Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Bragðakarli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Bragðakarli

Það var einu sinni hjón á bæ. Þau áttu þrjá sonu; einn hét Ásmundur, annar Jón, þriðji Þórsteinn. Þeir voru efnilegir nema Þórsteinn; hann lá oftast í öskustónni og var hafður útundan.

Það var eitt haust er þeir voru orðnir fullvaxnir bræður að bónda var vant sauða. Nú voru gengnar fjallgöngur og fundust eigi sauðir bónda og þótti bónda illt að verða fyrir skaðanum og heitir á Ásmund son sinn að leita sauðanna. Hann býst nú til ferða og kveður föður og móður og bræður, en þau báðu hann vel fara. Hann gengur nú á fjöll inn og er hann hefur gengið fjögur dægur þá fer að drífa og ekki finnur hann sauðina. Versnar nú óðum veðrið og er hann nú kominn svo langt að hann veit ei hvört fara skal og lætur nú fyrirberast um nóttina; og um morguninn er sama veður. Hann gengur nú þennan dag allan og er veðrið alltaf að versna svo hann býst nú ekki við öðru en dauða sínum, gengur nú lengi þar til honum finnst fara að halla undan fæti, og nú fer veðrið að skána so hann sér að hann er nú kominn í dalverpi. Hann gengur nú ofan eftir dalnum og er hann dýpri eftir því sem hann gengur lengra og er snjólaus að kalla. Sér hann nú bæ og stefnir þangað. Er hann kemur heim er maður úti gamall og illilegur. Ásmundur heilsar honum og spyr hann að heiti, en hann sagðist heita Bragðakall. Kall spyr hvað hann heiti. Hann sagði sem var. Heimamaður spyr hvort hann væri að fara, en hann sagðist leita sauða. Kall kvað þá eigi liggja á lausu þó eitthvað væri þar nema hann vildi þar vera og gjöra það sem hann segði honum. Hinn kvaðst það gjöra mundu. Kall mælti: „Þú skalt passa féð og hafa hund þann er ég er vanur að brúka. Þú skalt fara með féð á morgnana þegar rakkinn hristir sig og heim þegar hann geltir á kvöldin. Þú skalt og gegna sveininum Kvöldkokk þegar hann kallar.“ Hann játar því. Kall spurði hvört hann vildi heldur éta með sér eða hundinum. Hann sagðist með hundinum éta vilja. Kall sagði að ef öðrum hvörjum þætti sá skyldi drepa þann sem reiddist og þessu játar Ásmundur og tekur nú við fénu. Hundurinn hristi sig í dögun og gelti um dagsetur. Ásmundur þekkti þar fé föður síns. Fyrsta kvöldið þegar hann kom heim þá hafði hann skammtað honum og hundinum fullt trog af graut og keti. Hann fer nú að éta og er hann hafði lítið matazt heyrði hann einhvörnstaðar óp mikið. Kall mælti: „Nú gólar sveinninn og verður þú að vitja hans.“ Hinn fer nú og leitar hvervetna og finn[ur] ekki og er hann kemur inn aftur er hundurinn að sleikja innan trogið. Þetta gengur nú í þrjú kvöld, en fjórða kvöldið mælti hann við kall að hann þyldi þetta ekki. Kall spurði hvört honum þætti það. „Og því ætli mér þykki það ekki?“ [svarar Ásmundur]. Kall drepur hann þegar.

Nú víkur sögunni til bónda að honum lengir eft[ir] syni sínum og líður nú veturinn og sumarið so ekki spyrst til ferða Ásmundar. Bóndi heldur hann nú dauðan. Um haustið vantar bónda hálfu fleiri sauði en hið fyrra haustið. Þá mælti Jón við föður sinn að hann vill leita sauðanna. Hann kvað það ekki ráðlegt, en Jón kvaðst fara vilja. Og það verður að hann fer á brott með slíkt er hann þurfti; og er það fljótast að segja að hann varð fyrir því sama og bróðir hans og drap kall hann líka. Bónda þykir nú verr en áður og telur nú Jón dauðan.

Hið þriðja haust vantar bónda sauði og fleiri en áður. Þórsteinn hristir sig nú upp úr öskunni, gengur fyrir föður sinn og bað um nesti og skó og kvaðst vilja leita að sauðunum og bræðrum sínum. Bóndi bað hann fara og aldrei aftur koma og sagði þá dauða er meiri voru. Hann fer nú burtu og fékk lítinn fararbeina. Hann gengur nú á fjöllin slíkt er af tekur. Nú fer að drífa og versna veðrið. Ekki er getið hvörsu lengi hann gekk þar til hann kemur í dalinn sama og bræður hans. Sér hann bæ og gengur þangað og er hann kemur heim er Bragðakall úti. Þórsteinn heilsar honum og spyr að heiti; hann kvaðst Bragðakall heita. Þórsteinn mælti: „Þá muntu vera brögðóttur.“ Kall spyr hann að heiti; hann sagðist [Hvekkur] heita. Kall mælti: „Þá muntu vera hvekkjóttur.“ Tekur nú Þórsteinn sömu kosti og bræður hans höfðu fyrri; passar nú féð hinn fyrsta dag. En er hann kemur heim fer hann að éta og hundurinn með honum. Nú heyrir hann óp einhvörstaðar. Kall mælti: „Nú gólar sveinninn Kvöldkokkur og verður þú að vitja hans.“ Hinn fer og leitar, finnur ekki og er hann kemur er hundurinn búinn. Þetta gengur nú nokkur kvöld. Það þykir sauðamanni illt; tekur nú það ráð að hann hnýtir þveng um hálsinn á hundinum, og étur hann minna, hristir sig seinna á morgna[na] og geltir fyrr á kvöldin. Þorsteinn smáherðir að spottanum. Einn morgun hristir rakkinn sig ekki. Líður nú fram á dag og fer Þórsteinn ekki á fætur. Kall spyr því hann liggi. Þórsteinn sagði að hundurinn hefði ekki hrist sig. Kall þreifar nú á hundinum og finnur að hann er dauður, skoðar hann og sér ekki á. Loksins finnur hann þveng um háls honum. Hann mælti: „Illa gjörðir þú að drepa hundinn.“ „Þótti þér?“ sagði Hvekkur. „Nei,“ sagði kall. Og líður nú fram eftir.

Þórsteinn hugsar að það væri gaman að vita hvað það væri sem hljóðaði á kvöldin, fer á fætur eina nótt, kveikir ljós og leitar um bæinn og finnur ekkert. Loksins finnur hann hurð rammbyggilega og brýtur upp. Þá sér hann kall og kerlingu. Þau lágu þar og voru mögur mjög. Hann spyr hvörnig á þeim standi, en þau sögðust vera foreldrar Bragðakalls, sögðu hann kveldi sig í hungri so þau kölluðu og væri það hljóðin sem hann heyrði. Svo lauk að hann drap þau eftir beiðni þeirra og fer síðan til svefns. Og var nú kyrrt um hríð. Eigi er þess getið að kall talaði um þetta. Aldrei kom þar snjór; gekk svo féð gjafarlaust. Um vorið sagði kall að þeir mundu gjöra við stekkinn. Hvekkur játar og fara þeir nú báðir. Og er þeir komu á stekkinn mundu þeir að eftir vóru rekurnar. Kall bað nú Hvekk að sækja rekurnar. Hann fer og er hann hefur nokkuð gengið sér hann hús og er hann kemur að húsinu sér hann um gluggann hvar tveir kvenmenn eru, ung og gömul. Hann bað þær upp ljúka og sagði að kallinn hefði leyft sér að vera hjá þeim; og því til sönnunar kallar hann til Bragðakalls og spyr hvört hann eigi ekki að hafa þær báðar. Hinn mælti: „Jú, báð[ar] og báðar.“ Og er þær heyrðu það lofuðu þær honum hjá sér að vera eftir vild hans. Síðan sækir hann rekurnar. „Lengi varstu nú,“ sagði kall. Þeir gjöra nú að stekknum. Leið nú fram eftir vorinu.

Einu sinni kom Bragðakall að máli við Þorstein og mælti: „Mikinn skaða hefur þú gjört mér; það fyrst að drepa hundinn og foreldra mína og ofan á þetta hefur þú fíflað dóttur mína.“ „Þú sagðir mér að hafa þær báðar.“ mælti Þorsteinn, „eða þótti þér?“ „Ekki var það,“ sagði kall; „er það nú næst að þú giftist henni.“ Þorsteinn kvað so vera skyldi. Kall spyr hvört hann vildi búa til veizlunnar eða bjóða fólkinu. Þórsteinn kvaðst vilja búa til veizlunnar, sagðist ókunnur byggðarlagi þar í dalnum. Þorsteinn tekur nú til starfa. Kall sagði honum að kasta nú kviku auga upp á hvörn mann er veizlufólkið kæmi; hann kvaðst mundi burtu verða í þrjár nætur. Þorsteinn býr nú til veizlunnar. En þegar hann hefur því lokið fer hann út á skóg og stingur út annað auga úr fé kalls; lætur nú koma í belg hjá sér, fer síðan heim, sér nú hvar fólk kemur ei allfátt. Er Bragðakall þar með veizlufólkið. Þorsteinn fagnar því vel og býður inn og stendur innan við dyrnar; kastar nú auga framan í hvörn. Kall kom seinastur. Þorsteinn kastar stóru auga framan í kall. Hann mælti: „Heimskur ertu, Hvekkur, og hrekkjóttur.“ „Þótti þér?“ sagði Þorsteinn. „Og því ætli mér þætti það ekki?“ Þorsteinn ræður á Bragðakall og varð það hörð aðganga áður Þorsteinn dræpi hann, og var þá móður mjög. Þökkuðu allir honum fyrir þetta verk og kváðu hann hafa verið hinn versta yfirmann; var hann hreppstjóri.

Þorsteinn flutti sig nú til byggða og stúlkuna og alla fémuni, en brenndi bæinn. Faðir hans fagnaði honum vel og bað hann nú velkominn vera. Þorsteinn færði honum sauðina og skilaði sveitarbændum því er þeir áttu. Giftist hann dóttur Bragðakalls; bjó síðan til ellidaga.