Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Risinn í Bládal

Úr Wikiheimild

Svo byrjar sögu þessa að í fyrndinni réði konungur ríki, en ei er getið um nafn hans. Dóttur átti hann eina barna; sú var nefnd Ingibjörg. Ráðgjafa hafði konungur haft til að líta eftir í ríki sínu, en hann var búinn að víkja honum frá vegna þess að hann var ekki orðinn fær til þess fyrir aldurs sakir. Sigurður er son hans nefndur og höfðu þeir aðsetur sitt út á skógi í kastala sem þeir reistu sér þar. Sagt er að Sigurður kynni að leika á alls konar hljóðfæri og höfðu þeir ofan af fyrir sér með því að Sigurður fór á hverjum degi heim í skemmtigarð konungs og skemmti hirðinni með hljóðfærasöngnum og fór svo heim til sín á kvöldin.

Það bar við einhverju sinni sem konungur mætti Sigurði á strætinu að hann sagði við hann að hann skyldi drepa hann ef hann gæti ekki sagt sér um sumarmál hvað hann hefði hugsað þegar þeir mættust. Það sagði Sigurður að sér væri ómögulegt og mætti hann drepa sig þess vegna. Sigurður hélt síðan heim og sagði föður sínum þessi tíðindi og lét hann illa yfir þeim, því hann sagðist ekki vita hvað til bragðs ætti að taka. Samt sagðist hann hafa heyrt risa getið sem vissi allt bæði nær og fjær og margir hefðu til hans leitað, en engvir aftur komið, og ætti heima í Bládal. Á það kvaðst Sigurður hætta mundi að leita til hans hvernig sem til tækist. Sigurður býr sig þegar til ferða og kemur að kvöldi hins fyrsta dags til bónda nokkurs og beiddist þar gistingar; var hann þar um nóttina og var honum veittur hinn bezti beini. Bóndi spyr hann hvað hann sé að ferðast og innir Sigurður honum hið sannasta frá því. Þegar bóndi heyrir það þá segir hann að það sé hið mesta óráð, „því engvir hafa aftur komið sem þangað hafa farið,“ og býður bóndi honum að vera hjá sér, en það tjáir ekki; hann vill halda ferð sinni áfram. Þegar bóndi sér að ekki tjáir að letja hann þá biður hann Sigurð að spyrja risann að hver það væri sem stæli frá sér mörk silfurs á hverri jólanótt og segja sér það ef honum auðnaðist að koma aftur og sagðist skyldi borga honum það hundrað ríkisdali. Síðan heldur Sigurður á stað og kemur um kvöldið til ekkju nokkurrar og var þar um nóttina. Konan spyr hann á sömu leið og bóndi gjörði sem hann gisti hjá nóttinni á undan, og segir Sigurður henni það sama; fórust henni þá sömu orð og bónda og það með að hún bað hann að spyrja risann hvar lyklarnir að hirzlunum sínum væru niður komnir og segja sér það. Sagðist hún þegar vera á þrotum af matvælum handa fólkinu fyrir þá sök að hún næði ekki til þeirra og hét hún honum sömu launum sem bóndi gjörði. Hélt hann því næst á stað og kom um kvöldið til bónda nokkurs og beiddi sér gistingar þar hjá honum. Bóndi tók honum mæta vel og bauð honum að vera hjá sér þegar hann heyrði hvert hann ætlaði að halda, en sagði að konungur þyrfti aldrei að komast eftir hvar hann væri niður kominn, en hinn mesti skaði væri að honum, jafnefnilegum manni sem hann væri, ef risinn dræpi hann. Sigurður svaraði eins og fyrr þó að bóndi væri að letja hann, og þegar hann sá að Sigurður var einbeittur í ætlan sinni þá bað bóndi hann að spyrja risann að hver það væri sem stæli frá sér mörk silfurs á hverri jólanótt; hann sagðist skyldi borga honum það hundrað dali þegar hann kæmi aftur ef honum yrði þess auðið.

Að því búnu hélt Sigurður á stað og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur að áliðnum degi í dalinn sem risinn var í. Síðan gengur hann eftir dalnum þar til hann kemur að stórum skála og var hurð hnigin í klofa. Hann fer svo inn og sér þar ekki neitt nema tvö rúm og ýmislegt hrasl. Hann fer síðan að taka til í skálanum bæði að sópa hann og búa upp rúmin. Stór ketill stóð þar á gólfi, Sigurður tekur hann og setur á hlóðir, fer síðan að bera vatn í hann í lokinu af honum, því hann var svo stór að hann treysti sér ekki til að bera hann með vatninu fyrir stærðar sakir; þegar hann er búinn að því fer hann að kveikja upp undir honum. Hann heldur svo kyrru fyrir þangað til dimmt er orðið, þá sér hann hvar mórauð tík kemur til hans og flaðrar upp á hann. Hann hugsar með sér að ekki muni risinn vera sér mjög reiður þegar tíkin flaðrar upp á hann því hann þóttist vita að hann mundi eiga hana. Að lítilli stundu liðinni heyrir hann einhvern hávaða úti fyrir dyrunum; sér hann þá að maður ógurlega stór vexti kemur inn í skálann með aðra fuglakippuna í fyrir og aðra á bak. Hann heilsar Sigurði með nafni þegar hann er kominn inn í skálann og tók Sigurður kveðju hans. „Enginn hefir lagfært eins í skálanum mínum,“ segir risinn, „sem þú, Sigurður, af þeim sem til mín hafa komið. Ég ætla að biðja þig að hjálpa mér til að reyta fuglana og búa þá til matar handa okkur.“ Síðan fara þeir að reyta; fer risinn þá að spyrja Sigurð að hvert honum þætti hann ekki vera ljótur. Sigurður sagði sér þætti hann að sönnu ekki fallegur, en hann sagði sér þætti hann ekki jafn-illmannlegur sem hann væri stórmannlegur. Þegar þeir eru að búa til matar fara þeir að borða. Þegar þeir eru búnir að því spyr risinn Sigurð að hvort hann vilji heldur sofa hjá sér eða tíkinni. Sigurður kvaðst heldur vilja sofa hjá honum því hann væri þó maður; að því búnu fara þeir að sofa. Um morguninn þegar Sigurður vaknar er risinn farinn í burtu. Þegar Sigurður er búinn að liggja dálitia stund vakandi kemur risinn inn með stóra öxi í höndinni, gengur að rúminu þar sem Sigurður lá, dregur hann fram á stokkinn, reiðir öxina til höggs og spyr hann að hvert hann hræðist ekki dauða sinn. Sigurður kvað nei við; hann sagðist eiga einu sinni að deyja hvort sem væri og gilti sig einu hvenær hann færi, en hann sagðist ætla að biðja hann að láta ekki blóð fara í hárið á sér. Risinn greiðir þá hárið á honum fram fyrir höfuðið á honum, reiðir öxina til höggs í annað sinn og spyr Sigurð að því sama, en hann svarar eins og fyrr; risinn reiðir þá öxina upp í þriðja sinn og það svo hátt sem hann getur, en það fer allt á sömu leið og fyrr. Risinn segist þá muni verða að lofa honum að lifa þegar hann hræddist ekki dauða sinn. Sigurður rís þá upp og þakkar honum fyrir lífgjöfina.

Sigurður er svo hjá risanum um veturinn; kennir hann Sigurði sund og aðrar riddaraíþróttir. Þegar ein vika er til sumars kemur risinn að máli við Sigurð og segir að það muni vera mál fyrir hann að fara að bera upp erindi sitt. Sigurður sagðist ekki hafa getið um það við hann vegna þess að hann hefði haldið að hann mundi vita það þegar hann ætti að vita alla hluti fyrirfram. Risinn sagði að það væri og. Hann sagðist þá ætla að byrja á bændunum; „þeir eru bræður og stela hver frá öðrum, en vilji þeir ekki kannast við það sem þeir lofuðu þér þá skaltu segja þeim að risinn í Bládal muni finna þá. Konunni skaltu segja að lyklarnir hennar séu í viðarkestinum fyrir framan bæinn þar sem hún hefði verið hjá piltinum í fyrrahaust, og þú skalt segja henni það sama sem bræðrunum ef hún vill ekki borga það sem hún lofaði þér.“ Risinn segir að nú eigi hann eftir að heyra það sem konungurinn hugsaði „þegar þið mættuzt á strætinu;“ hann segir að það hefði verið það að hann skyldi gefa honum dóttur sína því hann mundi ekki fá vænni mann handa henni; „en ef hann vill ekki kannast við það þá skaltu heilsa honum frá mér og segja honum að hann muni verða var við mig.“ Að því búnu hætta þeir talinu og er Sigurður þar kyr um daginn; en morguninn eftir fer hann að búa sig á stað og þegar hann er tilbúinn þá gengur risinn á leið með honum þangað til þeir komu þar sem brúnn hestur stóð. „Þenna hest ætla ég að gefa þér, Sigurður,“ segir risinn; „hann heitir Eyri vegna þess að hvítt er á honum annað eyrað.“ Svo tekur risinn upp hjá sér öll herklæði og segir: „Þessi herklæði skaltu eiga, en hesturinn mun ekki verða ómannskæðari en þú sjálfur ef að þú kynnir að koma einhvern tíma í mannraun.“ Sigurður þakkar risanum fyrir gjafirnar, en áður en Sigurður kvaddi risann sagði risinn að hann ætlaði að biðja hann að láta sér ekki bilt við verða þó hann yrði var við eitthvað á fótum sínum „fyrstu nóttina sem þið Ingibjörg sofið saman, því þú munt fá hennar á endanum.“ Sigurður kveður svo risann með mestu kærleikum; honum var líka orðið svo vel við tíkina að hann kyssti hana líka, því honum hafði sýnzt alltaf mannsaugu í henni þó hann léti ekki á bera.

Sigurður heldur svo leiðar sinnar þangað til hann kemur til seinni bóndans sem hann var hjá um haustið áður. Hann gjörir boð fyrir bónda; hann kom til dyra og spyr þenna mann að heiti sem kominn var. Sigurður segist vera sami maðurinn og sá sem hjá honum hefði gist í haust sem leið og hefði ætlað til risans í Bládal. En það sem kom til þess að bóndi þekkti ekki Sigurð var það að Sigurður var nú bæði herklæddur og ríðandi og eins það að hann var nú svo mikið stærri en hann var, því honum hafði farið mestu undur fram um veturinn. Þegar bóndi heyrir það þá segir hann að hann skuli vera velkominn. Bóndi leiðir hann svo inn og var Sigurði gjört vel til góða. Bóndi spyr hann hvað risinn hafi sagt við því sem hann hafi beðið hann að spyrja hann að. Sigurður sagði að hann hefði sagt að bróðir hans sem bjyggi hérna skammt í burtu eins og hann vissi stæli frá honum „og hann aftur frá þér“. Sigurður segir þá hvert hann muni eftir því sem hann hefði lofað honum; bóndi kvað svo vera og kemur að vörmu spori með hundrað dali og fær Sigurði. Hann þakkar bónda fyrir, kveður hann og heldur síðan á stað og léttir ekki ferð sinni fyrr en hann kemur til ekkjunnar, og fer allt á sömu leið og hjá bónda að ekkjan þekkir hann ekki. Hún spyr hann hvar risinn hefði sagt að lyklarnir hennar væru. Sigurður segir að hann hafi sagt að þeir væru í viðarkestinum fyrir framan bæinn þar sem hún í fyrrahaust hefði verið hjá p….... Þá greip konan fram í og sagði: „Þegi þú, þegi þú! Þú skalt fá peningana undireins,“ og fékk honum það sem hún hét honum um haustið. Sigurður kveður hana svo, og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur til hins bóndans, og sýnist óþarfi að segja frá því hvernig orð fóru á milli hans og bónda því hann sagði honum það sama og bróður hans. Ekki er þess getið hvar Sigurður hafði náttstað á heimleiðinni. Svo heldur Sigurður áfram þangað til að hann kemur heim til föður síns og verður hann glaðari en frá megi segja þegar hann sér son sinn lífs aftur kominn.

Sigurður var svo hjá föður sínum þangað til á sumardaginn fyrsta; þá fer hann heim til hallar fótgangandi og með hljóðfæri sín. Hann gengur fyrir kóng þar sem hann situr undir borðum og kveður hann kurteislega. „Sæll vertú Sigurður minn,“ segir konungur. „Nú er ég kominn til að segja yður hvað það var sem þér hugsuðu í haust þegar þér mættuð mér á strætinu.“ „Hvað var það þá?“ sagði konungur. „Þér hugsuðu það að yður mundi vera bezt að gefa mér Ingibjörgu dóttir yðar því þér munduð ekki fá vænni mann handa henni.“ „Ekki hugsaði ég það,“ sagði konungur. „Risinn í Bládal bað mig að heilsa yður og segja yður að þér mundið verða varir við hann ef að þér könnuðuzt ekki við það,“ sagði Sigurður. „Hefur þú verið hjá honum í vetur?“ sagði konungur. „Ekki get ég borið á móti því að ég hafi ekki komið þar,“ sagði Sigurður. Þá sagði konungur: „Hvað sem risinn í Bládal hefur sagt þá hugsaði ég ekki það,“ sagði konungur. Rétt þegar þeir vóru búnir að tala þetta heyra þeir háan brest og sjá þá hallarveggurinn rifnar í sundur í miðju og vatnsflóð streymir inn í höllina svo allt fór á flot. Sigurði verður það fyrst til að grípa konung, heldur honum niðrí vatninu þangað til að hann verður feginn að játa að það hefði verið það sem Sigurður sagði sem hann hefði hugsað. Þá heyra þeir annan brest og þá þornar flóðið upp. Þegar allt er komið í samt lag í höllinni segir konungur: „Þú verður, Sigurður, að vinna eitthvað til þess að fá Ingibjörgu þó ég sé búinn að játa það að ég hafi hugsað það. Þú verður að há einvíg við bezta kappann minn á morgun.“ Sigurður sagðist vera þess albúinn. Að því búnu fer Sigurður heim til sín og er heima um nóttina.

Morguninn eftir tekur Sigurður hest sinn, herklæðir sig og ríður síðan heim á vígvöllinn. Sagt er að konungur ætti átján blámenn sem hann hafði í varðhaldi og þeim hleypti hann aldrei út nema þegar ófriður var í landinu. Þegar hirðmenn konungs sáu það að Sigurður var kominn á vígvöllinn sögðu þeir konungi frá því. Þegar konungur heyrði það hleypti hann blámönnunum út úr varðhaldinu og sagði þeim að fara á móti Sigurði. Þegar hesturinn sér það verður hann svo óður að Sigurður ræður ekkert við hann, heldur æðir á móti blámönnunum. Það er svo ekki getið um viðskipti þeirra, en svo lauk að blámennirnir hnigu allir dauðir niður og hafði Sigurður drepið níu og hesturinn níu. Sigurður ríður svo heim til hallar. Þegar hann kemur þar þá verður konungur bálreiður við hann fyrir það að hann skyldi drepa alla blámennina. Sigurður sagði að hann hefði orðið að verja hendur sínar og sagði við konung að ef hann vildi nokkuð um það tala þá skyldi hann drepa hann svo konungur þorði ekki að tala meira um það. Það sagðist konungur setja samt á við hann að vera hjá sér landvarnarmaður. Sigurður sagði sig gilti það eina.

Sigurður hefur svo bónorð sitt til Ingibjargar og hafði konungur ekkert á móti því. Svo er farið að stofna til veizlu og boðið múg og margmenni. Að fyrsta kvöldi veizlunnar fylgdi konungur brúðhjónunum til sængur upp á loftherbergi. Þar hafði Sigurður látið setja niður stórt rúm sem hann ætlaðist til að þau svæfu í, hann og Ingibjörg, fyrstu nóttina sem þau svæfu saman því hann bjóst við að eitthvað mundi koma til fóta þeirra. Hann var líka búinn að segja Ingibjörgu frá því sem risinn bað hann um. Þegar þau voru fyrir skömmu háttuð og búin að slökka ljósið finna þau eitthvað kemur að rúminu og fer upp í til fóta þeirra. Þau skipta sér ekkert af því, heldur fara að sofa; en að lítilli stundu liðinni vakna þau aftur við eitthvert vein sem þau heyra til fóta sinna. Þau kveikva undir eins ljós. Sjá þau þá að risahamur og hundshamur liggja á gólfinu, en kallmaður og kvenmaður eru í rúminu. Sigurður tekur undireins vín og dreypir á hann, en Ingibjörg á hana svo þau rakna við. Þegar þau eru orðin hress spyr Sigurður þau að heiti. Hann sagðist heita Hringur, en hún sagði hann að héti Hildur. Sigurður spurði þau hvers stands þau væru; Hringur sagðist vera kóngsson og hún væri systir sín. Hringur sagði móðir þeirra hefði dáið; svo hefði faðir þeirra gifzt aftur og stjúpa þeirra hefði lagt þetta á þau, „fyrir þá sök að ég vildi ekki aðhyllast elskuatlot hennar sem hún sýndi mér þegar hún var búin að drepa föður okkar;“ og þau skyldu ekki komast úr álögunum fyrr en sá maður kæmi sem hræddist ekki dauða sinn. Það sagði Hringur að hann hefði verið og því ætti hann að þakka honum fyrir það að þau hefðu komizt úr álögunum. Hringur sagði að stjúpa sín hefði látið það fylgja álögunum að hann skyldi vita alla hluti sem við bæru; því hefðu komið svo margir til sín til að fá að vita eitthvað sem þeir þurftu með, en þá hefði hann alla drepið þó sér hefði ekki verið það eðlilegt. Hringur sagðist hafa lagt það aftur á stjúpu sína að hún skyldi rotna sundur bein frá beini þegar þau kæmust úr álögunum ef það yrði nokkurn tíma. En þá hefði hún viljað taka álögin aftur; en hann sagðist hafa sagt að þau skyldu standa. Hringur bað svo Sigurð að lofa sér að vera þar hjá honum og Hildi systur sinni. Sigurður sagðist vera fús til þess.

Þau eru þar svo þangað til eitt ár er liðið. Þá heyrir Hringur það að einhver hefði herjað á ríki hans og hefði lagt það undir sig. Hringur kemur þá að máli við Sigurð og segist ætla að biðja hann liðveizlu til að ná aftur ríki sínu. Sigurður hét honum því; lætur síðan búa út her á tíu skip og fara þeir svo báðir með hernum. Getur ekki um ferðir þeirra fyrr en þeir komu að landi þar sem faðir Hrings hafði ráðið fyrir. Þeir héldu svo stríð við þenna mann sem hafði lagt landið undir sig, en eigi er getið um hver hann hafi verið; unnu sigur á honum og drápu hann, héldu svo í hernað og herjuðu víða um sumarið; fóru svo um haustið heim í ríki Hrings og vóru þar um veturinn. En um vorið bjuggu þeir sig úr landi og héldu heim í ríkið sem Sigurður átti heima í. Þegar þeir komu þar var konungur dauður, en Hildur og Ingibjörg urðu mjög fegnar heimkomu þeirra; svo var slegið upp gleðiveizlu. Þegar veizlan stóð sem hæst kallar Sigurður konu sína á eintal og spyr hana að hvert hún vilji ekki gefa það eftir fyrir sína hönd að hann eigi Hildi systir Hrings, en hún eigi aftur Hring; það sé ekki nema til að skerpa kærleikann. Það sagði Ingibjörg að sig gilti eina. Sigurður kallar svo á þau systkinin og segir þeim hvað hann hafi í hyggju og spyr þau hvernig þeim lítist á það. Þau segja að sér lítist ekki nema vel á það. Sigurður sagði að sér félli Hildur allt eins vel í geð eins og Ingibjörg og sagði Hringi að hún væri að öllu leyti óflekkuð af sér því hann hefði lagt sverð á milli þeirra í þetta ár sem þau hefðu verið saman. Þegar þau eru búin að tala um þetta sín á milli er veizlunni slegið upp í brúðkaupsveizlu. Að veizlunni liðinni biður Hringur Sigurð orlofs að fara heim í ríki sitt og er það auðsótt af honum. Síðan heldur hann heim í sitt ríki og er ekki meira af þeim að segja nema að þeir héldu vináttu sinni til dauðadags.