Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af þrem kóngssonum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af þrem kóngssonum

Frá því er sagt að í fyrndinni hafi verið einn auðugur og ágætur konungur; hann réði fyrir víðlendu og voldugu ríki, en ekki er þess getið hvar í heiminum þetta hafi verið eður hvað konungurinn hafi heitið. Hann átti við drottningu sinni þrjá sonu; vóru þeir allir hinir efnilegustu menn og unni konungur þeim mjög. Konungurinn hafði tekið til fósturs eina kóngsdóttir úr nágrenninu og ól hana upp með sonum síum; var hún mjög á rek við þá að aldri og hin fegursta og kurteisasta mær sem þá hafði sézt; unni kóngur henni að engvu minna en sonum sínum.

Þegar kóngsdóttir var orðin gjafvaxta felldu allir kóngssynirnir ástarhug til hennar og rak svo langt að þeir báðu hennar allir, hver í sínu nafni. Konungurinn faðir þeirra átti að ráða gjaforði kóngsdóttur því faðir hennar var dauður, og með því honum var jafnkært til allra sona sinna þá gaf hann þeim það svar að kóngsdóttir skyldi sjálf kjósa sér fyrir brúðguma hvern þeirra er henni geðjaðist bezt að. Lét hann því að ákveðnum degi kalla kóngsdóttir fyrir sig og auglýsir fyrir henni sinn vilja að hún kjósi einhvern sona sinna sér til manns. Kóngsdóttir mælti: „Skyldug er ég að hlýða því er þú fyrir mælir, en eigi ég að kjósa um sonu þína þá er ég í hinum mesta vanda stödd, því ég verð að játa það að mér eru þeir allir jafnkærir og að ég get ekki tekið þann eina fram yfir þann annan.“ Þegar konungur heyrði þessi svör kóngsdóttur þótti honum vandast málið og hugsar nú fyrir sér hvert ráð hann skyldi upp taka sem öllum gegndi bezt, og að lyktum kveður hann upp þann úrskurð að þeir synir sínir skuli að ári liðnu verða komnir með sinn dýrgripinn hver og skyldi sá fá kóngsdóttur sem beztan hefði dýrgripinn. Létu kóngssynir sér þetta vel líka og ákváðu að þeir skyldu allir finnast að ári liðnu á einum kastala út á landsbyggðinni, hvaðan þeir skyldu halda heim til borgarinnar til að framleggja gripina; er nú búin ferð þeirra kóngssona burt úr landi með hinum beztu föngum. Segir fyrst af hinum elzta að hann heldur land úr landi og borg úr borg og fær þó hvergi þann dýrgrip er honum þykir nokkurs um vert. Loksins fréttir hann til einnar kóngsdóttur og að hún á eina sjónpípu sem að er hin mesta gersemi. Í henni má sjá um allan heiminn, hvern stað, hvern mann og hvert kvikindi, og hvað hver ein lifandi skepna hefst að. Hugsar nú kóngssonur að aldrei fáist slíkur gripur sem þessi sjónpípa, og heldur hann því áleiðis til kóngsdóttur þess erindis að fala pípuna. En kóngdóttir vill ekki fyrir nokkurn mun farga pípunni. En fyrir þrásamlegan bænastað kóngssonar og að heyrðum öllum málavöxtum lét þó kóngsdóttir til leiðast að selja honum pípuna. Og er ekki annars getið en að kóngsson hafi borgað hana vel. Heldur hann nú heimleiðis aftur ánægður yfir feng sínum og vongóður um að fá kóngsdóttur. Og víkur því næst sögunni til hins annars kóngssonar.

Honum gekk líkt og hinum elzta bróðurnum, að hann fær hvergi þann grip er í nokkru sé nýtur og hefur hann svo ferðazt lengi að hann hefur engva von um að fá uppfylling óskar sinnar. Einhverju sinni kemur hann í stóra og fjölmenna borg og falar hann þar sem annars staðar gripi að mönnum og fær engan þann er honum leikur hugur á. Hann fréttir að skammt frá borginni býr dvergur einn, hinn mesti völundur að hagleik. Dettur honum í hug að finna dverginn og freista ef hann fengist til að smíða honum einhvern dýrgrip. Fær hann sér leiðarvísir til dvergsins, finnur hann heima að inni sínu og ber upp fyrir honum erindið. Dvergurinn kvaðst að mestu hættur smíðum og gæti hann ekki aðstaðið þetta fyrir kóngsson. En klæði eitt kvaðst hann eiga sem hann hefði gjört sér á yngri árum og kvaðst hann trauður til að láta. Kóngsson spyr hvör sé náttúra klæðisins eða hver not megi af því hafa. Dvergur segir að á klæðinu geti maður farið um allan heim og jafnt loft sem lög; „eru á það ristar rúnir sem sá verður að nema er stýra vill klæðinu.“ Skynjar nú kóngsson að vart megi fá betri dýrgrip eður jafngóðan og klæðið er og biður því dverginn fyrir hvern mun að selja sér klæðið, og þó dvergurinn væri tregur til þessa þá þegar hann heyrir hvað við liggur ef kóngsson fær ekki klæðið þá lætur hann til leiðast og selur kóngssyni klæðið fyrir afar mikið fé. Sér kóngsson að klæðið er hinn bezti gripur, víða gullsaumað og gimsteinum sett. Heldur hann svo heimleiðis vongóður um sigur sinn í meyjarmálunum.

Hinn yngsti kóngssonur hélt seinastur af stað og fór hann fyrst innan lands frá einu þorpi til annars; falar hann gripi að hverjum kaupmanni sem hann hittir og hvar annarstaðar sem nokkur von er til þeir fáist. En allar hans tilraunir verða árangurslausar og líður svo meginhluti ársins að honum verður hvergi viðrennt; gjörist hann nú mjög hugsjúkur um sitt mál. Loksins kemur hann í eina fjölmenna borg; er þar kaupstefna mikil og menn samankomnir úr öllum álfum heimsins. Gengur hann á milli allra kaupmanna í borginni og finnur loksins einn sem hefur eplasölu á hendi. Þessi kaupmaður kvaðst eiga eitt epli sem hefði þá náttúru, „að þegar það er lagt í hægra handholið á þeirri manneskju sem að dauða er komin þá lifnar hún jafnskjótt við aftur.“ Sagði kaupmaður að eplið væri langfeðgaeign sín og hefði jafnan verið brúkað í staðinn fyrir læknislyf. En er kóngsson heyrði þetta vill hann fyrir hvern mun fá eplið og hyggur að hann trautt muni fá þann hlut er betur geðjist kóngsdóttur. Biður hann kaupmann því að selja sér eplið og segir honum frá öllum málavöxtum og að undir því sé eingöngu komin sín tímanlega velferð að hann verði ekki eftirbátur bræðra sinna í gripaútvegunum. Rann kaupmanni svo til rifja sögusögn kóngssonar að hann selur honum eplið og heldur svo kóngsson heimleiðis aftur glaður og ánægður.

Segir svo ekki af þeim bræðrum fyrri en þeir [eru] allir komnir saman á þann áður ákveðna stað; segja þeir hver öðrum af ferðum sínum allt hið markverðasta. Hugsar nú hinn elzti bróðirinn sér til hreifis að hann skuli þó verða fyrstur til að sjá kóngsdóttir og hvernig henni líði. Tekur hann því upp sjónpípuna og stefnir henni heim til borgarinnar. En hvað sér hann? Hans elskaða kóngsdóttir liggur í sæng sinni, náföl og að dauða komin. Konungurinn faðir hans og hinir æðstu höfðingjar við hirðina standa í kringum sængina í svörtum sorgarbúningi og hryggvir í huga, reiðubúnir til að taka á móti hinu síðasta andvarpi hinnar fögru kóngsdóttur. Þegar kóngsson sá þessar sorgarsjón varð hann frá sér numinn af sorg. Segir hann bræðrum sínum hvers hann hefur var orðið og aflar það þeim ómetanlegrar hryggðar. Segjast þeir hefðu viljað gefa til þess alla eigu sína að þeir hefðu aldrei farið þessa ferð því þá hefðu þeir þó getað veitt hinni fögru kóngsdóttir hina síðustu þjónustu og með eigin höndum aftur lokað hennar rósfögru augum. En mitt í þessum harmatölum dettur þó miðlungsbróðurnum klæðið sitt í hug og að á því geti hann þó komizt á einu vetfangi til borgarinnar. Segir hann bræðrum sínum þetta og verða þeir næsta glaðir af svo góðu en óvæntu ráði. Breiða þeir nú í sundur klæðið og stíga á það allir samt. Líður það þegar í loft upp með þá og á örstuttum tíma til borgarinnar. Flýta þeir bræður sér sem mest mega þeir til herbergja kóngsdóttur og er þar hin mesta hryggð á öllum. Er bræðrum sagt að hvert andartakið sé hið síðasta fyrir kóngsdóttur. Þá dettur yngsta bróðurnum í hug eplið góða og veit hann fyrir víst að aldrei muni meiri þörf á að reyna kraft þess en nú. Gengur hann því tafarlaust inn að sæng kóngsdóttur og leggur eplið undir hægri hönd hennar. En á samri stundu var eins og nýtt líf færðist í allan líkama kóngsdóttur, augu hennar lukust upp og að litlum tíma liðnum tók hún að mæla við menn. Varð af þessu öllu saman óumræðilegur fögnuður við konungshirðina, heimkomu bræðranna og endurlífgun kóngsdótturinnar.

Liðu svo fram nokkrar stundir til þess að konungsdóttir er orðin fullfrísk, að þá er stefnt fjölmennt þing og á því þingi eiga þeir bræður að framleggja gripi sína. Gengur fyrst fram sá elzti og sýnir sjónpípu sína og segir hann og sýnir hvert gersemi hún var og að fyrir hana hafi lífi hinnar fögru kóngsdóttir orðið bjargað, því að hann hafi í henni séð hvernig á stóð í borginni. Þykist hann því vel að kominn að fá kóngsdóttur. Þar næst gengur fram hinn annar og sýnir klæðið og til hvers það er nytsamlegt. Segir hann lítið gagn mundu hafa orðið af því þó bróðir sinn hefði fyrstur séð veikindi kóngsdóttur ef klæðið hefði ekki verið, „því að á því komumst við til borgarinnar til að bjarga kóngsdóttur og tel ég að klæðinu sé það mest að þakka að kóngsdótturin ekki deyði til fulls,“ segir kóngsson. Nú lagði yngsti bróðirinn fram eplið og mælti: „Fyrir lítið hefði komið sjónpípan og klæðið ef eplið mitt hefði ekki verið til að frelsa líf kóngsdóttur. því hvert gagn var oss bræðrum í því að vera sjónarvottar að dauða hinnar fögru kóngsdóttur og hvað gat það annað en aukið hryggð vora og söknuð? Eplinu er það einasta að þakka að kóngsdóttir er enn á lífi og þykist ég því maklegastur að njóta hennar.“ Var nú rætt og ráðslagað um þetta á þinginu og kom mönnum ásamt að allir gripirnir hefðu jafnt verkað til að frelsa líf kóngsdóttur því ef nokkurn þeirra hefði vantað þá hefðu hinir ekki getað komið að liði. Var því dæmt að allir gripirnir væru jafnir svo að enginn endir gat enn fengizt á um það hver bræðranna skyldi eignast kóngsdóttur.

Konungurinn tók það því enn til ráðs að hann segir þeir bræður skuli allir þreyta skot um kóngsdóttur og að hver þeirra sem reynist frægastur skotmaður skuli fá hennar. Er nú mark upp reist og gengur hinn elzti bróðirinn fyrst fram með boga og örvamælir. Skýtur hann og vantar allmikið til að skeytið nái markinu. Því næst gengur til hinn annar og nær hans skeyti því nær markinu. Og seinast gengur til hinn þriðji og yngsti bróðirinn og sýndist sem hans skeyti færi lang-lengst, en til allrar ógæfu gat skeytið ekki fundizt þó leitað væri í fleiri daga. Lagði því konungurinn að lyktum þann úrskurð í málið að miðlungsbróðirinn skyldi fá kóngsdóttur. Voru þau síðan saman vígð og með því að konungurinn faðir kóngsdóttur var þá fyrir nokkru andaður, þá fóru þau þangað og tók kóngssonur við ríkisstjórn. Er þeirra ekki framar getið í þessari sögu. Elzti bróðirinn fór ogsvo úr landi og fékk sér staðfestu; kemur hann því ekki við þessa sögu. En yngsti bróðirinn var eftir heima hjá föður sínum; undi hann mjög illa þeim málalokum er á urðu um konungsdóttir. Var hann á hverjum degi að ráfa um þá staði er hann hélt skeyti sitt mundi vera, og að lyktum finnur hann það og hafði það farið langt yfir markið og stóð fast í einni skógareik; leiðir hann nú votta að hvar skeytið var og hyggur að fá uppreisn þessa máls, en þess er eigi kostur því konungur kveðst eigi geta raskað þeim úrskurði er hann hefði þar á lagt. Unir nú kóngsson hálfu verr hag sínum eftir en áður og er hann varla mönnum sinnandi. Ræður hann það af einn dag að hann býst til burtferðar með því áformi að stíga aldrei meir fæti á þetta land. Hefur hann með sér hið fémætasta er hann átti og veit enginn þessa ráðagjörð, og ekki konungurinn faðir hans. Leggur hann út á skóg einn mikinn og heldur áfram marga daga svo hann veit ekki hvert hann fer. Sækir á hann bæði hungur og þreyta og þar kemur loks að hann treystist ekki að halda lengur áfram; sezt hann að undir steini einum miklum og hyggur að hér muni enda sitt auma og sorgfulla líf. En er hann hefur hér setið og hvílt sig um stund sér hann hvar tíu menn koma, allir vel búnir að vopnum og klæðum. Þeir eru allir ríðandi. Stefna þeir beint á steininn. Og er þeir koma að honum stíga þeir af baki og heilsa upp á kóngsson. Þeir bjóða honum með sér að fara og hafa þeir haft meðferðis lausan hest handa honum með tígulegum reiðtygjum. Hann þekkist boð þeirra og stígur á bak hestinum. Fara þeir svo sem leið liggur til þess þeir koma að stórri og skrautlegri borg. Stíga riddararnir af baki hestum sínum og leiða kóngsson inn í borgina. Fyrir henni réð einn ungur og ágætur meykóngur. Leiða riddararnir kóngsson tafarlaust inn fyrir meykónginn og tekur hún kóngssyni með hinni mestu blíðu. Segir hún honum að hún hafi frétt um allt hið mótdræga er á daga hans hafi drifið og um það er hann strauk frá föður sínum. „Kviknaði þá hjá mér heitasta ást á þér og löngun til að bæta úr böli þínu. Skaltu vita að ég sendi þá tíu riddara til að leita þig uppi og hafa þig hingað. Vil ég nú bjóða þér hér að vera og allt mitt ríki til forráða og skal ég leitast við að bæta úr böli þínu það ég megna.“ Og þó kóngsson væri mjög daufur og áhyggjufullur þá sér hann þó ekki annað ráð en þekkjast boð þetta og taka ráðahagnum við meykónginn. Er því stofnað til veizlu mikillar og þau saman vígð að þess lands siðvenju. Tekur hinn ungi kóngur þegar við ríkisstjórn allri og ferst það vel úr hendi. Líða svo fram nokkrir tímar.

Nú víkur sögunni aftur heim til hins gamla konungs, að eftir hvarf kóngssonar gjörðist hann mjög mæddur með því hann var líka hniginn á efra aldur. Drottning hans var og fyrir nokkru önduð. Það var einn dag að förukona nokkur kom til hallarinnar. Hún var fróð mjög um marga hluti og kunni frá mörgu að segja. Henti konungur mikið gaman að sögum hennar og kom hún sér mjög í mjúkinn hjá honum. Liðu svo fram nokkrir tímar, en þar kemur að konungur fær ást mikla á konu þessari og að lyktum tekur hann hana sér fyrir drottningu; var það þó mjög á móti hirðinni. Eigi líður á löngu áður en hin nýja drottning gjörðist mjög hlutsöm um ríkisstjórnina og þótti hún öllu spilla því er hún mátti.

Það var einhverju sinni að drottning kemur að máli við konung og mælti: „Undarligt þyki mér að þú gjörir engan rekstur að um burthlaup sonar þíns og er þó oft minni sökum hegnt; muntu hafa heyrt að hann er orðinn konungur yfir einu af þeim ríkjum sem hér eru í kring og er í almæli hann ætli með her á hendur þér þegar hann sér sér færi á til að hefna þess óréttar er hann mun þykjast hafa beðið í meyjarmálunum. Nú vil ég að þú verðir fyrri að bragði til að ráða þennan voða af höndum þér.“ Konungur lét sér fátt um finnast og tók þessu hjali lítið, en svo fékk drottning um talið fyrir honum að hann lagði trúnað á orð hennar. Bað hann hana ráð til leggja hvernig þessu yrði svo hagað að sem minnst bæri á. Drottning mælti: „Þú skalt gjöra menn með gjöfum á hans fund og bið hann finna þig til skrafs og ráðagjörða um ríkisstjórn eftir þinn dag og til að treysta milli ykkar vináttu með frændsemi. Mun ég þá ráð til gefa hvernig með skal fara.“ Konungur lætur sér þetta vel líka og er nú búin sendiförin af góðum kostum. Koma sendimenn fyrir hinn unga konung með gjafirnar frá föður hans og skýr jarðteikn um það að hann biður hann koma sem skjótast á sinn fund. Tekur konungur þessu vel og býr ferð sína sem skjótast, en er drottning hans verður þessa vör lætur hún sér fátt um finnast og segir hann mundi mest iðrast eftir þessari för. Konungur fór ei að síður og segir ekki af för hans fyrri en hann kemur til borgar föður síns. Tekur hann við honum heldur þurrlega og furðar hinn unga kóng það mjög. Og er hann hefur verið þar skamma stund kallar faðir hans hann fyrir sig og átelur hann harðlega fyrir burthlaupið, segir að hann hafi í því sýnt sér óvirðing og aflað sér þeirrar sorgar er mundi hafa leitt sig í gröfina. „Værirðu þar fyrir dauðasekur að réttum lögum, en með því að þú hefur gengið á mitt vald og þess annars að þú ert minn son, þá nenni ég ekki að láta drepa þig en þrjár þrautir mun ég leggja fyrir þig er þú skalt hafa unnið að ári liðnu, annars gildir það líf þitt. Hin fyrsta er að þú skalt færa mér tjald það er rúmi 100 manns, en megi þó fela í lófa sínum. Hin önnur er það að þú skalt færa mér vatn það er læknar öll mein. Hið þriðja er að þú skalt koma hingað þeim manni og sýna mér, er ólíkur sé öllum öðrum mönnum í heiminum.“ „Hvört vísar þú mér til að vinna þrautir þessar?“ segir hin ungi kóngur. „Það skaltú segja þér sjálfur,“ mælti hinn. Snýr hinn gamli kóngur þá á braut, en ungi kóngurinn býr sig strax til heimferðar, og varð ekki af kveðjum.

Segir ekki af ferðum hins unga kóngs fyrri en hann kemur heim í ríki sitt. Er hann þá mjög daufur og niðursleginn og gengur drottning hans freklega á hann hvað að honum gangi, en hann segir hana það engu skipta. Drottning mælti: „Veit ég að fyrir þig munu hafa verið lagðar þrautir þær er ekki mun auðvelt að vinna. En hvað dugir þér að vera hnugginn af slíku nema berast af karlmannlega og freista hvert þrautirnar mega ekki vinnast? Má og vera ég geti beint að með þér og seg mér hvað þig sturlar.“ Sér kóngur þann kost beztan að segja drottningu allt hið sanna og hvernig hans máli er komið. „Þetta munu allt ráð stjúpu þinnar,“ segir drottning, „og væri vel hún kæmi ekki fleirum fram við þig eður aðra. Mun hún svo hafa til ætlað að ekki yrði auðvelt að ráða úr vandræðum þessum, en þó mun ég nokkuð geta að gjört. Tjaldið á ég sjálf og er því sú þraut leyst. Vatnið sem þér er til vísað er hér skammt á burt, en ekki er auðvelt að ná því. Það er í brunni nokkrum og er brunnurinn í hellir mjög dimmum. Brunninn vakta sjö ljón og þrír höggormar og kemst enginn maður með lífi frá þeim ókindum. En sú er náttúra vatnsins að það hefur engan lækningakraft nema þessi kvikindi séu öll vakandi. Mun ég nú freista að ná vatninu.“

Býr nú drottning ferð sína til hellirsins og hefur með sér sjö naut og þrjú svín. Þegar hún kemur að hellinum lætur hún drepa nautin og svínin og snara nautunum að ljónunum, en svínunum að höggormunum. En meðan ókindur þessar eru að rífa í sig skrokkana stígur drottning ofan í brunninn og tekur vatnið sem hana lystir. Stóð það heima að drottning komst úr hellinum og dýrin vóru búin með mötuna. Heldur drottning svo heim til borgar og er nú hin önnur þrautin unnin. Drottning kemur því næst að máli við kóng og mælti: „Nú er tvær þrautirnar unnar, en sú seinasta er eftir og er hún verst, enda muntu hljóta að vinna hana sjálfur og get ég nokkuð vísað þér á hvar hana skal vinna. Ég á hálfbróður og ræður hann fyrir einni ey sem hér er skammt undan landi. Hann er þrjú fet á hæð með eitt auga á miðju enni. Hann hefur þrjátíu álna langt skegg og svo hart sem svínsburst. Hann er og með hundstrýni og kattareyru og tel ég ólíklegt að hann líkist nokkrum manni í heiminum. Þegar hann fer eitthvað hendist hann áfram á fimmtíu álna langri stöng og fer svo hart sem fugl flygi. Eitt sinn þegar faðir minn var á dýraveiðum var hann heillaður af gýg nokkrum sem bjó í hellir undir fossi og með honum átti hann þessa ófreskju. Þessi ey er þriðjungur ríkis föður míns og þykir honum það helzt til lítið handa sér. Hring einn átti faðir minn, hinn bezta grip sem við vildum bæði eiga og varð ég hlutskarpari. Hefur hann síðan lagt á mig fæð og fjandskap. Nú mun ég freista að skrifa honum bréf og senda honum hringinn ef hann kynni heldur að mýkjast til að gjöra vorn vilja. Skaltú nú búast með fríðu föruneyti að finna hann og þegar þú kemur að hallardyrum hans skaltu taka af þér kórónuna og skríða berhöfðaður inn að hásætinu. Skaltu þá kyssa á hægra fót hans og rétta honum bréfið og hringinn. Segi hann þér að standa upp, hefurðu fengið fram þitt erindi, en annars ekki.“

Fer nú konungur að öllu sem drottning hefur fyrir lagt. Og er hann kemur fyrir hinn eineygða kóng blöskrar honum hvað hann er ljótur og ófrýnlegur, en herðir þó upp hugann og réttir honum bréfið og hringinn. Hýrnar fljótt yfir karli þegar hann sér hringinn og mælti: „Eitthvað þykir systir minni nú við liggja er hún sendir mér grip þenna.“ Og er hann hefur lesið bréfið segir hann kóngi að standa á fætur. Kvaðst hann vera albúinn til farar eftir orðsending systur sinnar og ekki vilja tefja. Tekur hann nú stöng sína og er þegar horfinn. Bíður hann eftir þeim öðru hvurju og svívirðir kóng fyrir seinlætið. Halda þeir svo áfram til hallar konungs. En er þeir eru þar komnir hrópar hinn eineygði karl á systur sína og spyr hvers hún óski er hún hefur ómakað hann svo langa leið. Segir hún honum þá alla málavexti og biður hann leysa kóng sinn af þeim vandræðum sem fyrir hann vóru lögð. Hann kveðst þess albúinn og þá ekki vilja tefja. Halda þeir því strax af stað og segir ekki af ferðinni fyrri en þeir koma til hins gamla konungs. Boðar ungi kóngurinn föður sínum komu sína og að hann hafi með að fara það er hann hefði krafizt hið fyrra árið. Óskar hann að þings sé kvatt svo hann geti þar af hendi innt þrautirnar. Er nú svo gjört og er þar komin drottning og margt annað stórmenni ásamt konungi. Er nú tjaldið fyrst fram lagt og finnur enginn maður að því. Því næst afhendir hinn ungi kóngur föður sínum hið góða lækningavatn og er drottning látin bergja á því til að dæma um hvert það sé hið rétta lækningavatn eður ekki og hvert það sé tekið á réttum tíma. Segir drottning að svo sé. Þá segir hinn gamli kóngur: „Nú er eftir hin þriðja og þyngsta þrautin og greið hana fljótt af hendi.“ Sendir þá ungi kóngurinn eftir hinum eineygða karli. Og er hann kemur á þingið verður hann svo ferlegur að allir verða gagnteknir af ótta og skelfingu og mest hinn gamli kóngur, og er hann hefur sýnt sig þar um hríð setur hann stöngina fyrir brjóst drottningar og vegur hana upp á henni. Keyrir hann drottningu niður aftur svo hart að lamdist sundur í henni hvert bein og varð hún þá að hinu versta flagði. Stekkur eineygði karl burt af þinginu eftir þetta, en menn taka að hjúkra hinum gamla kóngi sem var að kominn dauða af hræðslu. Er nú dreypt á hann hinu heilnæma lækningavatni og hressist hann.

Og eftir dauða drottningar ránkar hann við sér og kannast við að allar þær þrautir er hann hefur lagt fyrir son sinn eru ómaklegar og að hann hefur gjört það allt fyrir áeggjan drottningar. Lætur hann kalla son sinn fyrir sig og biður hann auðmjúklega fyrirgefningar á því er hann hefði honum á móti gjört. Kveðst hann nú vilja það allt bæta með því að gefa upp við hann ríki þetta, en sjálfur kvaðst hann vilja lifa hjá honum í ró og næði það eftir væri lífdaganna. Sendir nú hinn ungi konungur eftir drottningu sinni og öllu þeirra vildasta liði. Er þar skjótast af að segja að þau gefa upp ríki það er þau höfðu fyrir ráðið við hinn eineygða karl til launa fyrir liðveizlu hans, en stýrðu sjálf ríki hins gamla konungs til ellidaga.