Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Þorsteini karlssyni
Sagan af Þorsteini karlssyni
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu sér tólf sonu; Ekki er getið um nöfn þeirra. Skammt þar frá var karl og kerling í garðshorni. Þau áttu einn son sem Þorsteinn hét. Allir þessir menn voru frumvaxta þegar hér var komið. Einu sinni fóru kóngssynir allir út á skóg einn góðan veðurdag og ætluðu að skjóta dýr og fugla. En þegar kom fram á daginn gerði allra mesta óveður með húðarrigningu. Þeir voru komnir langt inn í skóginn frá hestum sínum og rötuðu ekki til þeirra aftur, en villtust æ lengra því lengur sem þeir gengu. Loksins komu þeir að helli í háum björgum; þar sáu þeir skessu stóra, svarta og illilega og ellefu flagðkonur yngri og hina tólftu sem þeim sýndist vera með mennsku móti. Skessan tók þeim kóngssonum vel og bauð þeim þar að vera og urðu þeir því fegnir, því veður var illt, en þeir bæði þreyttir, hungraðir og syfjaðir. Síðan bar skessan gamla mat fyrir þá og snæddu þeir lyst sína. Þegar þeir höfðu matazt og flagðkonurnar voru allar úti sagði hin mennska stúlka þeim að þeir væru sem þeir sæju komnir í tröllahendur og væru þeir ekki hinir fyrstu sem skessan hefði seitt þangað og drepið til fjár. Sagði hún þeim að skessan mundi láta þá sofa sinn hjá hverri dóttur hennar, en einn þeirra hjá sér og svæfi hún innst. En þegar hún héldi þeir væru sofnaðir mundi kerling fara ofan, sækja ljós og hafa skálm með sér og höggva þá alla fram af rúmstokknum. Skyldu þeir því hafa það bragðalag á að þeir skyldu raka hárið af flagðkonunum þegar þær væru sofnaðar, fara upp fyrir þær í rúmunum og setja sjálfir upp húfurnar þeirra; mundi skessan ekki vara sig á þeim umskiptum í rúmunum og höggva allar dætur sínar í stað þeirra. En ef þeim þætti nokkurs um þetta vert yrðu þeir að stökkva á fætur þegar skessan ætlaði að innsta rúminu, og fyrirkoma henni. Hún sagði og að skessan hefði numið sig úr öðru kóngsríki til að þjóna henni og dætrum hennar og væri hún kóngsdóttir.
Síðan komu skessurnar inn í hellinn og bauð gamla skessan kóngssonunum að ganga til rekkna, en svo væri nú sængum varið hjá sér að sinn yrði að sofa hjá hverri dóttur sinni. Þeir þekktust það og lögðust fyrir. Síðan háttuðu flagðkonurnar og mennska stúlkan með hálfum huga hjá kóngssonunum. Flagðkonurnar sofnuðu skjótt og tóku þá kóngssynirnir til starfa og skubbuðu af þeim strýið sofandi, settu upp á sig húfurnar af þeim og lögðust fyrir ofan þær, en höfðu andvara á sér og sofnuðu ekki. Þegar leið lengra fram á nóttina fer skessan gamla á fætur og fram, en kemur aftur með ljós í annari hendi og skálm mikla í hinni. Hún setur af sér ljósið á hellisgólfið, en gengur með reidda skálmina að fremsta rúminu, kippir flagðkonunni fram á stokkinn og heggur þar af henni hausinn svo hann hrýtur fram á hellisgólfið. Síðan hjó hún á sama hátt hverja af annari dætra sinna, því þær lágu allar nær stokki, unz hún var komin að innsta rúminu. Þá spruttu kóngssynirnir allir á fætur, réðust á skessuna og felldu hana. Sá hún þá að þeir höfðu gabbað sig skemmilega og að hún hafði drepið allar dætur sínar í stað þeirra og þóttist vita að þetta mundu samantekin ráð mennsku stúlkunnar og kóngssona. Þegar svona var komið fyrir henni og hún gat engri vörn lengur við komið lagði hún það á þá bræður að þeir skyldu verða að nautum og skyldu þeir koma í þessum nautsham heim að höll föður síns á hverjum degi og aldrei úr honum komast nema einu sinni í sólarhring meðan þeir mötuðust, en það skyldu þeir gera í hólma einum í stóru vatni langt frá öllum mannavegum; aldrei skyldu þeir úr þeim álögum komast fyrr en einhver væri svo vaskur maður að hann gæti fært þeim sama mat að borða heima í kóngsríki sem þeir borðuðu sjálfir í hólmanum. En á stúlkuna lagði hún það að hún skyldi þaðan í frá ausa vatni milli tveggja brunna, úr einum í annan, ekki langt frá vatninu og sinna engu öðru. Aldrei skyldi hún úr þeim álögum komast fyrr en einhver gæti laumazt svo aftan að henni að hún vissi ekki fyrri til en sá hinn sami felldi hana; en hvorttveggja sagði hún að seint mundi verða. Eftir það drápu kóngssynir hana og brenndu upp til kaldra kola og hurfu svo undir ánauð sína og stúlkan með þeim.
Nú er þar til að taka að kóngur fer að undrast um burtuveru sona sinna þegar þeir koma ekki heim um kvöldið eða nóttina eftir að þeir hurfu. Safnar hann þá múg og margmenni og lætur leita þeirra lengi og vel; en það varð allt árangurslaust og var svo hætt leitinni þó kóngur bærist illa af. Þegar frá leið tóku menn eftir því að tólf naut komu á hverjum degi heim í kóngsríki og voru að dunsna þar. Þau lögðu til einkis manns og enginn heldur til þeirra. Kóngi aflaði þessi venjubrigði nokkurrar áhyggju og lét færa nautum þessum alls konar fóður, en þau vildu í ekkert taka og fóru ævinlega burt aftur í sama mund eftir litla viðdvöl.
Það er þessu næst frá Þorsteini í garðshorni að segja að hann heyrir eins og aðrir um hvarf kóngssona og að þau venjubrigði eru orðin heima í kóngsríki að þangað koma tólf naut á hverjum degi og langar hann til að komast betur eftir þessu. Hann biður því foreldra sína að lofa sér að fara til veturvistar heim í kóngsríki og þyki sér dauflegt í kotinu hjá þeim. Þau veita honum það og svo fer Þorsteinn heim, gengur fyrir kóng og biður hann veturvistar. Kóngur spyr því hann beiðist þess. Þorsteinn segir að sig langi til að sjá mannasiði og mannast sjálfur, en ævi sín sé daufleg í garðshorni. Kóngur leyfði honum þá veturvist hjá sér og settist Þorsteinn svo þar að. Hann talaði oft við kóng um hvarf sona hans og hvað af þeim væri orðið. Rann þá jafnan út í fyrir kóngi og vék því tali hjá sér. Þorsteinn innti þá til við hann um þessi tólf naut sem þar kæmu hvernig á þeim stæði og lézt kóngur ekki vita það, en þó þætti sér undarlegt að þau legðu þangað leiðir sínar á hverjum degi og vænt mundi sér þykja um þann sem gæti orðið þess vísari hvaðan þau væri.
Þorsteinn einsetti sér nú að grennslast betur eftir um nautin og fór því einn dag og fylgdi þeim þegar þau fóru burt aftur frá höllinni; en svo fóru þau hart að hann varð að hlaupa blóðspreng sinn til þess að missa ekki sjónar á þeim og fleygði af sér öllum þeim klæðum sem hann gat við sig losað. Loksins komu nautin að vatni einu og lögðu þegar á sund út í það öll nema hið aftasta, það biðlokaði lítið eitt við landið eins og það væri að bíða eftir Þorsteini, en hin syntu af til hólmans í vatninu. Þegar Þorsteinn kom að vatninu benti nautið honum að fara sér á bak og það gerði hann; en nautið synti með hann út í hólmann, tók síðan undir sig stökk heim að skála sem þar var í hólmanum. Þegar Þorsteinn kom að skálanum sá hann að þar lágu tólf nautshamir úti fyrir, en inni í skálanum sátu tólf menn að máltíð. Þorsteinn þóttist nú vita að þetta væru kóngssynir og hefðu þeir orðið fyrir álögum; hann gekk svo í skálann, en yrti hvorki á þá né þeir á hann, né heldur töluðust þeir við sín á milli. Þeir gáfu honum af mat sínum bæði brauð og vín og tók hann við því og geymdi, en neytti þess ekki. Þegar þeir höfðu matazt fóru þeir út aftur og í nautshamina og lögðust enn til sunds yfir vatnið. Þó varð eitt nautið eftir og fór Þorsteinn því á bak og synti það með hann til lands.
Þegar hann var orðinn landfastur stukku nautin frá honum svo hann sá hvorki veður né reyk eftir af þeim; gekk hann svo um stund þangað til hann sá konu nokkra; hún var í óðaönn að ausa vatn úr einum brunni í annan og var ekki öðru líkara athæfi hennar en að hún væri ær og örvita; ekki gætti hún neitt ferða Þorsteins fyrri en hann kom aftan að henni og felldi hana. Þá var eins og rynni á hana ómegin svo hún hreyfði hvorki legg né lið. Þorsteinn tók þá vatn úr brunninum öðrum og dreypti á hana. Raknaði hún skjótt við og þakkaði Þorsteini með mörgum fögrum orðum lausn sína frá þessari ánauð og sagði honum allan aðdragandann og eins hvernig nautunum væri varið og að þau mundu aldrei komast úr sínum álögum fyrr en þeim væri gefin sama fæða hjá mennskum mönnum sem þau væru vön að neyta í hólmanum þegar þau færu úr nautshömunum. Eftir þetta fara þau Þorsteinn heimleiðis og fer hann með hana í garðshorn og biður karl og kerlingu að geyma hana fyrir sig um sinn og láta ekkert að henni ganga. Síðan fer hann heim í kóngsríki og segir fátt af ferðum sínum.
Daginn eftir þegar nautin koma heim er Þorsteinn á vakki og býður þeim bæði brauðið og vínið sem hann hafði þegið af þeim daginn áður í skálanum, og neyta þau öll af hvorutveggja. En þegar þau höfðu neytt leggjast þau fyrir og detta af þeim nautshamirnir. Þorsteinn lætur þá kalla á kóng og biður hann að gá að hvort hann þekki þessa menn sem þar lágu, og þykist kóngur þekkja þar syni sína; er nú dreypt á þá og þeir lífgaðir. Verður þar fagnaðarfundur með kóngi og sonum hans.
Síðan sækir Þorsteinn kóngsdóttur þá sem hann hafði komið fyrir í garðshorni og segir hún svo og kóngssynirnir frá öllum raunum sínum og hvernig Þorsteinn hafði frelsað þau úr þessum álögum. Eftir það heldur kóngur veizlu til að fagna sonum sínum og kóngsdóttur, og að þeirri veizlu hefur Þorsteinn bónorð sitt og biður kóngsdóttur. Það mál var auðsótt við hana. Sneri þá kóngur fagnaðarölinu upp í brúðkaupsveizlu þeirra Þorsteins og kóngsdóttur og bauð þeim að vera hjá sér svo lengi sem þau vildu því hann þóttist eiga þeim að launa líf og lausn sona sinna. Kóngssynirnir lýstu því þá yfir að þeir vildu gefa Þorsteini alla þá von sem þeir ættu til ríkisins eftir dag föður þeirra og launa honum svo og kóngsdóttur lífgjöf þeirra og lausn. Þessu varð kóngur samþykkur og tók svo Þorsteinn við ríki eftir lát kóngs og settist að því með drottningu sinni. Síðan hafa fáar sögur frá þeim gengið.