Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Saga af Dygg og Ódygg

Úr Wikiheimild

Það var eitt sinn karl og kerling í koti. Þau áttu tvo sonu; hét annar Dyggur, en hinn Ódyggur. Dyggur var hafður út undan, en það var haldið mikið upp á Ódygg. Dyggur var látinn geyma fjár og átti bróðir hans að færa honum mat á daginn. Át hann jafnan það bezta af matnum á leiðinni.

Einu sinni kom hann til hans mjög snemma og var þá blíður mjög og flírulegur. Mitt í því hann er að klappa honum þá stingur hann úr honum bæði augun, fór síðan heim og sagðist ekki hafa fundið hann. Það er að segja frá Dygg að hann skreið alltaf þar til hann finnur fyrir sér hellir. Skríður hann þar inn og út í eitt horn er hann fann fyrir sér við dyrnar. Þegar hann er búinn að vera þar stundarkorn þá heyrir hann að þrjár tröllkonur eru í hellirnum. Fara þær að nasa og þóttust finna lykt. Fóru þær að leita og fundu hann ekki. Gengu þær þá til hvíldar. En þá þær vóru háttaðar fóru þær að tala um kostgripi sína. Ein sagðist eiga klæði undir höfði sér er hefði þá náttúru að þó blindur væri fengi sjón ef hann neri því um augun. Þá tók önnur til orða: „Sverð eitt á ég og er það eitt er á mig bítur og veit ég ekki af [að] annað geti mér að bana orðið.“ Hin þriðja sagðist eiga horn á hillu sinni; – „hefur það þá náttúru að hvur sem að af því drekkur verður heill, enda hvað sem að honum gengur“. Þá tók ein þeirra til orða: „Hvurju eigum við að slátra á morgun?“ „Gullhyrning kóngs; hann er hér í hellirnum,“ segja hinar. Stóð svo á að konungur þessa ríkis hafði átt naut og var búinn að missa það og hét það Gullhyrningur. Lofaði kóngur að hann skyldi gefa þeim manni dóttur sína er fyndi þetta naut. Sofna þær nú. Læðist þá Dyggur að því rúmi er sú svaf í er átti klæðið, tók það og neri því um augun á sér og sá hann þá eins og áður. Síðan tekur hann hornið og drekkur af því; hresstist hann þá. Tekur hann nú sverðið hjá þeirri þriðju og leggur hann þær allar í gegn og leitar um hellirinn; eftir það finnur hann þá Gullhyrning. Tekur hann þá nautið og leiðir það til kóngs. Varð kóngur glaður mjög og fékk Dyggur þá kóngsdóttir og ríkið eftir kóngs dag.

Þegar Ódyggur heyrir þetta og fékk að vita hvurnin það hafði að borið þá stingur hann úr sér augun og hyggur að verða ekki minni en bróðir hans. Fer hann á stað og skríður hann ýmist eða gengur þar til hann drepur sig fram af björgum. Situr bróðir [hans] að ríkjum langan tíma og tók föður og móðir sína – og lýkur þar sögu þeirra bræðra.