Ásmundi. Leið og ekki á löngu áður Ásmundur felldi risann og réð hönum síðan bana. Eftir það fylgir hann kóngsdóttur til skemmu sinnar og bað hana að geta ekki um fyrir neinum hvör henni hefði hjálpað. Hún játti því; og eftir það snýr Ásmundur út í skóginn aftur.

Að morgni er Ása flutt á skóginn og fer allt á sömu leið sem hinn fyrra daginn; þó gekk Ásmundi þyngra við þennan risa áður en hann fengi yfirunnið hann.

Nú kom hinn þriðji dagur og var þá Helga flutt á skóginn. En meðan Ásmundur svaf í kjöltu hennar tók hún fingurgull sitt og dró á hönd Ásmundar. Og að því búnu kemur jötunninn fram í rjóðrið og er þá Ásmundur vaknaður. Aldrei þykist Ásmundur illiligra tröll litið hafa. Samt ræðst hann móti risanum og verður atgangur þeirra mikill. Fann Ásmundur að miklu var hann sterkari og verri viðureignar en hinir risarnir. Hönum fylgdi og hundur allgrimmur og sókti hann að Ásmundi með risanum. Hafði nú Ásmundur ærið að verjast fyrir þeim báðum og þóktist aldri í slíka raun komizt hafa. Gerir hann nú ekki annað en verja sig föllum, en risinn er því ákafari sem þeir eigast lengur við, og lýkur svo með þeim að Ásmundur fellur á bæði kné. Ætlar þá risinn að keikja hann aftur á bak. Þá mælti Ásmundur: „Nú vilda eg að Rauðiboli væri kominn.“ En er risinn heyrði nefndan Rauðabola brá hönum svo að hann sleppti Ásmundi, hljóp að kóngsdóttur, greip hana í fang sér og hljóp í skóginn. Var Ásmundur þá svo yfirkominn að hann treystist ekki að fylgja risanum eftir. Að stundu liðinni kemur Rauðiboli í rjóðrið. Ásmundur segir hönum hvörn veg komið er og að risinn sé hlaupinn á brott með kóngsdóttur. Rauðiboli mælti: „Nú gjörðir þú illa að nefna nafn mitt. Veit ég nú gjörla að þú hefur prettað mig og geymir hjá þér nokkuð af blómstrunum fögru er stóðu yfir húsdyrunum sem þú sóktir herklæðin til; mundi þér ella hafa heppnazt að vinna alla risana.“ Ásmundur sagði hönum þá allt hið sanna. Rauðiboli mælti: „Það er líkast að af þessu standi bani okkar beggja. Nú er ei annar kostur fyrir höndum en freista að sækja risann heim. Býr hann í eyju einni er liggur hér undan landi og það svo langan veg að það er langt um of við mennskra færi að synda til eyjarinnar.“ „Á það munum við þó hætta,“ segir Ásmundur, „og muntú beina að með mér ef ég þreytumst.“ Rauðiboli kvað það mikla hættuför hvorn veg sem til tækist.

Snúa þeir nú í skóginn og gengur Rauðiboli fyrir þar til þeir komu á nes eitt við sjó fram. Rauðiboli mælti: „Nú er að freista til um sundið og er héðan skemmst til eyjarinnar. Skaltu nú fara á bak mitt og sjáum hvörsu fer.“ Leggst nú Rauðiboli frá landi og hefur Ásmund á baki sér. Sækir hann sundið með svo mikilli hreysti að um kveldið náðu þeir til eyjarinnar og var þá Rauðiboli mjög máttfarinn. Þókti Ásmundi firn í hvað hann gat synt langt. Eftir það lögðust þeir niður, reytti Ásmundur á þá mosa, og sváfu svo af um nóttina. Um morguninn er þeir vóru vaknaðir mælti Rauðiboli til Ásmundar: „Nú verður þú að ganga til skála risans; er hann hér skammt á landi upp. Þar verður þú að leita kóngsdóttur. Er hún í afhúsi nokkru og er hár hennar bundið við stólbrúði sem hún situr á. Þú skalt kveðja hana og biðja að hún gjöri sig káta og seg henni hvað í erindum sé. Skal hún gjöra sig glaða við risann þegar hann kemur heim í kvöld af dýraveiðum og láta hann á sér heyra að hún muni samþykkja vilja hans um ráðahag við sig ef hann geti sagt sér með hverju helzt móti hann verði unninn. Og þó hönum þyki spurn kóngsdóttur kynleg mun hann samt auglýsa það fyrir henni; mun ég senda þig heim á morgun til að vita hvors hún verður vísari af risanum, en ég mun bíða hér eftir þér og skaltu finna mig í kvöld.“

Ásmundur fer nú til skálans og var jötunninn þá kominn á veiðar. Var hann vanur að fara það hvörn dag. Ásmundur leitar nú kóngsdóttur og finnur hana; var hún döpur mjög og hár hennar bundið við stólbrúði er hún var sett á. Ásmundur kveður hana og fóru þeim orð eftir sem Rauðiboli hafði lagt ráð til. Síðan fór Ásmundur þar til hann hitti Rauðabola. Dvelja þeir nú af um nóttina. Morguninn eftir gengur Ásmundur að hitta kóngsdóttur og er hún þá með glöðu bragði. Ásmundur spurði hvörs hún hefði orðið vísari af risanum. Kóngsdóttur mælti: „Þegar risinn kom heim í gærkvöld sýndi ég hönum nokkuð blíðlæti og varð hann við það mjög glaður. Spurði ég hann þá eftir hvör sá hlutur væri er hönum gæti að bana orðið og þókti hönum það kynlegt. Kvað hann sér mundi það á litlu standa þó hann segði mér það og kvað það öngum auðið að vinna sig. Sagði hann að á einum stað hér á eyjunni væri hóll einn mjög hár; ofan í hann væri grafin göng langt í jörð niður; þar væri niðri svart naut, sæi það aldrei bjartan dag og væri allillt viðureignar, en í hjarta þess væri egg eitt og hvör sem gæti náð því heilu og brotið það á skálahurð sinni þeim einum mundi auðið verða að ná lífi sínu; en sá mundi enginn er það gæti unnið.“ Þá mælti Rauðiboli: „Nú munum vér ganga á eyna og leita Svartabola. Hygg ég að hér sé við raman að eiga og ósýnt hvört meira má hamingja okkar eða trölldómur sá er honum fylgir.“

Síðan ganga þeir þar til þeir finna hólinn. Var girtur um hann garður allhár. Síðan varpa þeir sér inn yfir garðinn og gengur Rauðiboli á hólinn, en Ásmundur hefst við þaðan allskammt. Nú er að segja af Rauðabola að hann tekur að öskra svo ógurlega að Ásmundi stóð ótti af. Rótaði hann jörðunni umhverfis sig með hornum og fótum. En er svo hafði gengið um stund heyrir Ásmundur að niður í jörðunni kemur öskur svo hræðilegt að nálega þótti hóllinn titra og var sem allt mundi um rótast. Tekur þá Rauðiboli að orga enn ákafar. Er hönum svarað niðri og að stundu liðinni kemur upp úr hólnum svart naut kollótt og að öllu var það hið tröllslegasta. Síðan réði það á Rauðabola og var atgangur þeirra svo mikill að Ásmundi bauð ótta af. Gekk jörðin mjög upp fyrir traðki þeirra og fór Rauðiboli undan hið fyrsta í flæmingi. Mæddist þá Svartiboli, en við það herti Rauðiboli sóknina og lagði hornunum á nára Svartabola svo á hol gekk. Gekk þá Ásmundur að og sóktu þeir nú báðir að Svartabola, og svo kom um síðir að hann féll. Var Rauðiboli þá svo af sér kominn af mæði að hann mátti hvargi úr stað bærast. Voru fjörbrot Svartabola með svo miklum firnum að Ásmundur þóktist ekki slíkt séð hafa. Síðan risti hann Svartabola á kviðinn og allt rauf hann að hjartanu, tók síðan eggið og skynti heim að skála risans og kastaði því á hurðina svo skurmið sprakk. Síðan gengur hann að leita risans og fann hann í rjóðri nokkru og var hann þá nálega dauður. Hjó Ásmundur af hönum höfuðið, flutti síðan eld að og brenndi risann. Síðan gekk hann þar til er Rauðiboli var og hafði þá runnið af hönum mæðin að mestu, en ærið var hann þrekaður af atgangi Svartabola. Sagði Ásmundur hönum fall risans og það með að hann væri brenndur. Eftir það dró Ásmundur viðu að Svartabola og gerði bál mikið þar til boli var til ösku brunninn.

Síðan gengu þeir heim til skálans og tóku með sér kóngsdóttur; lögðust eftir það til lands. Varð Rauðiboli að síðustu að beina að með Ásmundi því hann þreyttist, en sundið afar langt. Hafði Rauðiboli kóngsdóttur á baki sér. Tóku þeir land um síðir. Vóru þeir mjög að þrotum komnir, einkum Ásmundur. Tóku þeir nú á sig náðir. Þessu næst ganga þeir í skóginn. Þá mælti Rauðiboli til Ásmundar: „Nú skaltu færa kóngsdóttur til borgarinnar, en eg man dveljast hér í skógnum um sinn. Verður bráðum búizt við brúðkaupi þínu og muntu ganga að eiga eina af kóngsdætrum. Nú bið ég þig að þú lofir mér að sofa til fóta þinna hina fyrstu nótt. Mun ég ekki verða þér að miklu meini.“ Ásmundur lofar þessu, og skilja að svo búnu.

Eftir það gengur Ásmundur til borgarinnar með kóngsdóttur. Urðu þar fagnaðarfundir; þóktist kóngur dóttur sína úr helju heimt hafa. Sagði kóngsdóttur frá því hvörnig Ásmundur frelsaði hana úr tröllahöndum og hvörsu Ásmundur hætti sér. Hóf Ásmundur bónorð sitt til Helgu og var það auðsókt og þegar búizt við brúðkaupi og boðið fjölda manna. Gekk Ásmundur að eiga Helgu, og fyrstu nótt er þau sænguðu saman kom rautt naut og lagðist til fóta þeirra. Þetta þókti þeim er sáu mikilli furðu gegna, en Ásmundur hafði ekki orð um. Leið og ekki á löngu áður menn sæi tvær tíkur svartar koma. Skriðu þær einnig upp í hvílu Ásmundar. Litlu síðar þóktust menn sjá á gólfinu fyrir framan rekkjuna ham af rauðu nauti og tvær hundsmyndir, en í rúminu uppi lágu ungur maður fölur og magurleitur og tvær ungar meyjar. Ásmundur sprettur upp og dreypir á þau víni. Hresstust þau skjótt og var þar kominn Sigurður kóngsson og systur hans laus úr álögum sínum. Þökkuðu þau Ásmundi liðveizlu sína. Vóx nú gleði Hrings konungs af nýju er hann varð þessa vís. Þókti öllum mikils um vert hver gæfumaður Ásmundur var. Lét nú kóngur senda eftir föður Ásmundar og kom hann til Hrings kóngs með mikla fylgd manna. Eftir það var stofnað til mikillar gleðiveizlu. Hóf þá Sigurður bónorð sitt til Signýjar og var það samþykkt af föður hennar og var boðinu þegar snúið í brúðkaupsveizlu. Og að henni endaðri vóru menn leystir út með sæmiligum gjöfum. Eftir það settist Sigurður að föðurleifð sinni, en Ásmundur tók hálft ríki móti Hringi kóngi þar til faðir hans andaðist. Varð hann þá kóngur yfir ríki því er faðir hans hafði stýrt. Slitu þeir Sigurður og Ásmundur aldrei vináttu sína – og lýkur svo sögunni af Rauðabola.