Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Bragðastakk

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Bragðastakk

Hringur hefur konungur heitið; hann var bæði heimskur og trúgjarn. Og nálægt höll hans bjuggu hjón í garðshorni og hét bóndi kerlingar Bragðastakkur. Hringur konungur var auðugur að fé, en dýrmætastur gripur hans var uxi einn sem hann lét menn vaka yfir bæði nótt og dag.

Eitt kvöld tók Bragðastakkur sig til og fór að húsi því er uxi konungs var í, og brá yfir sig belg þegar hann kom að húsdyrunum og sofnuðu þá allir varðmennirnir, en karl tók nautið og fór með það í kot sitt og slátraði því. Daginn eftir fór hann út á skóg, en kerling hans var heima að sjóða uxaslangið, en karl hafði ekki munað að taka hausinn frá og hafði hann orðið eftir á kofagólfinu. Um morguninn saknaði kóngur gripsins, fór í kotið og þótti þar rjúka undarlega mikið og hitti kerling er hún var að soðningu, og þekkti þegar nautshausinn á gólfinu og kvaðst eiga. En kerling sagði höfuðið vera af villiuxa er karl sinn hefði veitt út á skógi. En kóngur kvað það ósatt og drap kerlinguna og fór síðan heim. Kvöldið eftir fór Bragðastakkur karl að húsi því er gull og silfur kóngs var í, brá yfir sig stakk sínum svo að sofnuðu varðmenn allir, tók síðan með sér dýrgripi konungs og breiddi þá á kofa sinn. Um morguninn sá kóngur þetta og spurði karl hvar hann hefði fengið þetta. Karl var byrstur í máli og sagði kóngur hefði drepið kerlingu sína og verst hefði sér þótt að höfuð hennar hefði verið skilið við bolinn. Kóngur spyr hví svo mátti vera. Hann sagði að þar væri komnir menn til landsins er vildu kaupa dauðar kerlingar sem höfuðið hengi við og kvaðst Bragðastakkur hafa saumað höfuð kerlingar sinnar við bolinn og fengið þetta fé fyrir. En kóngur trúði því og lét drepa allar kerlingar sem hann hafði nálægt sér og eins sína drottningu. Fór hann síðan með kerlingalíkin til strandar, en þegar hann kom þar vildi enginn kaupa og spottuðu konung mjög. Varð hann þá svo reiður Bragðastakk að hann hótaði að láta drepa hann, lét síðan smíða utan um hann kistu og átti síðan að steypa honum ofan fyrir björg. En um nóttina er menn sváfu og Bragðastakkur lá í kistunni kom jarlinn úr kóngsríkinu þar að og fór þá Bragðastakkur að berja innan kistuna og bað jarl ljúka upp, því það væri þröngt að smíða. Jarl gjörði það og sem karl var kominn upp úr kistunni lét hann jarl aftur í kistuna, en Bragðastakkur fór heim til híbýla jarls og tók þar allt það silfur og gull er var í eigu hans, breiddi upp um kofa sinn. Og um morguninn er fleygja átti kistunni fyrir björg var sagt inn í henni að þar væri jarl í, en ekki Bragðastakkur, en því var ekki gaumur gefinn. En þegar menn komu heim sáu þeir gullið blika við á kofa karls, og er kóngur sá það gekk hann þangað og brá í brún er hann sá þar Bragðastakk og spurði hvaðan honum kæmi fé það. Karl var byrstur og ámælti honum mjög fyrir það að hann hefði ætlað að láta drepa hann og sagði að þegar hann hefði komið ofan fyrir bjargið þá hefði brotnað utan af sér kistan og hann lent á mjúkum grundum og þar hefði þetta fé legið er hann hefði tekið af byrði sína, en þó væri mikið eftir. Kóngur trúði því og bað að smíða kistur utan um sig og alla sína hirðmenn, og til þess var Bragðastakkur allfús. Var síðan konungi og öllum hans hirðmönnum bani veittur með því að steypa þeim fyrir björg niður. Síðan settist Bragðastakkur að ríkjum og vildi taka dóttur sína er Helga hét til sín og hafa hana fyrir eiginkonu. Hafði hann áður geymt hana í jarðhúsi svo enginn vissi af. En með því Helga var vel skapi farin og vönduð vildi hún ekki gjöra að hans beiðni. Tók hún það til bragðs er hún þurfti einhvers að gæta úti að hún sneri skóm sínum, svo aftur horfði það er fram átti að vera, og setti al í vegginn og lagði það á að hann skyldi alltaf segja: „Ég kem senn, ég kem senn,“ – og batt um alinn bandi því er faðir hennar hafði hamið hana með svo hún gæti ei brott komizt. Síðan hljóp hún og komst í annað kóngsríki. Þar réð ríkjum ungur kóngur ókvæntur er tók hana sér til konu. En hún bað hann að taka engan vetrarvistarmann án síns leyfis. Eitt sinn kom karl einn og beiddi vetrarvistar. Konungur kvaðst ekki gjöra það nema drottning sín leyfði. Karl kvað það ókonunglegt að láta drottningu sína ráða fyrir sér og hafði mörg ummæli þar um þangað til konungur hét honum vetrarvist. En þegar karl kom til drottningar spurði hún hann að nafni. Hann kvaðst heita Bragðastakkur.

Nú leið skammt unz konungur fór úr landi og var tvö ár burtu, en á meðan ól drottning hans tvö sveinbörn. En svo stóð á í bæði skiptin er það skeði að enginn var hjá henni nema Bragðastakkur. En er hún hafði fætt börnin í hverutveggja skipti kastaði hann þeim í á og lét hvolpa í staðinn, en gammur tók börnin, og gladdist hann þar af. En er konungur kom heim sýndi Bragðastakkur honum hvolpana og sagði að kona hans væri hin versta ókind og réð honum að láta drepa hana. En konungur féllst á það og lét hirðmenn sína fara með drottningu út á skóg. En með því hún var vinsæl voru menn allófúsir til þess og er þeir voru komnir út á skóginn drápu þeir hund er með þeim var, til að taka hjartað og blóðið er þeir áttu að koma með úr Helgu, en skáru skurð í hold hennar til að láta blæða saman við og tóku lokk úr hári hennar og fóru með þetta allt saman á konungsfund. En Bragðastakkur setti hornið á munn sér er blóðið var í, drakk úr því og sagði: „Þetta er blóð úr Helgu dóttur minni, en blandað er það samt.“

Nú víkur sögunni til Helgu; hún hljóp sem fætur toguðu svo hún var orðin so magnþrota að hún settist undir stein einn, og er hún hafði setið þar dálitla stund kom kona út úr steininum og spurði hvernin á henni stæði. Hún sagði henni ævisögu sína frá upphafi til enda. Bauð þá hin ókunna kona Helgu að hvíla sig hjá sér og þá hún það. En er hún hafði hvílt sig nokkra hríð spurði konan Helgu hvað hún vildi fyrir vinnu sína, en hún kvaðst ekki vita. Þá heyrir hún sagt niðrí gólfinu: „Kjóstu mig.“ „Ég kýs það sem talar niðrí gólfinu,“ segir Helga. Þegar hún kom út úr steininum sá hún stúlku með tvo drengi og spurði hana að heiti. Hún kvaðst heita Hlaupastelpa. Síðan gekk Helga með meynni og sveinunum ofan til strandar. Þar var skip er þau stigu á og stýrði Hlaupastelpa því að eyju er konungurinn hafði í sauðfénað sinn og var langt frá konungsgarði svo þangað sást ekki nema í skírasta veðri þegar staðið var upp á hæsta borgarturni. Og í þessari eyju lifðu þær og börnin á fé kóngsins. Eitt sinn í heiðskíru veðri fór Bragðastakkur upp í hæsta borgarturn og sagði að það væri komnir ræningjar í ey konungs og beiddist að rannsaka hana. Konungur játti því og fór síðan með Bragðastakki út til eyjarinnar. En þegar þeir voru nálega á land komnir lét Hlaupastelpa koma veður mikið svo skipið brotnaði, en þeir komust á land með lífi. Þá segir Hlaupastelpa við Helgu að hún skuli vera kyr því hún ætli að bjóða skipbrotsmönnum að kveikja bál svo þeir geti vermt sig. Fór hún til þeirra og kveikti bálið, en þeir settust við það. Síðan bað hún konung að segja ævisögu sína og er hún ekki tilgreind. Síðan segir hún að Bragðastakkur skuli segja ævisögu sína. Bragðastakkur segir ekkert nema að hann hafi átt góða foreldra og lifað vel á þennan dag. En Hlaupastelpa hóf þá upp hina sönnu ævisögu hans sem áður er frá sagt og spyr síðan hvert ekki sé satt, og játaði Bragðastakkur því, en Hlaupastelpa hrindir honum í bálið. En konungur ætlaði að deyja af harmi er hann verður þess vís að hann hefur látið drepa konu sína saklausa. En Hlaupastelpa fer með honum heim að kofa þeirra þar í eyjunni og sýnir honum konu hans og börn. Varð þar mikill fagnaðarfundur. Gisti konungur þar um nóttina, en Hlaupastelpa svaf hjá eldri syninum, en bað Helgu að fara á fætur um nóttina og gjörði hún það og sá hún þá ham á loftinu, en fallega stúlku hjá syni sínum. Brenndi hún síðan haminn, en dreypti á stúlkuna. Og um morguninn fastnaði konungsson sér Hlaupastelpu, en hún kvaðst hafa verið kóngsdóttir í álögum og mátt ei úr þeim komast fyr en hún hefði frelsað kóngsbörn og sofið hjá kóngssyni. Síðan hélt allt fólkið heim í kóngsríki og var þegar efnt til dýrrar fagnaðar- og brúðkaupsveizlu. Unnust hvorutveggju hjónin vel og lengi og varð margra barna auðið.

Og lýkur þar þessari sögu.