Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Þorsteini Karlssyni hinum myglaða

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Þorsteini karlssyni hinum myglaða

Einu sinni var kall og kerling í koti sínu. Þau áttu son þann er Þorsteinn hét. Hann var svo latur að hann nennti ekki að gjöra nokkurt handarvik og ekki heldur að éta, og hvorki nennti hann að klæða sig eða afklæða. Leið svo fram um hríð að hann gjörði ekki að þessu og líkaði kalli og kerlingu það illa og ávítuðu Þorstein fyrir það, en hann versnaði því meir. Tóku þá karl og kerling saman ráð sín og létu hann ofan í dall og létu vera gat á og helltu svo ofan í hann því er þau gáfu honum að éta.

Þegar Þorsteinn var búinn að vera svona nokkurn tíma fóru kall og kelling að hugsa um að viðra hann og tóku hann því upp úr dallinum og var hann þá farinn að mygla. Þegar Þorsteinn var kominn upp úr dallinum fór hann að hugsa um kjör sín og hvað það væri leiðinlegt að vera svo á sig kominn. Stóð hann þá upp og hljóp á stað, en vissi ei hvert halda skyldi. Gengur hann svo lengi unz hann kom að einum hellir; gengur hann þar inn og sér pott á hlóðum og kökur ósteiktar í trogi. Steikir hann síðan kökurnar og færir ketið upp úr pottinum. Síðan sópar hann hellirinn og fer svo milli stafs og veggjar og bíður þar. Litlu síðar heyrir hann dunur miklar og því næst kemur stór skessa inn í hellirinn og segir: „Hér hefur einhver komið í dag og skal sá lifa þar hann hefur gjört mér svo mikinn greiða og lagað allt í hellir mínum.“ Þegar Þorsteinn heyrir þetta hleypur hann fram úr fylgsni sínu og heilsar upp á skessu og biður hana gistingar, og segir hún hann megi vera hjá sér um tíma ef hann sópi fyrir sig hellir sinn og matreiði fyrir sig, og gekk Þórsteinn að þessu. Var hann þar hjá skessunni í góðu yfirlæti og fór hún brátt að trúa honum fyrir lyklum sínum, en samt var þó einn lykill er hann fékk ekki að hafa undir höndum og langaði hann þó mikið til að ná honum.

Skessan fór á hverjum degi út á skóg að veiða dýr og fugla og flutti heim afla sinn á kveldin. Einu sinni þegar skessan var farin á veiðar sínar fór Þorsteinn að sópa hellirinn og taka upp flet kellingar; fann hann þá lykilinn sem hann langaði svo mjög að geta náð. Hljóp hann þá strax og lauk upp húsi því sem lykillinn gekk að. Sá hann þar inni brúnan hest, ketil úr eiri og gullbúið sverð. Fer hann þá að verða forvitinn og lýkur upp katlinum og sér þar ekkert utan gullsand. Rekur hann þá fingurinn ofan í og verður hann logagylltur. Segir hann þá við sjálfan sig: „Gaman væri að hafa svona litan haus; ég skal reka hárið á mér ofan í ketilinn svo það verði eins.“ Síðan gjörir hann það og verður þá hárið samlitt fingrinum. Ætlar hann þá í burt, en þá heyrir hann að hesturinn segir: „Kondu aftur á morgun þegar kerlingin er komin í burt og farðu mér á bak og taktu með þér ketilinn og sverðið og haltu á stað, og skal ég þá segja þér hvað þú skalt gjöra.“ Játar Þorsteinn því og læsir því næst húsinu; fer þá að hugsa um hvernin hann geti komizt hjá því að kerling sjái hver umbreyting var orðin á hárlit hans. Dettur honum þá í hug að þegar hann sér til kellingar skuli hann fletta húfunni ofan á háls og binda um fingurinn, og gjörir hann það. Þegar komið er að kveldi kemur skessan heim og spyr Þorstein því hann sé svo á sig kominn, og segir hann að hann hafi þvegið sér um höfuðið og því hafi hann niðurfletta húfuna, „en því hef ég um fingurinn að ég skar mig í dag“ – og lét skessan það svo vera.

Daginn eftir þegar skessan var farin á veiðar fór Þorsteinn inn í húsið sem áður er nefnt og tók hestinn og sverðið og ketilinn og fór á bak hestinum og reið á stað, en þegar hann var kominn dálítinn spotta frá hellirnum sér hann skessuna koma dikandi á eftir sér. Segir hann þá við hestinn: „Hvað á nú til bragðs að taka?“ „Kastaðu katlinum,“ segir hesturinn. Þorsteinn gjörir það og varð hann að stóru báli, en skessan óð brátt yfir það. „Kastaðu nú sverðinu,“ segir hesturinn, „en þú verður að passa að það brotni.“ Þorsteinn kastar þá sverðinu, en það brotnar eigi; hleypur hann þá af baki og nær því og var þá skessan nær því búin að ná í taglið á Brún. Kastar Þorsteinn því þá aftur og molar sverðið í smátt og myndast þá úr því fjall svo hátt að öngvum var unnt að komast yfir það utan fuglinum fljúgandi. Er það af skessunni að segja að hún fór að reyna að klifrast upp fjallið, en þegar hún var komin til miðs leit hún aftur, en sundlaði þá svo mikið að hún hrapaði niður og hálsbrotnaði og er með öllu úr sögunni.

Síðan heldur Þorsteinn áfram og segir ekki af ferðum hans fyr en hann kemur í grennd við kóngsríki eitt. Segir þá hesturinn: „Hér skaltu nema staðar og búa til djúpa gröf og láta mig þar ofan í og farðu svo sjálfur heim í kóngsríki og vittu hvað þú fréttir þar,“ og hlýðir Þorsteinn því og grefur gröf fyrir hestinn og fer eftir það til kóngsríkisins. Heyrir hann þá að kóngurinn liggi dauðveikur og verði ekki læknaður, og var sorg yfir allt ríkið. Fer Þorsteinn þá til hestsins og biður hann segja sér ef hann viti nokkuð er eigi við veiki kóngsins, og segir hesturinn það megi lækna hann með þremur hlutum, sem séu arnarlungu, hrafnshjarta og tóumjólk, en þessa hluti muni eigi vera gott að fá. „Samt mun ég geta verið búinn að útvega mér það innan þriggja daga og kondu til mín á morgun og skal ég þá vera búinn að fá einn hlutinn“. Síðan fór Þorsteinn heim í ríkið, en daginn eftir fer hann og finnur hestinn og er hann þá búinn að útvega hrafn[s]hjartað og fær Þorsteini sem fór með það óðar heim í kóngsríkið. En áður hann komst með það til kóngsins mætti hann þremur mönnum er voru að leita að hrafnshjarta handa kónginum, en sem Þorsteinn verður þess var lætur hann þá vita að hann sé með það. Biðja þeir hann þá blessaðan að selja sér það og segist hann skuli gjöra það ef þeir gangi berhentir inn fyrir kóng, og gjöra þeir það, en fá þá mestu skömm úr öllum fyrir hvað þeir væru ósiðaðir, og gengu sneyptir á burt. Næsta dag finnur Þorsteinn hestinn og fær þá hjá honum arnarlungun, en er hann kemur að kóngsríki fer sem fyr að hann mætir enn þremur mönnum er sögðust leita að arnarlungum. Þá Þorsteinn heyrir það kvaðst hann geta selt þeim þau. Verða þeir glaðir við og spyrja hvað hann vilji fá í staðinn, en hann kvaðst ei vilja annað en þeir færi buxnalausir inn fyrir kóng, og játa þeir því. Ganga þeir svo á sig komnir inn fyrir kóng, en voru brátt reknir út aftur. Þegar þeir voru búnir að skila arnarlungunum fór kóngi fljótt að skána, en gat þó eigi fullbatnað fyrr en hann fengi tóumjólkina, og gat enginn hana útvegað utan Þorsteinn. Enda fór hann að finna hestinn og fékk hana hjá honum, en spyr hann um leið hvað hann vilji hafa fyrir allt það er hann hafi fyrir sig gjört. „Ekkert,“ segir hesturinn, „nema það að þú höggvir af mér höfuðið þegar þú ert giftur kóngsdótturinni því nú þykist ég sannfærður um þú fáir hana þegar uppvíst verður að þú hafir þetta allt útvegað.“ „Það er mér ekki um að gjöra,“ segir Þorsteinn, „að svipta lífinu hjálparmann minn.“ Þá sagði hesturinn: „Ef þú gjörir það ekki þá getur þú ekki hjálpað mér,“ og lofaði Þorsteinn því þá. Eftir það fer hann með það heim í ríkið og hittir þá sem fyrri þrjá menn er leituðu að tóumjólkinni og biðja þeir hann um hana og lætur hann loks til leiðast með því skilyrði að hann og allir mættu horfa á að þeir brenndu þjófsmark á ennið hver á öðrum, og gjörðu þeir það. Síðar fóru þeir fyrir kóng og færðu honum tóumjólkina, en tóku ekki ofan, og er kóngur verður þess var spyr hann þá því þeir gjöri það ekki, en strax sem þeir gjörðu það sáust þjófsmörkin á ennum þeirra og voru þeir þá allir teknir og hengdir. En sem kóngur er búinn að fá þessi þrjú læknirsmeðul verður hann albata, en þar hann þykist viss um að einhver annar hafi útvegað þetta heldur en menn þeir er komu með það til hans gefur hann það boð út að sá gefi sig fram er þetta hafi gjört, skuli hann fá dóttur sína og hálft ríkið meðan hann lifi, en allt eftir sinn dag. Gefur Þorsteinn sig þá fram og var þegar búið allt undir brúðkaup hans, en er kom giftingardagurinn var hann færður í konunglegan skrúða og tók hann þá eins og nærri má geta ofan húfuna, og liðaðist þá gullfagurt hárið ofan að mitti og þóktust menn ekki jafnfagran mann séð hafa sem Þorsteinn var.

Var hann síðan giftur kóngsdóttir og slegið upp dýrðlegri veizlu, en að henni endaðri gengur Þorsteinn til hestsins og höggur af honum höfuðið og verður hann þá að fríðum og fallegum kóngssyni. Segir hann að skessan hefði stolið sér og viljað eiga sig, en þegar það var enginn kostur hefði hún lagt á sig hann skyldi verða að hesti og aldrei komast úr þeim álögum fyr en hann hjálpaði einhverjum þeim er hefði kjark í sér til að höggva af honum höfuðið sem seint mundi verða, og hefði hann nú orðið til að frelsa sig. Segist hann vera bróðursonur kóngs þess er nú væri orðinn tengdafaðir hans. Síðan fara þeir heim í kóngsríkið og verður þar fagnaðarfundur með kóngi og kóngssyni því allir töldu hann af. Var þá veizlan aukin að nýju og eftir það fór kóngsson heim í sitt land og var þar tekinn til konungs því faðir hans var dáinn. En Þorsteinn varð kóngur eftir tengdaföður sinn og lifði vel og lengi, átti börn og buru o. s. fr.

Og lýkur svo að segja frá Þorsteini hinum myglaða.