Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Saga af Rauð ráðgjafa og konungsdótturinni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Saga af Rauð ráðgjafa og konungsdótturinni

Konungur bjó í ríki sínu og átti sér eina dóttur afbragðs fagra og kostum búna sem konungsbörnum hæfði. Í garðshorni bjó karl; hann átti sér ungan son, hið fríðasta mannsefni. Hann tamdi sér allar karlmannlegar íþróttir, bogaskot og sund og dýraveiðar. Hann gætti fjár föður síns, en lá þess á milli á mörkum úti að veiða dýr og fugla.

Mann þann er að nefna til sögunnar er Rauður hét; hann var ráðgjafi konungs og af honum mikils metinn, en miður af [al]þýðu.

Það bar til einu sinni er konungur fór leiðangursför að friða ríki sitt fyrir ágangi víkinga og annars illþýðis að yfir sló myrkva miklum og villu með byrleysi og mollum svo að hvergi gekk; sáu menn aldrei til landa. Leið svo allt sumarið fram að hausti og voru menn farnir að leiða margar getur til hvað valda mundi. En er umræða þessi stóð sem hæst sáu menn hvar maður kemur róandi á steinnökkva, ærið mikill vexti, og sá óglöggt í andlit honum. Þessi maður heilsar konungi. Spurðust þeir almæltra tíðinda. Konungur talaði um villu þá hina miklu er yfir honum lá og flota hans. Nökkvamaður spyr hverju hann mundi vilja launa sér væri hann þess umkominn að gefa honum byrleiði heim í ríki sitt, en konungur lézt ekki vita þann hlut í eigu sinni er hann mundi ekki falan láta. Nökkvamaður mæltist til að fá þá lifandi skepnu er fyrst mætti honum er hann legði til hafnar. Sagðist nökkvamaður mundu vitja þess að jafnlengd hins þriðja árs. En með því konungur var næsta heimfús og liðsmenn kurruðu illa og hvöttu konung að ganga að þessum kosti, þess og annars hann vissi ekki hver skepna mundi verða á vegi hans, lofaði hann þessu. Tók nú nökkvamaður til ára og lét nökkvann svífa kringum flota konungs. Rann þá á blá[s]andi byr og sigldi konungur í fegursta leiði heim til hafna. En það sáu menn seinast til nökkvamannsins að hann reri bakföllum á haf út og fal brátt sýn.

En er konungur [kemur] í höfnina kemur dóttir hans fyrst allra manna á bryggjur niður og fagnar föður sínum. Konungur varð kynlegur við atburði þessa alla sama og var sem hann tæki ekki eftir fagnaði landsmanna fyrir þunglyndis sakir. En er hann hugsaði gjör um hagi sína féll hann í þunglyndi svo hann gætti nær ekki ríkisstjórnar. En er menn gengu á hann hvað þunglyndi hans ylli sagði hann þeim orsök harma sinna og þókti mönnum kynlegt. Hét hann hverjum þeim manni dóttir sinni og helft ríkis síns að sér lifandi, en öllu eftir sinn dag [er gæti bægt þessum voða frá]. Jafnmikil fýsi sem mönnum lék á heitorðum þessum sá þó enginn ráð til að fullnægja heitorðum konungs. En er fokið þótti í flest skjól kemur Rauður ráðgjafi að máli við konung og fæst mikið um hvílík vandræði upp séu komin og það enginn fáist til að vinna bót á böli þessu; en með því enginn fáist til þá bjóðist hann að leggja sjálfan sig í hættu með því skilyrði að konungur fái sér það er hann þurfi, því fáir muni standast þrautir þær er þeim mæta muni er slíkan starfa á höndur takist.

En er þrjár nætur voru til hins ákveðna dags biður Rauður konung að fá sér einn hinn bezta af hestum hans, þar með hin völdustu herklæði. Fer hann nú til skógar með konungsdóttur að baki sér. Nemur hann ekki fyrr staðar en hann kemur út á skóg í rjóður eitt. Í rjóðrinu var hóll einn. Þangað leiðir hann konungsdóttur og setur hana þar á stól einn forkunnar vel búinn; gengur svo frá henni og teymir hestinn á eftir sér inn í hólinn.

Karlssonurinn ólst nú upp sem áður er sagt hjá föður sínum og gætti fénaðar hans á fjalllendi og í fögrum hlíðum fram með nefndum skógi, og svo var enn. Það bar til þetta hið sama kvöld er frá hefir verið sagt um stund er hann var að fella eikur í skóginum að til hans kemur tíguglegur maður ríðandi á hvítum hesti í skósíðum hvítum slopp með blikandi sverð í hendi. Karlsson heilsar komumanni og svo hvor öðrum. Spurðust þeir almæltra tíðinda. Meðal annars kom í ræðu með þeim um heitorð konungs. Spurði hvítklæddi maðurinn karlsson hvort hann ekki vildi gjörast konungsmágur. Karlsson brosti að orðum hans, en bað hann ekki spotta með sig; sagðist ekki heldur bera þekkingu á hverir [vegir] lægju til að frelsa konung af lofsorði hans. Hvítklæddi maðurinn bað hann nú ekki lengur færast undan – „og skal ég kenna þér ráð til að frelsa konungsdóttur.“ Bað hann karlsson koma með sér í rjóðrið og gjörði hann það. Markaði hvítklæddi maður þrjú hringmynduð svið hvert utan um annað og markaði krossa marga innan í hvern hring. Síðan færði hann karlsson í yfirhöfn sína, fekk honum sverðið í hönd, bað hann nú sækja konungsdóttir á hólinn, setja hana á bak hestinum og teyma hann innan í miðjan hringinn, setjast síðan á bak fyrir framan hana og hvergi hreyfa sig hvað sem honum kynni fyrir sjónir að bera unz dagur upp rynni. Nú fer karlsson að öllu sem honum var ráð til kennt og setur konungsdóttir á bak fyrir aftan sig.

Um nóttina kemur til hans maður síðskeggjaður með barðastóran hatt og sá óglöggt í andlit honum. Sá heilsar þeim karlssyni og konungsdóttur með hæverskum orðum; biður hann þau vera heil og sæl og vill fá þau til tals við sig. Karlsson anzar því fáu, en segir hann geti borið fram erindin þar sem hann standi, annars verði hann að ganga nær. Hinn ætlar þá inn yfir hringina og stökkva, en snýr aftur með hljóðum miklum. Karlsson spyr hví hann komi ekki, fyrst honum á annað borð liggi svo mikið við. Það segist karl ekki geta því hann brenni svo á fótunum. Segist hann hafa ætlað að konungsdóttir mundi heima í skemmu sinni, en ekki hér. Karlsson hélt hann mundi verða að hafa það sem annað hundsbit. Heimtar nú karl konungsdóttur með hörðum orðum og varð mikil orðasenna milli þeirra. En er dagsbrún var á lofti hvarf maðurinn á burt. Meðan þessu fór fram hafði konungsdóttir hnýtt fingurgulli sínu í einn lokk í hnakka karlssonar. Sté nú karlsson af baki og leiddi konungsdóttir á hólinn og skildi þar við hana. En er hann kom í rjóðrið aftur kemur félagi hans og segir honum að breyta eins hina næstu nótt og þriðju og skuli hann að engum sjónum né undrum gefa sig, en halda uppteknum hætti.

Nú er að segja af Rauði. Um morguninn kemur hann út úr hólnum allur blóði drifinn með spjótið brotið af skaftinu. Leiðir hann nú konungsdóttir við hönd sér heim til borgar og skjalar nú mikið af framgöngu sinni og farsællega afloknum þrautum sem hann hafi átt við að stríða þessa nótt fyrir sakir konungsdóttur. Hún segir það satt vera að sá hafi mikið fyrir sér haft er sig hefði verndað.

Þannig fer fram í þrjár nætur að Rauður fer með konungsdóttir að kvöldi hverju og bezta hest konungsins, en kemur hestlaus að morgni og skjalar mikið af framgöngu sinni; en konungsdóttir hefir ætíð hin sömu orð. Á hverri nóttu batt hún fingurgull í hár karlssonar. Hið síðasta kvöld heimtir Rauður bezta hest konungsins og öll hin vönduðustu herklæði. En að morg[n]i kemur hann út illa útleikinn, blár og blóðugur, hestlaus og handleggsbrotinn. Fer hann nú heim með konungsdóttir og skjalar nú meir en nokkru sinni áður og vill nú halda brúðkaup til hennar nær hann er gróinn sára sinna.

Það er af karlssyni að segja að hann setur kóngsdóttur að baki sér næstu nótt. Kemur þá hinn sami ókunni maður [og] krefs[t] konungsdóttur. Hina þriðju nótt komu foreldrar hans og aðrir náfrændur og báðu hann koma, konungur sjálfur og hver maður er hann bar kennsli á og ýmist óttuðu honum eða kjössuðu hann með fagurgala. Þess á milli gekk á undrum hinum mestu og fór svo fram unz dagur ljómaði.

En er Rauður var orðinn örkumslalaus var við brúðkaupi búizt. Mælti konungsdóttir á móti að eiga Rauð, en slíkt tjáði ekki fyrir konungi; kvað hann Rauð maklegan ráðsins. Var brúður leidd til hallar og drukku menn með gleði mikilli. En er veizlan fór sem bezt fram og menn voru orðnir ölvaðir og gleði hin mesta sjá dyraverðir hvar maður kemur ríðandi á drifhvítum hesti í drifhvítri yfirhöfn með blikandi sverð í hendi. Reið sá um plátsið fyrir framan hallargarðinn og framdi marga leika af list mikilli. Sögðu menn þetta konungi og öðrum er að þessari veizlu sátu. Þaut hver með sína tóu undan borðum að horfa á þenna fagra riddara og athöfn hans. En er konungsdóttir kom auga á þenna leikandi riddara hrópar hún með gleði mikilli að þarna sé sá er sig hafi frelsað og til marks um að hún segi satt séu þrír gullhringir sínir hnýttir í hár hans og muni konungurinn faðir sinn kenna að hún átt hafi, en Rauður sé falsari einn. Skoðuðu menn nú hár riddarans og fannst allt eins og konungsdóttir sagði. Því næst var Rauður gripinn og í fjötur færður og neyddur til sagna. Játaði hann þá að hann hefði látið grafa upp hólinn og störf sín hefðu einasta verið þau þessar þrjár nætur að drepa reiðhesta konungsins; en bezti hesturinn hefði svo varizt sér að tvísýnt hefði verið orðið um hann mundi sigra hann; hefði hann bæði brotið fyrir sér vopn, handleggsbrotið sig og veitt sér fleiri me[i]ðsli. Fyrir svik þessi og fals var Rauður til dauða dæmdur með því móti hann var festur aftan í tvær ótemjur og drógu þær hann ví[ð]s vegar til þess hann dó.

En karlsson gekk að eiga konungsdóttur að þessari sömu veizlu og varð hann konungur eftir tengdaföður sinn. Tók hann trú rétta og þau drottning bæði og lifðu lengi og önduðust í góðri elli.