Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sölvi bragðarefur

Úr Wikiheimild

Bóndi einn afar ríkur var eitt sinn á Íslandi. Hann átti sér son einn. Viðkunnanlegra þyki mér hann heiti eitthvað og mun ég því kalla hann Sölva. Hann óx upp hjá foreldrum sínum án þess honum væri nokkuð kennt. Liðu svo tímar fram að ekki gjörði Sölvi annað en ganga til borðs og sængur. En er foreldrar hans voru dánir tekur hann við búi og ráðum öllum og þykir þegar fara út um þúfur með ráðlag hans. Hugsar hann um ekkert annað en rausn og stórmennsku alla, heldur veizlur vinum sínum og er gjöfull við alla alþýðu manna. Er honum nú fagnað hvar sem hann kemur og gjöra höfðingjar honum heimboð með hinum mesta vinafagnaði. Gengur nú fé af honum svo hann verður að selja fasteign sína og lifir nú vel þessi árin. Að lokum verður hann öreigi svo hann kemst á vonarvöl og verður að beiðast beininga. Vill nú enginn vinanna liðsinna honum. Af þessu basli hans kom það að hann rjáskaði sér í ýmsum stöðum. Einu sinni stal hann fiskaknippi og var eltur með það til sjávar. Þar voru hraungjótur margar og leitótt og fal brátt sýn þeirra. Hann hélt áfram sömu hlaupum þar til hann kom að skipi einu afar stóru er lá við land. Hann getur þess við skipið að hann sé eltur fyrir eitt óhappatilfelli og biður þá viðtöku og fekk hann hana, en leitarmenn hurfu aftur við svo búið. Litlu seinna létu þeir í haf.

Eitt sinn kemur skipherrann að máli við drenginn og biður hann gæta skips um nóttina. Sölvi tekur því vel. Um nóttina kemur skipherrann upp og gætir að hvornig Sölvi haldi vaktina. Sefur hann þá upp með mastrinu. Spyrnir skipherrann þá fæti við Sölva og spyr hvort hann haldi svo dyggilega vaktina. Sölvi sagðist hafa verið svo svangur og hefði hann örmagnazt. Skipherrann lét það svo vera og færði honum að borða og bað hann vaka dyggilegar næst. Næst er hann skyldi halda vakt finnur hann Sölva enn sofandi upp með mastrinu. Ber hann þá í skæni fyrir sig það hann sé svo illa klæddur og nötri hann því af kulda. Skipherrann lofar að sjá til hann verði klæddur næst, enda skuli hann sjálfan sig fyrir hitta ef hann svikist um það. Næst er hann vakti fer allt eftir vanda að hann sefur upp með mastrinu. Skipherrann lét hann liggja kjuran, en spyrnti við honum fætinum, en sagði hann skyldi fá „gúmorin“ í dag fyrir dyggilega vöktun; skyldi hann ekki oftar þurfa að vaka. Eftir það skipti sér enginn af honum. Leið svo á daginn og þykist hann sjá að ekki muni lenda við orðin tóm. En er þeir gengu til miðdagsverðar og enginn var uppi svipast hann í kringum sig. Þar á þiljum uppi var ofurlítið hús sem beykirinn hafðist við í er hann þurfti að beykja á skipinu. Fyrir því var vængjahurð og stóð opið nema þá veður gjörði, þá var því hallað aftur. Þar inn hafði törgum Sölva [verið] kastað. Inn í húsinu voru tunnur nokkrar opnar og hitt og annað skran er beykirnum við kom. Þangað fer Sölvi og kemur sér þar haganlega fyrir. Eftir máltíð koma þeir upp á þiljur og gæta að Sölva í ýmsum stöðum. Heyrir hann þá að þeir geta þess að hann muni hafa hlaupið fyrir borð. Liðu svo nokkrir dagar að Sölvi er þarna.

Einu sinni kemur veður upp á; er húsinu svo læst. Líður svo lengi fram að Sölvi er þarna fullan og fastan hálfan mánuð. Átti hann matarreytur í föggum sínum og við það lifir hann þenna tíma. Einn góðan veðurdag er húsinu lokið upp. Um daginn er þeir gengu til borðs og Sölvi veit að enginn er uppi hleypur hann út og fyrir borð, heldur sér í kaðal, hrópar nú til skipverja ákaflega og biður þá að draga sig upp. Þeir út með sama og sáu Sölva þarna utanborðs. Drógu þeir hann upp og spurðu hvar hann hefði verið allan þennan tíma. Hann sagðist alltaf hafa verið á mararbotni og fylgt þeim eftir gangandi, en sagðist nú hafa orðið að gefa sig upp vegna matarleysis. Tók skipherrann við honum og kvað honum heimill matur á skipi sínu; sagði hann skyldi njóta íþrótta sinna því torgætur mundi annar eins listamaður.

Eftir þetta hafnaði skipið sig utanlands og verzlaði við landsmenn. Skipherrann var staddur í veizlu einni eftir þetta. Kom þar meðal annars til orða ýmsar íþróttir og einkum um sundfarir. Sögðu landsmenn að þar meðal þeirra væri orðlagður sundmaður og mundi enginn hans jafningi. Skipherrann sagðist skyldu koma með einn af skipverjum sem honum yrði meiri. Hinir báru á móti að slíkt gæti skeð. Lauk svo að þeir veðjuðu hér um. Lagði skipherrann í veð skip sitt með öllu og höfuðið á sér með, en hinir þrjár tunnur af gulli. Tilnefndu þeir dag nær þeir skyldu reyna sundfarir. Skipherrann fer nú út á skip sitt og segir Sölva frá veðslætti þeirra og segist ekki hugsa annað en biðja hann að reyna. Sölvi tekur því vel, en segir hann verði þá að láta sig fá allan útbúnað eftir því sem hann leggi fyrir. Fyrst segist hann vilja fá járnskó og bóldangsbuxur, loðkápu og barðastóran hatt og nesti til hálfs mánaðar; þar með vilji hann fá átta potta kút, en hann megi samt vera tómur, og fjögra álna langa stöng með vænum broddfærum, og skuli þetta allt vera til á þeim tiltekna degi. Þessu lofar skipherrann fúslega. En er hinn ákveðni dagur kemur, kemur skip úr landi og fjöldi manna að horfa á leikinn. Í framstafni situr maður í snöggum sundklæðum. Kallar sá upp á skipið og spyr hvar sá sé sem við sig eigi að reyna sund. Sölvi gengur upp í áður nefndum búnaði og segist vera til – „eður atlar þú ekki að vera betur útbúinn en þetta. Ég er með járnskó því öðruvísi er að ganga um mararbotn en heima um stræti borgarinnar. Þar að auki er ég með fjögra álna langa stöng því hennar má maður ekki missa í sægöngu því þar eru hraungjótur, gjár og sprungur svo menn verða oft yfir að stökkva. Hér með máttu líta nestispoka minn á baki mér til hálfs mánaðar og átta potta kút í fyrir. Ætlaði ég sízt þú mundir koma í línklæðum einum, enda vertu búinn strax; bíð ég ekki lengi eftir þér.“ Með það stekkur hann út af skipinu á kolsvarta kaf, en kemur bráðum upp aftur og spyr hvort hann sé enn ekki búinn. Hinn segist aldrei hafa lofað að reyna sund við djöfulinn sjálfan. Skipherrann heimtar þá fram veðféð og var það af hendi innt. Með það halda bátsmenn í land, en skipherrann dregur upp akker og heldur frá landi, því hann óttaðist hefndir landsmanna. En er þeir höfðu skammt siglt kastar Sölvi búnaði sínum. Skipherra þakkar honum þénustusemi hans. Sölvi lætur það svo vera og spyr hvort ekki sé nú fullu launuð vist hans þar. Skipherrann sagðist nú ekki ræða um það. Sölvi bað hann ekki ráðast í það oftar. Segir hann nú upp alla sögu, sýnir þeim tunnuna og tunnu þá sem hann hafði gengið erinda sinna í; segist hann ekki kunna að synda fremur en hrafn. Skipherrann undrast nú mikillega og kallar hann mikinn bragðaref og ekki sitt meðfæri. Að skilnaði þeirra fekk hann honum skip með öllum farmi. Sigldi hann á því til Íslands, reisti þar bú og þókti jafnan gildur bóndi.